Föstudagsþvælan

Á þriðjudaginn, 31 júlí verður spiderljónið mitt hann Birnir 6 ára. Sama dag á Harry Potter afmæli. Og einmitt þennan dag verður myndin um hann (potter ekki Birni, hún er ekki enn komin út.) sýnd í Ísafjarðarbíói og við ætlum auðvitað öll í bíó. Skilst reyndar að myndin sé með drungalegra móti. Ekki það að synir mínir þoli það ekki en við ætlum að bjóða tveim vinum hans Birnis með í tilefni dagsins og ég veit ekki ennþá hvort vilyrði er fyrir því hjá foreldrum. Á eftir að tékka.......

Ég hætti að reykja í fyrradag. Já ég veit. Tilraun númer áttahundruð og eitthvað. Aldrei þó að vita nema þessi beri árangur. Mér líður alveg ágætlega og ég furða mig alltaf á því þegar ég hætti, til hvers í ósköpunum ég yfirhöfuð reyki? Það er svo mikið bras að vera að reykja. En til að vera nú ekki að neinu sleni ákvað ég að taka danska kúrinn í leiðinni. Svo að ég fitni nú ekki endalaust við það að drepa í. Það er síst skárra að drepa sig á spiki en reykingum. Held ég. Nú er ég bara bryðjandi grænmeti út í eitt og er alvarlega farin að spá í hvort tennurnar á mér fari ekki að gefa sig af öllu þessu gulróta og blómkálsáti. En mikið fjarskalega líður manni nú vel af allri þessari hollustu!

Palli Björgúlfspabbi og Berglind Björgúlfsstjúpa eru hérna fyrir vestan svo að Björgúlfur er á flakki á milli okkar og þeirra. Reyndar erum við svo heppin að vera ferlega "hippaleg" eins og ein vinkona mín kallar það að við höngum alltaf dálítið mikið saman þegar þau eru hér fyrir vestan. Það kemur auðvitað dálítið mikið til af því að ég er löngu búin að stela foreldrum Palla og gera þau að mínum foreldrum. Svei mér ef Halli er ekki bara líka búinn að gera það! Enda ekki hægt að hugsa sér betri foreldra en þau. Litlu drengirnir eiga þau með húð og hári og það er ekkert grín að hugsa til þess þegar  þeir uppgötva að þeir eru í raun alls ekkert skyldir þeim!! Ekki það að blóðtengsl séu það sem öllu skiptir, það er bara alltaf dálítið áfall að fatta að maður er ekki í raun neitt skyldur þeim sem maður hélt sig vera skyldan.... náði einhver þessu???? Frekar svona.... snúið hjá mér!

Sem leiðir hugan að því að ég, sem er auðvitað ættleidd, man alls ekki eftir því að það hafi verið neitt mál fyrir mig að komast að því að ég væri ættleidd. Ég held ég hefi verið smábarn þegar mér var sagt frá því og eins og öll smábörn, þá tók ég þessu sem sjálfsögðum og eðlilegum hlut. Alveg eins og ég held að börn geri þegar hlutirnir eru bara útskýrðir fyrir þeim á eðlilegan hátt.

Auðvitað var það ekki til að einfalda hlutina að systir mín hún Yrsa, væri í raun móðursystir mín sem gerir hennar börn bæði að systkinabörnum mínum og gerir mig og þau að systkynabörnum, og að foreldrar okkar síðan skildu og giftu sig bæði aftur og að mamma skyldi skilja líka við þann mann og að pabbi skyldi giftast konu með fjögur börn og að Rúnar, líffræðilegi faðir minn ætti tvö önnur börn með tveim konum, annarri yngri en ég er sjálf og að Rafnhildur, líffræðileg móðir mín ætti þrjá stráka með tveimur mönnum líka og að næst yngsti bróðir minn færi svo að deita stjúpdóttur systur minnar og að........ á ég kannski að hætta núna? Er þetta orðið gott? Náðuð þið einhverju af þessu??? Grin

Mér hefur alltaf þótt þetta sáraeinfalt en ég veit ekki alveg hvort öðrum þyki það. Það er ágætt að vera þverættuð og niðjaklofin.

 


Fleiri myndir frá síðustu helgi.

Það er lítið að gerast. Bara vinna, borða og sofa svo að ég set bara inn fleiri myndir frá síðustu helgi.

Oddur og Bibbi

 

Sæsi sæti

 Hér er svo mynd af einum sem líklegur þykir til að ganga í bandið:

Arni vestmanneyingur

 Björgúlfur og Birnir komu með að sjá uppáhaldshljómsveitina sína Ljótu Hálfvitana.

Björgúlfur á tónleikum


Ljótu Hálfvitarnir og leikhópurinn Lotta!

Þetta var ótrúlega skemmtileg helgi!

Ljótu hálfvitarnir spiluðu á laugardagskvöldið í Edinborgar húsinu á Ísafirði. Þeir voru hryllilega fyndnir og auðvitað söfnuður sérlega ljótra manna!! Læt nokkrar myndir segja allt sem segja þarf.

Armann og Toggi

Þeir kynntu sig á skemmtilegan hátt, m.a. var Oddur Bjarni sagður blanda af garðdverg og Hýenu auk íslensks rauðbirkis og kúluskíts:

Oddur garðdvergur

 

Hetja hafsins, Aggi. Hann er nú reyndar voðalega sætur:

verður aldrei aflakló

Inn á milli eru raktar örlagabyttur eins og Gummi Hafurs og Eddi sem kenndur er við Keith nokkurn Richards. Kallaður Eddi Richards.

Eddi og Gummi

Hljómsveitin Rotþróin sem allir þekkja... kom saman eftir margra ára viðskilnað félaganna Edda, Halla og Bogga. Því miður náðist kombakkið ekki á mynd en hér eru þeir samankomnir eftir tónleikana. Halli er auðvitað þessi fulli í miðjunni! :o)

Eddi, Haraldur og Boggi danski

Leikhópurinn Lotta sýndi Dýrin í Hálsaskógi á sunnudag, á gamla sjúkrahússtúninu á Ísafirði. Þar voru þónokkrir hálfvitar við leik ásamt óðum vinum úr Bandalagi íslenskra leikfélaga. Sýningin var algjör snilld.

Amma mús

Sá fágæti viðburður átti sér stað að Baldrarnir þrír hittust. Allir jafn skítugir í framan:

Baldur Ragnars, Baldur Hrafn og Baldur Þór


Ótrúlegt!

Veðrið er ótrúlegt!DSC00795

Ég veit að flestir eru orðnir þreyttir á að heyra mig dásama veðrið í sífellu en þar sem ég stari á 20 gráðu hita á mælinum hjá mér þegar ausandi rigningu er spáð dag eftir dag þá get ég ekki orða bundist! Það hafa komið örlitlar skúrir sl. sólarhring en þess á milli hefur sólin skinið á köflum og þá verður heitt og rakt eins og maður sé staddur í útlöndum! Ég man ALDREI eftir annarri eins einmuna veðurblíðu á Íslandi í jafnlangan tíma og nú!

En mikið sárlega er farið að vanta rigninguna. Það þyrfti svona fjögurra daga úrhelli. Ég er auðvitað farin að örvænta vegna áhrifa þurrkanna á berjasprettu. Nú er víst nægur ylurinn en vætuna vantar.

Kannski ég fari bara á berjaleynistaðinn minn og vökvi hann.....

Góða Helgi. Ég er farin að búa um hálfvitana.


We will vock you...

syngur Baldur Hrafn hinn þriggja vetra. Ég má líklega þakka fyrir að hann notar ekki F í staðinn fyrir V!

Annars er fátt að frétta fyrir utan það að eftir því sem ég best veit verðum við með ellefu menn og einnig fé... flestir af þeim eru hálfvitar, og að auki ljótir.

Ljótur Hálfviti

En semsagt, Ljótu Hálfvitarnir ætla að koma og spila hér á Laugardagskvöldið. Í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Mér skilst að þeir gisti hér. Það er fínt. Aldrei nóg af karlmönnum fyrir mig! Verst að mér skilst að einhverjir komi með konurnar sínar með. Það finnst mér nú algjör óþarfi.

Einn Ljótur Halfviti

Ég ætla að steikja glænýja rauðsprettu í raspi og eta hana með súrdeigsrúgbrauði, kartöflum og vel af remoulade! Aldrei að vita nema strákarnir og Halli fái eitthvað.

Gleðilegan kvöldmat.


Svefgengill..ill...ll

Við fengum ferlega skemmtilega gesti í gærkvöld. Hér var setið, etið og spjallað þar til klukkan var langt gengin í þrjú! Það er gaman að eiga góða vini og skemmtilega fjölskyldu. Tveggja ára brúðkaupsafmæli er auðvitað enginn merkisdagur þannig sé en ég nýti hvert tækifæri til að bjóða fólki heim og sérstaklega hef ég ánægju af því að gefa því að borða!

En mikið andsk.. var ég þreytt í morgun. Ég er búin að vera eins og svefngengill í allan dag. Úti á þekju í vinnunni og hálf sofandi. Og af því að ég er nú svona vel gift þá kem ég heim, sest með tærnar uppí loft fyrir framan tölvuna og maðurinn eldar spaghetti bolognaise! Guðdómlegt. Svo ætla ég að fara snemma að sofa. Vinna á Skýlinu í fyrramálið og á Rúv eftir hádegi. Er að fara að leysa af í auglýsingum svo að það verður rólegt og gott. Aldrei þó að vita nema nýji yfirmaðurinn þar jaski mér í eitthvað. Hún á það til þessa dagana og ég kvarta hér með hástöfum. Opinberlega!!! Smile

Ég er farin að hlakka til helgarinnar. Þá koma Ljótu Hálfvitarnir til að spila hér fyrir vestan. Ég ætla að sitja fremst og syngja með. Hátt! En nú eru kvöldfréttir sjónvarps hafnar og ég hef grun um að þar leynist frétt eftir mig. Best að horfa.....

IMG_2713


16. Júlí 2007

Í dag er merkilegur dagur. Fyrir tveimur árum gengum við skötuhjúin í hjónaband á Ingjaldssandi við Önundarfjörð. Brúðkaup sem seint gleymist þeim sem viðstaddir voru. Enda heilmikil veisla. Og af því við erum að tala um veisluna góðu, þá langar mig til að auglýsa eftir myndbandsupptökum úr henni, hafi einhver verið svo forsjáll að taka eitthvað upp á band. Ekki vantaði reyndar tökumanninn en líklega hefur spólan flækst í tækinu því litlar eru heimturnar á myndinni.......  En okkur langar svo að sjá eitthvað frá þessum degi á vídeói svo að ef einhver lumar á slíku þá væri það afskaplega vel þegið.

Við hjón höfum ekkert planað í dag. Ég er að vinna og Halli er heima að gæta bús og barna. Hvet hann til að hengja út úr vélinni og setja í hana aftur ef hann les þessar línur Smile

Kannski kaupi ég eitthvað gott í matinn eftir vinnu og elda handa mínum heittelskaða.

-------------oOOooo------------

Það er svolítið merkilegt að við Halli vorum ekkert sérstaklega góð saman í byrjun. Það er í raun alveg kraftaverk að við höfum lafað saman í gegn um fyrstu árin, svo stormasöm sem þau voru. Endalausir árekstrar og pústrar, rifrildi og hamagangur. Eins og gefur að skilja sá ég um hamaganginn og pústrana, Halli var meira bara svona þögull áhorfandi! Svo liðu árin og við pússuðum vankanta hvors annars hægt og rólega. Ekki svo að skilja að við höfum siglt lygnan sjó síðan! Ekki aldeilis. Við höfum átt okkar öpps and dáns eins og aðrir.Og við höfum tekist á við erfiðleika sem ríða flestum samböndum að fullu. En einhverra hluta vegna höfum við samt boðið þeim birginn og klofað yfir í sameiningu. Og uppi stöndum við sem sigurvegarar! Í hjónabandi og vináttu sem hefur þroskast og eflst með mikilli vinnu og þolinmæði.

Ég er óskaplega þakklát fyrir þennan hljóðláta og góða mann sem alltaf stendur með mér í einu og öllu, þennan dásamlega föður barnanna minna sem aldrei skiptir skapi og leiðbeinir þeim af þolinmæði og langlundargeði. Aldrei hækkar hann róminn, aldrei skeytir hann skapi sínu á mér eða drengjunum sínum og aldrei segir hann styggðaryrði við nokkurn mann. Hann er heiðarlegur, heibrigður og umfram allt: réttsýnn og traustur.

Þetta hljómar eins og minningargrein sem það á alls ekki að gera!! Því læt ég staðar numið, óska bónda mínum til lukku með daginn og býð vini og ættingja sem eiga heimangengt í kaffidreitil og bakaríisbrauð í kvöld. (þetta les Halli líklega á eftir og svtnar... allt í drasli og kellingin býður heim gestum!!!)


Í faðmi fjalla blárra

Hann Einar Oddur Flateyringur og alþingismaður lést í gær. Hann var ásamt hópi fólks að ganga Kaldbak sem er hæsta fjallið okkar hér á kjálkanum og varð örendur. Ég votta Sigrúnu Gerðu vinkonu minni, fjölskyldu hans sem og Flateyringum öllum mína dýpstu samúð vegna þeirra missis. Þegar ég dey, þá óska ég þess að ég fái að fara á þennan hátt. Í faðmi fjalla blárra eins og þessi sanni Vestfirðingur, umkringd góðu fólki, og síðast en ekki síst: einmitt svona. Einn tveir og þrír. 

En lífið hér í Hraunbergshúsi gengur sinn vanagang. Það er áfram dæmalaus blíða og börnin hlaupa allsber í garðinum og kæla sig í úðaranum. Á milli þess sem þau borða ís. Við ætlum að fara á Súganda í kvöld og sjá Galdrakarlinn í Oz. Finnbogi hefur verið hjá okkur um helgina og hann ætlar að koma með ásamt systur sinni og pabba. Björgúlfur er að koma heim og við erum öll orðin full tilhlökkunar enda hefur hann verið í burtu í þrjár vikur! Það er laaaangur tími. En það er best að henda sunnudagsmatnum í ofninn, það mun vera Freschetta pizza með pepperóni.... enda stóð ég sveitt að steikja kótilettur í raspi í morgun fyrir fólkið á skýlinu, Auk þess er eldhúsið undirlagt af rabarbaraútgerð. Það er verið að gera saft í lítravís, hlaup og svo framvegis. Svo að við étum bara pizzur.

Held reyndar að ég ætti að hætta að éta yfirhöfuð. Ég slæ hvert persónulega þyngdarmetið á fætur öðru. Það er ágætt. Vel alið veit á gott......

Í faðmi fjalla blárra.


Ef bara ég gæti dólað mér á sundhring ævina á enda....

Ég er byrjuð að vinna. Úff, hvað það var erfitt að vakna í morgun. Lífið hjá mér einkennist ýmist af algjöru iðjuleysi eða massa vinnu. Núna er ég að leysa af á Rúv, var að vinna þar frá níu í morgun til hálf sjö, svo á morgun mæti ég á Skýlið og elda mat fyrir vistmenn, þar verð ég fram yfir hádegi og fer svo á Rúv. Vinna á Skýlinu um helgina og svo bæði þar og á Rúv næstu viku...... En veðrið heldur áfram að vera bara dásamlegt svo að mér finnst hálf fúlt að vera inni.

Ég hef komist að því að ég er hræðilegur fréttamaður. Mér finnst gaman að tala og þar er útvarp engin undantekning, en ég hef engan áhuga á fréttum sem slíkum. Skemmtilegt að taka viðtöl við skemmtilegt fólk sem er að gera skemmtilega hluti, jafnvel líka þá sem eiga í erfiðleikum, en þegar kemur að pólitík eða fundargerðum, tjah... þá finnst mér eins og ég sé að lesa sömu blaðsíðuna aftur og aftur án þess að ná innihaldinu. Ég er líka svo ferlega lengi alltaf að komast í gang. Ég er náttúrulega bara afleysingapíka svo að oft líður frekar langur tími á milli vinnu hjá mér og þá er ég hreinlega ekki með á nótunum. Mig vantar algjörlega þessa "fréttagreddu," og hef oftar en ekki samúð með fólki sem ég sé í sjónvarpsfréttum, reyna að berja af sér fréttamenn. Ömurlegast þykir mér þegar fólk er að upplifa persónulega erfiðleika sem á einhverra hluta vegna, að vera sjálfsagt að séu uppi á pallborði þjóðfélagsins. ´

En ég hef prýðisgóða útvarpsrödd og mér finnst vinnan skemmtileg. Aðallega vegna þess hversu mikið ég hitti af skemmtilegu fólki. En ég viðurkenni vanmátt minn fúslega þegar kemur að því að meta gæði mín sem fréttamaður. Dagskrárgerð er eitthvað sem ég gæti aftur á móti vel hugsað mér. En nóg um það.

Ég var farin að halda að sumargestirnir yrðu engir. En í gær hrundu hér inn skemmtilegir ættingjar sem að vísu gistu ekki en stöldruðu við fram á kvöld og borðuðu með okkur. Svo hringdi systir mín áðan og boðaði komu sinnar fjölskyldu um aðra helgi. Enda kominn tími til að hitta þau. Börnin mín muna eiginlega ekkert eftir henni né börnunum hennar. Það er alveg ferlegt en minnir mann á hvað tíminn er afstæður hjá litlum krökkum og hvað þau eru fljót að gleyma. (Yrsa systir ætlar að koma með tvo kanínuunga handa okkur og ég sagði henni að við miðum slefandi með saxið. Kanínur eru afbragsðmatur.) Tengdapabbi kom í skotferð um daginn og ætlar eitthvað að kíkja meira í sumar svo að einhver reytingur verður nú af fólki.

Halli er búinn að sækja um vinnu hjá Háskólasetrinu á Ísafirði við Tækni...sviðs...something. Ég vona að hann fái það. Auðvitað er fínt að hafa hann heima að taka til og elda á meðan ég vinn. Held bara að bankinn yrði frekar fúll yfir því hversu lélegar heimtur yrðu á afborgunum okkar!

Og fyrst ég er farin að tala um peninga þá erum við á svona heldur blönku tímabili núna. Óvænt fjárútlát, s.s ísskápur, klósett og fleira settu svolítið strik í reikninginn svo ekki sé talað um þriggja vikna utanlandferð. Því höfum við ákveðið að gera ekkert sérstakt meira í sumar enda ég að vinna flesta daga sem eftir eru af því. Við vorum þó búin að ákveða að fara á Hesteyri í Jökulfjörðum um Verslunnarmannahelgina og gista í tjaldi. Þar er alltaf haldin heilmikil kjötsúpuveisla við varðeld þar sem aragrúi af fólki syngur saman og skemmtir sér. Til að vera nú nógu flott á því ákvað ég að bjóða nú vini Björgúlfs með, sem er fluttur úr bænum og býr nú í Reykjanesbæ. Svo pantaði ferð með áætlunarbátnum íí dag. Verðið var litlar ÞRJÁTÍU OG FJÖGURÞÚSUND OG TVÖHUNDRUÐ KRÓNUR!!!!

Við förum nú bara í Skálavík og tjöldum þar, takk fyrir pent!

FríðaBirna!! Ég veit þú lest alltaf bloggið mitt. Kíktu um helgina svo við getum skipulagt eitthvað skemmtilegt..... og ódýrt!

Rasstór??? Hvað áttu við????

 


Sumardagur

Ég ætla að byrja á því að biðja Nönnu afsökunar á því að geta ekki sent henni sultu. Ég bara vissi ekki af fyrr en ég var búin að selja allar krukkurnar af umbeðnum sortum elskan ...

Helgin var frábær. Við fórum á varðeld á föstudagskvöldið, grilluðum þar pylsur og horfðum,/og heyrðum Árna Johnsen sygja og spila. Tjah... maðurinn er frægur fyrir þetta svo að eitthvað hlýtur hann til brunns hafa að bera þó að ég, almúgakonan komi ekki auga á það. En eitt er víst. Ég hef aldrei sé nokkurn mann syngja "Minningu um mann" á jafn tregafullan og átakanlegan hátt. Maðurinn bókstaflega klemmdi aftur augun og í hverjum drætti andlitsins mátti lesa sorg og harm. Enda gríðarlegt harmaljóð þar á ferð auðvitað..........

Á laugardaginn stormaði svo fjölskyldan á markað og seldi vel á annað hundrað sultukrukkur. Það var yndislegt veður og stappa af fólki. Allir svo glaðir og kátir.  Halli var að vinna um kvöldið og ég að fara að vinna á sunnudagsmorguninn svo að við slepptum því að fara á ballið sem var haldið en ég fékk nú samt smá uppbót því að hann Friðrik Ómar kíkti í heimsókn til mín um kvöldið, hann var að fara að syngja á ballinu, og við rifjuðum upp gamla tíma á Dalvík. M.a þegar aumingja Frissi sem var lítill drengur þegar ég og systir hans leigðum saman gamlan hjall og hann vandi þangað komur sínar. Einn laugardagsmorgun þegar sól skein í heiði stímaði hann inn í húsið og upp á loft. Þar lá Ylfa Mist í timburmönnum, steinsofandi uppi í rúmi með enga sæng frekar en vant er og ....í engum náttfötum. Skemmst er frá því að segja að krakkareyið hrökklaðist til baka og síðan hefur hugur hans ekki staðið til kvenna!!! Smile

Ég fór síðan ekki varhluta af því að ball væri nánast í næsta húsi. Hundurinn minn sá til þess í félagi við annan hund sem var hér í pössun. Þau hjúin bókstaflega voru með brjáluna alla nóttina og urruðu og geltu á alla þá sem nálguðust húsið of mikið að þeirra mati.

Urta geltir mikið miðað við labrador tegundina og það hefur reynst erfitt að venja hana af því. Okkur finnst þetta eiginlega óþolandi. En hún er sæt og yndisleg þrátt fyrir það.

Enn og aftur er dásemdarveður. Ég ætla að fara aftur út. Og í kvöld ætla ég að elda einhvern dýrindis fiskrétt í tilefni sumars og sólar.

Lax hjá Gunna og steinu


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband