Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011
6.6.2011 | 23:23
Öfgafullt samband konu, bílsins hennar og lífsins.....
Ég er svo gríðarlega mikil öfgamanneskja. Það liggur við að ég sé eins og afmælisbarn dagsins, Bubbi Morthens. (Nú veit ég að barnsfaðir minn hinn fyrri sýpur hveljur og fær gæsahúð frá efstu hársekkjum og niður í táneglur) Bubbi er svona öfgamaður. Og hjá frúnni í Hraunbergshúsinu dugir ekkert annað en öfgarnar. Lukka mín t.d. Hún er fullkomlega öfguð. Ég er svo gríðarlega lánsöm að sumu leiti. Ég á t.d. mannvænlega drengi sem líður vel og eru glaðir og sáttir í sinni. Ég á rólegan og hæglátan mann sem kippir sér ekkert mikið upp við að eiga öfgafulla konu. Ég bý tvímælalaust á fallegasta landi veraldar og landshlutinn er ekkert til að kvarta yfir í því samhengi. Ég vinn við það sem mér finnst næstum skemmtilegast í heiminum og ég á, síðast en ekki síst, undursamlega góða vini og dýrlega ættingja.
Fullkomið.
En... þegar kemur að lukkunni hvað varðar fjárhag og veraldlegar eigur, reyni ég að hugga mig við að sumir segja sígandi lukku besta. Gallinn er bara sá að lukkan sú arna sígur endalaust niður á við! Þó ég sé í skemmtilegu og gefandi starfi, borgar það ekki nema dálitla vasapeninga. Eiginmaðurinn vinnur líka við það sem honum finnst skemmtilegt en hann gerði það að lifibrauði sínu að reka fyrirtæki..... Það er, eins og við öll vitum, ekki það arðbærasta í dag. (nema maður kunni kannski að stofna skúffu eða lepp og greiða sér arð eða einhvern andsk. Það er bara ekki hann Halli minn.) Hann vinnur því eins og sleggja í helvíti og greiðir sér fremur illa fyrir. Það er bara þannig.
Ég á bíl. Og þá er ég kannski komin að kjarna málsins. Ég held, að það sé ekki hægt að eiga annað eins mánudagseintak af nokkurri sort og þennan fjárans bíl. Það er búið að skipta um vél og allan andsotann í honum, allt kemur fyrir ekki, hann heldur bara áfram að bila. Og kosta mig stórfé. Og ég er að verða brjáluð á því. Sérstaklega þegar ég þarf svo virkilega að nota hann akkúrat núna, en kemst hvorki lönd né strönd. Þetta er ég að láta ergja mig gríðarlega um þessar mundir! Ég er farin að trúa því sem Frændi á Dalvík sagði eitt sinn: Ylfa þú ert dæmd til að vera öreigi. Svo brosti hann bara.
En ok, ok. Ég sætti mig við það. Sérstaklega þegar ég er svo ljónheppin að öðru leiti. T.d. var vinkona mín ekki lengi að bjóða mér bíl til afnota til að "skutlast" á norður í Land í rúmlega viku, eða svo. Og hvað er það annað en geypileg lukka að eiga slíka vini? Maður lifandi!?
Svo að ég mun "sigla" norður á Húnavelli í faðm yndislegra vina, næsta föstudag, og dvelja þar í einangrun frá hversdeginum og öllu hans amstri, í heitu ástarsambandi við Talíu. Og hvað er betra?
Sem ég segi. Öfgarnar eru ægilegar. En þá er líka hreyfing á hlutunum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)