Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
26.4.2010 | 22:56
Framboðslisti bæjarmálafélagsins
fyrir forval/prófkjör, er tilbúinn!!
Um 20 manns bjóða fram krafta sína í þágu Bolungarvíkur fyrir hönd Bæjarmálafélagsins í Bolungarvík. Undanfarnir dagar hafa verið skemmtilegir og ótrúlega fræðandi fyrir nýgræðing eins og mig. Það hefur verið svo skemmtilegt á kosningasetrinu okkar að Höfðastíg 6, við að spá og spegúlera, tala við fólk og plana framtíðina, ræða daginn og veginn, það sem skiptir öllu máli og það sem skiptir minna máli.
Það er svo innilega í anda félagsins, að þegar við fórum að huga að því að á morgun þyrfti að bera listann út og því væri ekki seinna vænna en að koma honum í póst, var hreinlega ákveðið að skipta hverfunum upp og koma sér í heilsusamlegt form með því að bera þetta út sjálf! Svo að á morgun og hinn verðum við á þeytingi við að koma nöfnum frambjóðenda til íbúanna. Svona á þetta að vera!
Prófkjörið/forvalið sjálft verður svo á sunnudaginn í Verkalýðshúsinu. Ég er svo ánægð með fólkið og ég er svo ánægð með hvað ég hef kynnst mörgum skemmtilegum einstaklingum undanfarnar vikurnar. Allsstaðar leynast fjársjóðir í fólksfjöldanum.
Það er vorhugur í mér og það er í mér einhver bjartsýni, sem sjálfsagt er hrein geðveiki að finna til, - þessa síðustu og verstu tíma, en ég finn samt þessa góðu tilfinningu inní mér. Ég hef tilfinningu fyrir því að allt fari vel. Og það er svo góð tilfinning. Ekta svona vorstemning. Maður finnur að ljósið sigrar myrkrið alltaf að lokum, veröldin er full af yndislegum hlutum, þrátt fyrir allt þetta erfiða og ljóta, og einmitt núna kem ég auga á svo marga þeirra.
Ég hlakka til komandi vikna. Ég kvíði samt að vissu leyti fyrir kosningabaráttunni. Pólitík hefur engan vegin það orð á sér að hún sé holl fyrir sálina. En ég trúi því að með því að vera heiðarlegur, málefnalegur og hafa hemil á persónulegum skærum, sé hægt að komast í gegnum hana með bravör, reynslunni ríkari. Ég væri að ljúga, ef ég segði ekki að ég væri smeyk við að fólk fari að níða af mér skóinn, bera mig út, tala um mig á niðrandi hátt og jafnvel spinna upp um mig allskonar sögur. Annað eins hefur maður heyrt að fylgi blessuðum stjórnmálunum, og hefur kynnst því í gegnum tíðina að manneskjan getur verið grimm þegar hún gætir eigin hagsmuna. En bakið er breitt og ég hef hingað til getað horfst í augu við þá sem eiga horn í síðu minni. Enda hef ég afar myndarlegar síður! Og stór augu líka! Sjálf ætla ég að hafa að leiðarljósi að vanda mig í mannlegum samskiptum, hvort sem um ræðir þá sem deila með mér starfsemi Bæjarmálafélagsins, eða annarra.
Ég segi bara eins og Oscar Wilde; það er í lagi, svo fremi sem talað er um mig.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.4.2010 | 18:35
í öllu havaríinu!
Svona litlar og dásamlegar fréttir eiga kannski ekkert auðvelt með að grípa auga manns innan um djúsí fréttir af hruni, gosi og inná milli; hver hefur gert kröftugast í buxurnar í þjóðfélaginu. En mikið finnst mér þetta merkilegt! Að Íslendingar séu þrátt fyrir allt, einhverjir, með eitthvað vit í kollinum og viti hvernig þeir eiga að nota það
Guð láti á gott vita og veri með þessum snillingi sem er augljóslega að gera framúrskarandi hluti hjá Háskólanum.
Ný meðhöndlun krabbameins vekur vonir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.4.2010 | 00:32
Ég vil vinna fyrir bæinn minn.
Maður er alltaf að taka ákvarðanir. Oft eru þær þessar litlu, ákvarðanirnar sem hafa hver mest áhrif á lífið. Og oft ekki bara manns eigið líf, heldur líka annarra í kringum mann. Oft með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Jafnvel afleiðingum sem eru slæmar þó að lagt hafi verið upp með góðan ásetning í byrjun. Og öfugt. Ég hef tekið svo margar ákvarðanir í lífinu sem ég hef seinna séð að eru rangar. En ég hef líka tekið ákvarðanir sem hafa reynst góðar. Og hafa haft góð áhrif á líf mitt.
Núna undanfarið hef ég staðið frammi fyrir einni af þessum stóru. Og hún gæti komið til með að hafa áhrif. Ekki bara á mig, heldur fjölskyldu mína og nærumhverfi. Og sú ákvörðun snýr að pólitík. Ég hef alltaf haft sterkar skoðanir á pólitík. Ég er fædd" inn í Sjálfstæðisflokkinn og fylgdi honum fyrstu árin sem ég hafði kosningarétt. En þegar frá leið, fann ég að ég átti ekki samleið með þeim flokki lengur. Ég hafði miklu sósíalískari hugsjónir en þær sem réðu ferðinni innan flokksins. Svo að ég fór að skoða aðrar hliðar á teningnum. Ekki af því að hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins væri slæm, alls ekki. En að mínu mati getur flokkur aldrei verið betri eða verri en það fólk sem leiðir hann.
Smátt og smátt hef ég aðhyllst því að flokkakerfið sé í raun ekki svo gott. Mig langar ekki alltaf að þurfa að kjósa allt það fólk sem er í hverjum flokki fyrir sig, jafnvel þó að ég hafi mikið álit á einhverjum innan raða flokksins. En samkvæmt minni skilgreiningu er flokkurinn fólkið sem í honum er. Og það á sérstaklega við um sveitastjórnarkjör. Sveitastjórnarkosningar eiga að mínu mati að snúast um fólk, ekki flokka. Ég vil eins óháðar sveitastjórnarkosningar og mögulegt er.
Í Bolungarvík, bænum sem ég bý í, er eitt óháð stjórnmálafélag. Það er Bæjarmálafélag Bolungarvíkur. Þar eru manneskjur úr öllum flokkum, og að auki, fólk eins og ég, sem ekki tilheyrir neinum flokki. Óháð fólk. Og því hef ég stutt þetta félag undanfarin kjörtímabil.
Og nú hef ég ákveðið að bjóða mig fram. Að hætta að hafa skoðanir á bak við eldhúsgardínurnar mínar, þar sem þær falla í engan jarðveg, og reyna að koma því þannig fyrir að hugðarefni mín og hugsjónir falli í frjóan jarðveg og af þeim geti sprottið eitthvað sem kemur samfélaginu mínu til góða. Bæjarmálafélagið hefur þá lýðræðislegu stefnu sem ég aðhyllist svo mjög, að ekki er raðað á lista, heldur býður fólk skilyrðislaust fram sína krafta og síðan er opið prófkjör, þar sem allir bæjarbúar geta raðað í sjö efstu sæti listans. Í mínum huga er það eina leiðin í átt að lýðræði og ósk mín er sú að í framtíðinni verði einungis einn listi í bæjarfélögum af þessari smæð, þar sem allir bæjarbúar sem kjörgengir eru, geta raðað því fólki eftir því sem það treystir best.
Ég býð fram vinnu mína og starfsþrek í þágu Bolungarvíkur og mun taka það sæti sem íbúarnir telja mér treystandi fyrir. Hvert sem það sæti verður.
Í mínum draumum er bæjarfélagið samheldið, og stjórnmálum þannig til hagað að það fólk sem býður fram krafta sína, geri það falslaust í þágu bæjarfélagsins og fólksins sem hér býr, án skilyrða um ákveðin sæti, heldur af þörf fyrir að vinna fyrir samfélag sitt. Ekki sem frambjóðendur einhverra lista, heldur sem frambjóðendur fyrir hönd bæjarins síns. Og vonandi rætist sá draumur minn fljótt.
Ég tilheyri engum flokki, ég á engra hagsmuna að gæta hér í bænum, pólitískt séð. Mínir einu hagsmunir eru að Bolungarvík, mín heimabyggð og heimabyggð barnanna minna, blómgist og dafni, verði ákjósanlegur búsetustaður þar sem samheldni og virðing er í fyrirrúmi og fjölbreyttir atvinnumöguleikar þar sem allir hafa sömu tækifæri til atvinnusköpunar. Að hér geti allir í fjölskyldum bæjarins, sama á hvaða aldri þeir eru, smábörn, unglingar, hin vinnandi stétt, fatlaðir, ófatlaðir, aldnir og ungir, fundið sinn farveg í heimabænum sínum sem hefur fjölbreytta valkosti og er rekinn af metnaði og áhuga.
Mitt helsta hugðarefni er, að Bolungarvík horfi til framtíðar, læri af fortíðinni en dvelji ekki í henni.
Og þá er það spurningin óumflýjanlega; hef ég eitthvað í þetta að gera? Ég er ekki viðskiptafræðingur, hagfræðingur, ég er ekki einu sinni búin að ljúka stúdentsprófi! Ég er ekki sú sem veit hvað mest um innviði stjórnsýslunnar. Ég er ekki heldur sú sem þekki hér alla og sögu allra Bolvíkinga og nærsveitunga. Þessar spurningar og hundrað aðrar hafa nagað mig í bak og fyrir eins og termítar deigan trjábol!
En lokaniðurstaðan er samt sú að ég hef trú á því að ég geti þetta. Viljinn er fyrir hendi og ég er fljót að læra. Hér í bæ skortir ekki leiðbeinendur né kunnáttumenn. Og ég hef alltaf verið ófeimin að spyrja spurninga við því sem ég ekki veit. Svo að ég hlakka bara til. Ég á hér þrjú börn og því ætti það að vera mér kappsmál að taka þátt í að gera bæinn minn og þeirra að þeim stað sem þau vilja síðar sjálf byggja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.4.2010 | 18:45
Uhhh.. "skeringar??"
Hvað í veröldinni eru "skeringar?" Hvað er að orðinu "skurður?" Mér finnst eiginlega alveg hroðalegt að lesa þetta orð.
En svo ég snúi mér frá málfarsfasismanum og tæpi hér á viðbrögðum Þorgerðar, nokkurrar Katrínar sem sagði í útvarpsviðtali að um væri að ræða skuld mannsins hennar, ekki hennar sjálfrar, hann ætti þessa skuld ekki hún. Svo þá er allt í lagi að kjósa hana og gera hana þess vegna að ráðherra.....
Er hún með þessu að segja að hún eigi bara siðlausan mann og það sé allt í lagi, hún sé nú einungis bara gift honum.. eða er hún að segja að það sé ekkert að þessu?? Hvað er konan að segja? Hvernig í veröldinni ætlar hún að geta staðið sem einhver trúverðugur einstaklingur eftir, af því að "maðurinn hennar skuldar þessa peninga???" Eru þau ekki hjón??
Mér ofbýður svo algjörlega, eins og sjálfsagt ykkur flestum. Hvernig geta td. menn farið með fyrirtæki á höfuðið, verið með leppfyrirtæki og greitt sjálfum sér tja.. segjum 100 millur í arð á meðan starfólkið missir vinnuna? Hvernig geta fyrirtæki dregið skatta, lífeyrissjóðsgjöld af starfsfólki sínu án þess að skila þessum peningum á viðeigandi staði? Hvernig getur svona fólk sofið á næturnar? Hvort er það ég sem er rugluð, að þykja þetta beinlínis ógeðfellt, eða þeir aðilar sem aðhafast svona rekstur, siðlausir? Svona lagað heyrum við öll, og svona lagað gerist fyrir framan nefið á okkur öllum. Alla daga. En þrælslundin er sterk. Og á krepputímum er erfitt að andmæla of harkalega og koma sér í ónáð vegna skoðana sinna. Og þannig hefur það alltaf verið. Við átum frekar maðkaða mjölið þegjandi og hljóðalaust frá Dananum, frekar en að hætta á að fá ekkert! Og við höfum ekkert breyst.
Ekki að þessu leyti.
Ég ætla að fara í sund og öskra í kafi. Þannig er gott að fá útrás. Síðan er ég farin á fund hjá Bæjarmálafélagi Bolungarvíkur. Húrra fyrir því.
Skeringar hafnar í Eyrarhlíð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.4.2010 | 13:38
Þá væri lífið svo einfalt.
Ég myndi ekki eiga í vandræðum með að velja hvað ég ætti að kjósa ef ég hefði möguleika á því að kjósa Besta Flokkinn í sveitastjórnarkosningunum komandi. Það var vissulega nóg sem frambjóðendurnir í Silfrinu í dag höfðu að segja. Enginn talaði þó jafn tæpitungulaust og af jafnmiklu viti og Sigurjón Kjartansson fyrir hönd Besta Flokksins. Hann einn var marktækur. Svona er nú komið fyrir pólitíkinni á Íslandi í dag. En ég verð að bíða eftir að Besti flokkurinn bjóði fram í alþingiskosningunum ......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.4.2010 | 22:53
Nafn á eldstöðvarnar.
Ég heyrði auglýsingu á Rás1 í dag þar sem verið var að óska eftir nafni á eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi. Undir eins datt mér í hug nafnið Hruni. Bara svona í höfuðið á hruninu. Þá heyrði ég restina af auglýsingunni hvar tilkynnt var að ein af vélum Flugleiða myndi bera nafnið. Þá skyndilega fannst mér hugmyndin ekki eins góð.
Annars erum við að skríða uppúr óveðrinu hérna vestra. Ef óveður skyldi kalla. Rafmagnið fór nú ekki einu sinni af nema í fjórar mínútur eða svo. En Óshlíðin er ófær. Sem er slæmt fyrir þá Ísfirðinga sem eiga leið hingað úteftir. En hún hlýtur að verða rudd á morgun og þá ætti þeim að líða betur.
Unglingurinn losnaði við teinana af tönnunum í morgun og sá yngsti missti fyrstu tönnina í dag. Reyndar er orðið "missti" kannski ekki alveg það rétta. Móðir hans reif hana úr eins og aðrar lausar tennur. En hann var ekki ósáttur við það og engin þörf á að hringja í Barnaverndarnefnd. Ég get hvorugt séð í friði, lausar tennur og bólur. Bara VERÐ að setja puttana í hvorttveggja!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.4.2010 | 22:55
Persónulegi bloggarinn er vaknaður
Ég fékk kvartanir yfir því að vera hætt að blogga "persónulega," svo að ég bæti úr því hér.
Ég er nýkomin úr sturtu og sit í handklæðinu einu saman við tölvuna mína í borðstofunni og ber þess að geta að handklæðið er á höfðinu á mér. Er þetta kannski OF persónulegt?
Rétt í þessu brá leifturljósi fyrir utan við gluggann minn og ég sá að par stóð úti á götu og var að taka mynd af húsinu. Vonandi ekki innum gluggann í ljósi þess að kæra má fólk fyrir að vera fáklætt eða óklætt í sínum eigin húsakynnum....
Veturinn hefur verið veðurfarslega góður en innra með mér hefur verið byljótt og stormasamt. En svo koma sólardagar inná milli og nú er jafnvægi. Stundum klofar maður skafla og kýs að ganga með storminn í fangið án þess að vilja sjá að það er hægt að ganga undan vindi, eða hreinlega koma sér fyrir hlémegin í skjólið. Ég er að reyna að vera í skjólinu mínu og átta mig á því að ég þarf alls ekki að brjóstast áfram í kófinu. Þetta er auðvitað myndlíkingamál sem fæstir skilja en það skiptir líklega engu máli því að það sem ég skrifa, skrifa ég meira til að koma því frá mér en til að koma því til einhvers ákveðins staðar. Það mun þá alltént rata sína leið.
Ég hef verið miður mín síðan að ég missti fóstruna mína kæru, hana Ingu, rétt fyrir jólin. Ég var aldrei á leikskóla. Ég átti fóstru. Ég fór til hennar á morgnana, snemma, og heim frá henni seinnipartinn á daginn þegar ég var krakki. Dóttir hennar og ég vorum eins og systur. Svo fjarlægðumst við, en fullorðinsárin brúuðu bilið sem við héldum að þyrfti að vera á milli okkar vegna þess hversu ólíkar við erum. En Inga fóstra mín, var alltaf öryggið. Haldreipið. Líkt og Dísa og Birnir. Og aftur, fæst ykkar vita hver Dísa og Birnir eru en það skiptir heldur ekki máli. Þau eru bara hluti af mér.
Inga mín og ég vorum eins og móðir og dóttir, svo kom nokkurra ára gat. Gat þar sem ég var á harðahlaupum á undan sjálfri mér og öllu því sem ég átti erfitt með að sætta mig við. Og hún horfði bara á mig úr fjarlægð. Fylgdist með öllu og lét mig finna að hún vissi alltaf allt. Samt án þess nokkurntíma að dæma eða segja mér til. Svo eignaðist ég Björgúlf. Og þá lokaðist gatið. Ég varð aftur heil, -að mestu, og þá var hún á sínum stað. Eins og hún hafði alltaf verið. Og var þangað til hún dó. Hún hafði verið veik lengi. í meira en tuttugu ár hafði krabbaklóin verið að krafsa í hana. Stundum af krafti, en stundum fékk hún smá frið. En svo einn daginn, aðeins 67 ára gömul, held ég að henni hafi bara þótt þessi barátta vera orðin nógu löng. Og með sinni óbilandi skynsemi hefur hún eflaust tekið þá ákvörðun að nú væri rétt að láta sig. Og svo dó hún.
Og ég sakna hennar svo hræðilega. Ég hugsa um hana alla daga og mig dreymir hana nánast í hvert skipti sem ég sofna. ég veit ekki af hverju? Ég vissi að það myndi koma að þessu. En ég á ósköp bágt með að sætta mig við það samt. Áræðinlega af því að hún var mér jafnvel enn meira virði en ég gerði mér grein fyrir og þó vissi ég alltaf að mér þætti óumræðilega vænt um hana.
Það hlýtur að vera gott að vera engill á himnum og vita að maður hefur snert líf einhvers á svona fallegan hátt. Ég vona að hún hafi vitað hversu mikið ljós hún gaf mér. Og ég vona að hún sjái það og finni, hvar sem hún er. Hún Inga var ekkert rík af einhverjum metorðum, gráðum eða slíku tilgangslausu drasli sem við sækjumst svo mörg eftir. En hún var alvöru! Hún var mín Matrjúshka. Og allir sem þekktu hana minnast hennar með virðingu og hlýhug. Og það er ekki hægt að marka dýpri spor í jarðvist sína.
Þetta eru hugleiðingar Föstudagsins langa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)