Færsluflokkur: Bloggar

Facebookfrí

Þegar maður tekur sér facebook frí, er þá ekki tilvalið að dusta rykið af gamla, góða og mjög svo vanræktu bloggi?

 Það sem helst ber til tíðinda í dag í annars hinu tíðindalitla Hraunbergshúsi, er að hin aldurhningna Urta og hinn ungi, ofurhressi og spólgraði Uggi, blýfestust saman þrátt fyrir að hafa verið í gjörgæslu. Þegar náttúran kallar þá ryðja hraustir hundar öllum hindrunum úr vegi. Hvort sem það eru hurðir og brattir stigar, ólar eða taumar.

Við vonum nú að ekkert hafi tekist þrátt fyrir framinn glæp, en ef skaðinn er skeður verða jólapakkarnir væntanlega gulir og loðnir í ár ;)

 Ég var einmitt búin að ákveða  að gefa börnunum mínum jólagjafir í ár og láta svo þá upphæð sem annars færi í þessar gjafir handa fólkinu sem á allt, ganga til einhverra góðgerðarsamtaka. Annað hvort kaupi ég geitur eða hænur handa fólki sem á lítið til hnífs og skeiðar í gegnum HSK eins og hann Björgúlfur frumburður minn gerir, eða splæsi bara í eitt stykki brunn einhvers staðar í Súdan. Að minnsta kosti munu þeir einir njóta sem að öðrum kosti fengju lítið sem ekkert í jólagjöf. 

Mig langar að biðja ömmur og afa, frænkur og frændur að gefa okkur fullorðna fólkinu ekkert í ár en láta frekar einhverja sem þurfa frekar á því að halda, njóta gjafmildi ykkar. Þannig gleðjið þið okkur hjónin óendanlega.

 

En gulu og loðnu pakkarnir, þeir verða alveg auka! ;)

 

 

 

 

 


þegar mann "langar í eitthvað..."

Ég og börnin mín erum dálítið oft í "mig langar í eitthvað gott," gírnum. Þeir vilja kannski að ég baki eitthvað ákaflega djúsí sem tekur langan tíma og setur eldhúsið á hvolf, en ég nenni því ekki. Stundum komumst við að einhverri málamiðlun. Ég geri mjög oft pönnukökur, ekki þessar þunnu íslensku sem vissulega eru ótrúlega góðar, heldur þessar þykku sem minna meira á ammrískar. Þær geta verið úr hveiti, eða heilhveiti, sojamjöli eða blöndu af þessu öllu. Nú síðast gerði ég þær úr rúgmjöli og við borðuðum þær sem svona "helgarbrunsh."

Rúgmjöl er víst ægilega hollt. Meira að segja hollara en heilhveiti og spelt og allt þetta mjöl sem verið er að hampa. Enda eru heimatilbúnar rúgkökur (sem ég skal fljótlega kenna ykkur að baka, ef þið kunnið það ekki nú þegar,) víst með hollara brauði sem til er. Gerlausar og allslausar sem þær eru.

Í svona Rúgpönnukökur hins vegar, nota ég ca 4 dl af rúgmjöli, 2 tsk matarsóda, 1/2 tsk salt, 4 egg og síðan súrmjólk eða AB mjólk til að ná svona cirka "vöffluþykktinni."

Og það eru þurrefnin fyrst, síðan þetta blauta og gott er að vera búinn að slá eggjunum vel saman áður en þau fara út í hitt.

Bakað eins og amerískar pönnsur í SMJÖRI á miðlungsheitir pönnu.

Ofan á þetta má nota ost og smjör, sultu, smjör og hlynsýróp eins og kaninn gerir, eða bara hvað sem er.

Ég bakaði mínar heldur stórar, smurði svo annan helminginn á þeim með grófu hnetusmjöri frá Himneskt, setti svo væna slettu af eplasósu (applesauce) og toppaði að lokum með góðri hlussu af grískri jógúrt. Braut svo hverja og eina saman eins og ommilettu og bar fram á stórum matardiski, eina handa hverjum heimilismeðlimi. Öllum fannst þetta súpergott!

Rúgmjölspönnukaka

Og... þetta er ekkert óhollt heldur. Sem er plús...


Kosher kvöld í kvöld.

Gyðingabókin góða var dregin fram í gærkvöld og tvær uppskriftir valdar til að hafa í kvöld. Það var "kjúklinga Snitzel" og sítrónu og kapers-salsa. Að auki hafði ég aðra "sölsu" sem var einfaldlega avocado, agúrka og tómatar, allt skorið í litla teninga, olífuolía og limesafi, smá salt og pipar og beint á borðið!

Hraunbergs-salsa

Ég reyndar vil alltaf hafa eitthvað stökkt með svo að ég setti nokkrar brotnar kasjúhnetur með á toppinn.

 Jæja, snúum okkur að kjúklingnum. Í upprunalegu uppskriftinni eru kjúklingabringur sem velt er úr hveiti og eggi og loks raspi. Þar sem ég er iðulega í hveitiuppreisn (á milli þess sem ég dett í kökur) þá notaði ég soja í staðinn. Þeir sem eru með glúteinóþol eða vilja einhverra hluta vegna ekki borða hveiti, geta auðveldlega borðað raspaðan mat með því að nota soja í staðinn. Mikið sem ykkur hlýtur að létta! Það er ekki hægt að lifa lengi án þess að fá t.a.m. kótelettur í raspi. Nema maður sé Dr.Tóta vinkona mín sem skefur raspið af. Enda hefur hún ekki bragðlauka né hundsvit á matargerð almennt... W00t

Ég notaði kjúklingalundir og setti í plastpoka. Þetta var einn bakki af lundum og með í pokann smellti ég þremur hvítlauksrifjum, krömdum en ekki afhýddum. Það er óþarfi að vera með vesen! Við viljum bara fá keiminn. Þetta er látið vera á eldhúsbekknum í tvo þrjá tíma. Síðan tók ég bolla af sojamjöli og  hristi saman við lundirnar ásamt salti og pipar. Síðan tíndi ég lundirnar uppúr pokanum, eina í einu, dýfði í samanslegin egg og síðan ofan í sojahakk. Sojahakk er auðveldlega hægt að nota í staðinn fyrir rasp og það smakkast ekkert síður. "Raspið" þarf að krydda svolítið vel með salti og pipar, papriku og/eða sítrónupipar, eða bara hvaða kryddi sem þið viljið. Þetta steikti ég svo í mikilli olíu á vel heitri pönnu, þar til gullið og gordjöss. Þá fóru þessar elskur inn í heitan ofninn til að steikjast í gegn.

Jæja. Ofan á kjúklingasnitzelið, átti að setja eina teskeið eða svo af sítrónu og kapers-salsa. Það fór nú svo að við hljónin tvö átum það allt saman og það gott betur en eina teskeið á hverja lund! Við bókstaflega hrúguðum því ofaná. Þetta er ekki fyrir þá sem finnst súrt bragð óviðkunnalegt. Kapers hefur mjög afgerandi bragð og það er heil sítróna í þessu salsa.

Það sem þarf í salsað er:

1 sítróna

2 msk kapers, skolað, kreistið umfram vatnið úr, og grófsaxið það.

smá salt

cayenna á hnífsoddi

græn olífuolía, tvær til þrjár msk.

ca hálf tsk þurrkað oregano, mulið útí

tvær msk af saxaðri steinselju.

Sko. Sítrónan er afhýdd með beittum, litlum hnífi. Það er mikilvægt að skera allt hvítt af henni. Best er að gera þetta yfir skál því að safann sem rennur frá þessu er hægt að nota í salsað. Þegar allt hýði er komið af, skal skera ofan í hólfin á milli hvítu skilanna, til að fá kjötið úr í litlum bátum, alveg án alls hýðis og himnu. Tínið steinana úr ef einhverjir eru og saxið sítrónukjötið smátt á litlu bretti. Skafið það ásamt safanum ofan í skál. Kapersi, kryddi og olíu er hrært saman við og rétt áður en þetta er borið fram, er steinseljunni blandað saman við. Þetta passar ótrúlega vel saman með svona brösuðum mat eins og kjúklingi, steiktum í raspi. Þetta er pottþétt líka æðislegt með fiski.

rapsaður kjúlli með súúúru salsa!

Að lokum ætla ég að deila með ykkur eldamennskuslysi (þau gerast æði oft á þessu heimili, trúið mér! en verða gjarnan til þess að eitthvað sniðugt verður til) sem varð hjá mér í gær.

Ég átti eftir áramótajólaþrettánda-ofgnóttartímann, tvær hálfar fernur af rjóma sem var orðinn súr. Þegar það gerist er bara eitt í stöðunni: að steikja kleinur. Það er eiginlega ekki hægt að gera neitt annað gagnlegt með fúlann rjóma en að nota hann í kleinubakstur því að bragðið kemur ekkert fram.

Ég steikti þessar líka dýrðarinnar kleinur og fjölskyldan lá á slefunni þar til þær komu út pottinum. Æ.... ég hafði víst mælt sykurinn eitthvað vitlaust. Þær voru sykurlausar, eða amk svo sykurlitlar að þær voru eiginlega óætar sem kleinur. En þær hefði eflaust mátt borða með áleggi, líkt og soðið brauð, ef ekki hefði verið fyrir það að þær eru þannig í laginu að erfitt er að smyrja þær.

Nú voru góð ráð dýr. En ég hef nú lesið nógu mörg dönsk blöð og norsk, til að vita að þar ytra nota frændur okkar allt öðruvísi kleinuuppskrift en við og dýfa þeim svo í sykur! Mér hefur nú yfirleitt þótt tilhugsunin frekar óaðlaðandi en í gær tók ég flórsykur og sigtaði duglega yfir hverja porsjón sem upp úr pottinum kom. Þetta var svo fallegt! Kleinur með snjó! Svo sýnist mér þetta hreint ekki ganga verr ofan í liðið en þessar hefðbundnu. Flórsykurinn lítur nú ekki alveg jafn vel út og á degi eitt, en hvað... þetta endar allt á sama stað, ekki satt?
Lærdómur: matur er aldrei ónýtur þó að maður hafi klikkað á einhverju. Það þarf bara að "laga" hann með einhverjum ráðum.


Annasamir dagar!

Kæru lesendur, helgin hjá mér og undanfari hennar hefur verið ákaflega annasamur tími og því skort tíma til að elda, mynda og slá inn uppskriftirnar. En nú fáið þið góðan pakka í staðinn!

Á aðfararnótt föstudags var ég á næturvakt. Allir sem vinna næturvinnu þekkja hvað gerist þegar líður á nóttina og syfjan fer að ráðast á mann eins og seigfljótandi hunang. Augnlokin verða líkt og sandborin að innan, munnurinn þurr, höfuðið eins og grjót og hugsunin þokukenndari. Og samt, samt eru kannski FIMM klukkustundir eftir af vinnutímanum. Hvað gerir maður þá? Júbb. Seilist í súkkulaðið. Tertuna í ísskápnum. Afgangana af jólabakkelsinu, heitt súkkulaði, kaffi og tólf sykurmola.... BARA EITTHVAÐ MEÐ SYKRI! PLÍÍÍÍÍSSSSSS!?

Ég a.m.k er þessum ókostum búin. Kannski eruð þið laus við það?

En ég er farin að þekkja þetta og því hafði ég varann á mér. Ég tók með mér frosin jarðarber, krukku af góðu hnetusmjöri frá Sollu Himnesku, sykurlaust jarðarberja "sýróp" og butterscotch-"sýróp" einnig sykurlaust. Þið getið farið inn á kaffitar.is ef þið viljið skoða úrvalið af sykurlausum "sýrópum" þar. Ég nota þau dálítið mikið ásamt Xylitol-sætuefni, sem er náttúrulegt sykuralkóhól eins og sorbitól, mannitól og öll "tólin" en getur valdið virkilega lausum og frjálslegum hægðum, ef ósparlega er notað.....

Klukkan hálffjögur, gæddum við samstarfskona mín okkur á risastórum skálum með jarðarberjaís með heitri hnetusósu. Mmmmmm... hvað það bjargaði nóttinni fullkomlega!

Ísinn er einfaldari en allt!

Frosin jarðarber eru sett í matvinnsluvélina og "púlsuð" í sundur í gróft hröngl. Mjólk, ab mjólk, skyri, sýrðum rjóma eða hvað sem við viljum nota, er bætt smátt og smátt saman við og brúnirnar sleiktar niður á milli. (MEÐ SLEIKJU) Þetta er blandað af fullum krafti þar til kremað og þá er sætuefni af eigin vild sett saman við. Agave sýróp, sykur, gervisykur, sykurlaust sýróp... hvað sem þið kjósið. Og Voilá! Það er kominn þessi dýrðarinnar ís! Og hann er svo hollur og góður að hann er sko máltíð, ekki treat!

En til að toppa ís, þarf maður helst heita sósu?

Tvær kúfaðar msk af Solluhnetusmjöri eru settar út í sjóðheitt vatn, ca 1 deselíter, og það er þeytt saman. Síðan má setja sykur, caramel "sýróp" eins og ég gerði, nánar tiltekið ButterScotch, eða hreint kakó og hunang... þið látið bara ekkert stoppa hugmyndaflugið!

Sósunni er hellt yfir og þá erum við komin með;

Góð prótein, góða porsjón af ávöxtum, holla fitu, og umfram allt; dásamlega máltíð með nánast engri fyrirhöfn og mjög takmörkuðu samviskubiti!

Verið ykkur að svo virkilega, virkilega góðu!

Jarðarberjaís með hnetusmjörssósu


Flottur og djúsí diskur

 diskur

það er það sem mann dreymir um daglega. A.m.k mig. Góða nærandi máltíð sem er hryllilega bragðgóð en þarf samt ekki að sitja á vinstra lærinu ævilangt eins og alltof margar af mínum máltíðum gera.

Ég þurfti óvænt að taka næturvakt næstu nótt svo að þegar þetta er ritað um hálf ellefu, hef ég sofið af mér kvöldmatinn en það kemur ekki að sök. Minn kvöldverður er bara núna!

Hann samanstendur af súpukjöti sem ég setti inn í ofninn klukkan fjögur í dag, á hundrað og fimmtíu gráðu hita og svo var það tekið úr ofninum á milli sjö og átta. Fitan runnin af og það litla sem eftir var orðið að djúsí skorpu. Súpukjötspokinn kostar bara 2000 kall og dugar í tvær máltíðir og ykkur að segja finnst mér það miiiiiklu betra en td. læri sem er magurt og oft svolítið þurrt næsta dag ef maður vill hita upp. En þar sem mér finnst kalt kjöt sko ekki verra en heitt þá ákvað ég bara að gera mér heitar franskar.

Já, ég sagði franskar. En þetta eru ekki alveg þessar hefðbundnu heldur eru þessar úr sellerýrót, sem er eitt af mínu eftirlætisgrænmeti.

Sellerýrót er oftast til í Bónus og lítur út eins og virkilega gömul og vansköpuð rófa. En undir niðri er hún dásamleg með æðislegum kryddkeim og hentar til margra góðra uppskrifta.´

Ég tek sellerýrót og afhýði hana sem er eiginlega mesta mojið við þetta. Ræturnar sem eru neðaná eru oft kræklóttar og leiðinlegar, og stundum þarf maður að skera sneið af botninum. Þegar búið er að afhýða rótina er hún skorin í þunnar sneiðar (ca 5-10 mm) og svo skorin þvert á sneiðarnar svo við séum með "franskar" í höndunum. Þeim er velt uppúr olíu eða bara settar á plötu og olíuspreyi spreyað undir og svo yfir þær, síðan er þetta saltað, kryddað með frönskukartöflukryddi eða hverju sem þið viljið, ég nota bara salt. Svo skutlum við þessu inn í 200 gráðu heitan ofn á blástur ef hann er til, annars bara undir og yfir hita.

franskar úr sellerýrót

Það dugði fyrir mig að fara í góða sturtu og klæða mig. Þegar ég kom fram voru frönskurnar mínar tilbúnar. Þá raðaði ég klettasalati, fjallaspínati, veislusalatsblöndu og síðan góðu rifrildi af fjallasteinselju á diskinn í sæmilegasta haug, hellti örlitlu af tahinidressingunni minni (sjá neðar á síðunni undir óhófsdagar hvað? )yfir salatið, svo kalt kjöt, svo franskar og að lokum 30 grömm af bearnaisesósu frá Íslandsnauti. Hún er æðisleg og ég nota hana mjög mikið sem "fituskammt."

Endilega prófið þessar bráðhollu frönsku "kartöflur" og segið mér hvernig til tókst. Mér finnst þær betri en venjulegar og er ég nú miiiikil frönskukona!

Mmmmm


Grænmeti er leiðinlegt.

Það sem háir manni gjarnan með grænmetið er að manni þykir það ekki nógu spennandi. Ég meina, maður á að borða mikið af grænmeti en hver verður saddur af spínati? Eða gulrótum?

Ekki ég!

Svo er það náttúrulega fólkið sem telur grænmeti ekki til annars en til að fóðra húsdýr á, svo að við fáum meira af kjöti. Hver á ekki einhvern að sem segir: gras er handa kindum og kúm, kjöt er fyrir menn! Og svo fylgir digurbarkalegur hlátur í kjöfarið. Joyful

Best er að blanda saman grænmeti og próteini, svona svipað og við gerum með blessaðar kartöflurnar sem forðuðu íslendingum frá horfelli hér í eina tíð. En sko, þó að kartöflurnar hafi bjargað lífi fólks, er ekki þar með sagt að það megi sleppa þeim í svosem eins og einni máltíð eða svo? Við Halli erum af kartöflukynslóðinni. Það voru kartöflur með ÖLLU. Meira að segja þó það væru hrísgrjón, voru líka kartöflur. Þær voru soðnar með, svona til "öryggis." Kartöflur eru svo mjölríkar/sterkjuríkar að þær hafa miklu líkara næringargildi og hrísgrjón eða pasta, heldur en grænmeti. Þannig að pasta eða hrísgrjón með kartöflum og kannski brauði líka, er heljar-heljarstór pakki af kolvetnum. Og það elskar púkinn í mér.

En ég er farin að sleppa kartöflum æ oftar og það tekur enginn eftir því. Jafnvel þó ég sé með mat sem maður er vanur að vera með kartöflur með. Td. steiktur fiskur. Hann er sko ekki síður góður með ofngrilluðu rótargrænmeti sem hefur verið drussað með olíu, sítrónubáti, salti, pipar og timjani. Þetta getur verið rófa, sæt kartafla, sellerýrót (þetta ljóta í grænmetisborðinu sem er eins og blanda af rófu og alrúninni úr Ísfólkssögunum. Maður bíður bara eftir því einu að ræturnar fálmi í mann og augu birtist á hrukkóttri húðinni!) gulrætur, laukur, sveppir... möguleikarnir eru óendanlegir. Þegar svona fylgir djúsí, steiktum fiski, saknar enginn kartaflanna. Ég lofa!

Mér finnst æðislegt þegar ég fæ góðar hugmyndir úr hráfæðisdeildinni. Ég hef prófað hráfæði og fannst það æðislegt. Og ég fer alltaf á Gló og fæ mér hráfæðsrétt dagsins í hádeginu þegar ég skrepp suður, a.m.k einu sinni eða tvisvar. Svo get ég borðað blóðuga steik að kveldi. Enginn sem segir að fjölbreytnin sé bönnuð, sko!

Kvöldverðurinn í kvöld er einnmitt innblásinn af hráfæðisstefnunni.

Ég ætla að hafa hinn sígilda rétt, hakk og pasta. Börnin og eiginmaðurinn fá sér pasta, ég hinsvegar ætla að fá mér kúrbítsspaghetti. Og það er svo gott að maður klárar það bara og gleymi því að maður fékk ekkert hveitipasta! Svo er þetta svo sannarlega nóg til að fylla grænmetisskammt dagsins (fimm á dag) og það í einni máltíð! Þetta er kryddað og safaríkt og hefur allt til að bera sem góð, heit máltíð þarf. Mmmmmmmmmmm....

Það sem þarf að eiga til að gera svona "spaghetti" er Julianne-skeri. (sjá mynd) Hann lítur út eins og flysjari en sker í raun í örþunna strimla. Ég fékk minn í Bjarnabúð í Bolungarvík, annars fæst þetta í helstu búsáhaldabúðum.

julienne kúrbítur

Hakkrétturinn er bara þessi hefðbundni.

Einn belgur af nautahakki (ca5-700 grömm)

Laukur

paprika

hvítlaukur

sellerý

Tómatpaste eða tómatpúrra

tómatar í dós

salt

pipar

chilli duft eða cyenna pipar

oregano

Steikið hakkið og takið það frá.

Notið fituna af hakkinu ef einhver er, annars olíu og setjið saxaðan lauk, ásamt sellerýinu fínsöxuðu, hvítlauknum (ég nota sko heilann!) og saxaðri papriku að eigin vali og mýkið grænmetið í olíunni. Ekki brúna það, bara mýkja vel. Svo er hakkinu hent yfir og tómatpastanu, kryddi og tómötum í dós líka. Ég reyndar á rosalega góðan járnpott sem ég nota alltaf til að sjóða svona rétti í sem er gott að láta malla lengi. Það gæti þurft svolítið vatn útí líka. Svo má þetta makka við lágan eld eins lengi og þolinmæðin leyfir. Mér finnst best að gefa því allavega hálftíma til að þetta verði almennileg kjötsósa.

En þessi uppskrift er bara mín. Ef þið eigið skothelda uppskrift af hakki, endilega notið hana áfram. Allir eiga sína eigin.

Nú er komið að kúrbítnum. Rétt áður en maður ætlar að borða þá er kúrbíturinn strimlaður niður í "spaghettilengjur" og munið að hafa hann við stofuhita. Ég geymi minn meira að segja á vel volgum stað í tvo tíma fyrir matinn, því ég vil ekki hafa hann ískaldann því þá verður hakkið mitt kalt og óspennandi!

hakk og

það er gott að strimla kúrbítinn ofan í sigti, strá ofurlitlu salti yfir og lofa honum að standa í smástund, þá lekur mesti vökvinn af honum í vaskinn. (nú, eða í skál ef þið viljið nota í bústið)

Svo bara má hella sósunni yfir og borða á sama hátt og spaghetti. Ekki er verra að rífa parmesan yfir eða annan ost.

Maður þarf ekkert salat með þessu frekar en maður vill því að þetta er jú hlaðið af grænmeti!

Grænmeti er SKEMMTILEGT! :D


Ferskt í þriðjudagshádeginu!

Ég bauð Höllu Signýju vinkonu minni í hádegismat og ákvað, þar sem hún er að aga mataræði sitt, að bjóða henni upp á vigtaða og mælda máltíð sem samt væri svo bragðgóð og dásamlega girnileg. Í gær bjó ég til matseðil fyrir daginn í dag, en það er eiginlega nauðsynlegt þegar ég ætla að leggja af svo ég liggi ekki bara í ísskápnum og endi á því að éta einhverja óhollustu.

En semsagt, Halla og ég borðuðum fráhaldsvænt rækusalat með kímbrauði.

rækjusalat

Og hér kemur uppskriftin af því, miðuð við einn. Svo má bara margfalda eða slumpa, fyrir þá sem eru ekkert að spá í magnið.

50 gr Icebergsalat, rifið niður á disk.

50 gr kirsuberjatómatar, skornir í bita eða sneiðar eða helminga og stráð yfir.

70 gr. agúrka, skorin í litla bita og dreift yfir.

40 gr rauð paprika skorin og dreift yfir.

30 gr blaðlaukur, saxaður og dreift yfir.

sko, pælingin er að þetta séu samtals 240 grömm grænmeti. Hvaða grænmeti það er, eða hver hlutföllin eru, skiptir engu máli. Þetta þurfa heldur alls ekkert að vera 240 gr. nema fyrir þá sem kjósa að vigta.

Næst voru það rækjurnar.

soðin egg og rækjur, samtals 110 grömm.

15 gr majónes

40 gr ab mjólk.

krydd eftir smekk. Ég notaði papriku, salt og pipar, sítrónupipar og smá af season all.

Þessu er blandað saman og síðan hellt yfir grænmetið.

ég saxaði smá steinselju og setti yfir líka. Það er svo smart og svo er hún svo holl :)

rækjuréttur

Kímbrauð:

30 gr hveitikím

1 tsk sesamfræ

1/4 tsk samt

1/2 tsk kúmenfræ

vatn

blandið öllu saman nema vatninu. Þegar það fer í þá notið það sparlega til að byrja með, þetta á bara að verða eins og þykkur grautur. Ekki hræra of lengi, þá kemur ´lýsisbragð´af kíminu vegna olíunnar sem er í því. Hveitikím fæst í bónus frá Sollu Himnesku og er víst með hollari fæðutegundum sem völ er á. Það er hentugt fyrir þá sem forðast sterkju því hægt er að gera úr því allskonar "brauð" og "kex."

Deginu er síðan smurt á olíuspreyjaðan bökunarpappír og sett inn í 180¨C heitann ofn og bakað í ca kortér- tuttugu og fimm mín. Fylgist vel með. Það er fátt jafn ógeðslegt og brennt kím!

Fyrir þá sem ekki eru að forðast hveiti, má að sjálfsögðu bera fram hrökkbrauð, ristað brauð eða hvítlauksbrauð með rækjusalatinu.

Það er auðvitað ekkert mál að rífa grænmetið og rækjusalatið ofan í skál með loki að kvöldi, geyma í ísskápnum yfir nótt og taka með í vinnuna til hádegisverðar.

Verði ykkur að góðu.

með kímbrauði


Nei, það gengur ekki.

Ég er búin að lesa allar uppskriftirnar 1000 í Gyðingabókinni og miðað við töluna sem var á vigtinni í gær, þá verð ég hreinlega að játa mig sigraða. Það er bara of mikið af hráefni sem ekki hentar kolvetnafíklinum "mér" í þessari bók. Pasta, Matzo, núðlur, kartöflur, hrísgrjón og kúskús er gríðarlega mikið notað og sykur er ofarlega á vinsældalistanum hjá þessum annars frábæra höfundi. Og ég hef þyngst síðan ég hætti á mínu græna fæði í haust. Ótæpilega.

Nú er ég aftur komin í agann og ég held það henti mér best. En ég ætla samt að halda áfram uppskriftabloggi og reyna að setja inn 365 uppskriftir, eftir sem áður á þessu ári, þær verða bara frá sjálfri mér. Og myndina fáið þið líka!

Í dag fékk ég mér yndislega sojapönnuköku í morgunverð með steiktum eplum og skyrsósu. Ég tók enga mynd af því reyndar enda mjög algengur morgunverður í agaða matseðlinum mínum. Ég borðaði morgunmat ótrúlega seint og því er næsta máltíð kvöldmaturinn með reyndar smá grænmetissnarli á milli mála.

Brauðsúpa

En uppskrift dagsins er réttur sem ég fæ þó ekki að njóta nema reyksins af. Hin rammíslenska (en þó danskættaða -þeir eiga jú sitt Ölbrauð, sem er um það bil það sama) rúgbrauðssúpa.

Brauðgrautur

Þannig er að í gærkvöld rak ég augun í rúgbrauðskubb sem var farinn að þorna ótæpilega og skammt í að hann færi að mygla. Svo ég muldi hann niður og lét í bleyti í nótt í vatni, rétt nægu til að fljóti yfir, ásamt einni sneið af heilhveitibrauði. Þetta fór í lítinn pott og stóð bara á hellunni. Áðan bætti ég hálfri dós af maltöli saman við og smá klípu af xylitolsykri (má alveg nota venjulegan!) örlitlum rifnum sítrónuberki, safa úr hálfri sítrónu og smá meira vatni. Þetta sauð ég svo við hægan eld þangað til samfelldur grautur varð úr. Svo bætti ég nokkrum rúsínum og sveskjum útí og þetta verður svo snætt með lausþeyttum rjóma. Afar hægðabætandi og nærandi máltíð. Verður þó bara eftirréttur að sinni þar sem jólahangikétið á að borðast í kvöld.

Ég vona að mér fyrirgefist að hafa gefist upp á Gyðingnum, línurnar eru mér bara allt! Halo Eða þar um bil.......


Óhófsdagar á enda hvað?

Ég ætlaði svoleiðis að taka mér tak og rífa mig upp á rassgatinu strax eftir jólin. Það er ekki til mikils að skafa af sér tíu kíló til þess eins að hlaða þeim á sig aftur með ógnarhraða! En það er nú eiginlega þannig að jólaspikið er að verða (verða! Hvern er ég að blekkja?) veruleiki og dagurinn í dag var sko ekki undantekning á óhófinu!

Ég var að vinna til miðnættis í gærkvöld og var andvaka. Klukkan þrjú var tilvalið að kíkja á kökuna sem var frammi, þessa með hunangskreminu og skola niður tveimur dúnmjúkum og dásamlegum sneiðum með jafnmörgum nýmjólkurglösum. Aftur upp í rúm. Hjartslátturinn fór upp í 150 slög í algjörri legu, sennilega hafa a.m.k 40 þeirra per.mín. verið vond samviska! Restin líkaminn í angist yfir þessu áti þegar hann átti að vera sofandi! Aumingja kroppurinn minn.

Ég mætti í vinnu klukkan átta í morgun, grútsyfjuð eftir tveggja tíma svefn og skellti mér flatri í konfektskálarnar með líter af kaffi svona til "að halda dampi." Ég hefði sennilega getað knúið lítið iðjuver með eldsneytinu sem ég var búin að setja ofan í mig bara fyrir hádegi sko!

Saltaðar kinnar í hádeginu og.... jú. MÖRFLOT með.

Síðan átti hún Gunna Sveina 93 ára afmæli svo það voru auðvitað pönnukökur í kaffinu. Bæði með rjóma og upprúllaðar með sykri. Ekki halda að ég hafi verið svikin um minn skammt! Ég skreið heim um fjögurleytið, henti mér í hálftíma og hafði mig svo til. Eiginmaðurinn bauð mér og litlu drengjunum út að borða og svo á Hobbitann. Bjöggi tók kvöldvaktina eftir að ég skilaði morgunvaktinni svo hann komst ekki með.

Ég fékk mér ógurlegan hamborgara og núna gæti ég eiginlega rist mig á hol! Það er verst að mér liði örugglega bara betur!

Hvern djöfulinn ætti ég nú að elda úr þessari blessuðu Kosherbók?

Júbb, ég kom heim úr bíóinu (þar sem ég át lakkríspoka) og henti mér í sófann og fór að lesa uppskriftir. Áskorininni þýðir ekki að undanskorast!

Ég hygg á grænmetisát mikið næstu daga svo að viðeigandi ídýfa/dressing er við hæfi. Ætlar maður ekki annars alltaf að borða meira grænmeti á morgun?

Ég valdi Tahini Dip, eða Tahini dýfu.

Hún er einföld og helsti gallinn er að það er heill bolli af tahini í henni svo að þetta er fyrir heilann her! En þar sem ég er neyslugrönn Blush þá ákvað ég að minnka uppskriftina. Og hún er ótrúlega góð! Ég hlakka eiginlega til að fá lystina aftur og fá mér grammó með þessari hollu og góðu ídýfu.

Tahini Ídýfa:

2 kúfaðar msk Tahini (ég notaði frá Sollu)

2 msk vatn

örlítið salt á hnífsoddi

1-2 msk sítrónusafi (eða bara eins og ég gerði, kreisti hálfa sítrónu útí. En ég er sítrónumanneskja. Kannski finnst einhverjum það svo súrt að munnurinn hverfur ofan í kok...)

2 hvítlauksgeirar, pressaðir. (og alls ekki sleppa honum, þið fáið ekkert kvef ef þið borðið hann!)

nokkur korn af cummin (má sleppa en mér finnst það gott)

Cayenna pipar eða paprikuduft

extra virgin olífuolía ef vill- ekki nauðsynlegt en hún er góð... og holl.

Steinselja, söxuð og magnið fer eftir smekk.

Öllu nema steinseljunni er blandað saman og sett í krukku. Geymist nokkra daga í ísskápnum og er hægt að grípa til þegar maður nær í sellerístilkana, gulræturnar og allt það sem maður ætlar að borða í staðinn fyrir súkkulaðið...

Steinseljunni er síðan bara drussað yfir þegar nota á ídýfuna. Ef þið eigið ekki steinselju, farið ekki að gráta. Hún bætir alltaf bragð og útlit en hún er ekki ómissandi.

Og hér er myndin af þessari hollustu sem smakkast svona líka bara vel! Þessi fer í reglulega "to do" rúntinn!

tahiniídýfa


og eitthvað fyrir börnin. (og kannski móður þeirra...)

Drengirnir voru ekki hrifnir af kálréttinum sem mér finns alltaf betri og betri. Þeir voru ekkert sérlega hrifnir af núðlurétti gærdagsins og þar sem ég fer að vinna klukkan fjögur í dag, sé ég ekki um kvöldverðinn. Því verður bökuð kaka!

Aftur er eitt aðalinnihaldsefnið eplasósa úr krukku og þetta er sáralík uppskrift þeirri sem ég gerði á nýjársdag. Samt ekki alveg eins og á þessari er hunangs-smjörkrem. Það GETUR bara ekki verið slæmt.

Þessi kaka heitir í bókinni góðu:

Cocoa Applesauce Cake with Honey Frosting.

Höfundur segir hana "twist" á eplasósuköku móður sinnar, sem er líklega sú sem ég bakaði á nýjársdag. Þetta er hellings deig, dugar eflaust í tvo botna en ég setti þetta bara í ofnskúffu og það dugði vel í hana.

3 bollar hveiti

2/3 bolli cakóduft

1 msk kanill

2 tsk matarsódi

1 bolli olía (þegar hér var komið átti ég ekki næga olíu, lofaði Guð fyrir það og setti ósvikið Íslenskt smjör í staðinn!

2 bollar sykur-má eflaust minnka hann og auka í staðinn eplasósuna

2 stór egg

2 bollar eplasósa (barnamatskrukkur í stærri kantinum eru fínar. Það er um það bil bolli í hverri þeirra. Þetta eru náttúrulega amerísk mál.)

1/2 bolli saxaðar hnetur sem börnin sárbændu mig um að sleppa og ég gerði það. Næst geri ég með hnetum til að hafa samanburð. Enda eru pecanhnetur í uppskrifitnni og þær eru æði!

Hitið ofninn í 170°C.

Sigtið þurrefnin saman í skál nema sykurinn, sykur telst alltaf með blautefnunum enda bráðnar hann. Þeytið olíu/smjör og sykur í hrærivél og látið eggin eitt af öðru saman við og sleikið niður með brúnunum (MEÐ SLEIKJU-BURT MEÐ TUNGUNA!) á milli.

Þegar þetta er orðið flöffý og hvítt á lit, þá er farið að blanda þurrefnunum og eplasósunni útí í smá skömmtum. Munið að hér má ekki nota þeytarann, notið Ká-ið á hrærivélinni eða sleif. Þeytt hveiti verður ólseigt og bakstur á ekki að verða seigur! Það var mér kennt af húsmæðraskólakennaranum mínum!

blandið þessu vel saman og setjið í formið sem þið óskið helst. Muna að smyrja!

Á þessa köku fer síðan krem sem ég held að hljómi sem englasöngur í eyrum þeirra sem elska hunang, eins og ég. Þar sem eina bragðefnið í því er hunang, endilega veljið gott hunang sem hefur milt og gott bragð.

Honey Buttercream- Hunangssmjörkrem

1 bolli SMJÖR!

2 stór egg

1/2 bolli hunang.

Hafið smjörið við stofuhita, samt ekki lekandi

Þeytið eggin sman í stórri skál.  Látið hunangið í lítinn pott og látið krauma síðan skal láta það drjúpa rólega ofan í smjör-eggjahræruna og á meðan er þeytt á fullu blasti! Þeytið áfram í fimm mínútur þangað til þetta er orðið kalt og þykkt.

Ok, það heppnaðist EKKI. Kremið skildi sig því ég varð svo spennt að klára kökuna fyrir vinnutíma að ég fór að setja skálina í ískalt vatn af og til svo að það myndi flyta fyrir prósessnum. DAMN!

En, ofan á fór það nú samt og það var GUÐDÓMLEGT! Þessi Kaka er biti af Himaríki. Og allir elska hana. Hún er mjúk, safarík, kanillinn gefur svo óvænta og góða fyllingu, smjörið hefur pottþétt hjálpað ;) og hún er vel sæt. Má eins og ég sagði áðan draga aðeins úr sykrinum hugsa ég. Og kremið? Eigum við að tala um það! það var ljótt, en svo gott að ég væri til í að drekka það! Hunang. Hver elskar ekki hunang!

Gerðu hana um helgina! GO GO GO!

kaka með hunangsfrosting


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband