Bloggfærslur mánaðarins, september 2009
28.9.2009 | 02:40
Hver viltu að annist þig og þína?
Ég hef rosalega gaman af vinnunni minni. Og eftir að ég fór að vinna við umönnun aldraðra var ég ákveðin í því hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór! Og það var sko ekki lítið að geta ákveðið það. Ég var búnað hrærast í því lengi hvað ég í ósköpunum ætti að gera. Hvaða starf myndi veita mér þá viðbót við hið ánægjulega starfsheiti "húsmóðir," að vera aukin lífsfylling og um leið tekjulind. Ég vissi alltaf að ég yrði ekki hálaunamanneskja, sama hvað ég tæki mér fyrir hendur. Áhugi minn og færni beinist einfaldlega ekki í þá áttina. Ég er ekki peningamanneskja. Vildi helst aldrei þurfa að hugsa um peninga. Eða tölur. Þoli þær ekki. Svo að verðbréfaferillinn var úr sögunni frá byrjun!
Að vera sjúkraliði er ótrúlega gefandi starf. Og vinna með öldruðum er frábær. Og ég hef ýmsa hæfileika sem nýtast mér ferlega vel í þessu samhengi. Ég er léttlynd og á auðvelt með að sýna hluttekningu þegar það á við. Og þá er hún einlæg. Ég get sungið og ég get lesið og leikið. Ég á auðvelt með að umgangast fólk. Ég kann að elda mat og ég tala skýrt og rétt með mínum norðlenska hreim. Ég er óhrædd við líkamlega nánd og er tilbúin til að ganga eins langt og ég þarf til að fólkinu sem ég vinn með líði sem best. Jafnvel þó það samræmist ekki alltaf "standard hugmyndum um umönnun."
Ég hef líka fullt af göllum sem starfið hjálpar mér að slípa. Óþolinmæðin er mér jafn eðlislæg og þörfin fyrir að næra mig, og trúðu mér, hún er RÍK! Umburðarlyndið hef ég virkilega þurft að temja mér og þetta starf er verulega góður skóli hvað það varðar. Ég er hroðalega bráðlát og hefur það nú yfirleitt verið minn Akkilesarhæll. En starfið gefur ekki mikið svigrúm til bráðlætis. Svo ekki séu nú taldir allir aðrir vankantar mínir sem bitnað geta á skjólstæðingum mínum. En það sem ég er að reyna að segja er að starf mitt er svo mannbætandi. Fyrir mig.
Ég er á öðru ári í sjúkraliðanáminu. Ætti að klára um þarnæstu áramót ef ég hefði ekki ákveðið að setja námið skörinni neðar heimilinu. Ég hugleiddi að rubba þessu af á sem skemmstum tíma því að ef eitt er víst þá er tíminn af skornum skammti í mínum heimi, en tíminn með fólkinu mínu er auðvitað dýrmætur og verður aldrei fenginn tilbaka ef ég missi mikið úr á þeim vettvangi.
Vinkonur mínar gera að mér góðlátlegt grín og kalla mig atvinnuskeinara og fleira í þeim dúr. Ég kæri mig kollótta því að ég veit, -eins vel og þær, að þó að líkamleg umhirða sé stór partur af starfinu er það samveran með fólkinu sem þyngst vegur. Hitt er bara aukabónus og öll komum við til með að þurfa einhverntíma á ævinni að vera skeind, ekki satt? Og hvern viljum við í það hlutverk?
Þá er ég loks komin að kjarna málsins. Oftar en einu sinni hefur verið sagt við mig; mér finnst það sóun á hæfileikum þínum að gera það að lifibrauði þínu að skeina, þvo og snýta! Um daginn var ég að syngja fyrir fólk og þegar ég var búin sagðist vinkona mín ein,- verulega klár og flott kona, "ég var að hugsa það Ylfa, á meðan þú varst að syngja hvern djöfulinn þú værir að gera sem einhver atvinnuskeinari! Þú átt að nota hæfileikana þína!" -Ég held að hún hafi ekki hugsað málið alveg til enda. Vegna þess að ég spyr; hvaða fólk viljum við hafa í aðhlynningu þegar við hugsum t.a.m. um það þegar að því kemur að foreldrar okkar þurfa aðstoð við allar athafnir daglegs lífs? Hverjir eiga að annast okkur þegar við sjálf þurfum á því að halda að fá alla aðstoð? Erum alfarið uppá aðra komin með allar okkar líkamlegu og andlegu þarfir? Hæfileikalaust lið sem hefur ekkert til brunns að bera annað en það að hafa hvergi annarsstaðar fengið vinnu? ER ÞAÐ ÞAÐ SEM VIÐ VILJUM? Í raun og veru? Hvernig er þegar dæmið snýr að okkur sjálfum eða ástvinum okkar?
Ég er ágæt í að syngja. Ég er ágæt í að elda og baka. Ég er ágæt í að segja frá. Ég er ágætisleikari. En ég er frábær í að annast fólk! Vegna þess að þar get ég nýtt hæfileika mína. Ég get lesið, sagt sögur, hlustað, grátið með fólki, hlegið með því, sungið með því, sungið fyrir það, faðmað, kysst, verið hvetjandi. Og þetta og svo margt annað þarf til að geta verið fær um að annast aðra einstaklinga.
En því miður er starf mitt ekki hátt skrifað í virðingarstiganum. Barn eitt spurði samnemanda minn að því eitt sinn hvað hún væri að læra? Hún sagðist vera í sjúkraliðanámi. "já, er það ekki þetta lægsta á spítalanum?" Þetta er auðvitað drepfyndið en segir samt meira en mörg orð um það mikilvægi sem umönnun þeirra sem á þurfa að halda skipar í þjóðarsálinni. Þangað til við finnum það á eigin skinni. Hvað veit lítið barn um það hver tröppugangur virðingarstigans innan heilbrigðiskerfisins er? Hvaðan koma þær upplýsingar? Frá okkur auðvitað. Foreldrum þess! Þessu verðum við að breyta.
Launin eru svo auðvitað sér kapítuli útaf fyrir sig. Við viljum ástvinum okkar það besta. Og séum við í þeirri aðstöðu að annaðhvort við sjálf eða þeir, séu uppá það komin hvernig það fólk sem sér um umönnunina er, viljum við auðvitað príma fólk! Metnaðarfullt og hlýlegt starfsfólk. Sem hefur eitthvað til brunns að bera annað en að geta skeint! Pardon my french! En með því að halda aðhlynningarstörfum í láglaunadeildinni, er þá von á góðu?
Hugsum aðeins um þetta? Ég er allavega að því þessa dagana. Ég hef sjálf bæði verið neytandi og gefandi hjúkrunar og veit hversu gríðarlegt vald starfsfólkið hefur yfir líðan þess einstaklings sem þarf á þjónustunni að halda. Geðvond og áhyggjuþjökuð manneskja, þreytt á að vera "í neðstu tröppunni" bæði launalega séð og virðingarlega séð (svo einkennilega sem það hljómar er gífurleg stéttaskipting á td. mörgum sjúkrahúsum landsins þó þar starfi einungis fullorðið og menntað fólk!) er ekki að gera góða hluti í vinnu sinni. Hún getur bókstaflega ráðið úrslitum um það hverngi ég, sem sjúklingur upplifi mína vist. Þegar við erum ósjálfbjarga og upp á aðra komin, skiptir öllu hvernig komið er fram við okkur. Það er bara svo einfalt.
Fyrirlestrinum er lokið. Hjúkk segir eflaust einhver!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.9.2009 | 13:19
vegna greinar á BB
Á bb.is skrifar Lýður Árnason hreint ágætan pistil um fyrirhugaða lokun þjónustudeildar aldraðra á Ísafirði. Vegna þessa hef ég ákveðið að birta aftur pistil sem ég skrifaði á bloggið í apríl sl. og undirstrika með því skoðun mína á þessu máli.
"Ég fór áðan með samnemendum mínum í skoðunarferð á Hlíf. Flott stofnun sem Hlíf er. Ég gæti alveg hugsað mér að eiga þar íbúð þegar ég fer að reskjast. Allt til alls, verslun, hægt að kaupa heitan mat, heimahjúkrun, rúllur og perm í hárið, handavinnustofa, vefstofa, smíðaverkstæði.... Bara að nefnaða. Og innangengt í allt batteríið!
En svo er það þjónustudeild aldraðra. Olnbogabarn, sem vegna skilgreiningarvandamáls fer að loka. Bærinn rekur þetta sem hjúkrunarheimili enda full þörf á slíku, ríkið hinsvegar greiðir daggjöld í samræmi við skilgreininguna "Dvalarheimili." Og flest skiljum við það nú að dvalarheimiliskostnaður er töluvert frábrugðin kostnaði við rekstur á hjúkrunarheimili. Ástæðan er sú að þetta hjúkrunarheimili uppfyllir ekki nútíma kröfur varðandi fermetrafjölda pr.vistmann, og því skilgreinir ríkið þetta á annan hátt en það er. Pólitísk ákvörðun bæjaryfirvalda Ísafjarðarbæjar er því sú, að taka ekki inn fleiri vistmenn, því er þessi þjónustudeild aðeins hálfnýtt. Og þegar síðasti vistmaðurinn kveður, verður henni lokað eftir því sem ég best fæ skilið.
Ég veit ekki hjá hverjum skömmin liggur. En skömm er það engu að síður, að sveitarfélag á stærð við Ísafjarðarbæ hafi ekkert hjúkrunarheimili í réttri skilgreiningu þess orðs. Það er öldrunarlækningadeild á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Eða hjúkrunardeild.... ég hef ekki ennþá fengið nein afgerandi svör við því. Það er nefnilega skilgreiningaratriði! En eitt veit ég! Þó að aldraðir þurfi á hjúkrunarvistun að halda, kæra sig fæstir um að leggjast inn á spítala! Sama hvaða nafn gangurinn sem þá á að vista inná, ber! Sjúkrahús merkir yfirleitt aðeins eitt í augum þeirra eldri; þeir koma ekki aftur út!
Á Flateyri fór ég fyrir skemmstu, að skoða "elliheimilið" þar. Það heilsaði ég uppá vistmenn, þeir eru þrír, og sá strax að þetta er fólk sem á heima á hjúkrunarheimili. Þar er sama staðan, nema hvað að þar er starfsmannafjöldi miðaður við að þetta sé dvalarheimili á meðan vistmenn eru á hjúkrunarstigi. Engu að síður fékk ég þær upplýsingar hjá Skóla og fjölskylduskrifstofu að þetta væri hjúkrunarheimili samkvæmt þeirra skilgreiningu!! ??? ....ég vera ruglaður?? Einhver annar vera líka ruglaður??
Nú hefur Sjúkraskýlið í Bolungarvík verið sameinað Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar. Margir eru uggandi um framtíð þess. Hvernig kemur þessi stofnun til með að verða skilgreind? Hún uppfyllir áræðanlega ekki nútímakröfur um hjúkrunarheimili. Verður hún Elliheimili? Þurfa þá kannski aldraðir Bolvíkingar að fara inná Ísafjörð og leggjast þar á öldrunarlækningadeildina til að fá að deyja? Eða hvað?
Málefni aldraðra eru í tómum ólestri hvað skilgreiningar varðar hér á norðursvæði Vestfjarða. Og áræðanlega víðar. Það hefur ekkert með starfsfólk þeirra stofnana sem hér hafa verið upptaldar að gera. Heldur skilgreiningarhlutann og peningana. Það er eins og við, þessi sem yngri erum, gleymum því að áður en við snúum okkur við, verðum við sjálf orðin öldruð,-beri okkur gæfa til langlífis, og þurfum þá á viðhlítandi þjónustu að halda. En .... svona komum við nú UNDAN GÓÐÆRINU! Hvernig fer þá kreppan með þennan málaflokk? Ætli maður dagi ekki bara uppi á klassísku fátækraheimili, sprottnu úr bókunum um Emil í kattholti? Þar sem ein forstöðukona stelur bæði mat og neftóbaki frá okkur gamla fólkinu og rennir sér í sleðaferðir á eftir einni góðri pylsu? Ein góð pylsa er alltaf ein góð pylsa.....
Ég ætla að halda áfram að kynna mér þessi mál, það er greinilega brotalöm víða. Og þó ég geti ekki mikið upp á eigin spýtur, hef ég þó munn fyrir neðan mitt eðalnef og ætti að geta vakið athygli á því sem mér finnst miður fara.
Frú Áhugamanneskjaumþjónustuviðaldraða kveður og fer að læra fyrir líffæra og lífeðlisfræði próf.
(tek það fram að það er ástæða fyrir því að þessi færsla er sett inn EFTIR kosningar ;o) )"
Greininni lýkur hér. En síðan hún var skrifuð hef ég aftur og aftur hugsað með mér hvort ekki væri fyllsta ástæða fyrir okkur sem hér búum að taka til athugunar rekstur á okkar eigin hjúkrunarheimili. Þessi mál varða okkur nefnilega öll um leið og við annaðhvort eignumst ástvini á slíkum heimilum eða þurfum sjálf á þeim að halda. Hvar viljum við hafa fólkið okkar? Hverja viljum við láta annast fólkið okkar? Og seinna meir; okkur sjálf??
Flokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:14 | Facebook
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.9.2009 | 23:41
Virginíukonsert Ylfu Mistar Helgadóttur.
Ylfa Mist Helgadóttir er þrjátíu og fimm ára.
Ylfa Mist Helgadóttir getur sungið þokkalega.
Ylfa Mist Helgadóttir hefur oft sungið fyrir fólk við ágætar undirtektir.
En....
Ylfa Mist Helgadóttir hefur aldrei haldið tónleika.
Og þá erum við að tala um almennilega tónleika. Með Ylfu Mist Helgadóttur í aðalhlutverki.
Þann 10.10, verður gerð á því bragabót. Þá ætlar Ylfa Mist Helgadóttir að halda sinn eigin konsert í Einarshúsi í Bolungarvík. Og syngja fullt af uppáhaldslögum. Meðspilari verður Baldur Ragnarsson, Ljótur Hálfviti frá Húsavík...-reyndar sennilega sá sætasti af þeim annars Ljótu Hálfvitum, langyngsti og svo er hann meira að segja á lausu! Margrét nokkur Sverrisdóttir, söngkona úr Túpílökum verður gógópía og ísfirska sönggyðjan Hjördís Þráinsdóttir, sem ásamt Ylfu Mist Helgadóttur skipar dúettinn "Sítt að neðan," verður einnig á staðnum með sín mezzósópranísku raddbönd.
Aðgangseyrir verður hóflegur, svona af því að þetta er frumraunin og einnig af því að það er kreppa!
Spurningin er bara; ætla einhverjir fleiri en ofantaldir að mæta?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
14.9.2009 | 13:07
Popppunktsferð og fleira
Í gær hefði pabbi minn orðið 73 ára hefði hann lifað. En hann lést í nóvemer síðastliðnum. Fyrir tæpu ári. Og það er einhvern vegin rétt að síast inn núna að hann sé virkilega dáinn og ég eigi aldrei eftir að heyra aftur frá honum eða hitta hann. Skrítið hvað maður er lengi að meðtaka. Kannski er það að hluta til vegna þess að við bjuggum svo langt í burtu hvort frá öðru síðustu árin og hittumst ekki það oft.
En jörðin snýst áfram og maður reynir að hrapa ekki fyrir borð á meðan maður hangir hérmegin torfunnar sjálfur.
Pabbi elskaði krækiberjasaft. Og krækiberjalíkjör ;) Í tilefni afmælisins ruddist ég í krækiber, eins og Inga, fóstran mín myndi segja, og tíndi slatta til að gera hrásaft fyrir veturinn. Ég fann loksins svartar þúfur eftir laaaanga leit og þegar ég var búnað moka af þeim með brjálæðisglampa í augunum, týna úlpunni minni einhversstaðar útí rassgati og strá berjafötum og drasli á ca ferkílómeterssvæði gerði úrhelli og þvílíkt rok, að ég varð hundrennandi á augabragði og neyddist til að hætta og fara að leita að reyfinu af mér og finna bílinn. En ég kom heim með einhverja lítra sem ég er að reyna að haska mér í að fara að merja í saft. Ég er bara svo helv.. löt í dag. Ég er að fara á kvöldvakt og hlakka til að hitta heimilisfólkið mitt á Skýlinu. Það er verst að ég er raddlaus, náði mér í kverkaskít svo að ég get ekki sungið mikið í vinnunni en það er helst þar sem einhver nennir að hlusta á mig syngja! Flestir á heimilinu mínu eru Guðslifandi fegnir að ég komi hvorki upp hósta né stunu!
Skemmtikvöldið var auðvitað skemmtilegt eins og skemmtikvöld eiga að vera. Svo ég vitni í Stuðmannamyndina; það var létt stemning og fólk brosti :)
Nú ætla ég suður á fimmtudaginn í einhverja gagnslausa höfuðsóttarrannsókn en ferðin verður nú ekki til ónýtis því ég ætla líka að sjá lokaúrslitaþátt Popppunkts í sjónvarpssal, hvar Hálfvitarnir mínir etja lokakappi við Jeff Who? og bera vonandi sigur úr býtum. Á meðan ég er í RVk mun bóndinn hinsvegar fara á Túpílakatónleika í Einarshúsi (sem ég er auðvitað drullufúl að missa af!) og hýsa einhverja úr fyrrnefndum Ljótum Hálfvitum yfir helgina. Svo það verður nú ekki alslæmt hjá honum þó kerlingin verði af bæ.....
læt fylgja með eina mynd af litlu bollunni á heimilinu (hinni bollunni) hún liggur á bakinu sökum holda og kemst ekki á magann!! :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.9.2009 | 12:48
Sullurinn, eiginmaðurinn og höfuðsóttin.
Helvítis sullaveikin er að ganga frá mér. Ég er að verða meira og minna rúmliggjandi af hennar völdum og það rétt á meðan höfuðsóttin heldur sig til hlés og ég ætti að vera á fótum! En liggi maður fyrir gefst tími til að blogga. Og bloggið einkennist af líðaninni. Biturt eins og magasýra. Ég þarf nú samt að hysja mig upp á rassgatinu og reyna að hressa mig eitthvað við. Tala nú ekki um þar sem ég ætla að fara að halda uppi skemmtilegheitum á laugardagskvöldið í Einarshúsinu. Vertinn þar var nú reyndar búin að lofa neðanmittisbröndurum og fullorðinsleikjum skilst mér. Ég hef meira að segja fengið spurningar á borð við; hvenær á klámkvöldið að vera hjá þér Ylfa??
Ekkert klám.
Ég er ekki gefin fyrir klám. Tvíræðar skrítlur og skemmtilegir leikir eru mér vissulega að skapi og þeir sem hafa gaman af slíku ættu að geta skemmt sér nk. laugardagskvöld. En grófara verður það nú ekki....
að sinni.....
Annars ætlaði ég að ganga fram af eiginmanninum og vinnufélögum hans með því að lofa þeim súludansi á laugardagskvöldið en ég hefði nú betur sleppt því. Haraldur lætur ekki ganga fram af sér og svaraði hinn rólegasti; jæja góða. verður þá öryggisnefnd Byggingaeftirlitsins búin að kanna húsnæðið fyrst?
Múahahahahahahahaha
Jæja, þá fer þessu bitra bloggi að ljúka. Mér tókst nú eiginlega ekki að hafa það eins beiskt og ég ætlaði..... Verð þó að reyna;
Ég var að lesa fundargerð bæjarráðs Bolungarvíkur og rak þá augun í eftirfarandi klausu:
-----------------------------------
3. Tillaga Baldurs S. Einarssonar að breyttri gjaldskrá íþróttamiðstöðvar.
Bæjarráð samþykkir að bæta við núverandi gjaldsrkrá:
1. Gullkort (12 mán.) hjóna eða sambýlisfólks í Íþróttamiðstöð kosta 59.900,-.
Verðið gildir allt árið.
2. Árskort námsmanna sem eru í fullu námi þegar kortið er keypt kosta 25.900,-.
Verðið gildir allt árið.
3. Gildistími sértilboða sem eru í gangi, framlengist til 1. október 2009.
-------------------------
Sko! Mér finnst það gott mál hjá bæjarráði að vilja lækka gjöldin í íþróttahúsið á þessum síðustu og verstu tímum. Persónulega hefði ég þó frekar vilja sjá þjónustuna óskerta og að fólk héldi vinnunni sinni áfram í íþróttamiðstöðinni, heldur en að hjónum og sambúðarfólki væri hyglað sérstaklega umfram t.a.m. einstæðar mæður.... þetta fer að jaðra við einhverja hreintrúarstefnu hér í Bolungarvík. Er ekki þorrablótið nóg?? (úbbs, þarna var stigið á skottið á einhverjum )
Ég hlakka til að sjá hvað fer fram á bæjarstjórnarfundinum í kvöld! Þetta fer að verða spennandi. Kannski að eitthvað fleira leynist þar í pokahorninu sem er jafn ævintýralegt og þessi bókun! :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.9.2009 | 23:50
Haustannir.
Það er búið að fara í smalamennsku, taka upp kartöflur, tína alltof lítið af berjum en alltof mikið af fjallagrösum á þessu heimili. Sláturgerð verður ekki framin að þessu sinni enda getur undirrituð ómögulega komið slíkri fæðu niður á þessum síðustu og verstu. Sem leiðir til almennrar holdrýrnunar og myndu nú einhverjar horgrindurnar líklega segja; tjah, ekki veitti nú af! En þeim horgrindum vil ég benda á að mér er t.a.m. ALDREI kalt. Og ber fyrst að þakka mínu þykka lagi af náttúrulegri einangrun. Að auki er mér sárt um hluta af þessu varmalagi mínu þar sem mér þykir það gera mig að konu með "hefðbundið vaxtarlag," svo vitnað sé í hina afrísku Mma Ramotswe! Og allir vita að holdugar konur löðra bókstaflega af kynþokka og mýkt! Það er gott að kúra hjá þeim og gott að strjúka þeim.....
En öllu má nú ofgera og það drepur mig nú varla að sjá eftir 10-20 kílóum af þessum verndarhjúp sem hefur skipað mér undanfarin ár í flokk landgengina sjávarspendýra..... Þó mér þætti auðvitað enn betra að vera bara feit og sæl, megandi éta mína kjetsúpu, slátur og svið! Ég hef jú alltaf verið þeirrar skoðunnar að megi maður ekki láta ofan í sig það sem manni þyki gott, sé jafngott að drepast bara. En það vill mér til happs að mér þykir allt sem að kjafti kemur fremur gott svo að ég þrífst ágætlega á megurðar-dögurðinni og þeim rýra kosti sem ég þarf orðið að velja ofaní mig.
En nóg um mat og matarinntekt.
Hvolparnir bláeygðu dafna, búið er að lofa tíkinni svörtu en sá guli er ennþá að leita að heimili. Ekki þar fyrir, að finni hann ekki heimili verður hann bara hér hjá móður sinni. Dýralæknirinn kom í kaffi til mín ásamt börnum sínum á liðinni helgi og eftir að hún var búin að hvá og segja að hún hefði ALDREI, á sínum ferli sem dýralæknir séð svona feita hvolpa, (þeir liggja ósjálfbjarga á bakinu) bauð ég henni í kaffi útí sundlaug þar sem við tókum gott slúður í heita pottinum á meðan börnin gerðu heiðarlegar tilraunir til að drekkja sér.
Það er bilað að gera, skóli, vinna og viðbjóðslegur fjöldi af nemavöktum fram að áramótum. Einhvern vegin hlýt ég þó að geta klofað yfir þetta á mínum stuttu, digru staurum (sem þó fara ört rýrnandi) og haldið jólin í drasli og fjöllum af óhreinum þvotti.....´
Ég er búnað taka eina nemavakt á FSÍ og það var ferlega skemmtilegt. Enda er leiðbeinandi minn skonnorta mikil sem siglir á við fjóra, fullum seglum og lætur mig bara "vaða" í það sem "vaða" þarf í! Enda er það besta leiðin til að læra. Svo stefnum við Dórasplóra á suðurferð um miðjan mánuð hvar ég þarf að fara í einhverjar höfuðsóttarrannsóknir. Fyrirmælin voru einkennileg. "vaktu í sólarhring og komdu svo klukkan átta um morguninn og sofnaðu í tuttugu mínútur." Sérkennilegar óskir. En hafa eflaust tilgang........
eins og allt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Athugasemdir
Hvet þig til að senda þetta inn á bb.is :) góður og þarfur pistill sem flestir ættu að lesa.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 14:44
Þetta voru sannarlega orð í tíma töluð Ylfa, ég fer að eldast og þykir gott að vita af þér á öldrunarvaktinni. Svana
Svana (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 15:48
Tek undir að þú fáir þetta birt í Mogganum. Ótækt að aldraðir sem þurfa hjúkrun sé gert að vera á sjúkrahúsi. hvað svo sem sjúkrahúsið er gott.
bjarnveig Ingvadóttir (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 16:33
já en sjáðu nú til mín kæra, nú er stefnan að allir fái þjónustu heima til dauðadags, eða það er að segja það er sú stefna sem þykir fínust og mest mönnum bjóðandi og þess vegna þarf ekki lengur svona hjúkrunar og elliheimili. Helduru ekki að það fari fljótlega að gerast ég er alveg viss um það!!!
lufsan (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 18:14
Svo sannarlega orð í tíma töluð. Móðir mín býr á Hlíf í íbúð en vill fara upp á fjórðu hæð nánar tiltekið þjónustudeildina þega hún hættir að geta séð almennilega um sig. Hún er mjög fúl að þurfa leggjast á sjúkrahús þegar að því kemur. Það vantar sárlega stað fyrir akkúrat þetta fólk og þyrfti bæjarfélagið að þrýsta betur á ríkið um byggingu hjúkrunarheimilis, það bæði skapar atvinnu við að byggja það og seinna meir starfsfólk við umönnun.
Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 22:12
Sæl skvísa þú ert alveg meiriháttar (engill) að koma með þennan pistil, þessu hefur ekki verið sinnt hér fyrir vestan, sorglegt að metnaður vestfirðinga sé ekki á hærra plani. Úrræði eldriborgara á vestfjörðum eru í einu orði sagt ömurleg til lengri tíma litið. Það er eins og þeir aðilar sem eiga að sinna þessum málaflokki á vestfjörðum hafi bara engann metnað eða þarf ekki bara fólk eins og til dæmis þig og fleirri valkyrjur til að fara að hrista upp í þessu liði.
Dóra Stóra (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 22:43
Sko, ég er alveg búin að sjá hvað kemur út úr kreppunni í þessum málum. Og mín lausn er þessi: allir að eignast fleiri börn!!! (ef þeir eru enn í barneign, alltsvo). Með þessu áframhaldi verður hvorki til félagslegt kerfi né heilbrigðiskerfi þegar ég verð gömul kerling, og þá er bara að taka þetta upp á gamla mátann, eiga nóg af börnum til að leggjast upp á í ellinni! Þannig að börnin eru sennilega besta langtímafjárfesting sem hægt er að leggja í á þessum títtnefndu viðsjárverðu tímum Var ég ekki annars búin að nefna við þig þá hugmynd að við flytjum öll fjögur, foreldrarnir, inn á Björgúlf? Það verður stuuuuuuð á því elliheimili
Berglind (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 23:33
þetta eru orð í tíma töluð, skora á þig að senda þetta í öll blöð og netmiðla. Stend með þér í þessari baráttu ef þess þarf, þó svo mínir foreldrar séu ekki eldri en 79 og 84.
Gunna Gumma Hafsa (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 09:49
Áfram áfram .......Ylfa valkyrja.
Hinar valkyrjur vestfjarða, komið úr felum !!! Málefnið er stórt en vestfirskar konur og menn eru öflug, ef allir koma úr felum og tjá sig varðandi málefnið er alltaf hægt að fá einhverju áorkað. Ég meina...... er ekki einmitt núna verið að gera göng TIL Bolungarvíkur, raddir fólksins heyrðust og mikilvægi framkvæmdanna varð lýðnum og embættismönnum ljós!!!!
Ég ætla nefnilega að koma tilbaka á elliheimili fyrir vestan þegar MINN TÍMI KEMUR !!!
Valrun (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 07:13
Elskan málið leysist af sjálfu sér...ríkisstjórnin lemur skattborgara til að borga skuldirnar og svelta börnin sín og sjálfan sig ...smám saman fækkar í hópum og í lokin verður ENGINN eftir til að hafa áhyggjur af....er þetta ekki ekta jafnaðarmannahugsjón...allir jafndauðir???
Katrín, 5.5.2009 kl. 00:12