Klukk í borg.

Flestir vina minna hafa bannað mér að klukka sig, enda held ég að þeir hafi fengið nóg af klukk æðinu sem gekk hér yfir heimasíðuheima fyrir nokkrum árum. Ég ætla að reyna samt, af því að Steina frænka er svo sæt og hún klukkaði mig.

Hér kemur algjörlega tilgangslaus fróðleikur um mig í átta liðum:

Ég er sultudrottning Vestfjarða fjórða árið í röð.

Og mér finnst aðalbláberjasulta best.

Ég les í að minnsta kosti klukkutíma áður en ég fer að sofa.

Ég les oft sömu bækurnar aftur og aftur.

Ég drekk frekar te en kaffi.

Samt finnst mér kaffi gott.

Ég þoli ekki að taka til.

Mér finnst samt skárst að þvo þvott.

Ég klukka: Nönnu, Togga, Sigguláru, Þórdísi, vélstýruna Önnu K., Salvöru, Júlla Theódórs og Júlla í Höfn.

 

 


07.07.07

Vinsæll dagur til að gifta sig. Skilst mér. Ég og Halli völdum ekki svona flotta dagsetningu. Meira svona; 16.07.05. Ekkert smart við það. Nema hvað að þetta var auðvitað flottasta brúðkaupið!

029

Bolvíkingar ætla held ég ekkert að vera að gifta sig í dag. En þeir ætla að halda markaðsdag! Og þar ætla ég að selja sultur!

Á boðstólnum verða:

Rabarbarasaft, rabarbarahlaup, strangheiðarleg rabarbarasulta, kiwisulta, krydduð eplasulta, appelsínuhlaup, mandarínumarmelaði, bróm- hind og jarðarberjasulta, jarðarberjasulta og að lokum hindberja og brómberjahlaup. Ég held að þá sé allt upptalið.

Verði velkomin að versla.

IMG_2669


Hörmung

Og við sem erum að taka upp úr kössunum. Ætli Þetta verði ekki til þess að Bolungarvíkin fagra leggist algjörlega af? Ég er einmitt núna að passa hund fyrir konu sem flutti í fyrra til Flateyrar. Maðurinn hennar var á sjó á Flateyri. Þau keyptu hús, fengu afsal, hann fékk uppsagnarbréf og er nú kominn á sjá í Grindavík. Þetta eru örlög margra. Þrátt fyrir það að einmitt það fyrirtæki sem maðurinn vann hjá hafi ekki verið í meiri kröggum en svo að enginn byggðakvóti hefur árum saman farið til þess. Hvenær ætlar fólk að átta sig? Hvenær ætla kjósendur að átta sig? Hvenær gerir fólk sér grein fyrir því að það ber sjálft ábyrgð á gerðum stjórnvalda? Með því að kjósa.

Við erum örvitar og komið er fram við okkur sem slíka. Það er bara sanngjarnt.

Nenni ekki að skrifa meira um þetta. Gerir mér svo gramt í geði. Ætla bara að einbeita mér að sultugerð. Hugsa að Bolungarvík verði bara að fara að gera út á ást og sultur. Breyta fiskvinnslunum í sultuverksmiðjur. Breyta beiningarskúrunum í ástarhreiður.

Nýja klósettið er komið. Það er bara töluvert þægilegra en það gamla.

Pissað í sandinn


mbl.is Þorskkvótinn verður 130 þúsund tonn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún ríður ekki við einteyming, Gæfan.

Rétt í þessu var Haraldur bóndi minn að mölva klósettið.

Það var einhver sprunga sem hann ætlaði að laga með fyrrgreindum afleiðingum. Það hittist vel á, í dag fengum við nýjan ísskáp, á morgun kaupum við nýtt klósett. Húrra fyrir því.

Hingað kom maður frá tryggingunum til að meta skemmdirnar í kjallaranum. Svo virðist sem við séum tryggð fyrir svona trjóni, enda borgum við einhver hundruð þúsund í tryggingar á ári. Held nú reyndar að við þurfum að fara að endurskoða það eitthvað. Við erum með þetta út um allt og höfum satt best að segja varla hugmynd um fyrir hverju við erum tryggð og hverju ekki. En það er nú víst þannig með flesta. Menn halda að þeir séu tryggðir þangað til eitthvað kemur fyrir. Þá er það eitthvað smátt letur sem gjarna dúkkar upp. En ég get ekki kvartað að sinni þar sem allar líkur eru á því að skaðinn verði okkur bættur.

Ég ætla að fara með Valrúnu á kaffihús á eftir. Er búin að punta mig og fara í skárri fötin. Ætlum á nýja kaffihúsið á 'Isafirði, Endenborg. Munur að skreppa eitthvað út, ekki með börnin í eftirdragi. Bara svona tvær fullorðnar manneskjur. Það verður notalegt. Við förum bara tvær. Enda er hún að fara á morgun. Svo fer hún til Danmerkur. Ég ætla að vera hér. Kannski bara ævilangt. Kannski eitthvað áfram. Veit ekki. Mér finnst yndislegt að vera hér. Enda er sumar og sól. Bjart allan sólarhringinn. Það er dásamlegt.

Lífið er dásamlegt.

Kastað í Arnarfjörðinn


Hróarskelda

Ég hef farið á Hróarskeldu. Ekki þó hátíðina sjálfa heldur mikla landbúnaðarsýningu sem var haldin tveim helgum fyrr á sama stað. Tel þá upplifun alveg hafa jafnast á við Rokkhátíðina!!

Eftir að hafa lesið þessa moggafrétt hef ég ákveðið að svipta börnin mín þeim áður sjálfsögðu réttindum að fara á Hróarskeldu. Ja.. ég reyndar ætla að banna þeim að fara að heiman. Yfirhöfuð. Það er svo hættulegt.

ps) mér hefur alltaf funndist meira við hæfi að Roskilde væri íslenskuð "Hrosskelda." Hljómar mun betur en Hróarskelda. Whistling

 

Kissi kiss......


mbl.is Fjórar stúlkur slösuðust á Hróarskelduhátíðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Álagafjötrar"

IMG_2683Ég las Colour Purple í gærkvöld./nótt. Alla. Langt síðan ég hef lesið hana og merkilegt nokk, hef aldrei séð nema brot úr myndinni. Ég ligg í suðurrískum bókmenntum þessa dagana. Nýlokin við "To kill a mocking bird." Það er góð bók! Svei mér ef hún slær ekki bara Daniellu Steel og Guðrúnu frá Lundi við!!

Annars er ég alvarlega að spá í að fjárfesta í endurútgáfu Ísfólksins. Ég las ALLAR bækurnar frá því að ég var krakki og fram á unglingsár. Sogaði þær bókstaflega í mig af mikilli áfergju. Um daginn gluggaði ég svo í "Álagafjötra" sem er 1.bókin og ég fékk algjört áfall. Bækurnar eru svo hræðilega illa þýddar!!! Það er varla að hægt sé að hafa gaman af því, þetta er svo pínlegt! Söguþráðurinn og konseptið snilld. Restin er eiginlega BARA glötuð. Skyldi ég hafa verið óvenju illa gefinn unglingur? Af hverju tók ég ekki eftir þessu? Mér finnst það mín heilaga skylda að lesa þetta allt aftur í réttri röð!

Og talandi um þetta. Í bókum Enid Blyton, sem fyrir mér voru algjört konfekt í æsku, eru miklar brotalamir. Fyrir það fyrsta eru bækurnar hræðilega leiðinlegar, þær blátt áfram eru gegnsósa af sexisma, og kynþáttafyrirlitning er augljós. Þegar farið er að tala um "surti" og "villimenn" þá hættir maður að lesa fyrir börnin sín!!! Hvort voru barnabókahöfundar fortíðarinnar svona lélegir eða börnin bara svona vitlaus??

Ég er að gera sultur. Þær verða til sölu á laugardaginn. Er búin að gera Bróm-hind og jarðarberjasultu, fagurrautt rabarbarahlaup, rabarbarasaft og núna er ég að sjóða strangheiðarlega rabarbarasultu. Kiwisultan og chutneyið verður gert á morgun.


MYNDIR

Myndir frá Danmerkurferðinni svo og bara okkar frábæru fjölskyldumyndir má sjá hér, við setjum þær nú frekar rólega inn reyndar, kannski eina-tvær á dag. Þetta tekur allt sinn tíma.

Keyptum ísskáp í dag. Kláruðum að hreinsa upp eftir vatnselginn í gær svo að nú er klárt fyrir manninn frá Tryggingunum sem kemur á morgun, og já!! Ég gerði eina sultutausporsjón. Næstu helgi er nefnilega markaðsdagurinn hér í Víkinni.

Húrra.

Set hér inn eina úr ferðinni. Svona skepnur voru allsstaðar. Þá á ég ekki við hundinn ;o)

Lisbet, Vox og Birnir


Oh, It´s such a perfect day.....

....söng snillingurinn Lou Reed. Hann átti samt líklega ekki við daginn í dag. Í dag var dagurinn þegar flæddi inn í kjallarann hjá mér.

Eins og frægt er orðið og ég vísa í nánast í hverri færslu, vorum við fjölskyldan á leið til Danmerkur. Varanlega. En erum komin, eins og enn frægara er orðið, heim aftur með skottið á milli lappanna. Allt okkar dót er í kössum í geymslunni. Bækur, blöð, geisladiskar, hljómplötur, MATREIÐSLUBÆKURNAR, myndaalbúmin...... Skápur, geislaspilari, parket sem á að fara á kjallarann.... ýmislegt dót.

Í dag fengu sonur minn Birnir og vinur hans þá snilldarhugmynd að vökva garðinn með slöngunni. Í "leik" sínum tókst þeim að fylla í leiðinni téða geymslu af vatni. Við höfðum skroppið frá og þeir máttu leika sér í garðinum á meðan. Það fá þeir ALDREI aftur að gera.

Garðurinn minn er núna fullur af útbreiddu drasli, sem ég er að vonast til að þorni.......einhverntíma áður en það fer að rigna.

Mig langar til að grenja.....

En ef ég lít á björtu hliðarnar þá er ekki gott að verða "attached" við hluti. Ekki of mikið að minnsta kosti. En það er nú þetta með myndaalbúmin og matreiðslubækurnar mínar......


Ljótir eru þeir, satt er það!

En samt einhvernveginn svo sætir!

Mér finnst afar athyglisverð stellingin sem Toggi er í þarna þegar hann blæs í Óbóið. En svona hljóta menn auðvitað að þurfa að vera þegar þeir spila á Óbó. Það segir sig sjálft!

Fyrrnefndur Toggi hringdi einmitt í gær og tilkynnti komu þessara Ljótu Hálfvita vestur á firði fljótlega. Eins gott að fara að steikja kleinur! Halla til ómældrar gleði mun að öllum líkindum ferðast með þeim Hálfvitum, Kristjaníubúinn og æskuvinur hans, Boggi. Veit ekki hvort Boggi borðar kleinur.

En það er best að segja litla sögu, núna þegar klukkan er að verða tólf og ég er svo sólbrennd að ég get ekki sofnað. Halli er á lögguvakt og börnin sofnuð. Sem frægt er orðið hugðum við á flutninga til Danmerkur en erum komin heim með skottið á milli lappanna og farin að taka upp úr kössunum. Þetta var útúrdúr sem mér fannst bara svo fyndinn. En hér kemur sagan. Hún er líka fyndin.

Á Kastrup voru að sjálfsögðu þó nokkuð margir íslendingar og þar með talin ein ágæt dalvísk kona, Gugga Tona að nafni. Gugga var hluti af uppvexti mínum, sem starfsmaður íþróttahússins og hefur látið köldu bununa dynja á mér í sturtuklefunum oftar en ég hef tölu á, eftir íþróttaiðkanir þær sem ég var skylduð til í æsku. Guð má vita að ég er hætt þeirri vitleysu. Enda engin Gugga verið nærri til að kæla mig niður. Eins og títt er um íslendinga, hvað þá sveitunga í útlöndum, klístruðum við okkur saman og settumst öll niður til að borða á meðan beðið var eftir fluginu. Við erum auðvitað að þvælast með þrjú börn og þau frekar þreytt og geðstirð þannig að erillinn við þetta allt saman hafði verið töluverður.

Ég er með brest. Hann lýsir sér í því að þegar atið og hamagangurinn verður mikill þá kemst ég í annarlegt ástand og verð vægast sagt frekar ...........utangátta.  

Þegar börnin voru loks búin að ákveða hvað þau vildu borða og allir voru sestir og byrjaðir að spjalla sullaði eitthvað af börnunum mínum niður. Ég stóð ég upp til að ná í servíettur á skenkiborð sem stóð skammt frá. Ég settist aftur og hélt áfram að tala, með fullan munnin af pizzu og ætlaði að fara að þurrka upp af borðinu. Það var ekkert á borðinu. Ég leit upp og starði beint framan í bláókunnugan mann sem sat á móti mér með fartölvuna sína og skildi augljóslega hvorki hvað ég var að segja, né þá heldur hvað ég var að gera þarna!! Fyrir aftan mig hlógu íslendingarnir og það sem verra var; fyrir utan þennan eina "útlending" sem ég hlussaði mér fyrir framan, var borðið þéttskipað íslendingum!

Gugga stundi: Þú hefur nú lítið breyst, Ylfa Mist.

Og það er eflaust alveg rétt.

En Haraldur hefur hins vegar breyst. Það sást best á því þegar við vorum búin að standa töluvert lengi, uþb. klukkustund eða svo í röðinni niðri í "tékkinninu" að bíða eftir að þessi eini kvenmaður sem var að afgreiða, myndi nú lifna við, eða að minnsta kosti vakna. Hún var á þessum klukkutíma búin að afgreiða þrjá. Flestir í röðinni, sem auðvitað voru mest íslendingar, voru farnir að  ókyrrast töluvert þegar öðrum deski er skellt upp og röggsamur kvenmaður fer að tékka inn. Þegar röðin kom loks að okkur þá geystust skyndilega hjón inn í sjónlínuna og hentu sér á afgreiðsluborðið. Við bökkuðum og heyrðum óánægjukurr fyrir aftan okkur í röðinni.

Nú.! Undir venjulegum kringumstæðum er það Frú Ringsted sem sér um svonalagað í aðstæðum sem þessum. Það er oftast Frú Ringsted sem sér sig knúna til að standa yfir fólki í sturtuklefunum og heimta að það þvoi sér án sundfata. Það er Frú Ringsted sem bendir fólki á það að það sé óþarfi að tala hátt í bíó. Það er líka Frú Ringsted sem snuprar dónalegt afgreiðslufólk eða skilar matnum á veitingahúsum, falli hann henni ekki í geð. Frú Ringsted tæki slíkt jafnvel að sér fyrir aðra líka, væri sá gállinn á henni. En þarna var Frú Ringsted bara orðið heitt, hún var þreytt og þyrst. Barnið á handleggnum seig í og hún vildi bara komast í gegn um innritun á alls vesens. En viti menn! Haraldur Ringsted, hinn dagfarsprúði geystist fram og þrumaði yfir salinn! You are not next!!! Fólkið horfði á hann og skildi ekki alveg hvað hann átti við, enda höfðu þau ekki tekið eftir hlykkjóttri röðinni aftan við "bandið" sem halda á öllu í skefjum í svona byggingum sem þessari. Haraldur Ringsted æddi að fólkinu og bókstaflega henti því aftur fyrir hníf og gaffal, alla leið í hinn enda salarins þar sem það mátti reka lestina.

Haraldur Ringsted uppskar ómælt þakklæti íslendinganna í röðinni og ómælda undrun eiginkonunnar.

Þegar ég impraði nú á því við hann að fólkið hafi ekkert vitað að það væri að troðast fram fyrir, hreytti hann því út að það væri nú ekkert skrítið; þetta væru ÚTLENDINGAR!!!                                       


mbl.is Hálfvitaleg plata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komin HEIM

Það sprakk hjá okkur á leiðinni heim í gær. Það hlýtur að tákna að Halli sé um það bil að fá góða vinnu og við fáum gott tilboð um notuð húsgögn ásamt ísskáp í dag :)

Það er gott að vera komin heim. Búin að drekka morgunkaffi með Valrúnu og get núna farið að taka upp úr kössum.

Garðurinn er með mánaðarhátt gras og allur frekar sjoppulegur. Hvað er ég að slóra???

Farin út.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband