Færsluflokkur: Bloggar

Hver stjórnar ofsóknunum?

Heitt og gott veður. Samt ekki kæfandi hiti. Nema í vinnunni jú. Þar er kæfandi hiti. En ég hef séð fyrir því. Fór í langa kvöldgöngu með Dóru Explóru í gærkvöld. Tíndum jurtir og börðumst við kríur. Svo í morgun var ég óvinnufær. Gat ómögulega stigið í vinstri fótinn. Sem er ekki gott í minni vinnu.....

Fór á Heilsugæsluna. Hitti téða Dóru sem Explóraði mig og rak mig svo út með hækjur, vafning og lyfseðil. Ég stakk uppá Mjaðurt í staðin fyrir stílana? -Endilega. Svaraði hún. Þú munt þurfa á kraftaverki að halda ef þú ætlar að geta stigið í lappirnar á morgun. (ég var alltsvo búnað heimta að vera "batnað" á morgun.) Svo að Mjaðurtin er tekin í bland við stílana. Sem eru ekki gleyptir. Svo að það sé á hreinu! Shocking

Þetta líkist orðið ofsóknum. Eitt rekur annað. Hver stjórnar þessu?

Ps) það eina sem sást á fætinum á mér var lítið bit eftir ómerkilega pöddu. En ég hef þá kenningu að það hljóti að hafa verið eiturslanga!

 


Pest er þetta af þér, kona!

hugsaði ég í gærkvöld en sagði ekkert upphátt við vinkonu mína Höllu Signýju sem sat á sófa hjá mér í stofunni.

Hún hafði farið í hlaupahópinn, ekki ég. Ég sat í stofunni undir teppi og sárvorkenndi mér fyrir vesöldina og heilsuleysið sem hrjáði mig og í kringum mig trítluðu kanínuhjónin, BG og Ingibjörg. Ég hafði fyrr um kvöldið beðið strákana að bjarga þeim úr garðinum. það var úrhellisdemba og tvær angórukanínur safna ansi hreint miklu vatni í feldinn sinn. Þær litu út eins og tveir illa hraktir púðluhundar af sundi dregnar, og fengu að skottast í stofunni til að þorna og hitna aðeins.  Æi, hvað með það þó þær kúki smá í hornin, þetta er alveg lyktarlaust og grjótharðar kúlur sem auðveldlega má ryksuga. Halla Signý ákvað að líta á aumingjann og fá tesopa og var búnað sitja stutta stund þegar ólyktin af henni ætlaði mig lifandi að drepa! Ég spurði hana auðvitað hvort hún hefði ekki orðið rennandi í hlaupunum og þá sagði hún fötin sín hafa verið svo hundblaut að hún hafi skipt um allt saman þegar heim var komið. "Yeah-right!" hugsaði ég! Svitalyktin var ólýsanleg!

Halla Signý fer að spá í kanínurnar, sagðist alvön að halda slíkar skepnur, kvartaði yfir því að lyktin af þeim væri það versta. -"þér ferst," hugsaði ég náttúrulega illgirnislega, en sagði áfram ekki neitt. Við ræddum þetta dágóða stund og ég tek skyndilega eftir því að hún er komið með nefið á kaf oní hálsmálið á flíspeysunni. "Er pest af kanínunum?" spurði ég undrandi? -JÁ!!! Stynur hún fegin! Ég þorði ekki að orða það við þig en ég er að kafna! "Ég líka!" hrópaði ég! Ég hélt að þetta væri svitalykt af þér!

Akkúrat undir sófanum sem Halla greyið sat á var pissupollur sem lyktaði eins og sambland af íþróttaskó og íþróttaskyrtu, óþvegnu og vel notuðu. Viðbjóðslegt. Karlinn var víst ábyrgur fyrir lyktinni, enda ógeldur og merkir greinilega sín pláss vel! Eftir smá skúringar var ræflunum fleygt niðrí skúr og látnar dúsa þar í sinni kanínufýlu!

 

 


Kúkur í fjörunni....

Ég var að vinna í gærmorgun og dreif svo nesti og fjölskyldu í bílinn og við brunuðum í Skálavíkina. Veðrið var eins og best verður á kosið og við rifum okkur úr skóm og sokkum á sandinum og lékum okkur við árósinn. Hundarnir, þ.e. hundurinn minn og raðgrðeiðslurottan hennar mömmu, léku sér í sandinum alsæl, þá sérstaklega raðgreiðslurottan sem fer sjaldan út fyrir garðinn. Mamma gamla sat á torfhnausi og vakt athygli nærstaddra á hvað hann Hrói litli væri að njóta sín. Hún var himinlifandi yfir því hvað hann naut sín vel, veltandi sér uppúr grænu grasinu við árósinn og hlaupandi um.

Við dáðumst að æðarkollunum með ungana sína, börnunum sem óðu út í sjó og á, sólinni sem bakaði okkur, margbreyttri, íslenskri jurtaflórunni og lífinu. Björgúlfur kvartaði sáran yfir skítafýlunni sem óneitanlega magnaðist töluvert þegar þarna var komið við sögu og ég hélt langa ræðu yfir hausamótunum á unglingnum um það að náttúran þyrfti sjálf að melta sinn úrgang, og fræddi hann á rotnun þarans í fjörunni honum til lítillar skemmtunnar. Allt í einu sagði hann; mamma, það er í alvörunni SKÍTALYKT hérna! Og um það var ekki að villast.

Lyktin var eiginlega óbærileg. Og þá meina ég í alvörunni óbærileg! Og þegar hundsrottan Hrói þeyttist framhjá okkur, frekar nærri, þá áttuðum við okkur á því hvaðan lyktin kom. Hann var handsamaður og færður til eigandans sem var skipað að þrífa kvikindið uppúr ánni! Skepnan var löðrandi í drullu. Við unglingurinn fórum að leita að upptökum fnyksins, héldum kannski að rotnandi þari væri skýringin eða einhver skítaklessa. Og komumst einmitt að raun um að það var skítaklessa. MANNAKSKÍTSKLESSA! Einhver hafði gert sér lítið fyrir og drullað svona líka myndarlega á árbakkann! Að því sögðu að mér hefði nú þótt artarlegt að þeim sem hrúguna átti að ýta henni frammaf árbakkanum, hótaði ég því að ekki einasta að rottan fengi að labba til Bolungarvíkur, heldur líka mamma. Hún var jú búin að vera að þvo skepnunni við lítinn árangur og var jafn útbíuð og hann!

Það varð þó úr að ákveðið var að leita á náðir húsbóndans í Minni-Hlíð, Hafþórs pípara sem blessurnarlega var staddur þarna í bústað sínum, og fá hjá honum heitt vatn og sápu. Ég er nú ekki klígjugjörn, enda sjúkraliðanemi. En þegar ég var farin að tína maísbaunir út feldinum á honum Hróa, langaði mig langmest að henda honum undir sláttutraktorinn hans Bærings bróður Hafþórs, sem var að slá túnið í Minni Hlíð.

Að endingu var hægt að skúra það mesta af hundinum og mömmu, við fórum og borðuðum nestið af hjartans lyst uppí lítilli laut framar í dalnum, fórum svo og tíndum okkur blóðberg og enduðum svo í Tjöruhúsinu á Ísafirði í smjörsteiktum kola. Svo fór ég aftur að vinna.

Eftir á að hyggja finnst mér þetta  skítaatvik fyndið. Drepfyndið!


Ylfusultuhlé.

Í fyrsta skipti,  í "ég veit ekki hvað mörg ár," held ég að ég nenni ekki að vera með bás á markaðsdaginn í Bolungarvík þetta árið. Þetta er óneitanlega ferlega skemmtilegt en óskaplega mikil vinna, hráefnið hefur hækkað gífurlega í verið og nóg var röflað í mér í fyrra yfir því að ég seldi sultukrukkuna 200 krónum dýrari en í Bónus! Heimilið hefur verið undirlagt í sykri, klístri og límmiðum vikuna fyrir markaðsdaginn undanfarin ár og ég hef sjálf haft frekar lítin tíma til að taka þátt í þessari skemmtilegu helgi. Núna er kannski bara kjörið tækifæri til þess. Nú, eða bara hreinlega að skreppa úr bænum? Fara með elskhuganum og máta nýja tjaldvagninn.... habba habba.... :)

Talandi um að fara úr bænum, nú þarf ég að fara að fá að vita um allar gestakomur í mín hús í sumar. Hvenær fólk ætlar að koma og hversu lengi það hyggst dvelja. Ekki af því að það séu ekki allir velkomnir?? Hreint ekki! Heldur afþví að við ætlum í ferðalag og þurfum að fara að skipuleggja það. Og eins og glöggir hafa tekið eftir, þá er júní að verða búinn!! Svo gott fólk, meldið ykkur. Ekki seinna en strax!

Ég er að hugsa um að fara út að tína blóðberg í kvöldkyrrðinni.....


Nálar fyrir feita.

 

Það er laugardagur og yfir heimilinu hvílir ótrúleg ró. Ég sit, nýkomin heim af tónleikum með Samkór Svarfdæla með mömmu og Björgúlfi, og drekk te úr ferskri mjaðurt með fíflablómasýrópi.

 Ástæðan fyrir því hversu rólegt er, er sú að litlu drengirnir eru á Blönduósi með pabba sínum. Þar keppir spiderljónið á fótboltamóti og skilst mér að hans lið hafi tapað en „stíllinn" verið flottur! :)

Ég ætlaði sjálf á Blönduós en er ekki alveg nógu góð til heilsunnar þessa dagana svo að ég ákvað að vera heima með stóra drengnum mínum, mömmu, hundunum og kanínunum BG og Ingibjörgu, hvíla mig og hafa það náðugt. Sem ég hef gert. Ég þurfti ekki einu sinni að elda í gærkvöldi þar sem Dóra Splóra og eiginmaðurinn hennar; Jarlinn af Lundi, buðu okkur yfir í grill.

Svo fórum við, ég, mamma og  Björgúlfur minn heim þar sem sú gamla fór að lesa en ég og unglingurinn gláptum á einhverja unglingamynd sem snérist aðallega um brjóst, rassa, misheppnað kynlíf og eitthvað ámóta fyndið. Unglingurinn skemmti sér ægilega vel en móðir hans hafði eiginlega of miklar áhyggjur af öllu þessu unglingakynlífi til að geta skemmt sér.

Ég ætla að ljúka þessum lítt spennandi laugardagsskrifum með því að segja ykkur dulitla sögu úr Hraunbergshúsi frá því í gærmorgun. A.m.k finnst mér hún alveg geysilega fyndin!

Þannig er að ég, eins og svo margir aðrir, tek ekki upp ákveðið B-vitamín og þarf því alltaf að fá því sprautað í vöðva með reglulegu millibili. Þar sem ég lá í rúminu í gær með aðkenningu að andláti, kíkti héraðslæknirinn, Dóra Splóra við hjá mér með einhver lyf og hafði meðferðis þessa reglulegu sprautu mína. Þetta er rauðbleikt sýróp, hnausþykkt og þarf alveg þokkalegustu nál til að koma þessu í mann. Og því er ég vön.

Ég fæ þetta venjulega bara í vinnunni þar sem hjúkkurnar skutla þessu í mig í rapporti eða kaffitímanum. En nú varð mér örlítið bylt við. Ég hafði aldrei fyrr séð svona langa nál! Og þessari nál átti að stinga á kaf í rassinn mér!

Syringe+with+Spinal+Needle

Synir mínir sem eru nú ekkert hrifnir af því að vera sprautaðir sjálfir, þustu uppí rúm til að hafa nú ánægju af því að sjá móður sína pínda og gekk sá yngsti svo langt að reyna sitt besta til að hrista rúmið rækilega á meðan þykka, bleika leðjan var að rembast við að komast í gegnum nálina. Ég fór eitthvað að röfla í drengjunum og reyna að fá þá til að vera kyrrir með litlum árangri og til að skeyta skapi mínu á einhverjum (mig logsveið jú,) hreytti ég í lækninn að ég hefði nú aldrei verið sprautuð með svona ægilega langri nál niðrá Skýli!

 Hún var fljót til svars hún Dóra mín og sagði á sinn hægláta hátt; „það er ekki von. Það eru ekki til svona langar nálar þar. Þar er nefnilega enginn jafn FEITUR og þú!"

Þar fékk ég það. Óþvegið.


Rassskellt af fjalli.

Í gær var yndislegur frídagur. Engin vinna, -nema náttúrulega sú sem fylgir stóru heimili, og veðrið dásamlegt. Auðvitað fer maður í fjallgöngu! Gengur uppí Ufsir, (eða Uppsir, eins og við Norðlendingar köllum þær) og  skrifar nafnið sitt í gestabókina.

Ég leit uppí hlíðar Traðarhyrnunnar um hádegisbilið í gær og ákvað að nú væri komið að því. Nú skyldi nafn mitt ritað á síður gestabókarinnar uppi við "Stöng." Ég bar mig mannalega, hringdi í Dóru vinkonu og bauð henni með en hún komst ekki. Ég tilkynnti heimilisfólkinu að ég yrði komin heim eftir þrjú kortér. Og gekk af stað í leggings, pilsi og bol. Það eina gáfulega voru gönguskórnir. Mér sóttist ferðin vel. Var bara þokkalega snögg að komast uppí miðja hlíð. En þá fór líka að verða ansi bratt. Nú,nú. Þá er ekkert annað en að skríða bara.

Ég tíndi ókjör af jurtum og tróð í vasana. Blóðbergi, lyfjagrasi og sortulyngi og bölvaði því að hafa ekki haft með mér pokaskjatta. Allt í einu fann ég að ég var með frekar laust land undir fótum. Ekki alveg sólid gránd, eins og þeir segja. Ég fór að líta í kringum mig og mundi þá um leið af hverju ég hef aldrei verið gefin fyrir hæð! Ég er sjúklega lofthrædd. Ég skorðaði mig í einhverju grjóti, tók myndir með símanum og sendi í smsi, allnokkuð ánægð með mig. Og áfram var skriðið. Nú fyrst fór ég að finna vel fyrir brattanum. Ég var farin að skríða á fjórum fótum og toga mig upp á sinutægjum og lyngi! Upp mjakaðist ég meter fyrir meter. Púff, ég var orðin geeeðveikt sveitt! Lungun í mér bókstaflega öskruðu og formæltu 20 ára stífum sígarettureykingum. Allskonar óþekkt óhljóð bárust úr öndunarfærunum, urg og surg, ýl og píp. En upp skyldi haldið! Maður lætur nú ekki smávegis mæði halda sér frá frækilegum sigrum og útsýni úr Ufsum!

Alltí einu hringdi síminn. Á símanum stóð "vaktlæknir." Ég svaraði; Halló! -og gat ómögulega leynt mæðinni. Dóra spurði á sinn hógværa hátt; ertu komin svona hátt? -ég formælti því í huganum að líklega sæist til mín úr hverju húsi í öllum bænum á meðan ég reyndi að líma mig fasta við lóðrétta jörðina. -Já já, svaraði ég. -Ertu örugglega á réttri leið? spyr hún. Ég lít í kringum mig og sé að fyrir ofan mig eru klettar, til hliðar er skriða og á hina hliðina er svo bratt að ég þyrfti að vera spædermann til að eiga séns. -Dóra! Viltu koma og hjálpa mér!! Ég þori ekki niður! Það er svo bratt! grenjaði ég í tólið og fann hvernig fæturnir á mér skulfu eftir áreynsluna við að hafa mig upp. -Þú kemst þetta alveg í rólegheitum, -svarar hún en ákveður nú samt að renna uppeftir og fylgjast með mér rúlla niður. - Sérðu stöngina einhversstaðar? Er ég ekkert að nálgast hana? spyr ég. -Nei! Svo var ekki. Einhvern vegin hafði mér tekist að koma mér í þá stöðu að í stað þess að fara upp í Ufsir hékk ég nú um það bil á miðju fjallinu!

Smátt og smátt tókst mér að fóta mig cm, fyrir cm, neðar og neðar, bölvandi og ragnandi, heitandi sjálfri mér því að fara "þvílíkt aldrei framar bara!" Með rassinn á pilsinu nánast af, skreið ég alla leið niður. Ég tilkynnti Dóru að ég hefði mátt þekkja mín takmörk. Dvergar ættu heima á láglendi!

Ég stefni ótrauð á aðra tilraun, enda er mesti skjálftinn úr mér og hræðslan að miklu leyti gleymd.


Fjölgun í fjölskyldunni.

Það er ekki einleikið hvað mér tekst alltaf að hlaða í kringum mig af mannfólki og skepnum. Á heimilinu eru nú þegar átta sálir, sex mennskar og tvær ..hundskar? Getur maður sagt hundskar?  Allavega, við hjónin, drengirnir þrír og svo auðvitað mamma. Hundspottin Urta og Hrói og nú síðast bættust við tvær angórukanínur sem eru af lionhead kyni. Þetta eru kall og kelling sem hafa hlotið nöfnin BG og Ingibjörg. Þær eiga heima í bílskúrnum og ég fékk stórt búr undir þær í gær sem ég ætlaði að nota undir þær saman. Ingibjörg er sumsé aðeins tveggja mánaða en BG er sjö mánaða og hélt ég því að hann færi nú ekki að eiga við kerlu strax en meiningin er að láta gelda hann strax eftir helgi. Nei, það þurfti nú heldur betur að bjarga blessuðum unganum því að hann svoleiðis riðlaðist á henni og hún náði ekki að anda, hvað þá meira. Börnin urðu miður sín og héldu að hann væri að drepa hana! ( skyndilega kann ég ekki við að nota nöfnin þeirra.... alltsvo kanínanna!)

Forsaga þessa kanínumáls er sú að ég "bjargaði" kanínu sem þurfti nýtt heimili. Ég skráði mig á dýrahjálp.org og þá er haft samband við mig ef dýr eru heimilislaus. það eru nú oftast kettir sem ég get ekki tekið vegna ofnæmis Björgúlfs en svo stundum líka kanínur og þessháttar. Ég ákvað að taka þennan hnoðra að mér og fékk hann sendan með flugi í fyrradag. Mig vantaði svo auðvitað búr og hafði samband við konu á Ísafirði sem gat selt mér búr og eina kanínustelpu með. Þetta er kona sem á kanínur í tugavís og elskar þær útaf lífinu. Ég spurði hana hvar maður fengi svona holdakanínur, eða svona alikanínur sem hægt væri að rækta og éta svo bara en ég uppskar augnaráð sem sagði mér að ég væri ekki að spyrja rétta konu!

Helgin er annars búnað vera voðalega fín, þrátt fyrir að ég hafi verið að vinna. Í gær drifum við okkur í bíltúr, tróðum mömmu, hundunum og börnunum í bílinn og renndum í Súðavík og lékum okkur í Raggagarði í dýrindis veðri. Vorum með kaffi og meððí með okkur og Berglind, vonda stjúpan hans Björgúlfs kom með okkur með sín afkvæmi. Svo enduðum öll í murikkaveislu hjá Ellu og Einari Björgúlfsömmu og afa. Palli, pabbi Björgúlfs bættist í hópinn og fleiri ættingjar og við átum á okkur gat! Alla frænka Bjúlfs kom með heimaunninn rjóma úr sveitinni og ís sem hún hafði lagað úr þannig rjóma og heimaorpnum eggjum! Ég get svarið það að rjóminn hann hneig ekki! Hann var þykkri en málning og maður bara hellti vel útá ísinn! Þvílíkt himnaríki! Mig langar í belju! Og hænur! Hvað ætli nágrannarnir segðu þá?

Við enduðum svo hérna heima, Palli, Berglind, börnin, Ég og Halli, Mamma, BG og Ingibjörg og hundarnir tveir, fengum okkur te og röfluðum fram á kvöld. Æðislegur dagur!

Svo er það Leikhópurinn Lotta sem kemur til Ísafjarðar í kvöld eða á morgun og er með sýningar á barnaleikriti á Ísafirði annað kvöld klukkan sex og svo hérna í víkinni á þriðjudag klukkan sex. Þetta eru aðallega húsvíkingar, hugleikarar og "ljótir hálfvitar" og ég ætla að sjóða handa þeim slátur og gefa þeim að éta.  Það verður gaman að sjá sýnignuna þeirra og gaman að hitta þau öll!´Nú, og svo er Dóra mín Splóra komin heim úr helgarferðinni sinni til Grundarfjarðar svo að ég get þreifað aðeins á mjúku bingóinu í kvöld!!! ;-þ

Lífið er gott! -og þetta blogg er langt!


Ég er í fýlu

Þrátt fyrir að "tognunin" hafi nú bara reynst einhver minniháttar meiðsli hjá Spiderljóninu og að lungnabólgusjúklingurinn sé óðum að hressast og harðneiti að vera í lopapeysu útivið, garðurinn sé orðinn fínn og veðrið orðið gott og allt það..... þá er ég í fýlu.

Ég er í fýlu af því að Dóra Splóra vinkona mín þarf að flytja burtu í ágúst. Það er með ólíkindum að eftir allt röflið og rausið um að snúa landsbyggðaflóttanum við, það þurfi að halda menntafólki innan fjórðungsins og allt það, færi læknir með sérmenntun í heimilislækningum ekki vinnu við sitt hæfi hérna. Og tökum eftir því, að hún actually vill búa hérna! Líður  bara vel með börnin í litla bænum og finnst gott að vera laus úr borgarstreitunni. Enda alin upp á Auðkúlu í Arnarfirði og því Vestfirðingur í nef og nögl!

Ég er auðvitað eins og margoft hefur komið fram, bara einföld húsmóðir og hef takmarkað vit á flóknum hlutum. Enda reyni ég eftir fremsta megni að þreyta ekki mitt litla sæta höfuð á því að grufla í því sem t.d. karlmenn eru mér færari í. Ég samt vissi ekki betur en að einn læknir hafi verið að segja upp á Heilbrigðisstofnuninni á Ísafirði af því að honum líkaði ekki það sem honum var boðið. Því spyr ég; var bara verið að bjóða honum það, prívat og persónulega? Átti ekkert að fá einhvern annan í djobbið ef hann segði nei?  Æi, eins og ég segi.. það er svo margt sem minn takmarkaði skilningur nær hreinlega ekki utan um. Enda einföld kona. Afsakið mig. Ef mig skyldi yfirhöfuð kalla!

Auðvitað þætti mér óskaplega gott að vita af heimilislækni á Ísafirði. Held að það sé enginn heimilislæknir þar. Ég er jú ötull þiggjandi þjónustunnar sem þar er í boði með mína seinheppnu fjölskyldu og svo vil ég bara hafa hana Dóru mína á svæðinu. Er það eitthvað einkennilegt? Ég nenni ekki að missa hana í burtu svona rétt þegar ég er búin að finna hana eftir einmannalegu árin án Valrúnar. Hún er mjúk og góð með dásamlega þétta og holduga handleggi sem ég elska að strjúka.... Alveg eins og Valla mín! Og hún er unaðslegur félagsskapur á gönguferðum okkar Urtu, í sundlauginni og ég tala nú ekki um þegar ég er að læra fyrir próf! Ég meina... hvers á ég að gjalda að missa hana svona frá mér? Dæs og snökkt... Ég myndi ráða hana sem hirðlækni Familien av Ringsted, á staðnum ef ég hefði einhvern aðgang að Ringsted auðæfunum!

jæja, koma tímar koma ráð, segir máltækið..... Það hlýtur eitthvað að reka á fjörurnar, ég bíð bara átekta. (sorrý elsku Dóra að ég skuli skrifa svona lofræðu um handleggina þína, ég veit að þú sérð ekki sömu fegurðina í þeim og dýrð, og ég geri....)

 


Heilsuhælið í Hraunbergi.

Sjaldan er ein báran stök. Og gæfan ríður sjaldnast við einteyming... ég ætlaði að slá um mig með enn einum frasa.. ég bara man hann ekki! W00t Ég þjáist af minnisskorti. Hlýt að hafa smitast af honum.

En þar sem ég veit að heilbrigðisstarfsfólk, bæði í Bolungarvík sem og á Sjúkrahúsinu á Ísafirði bíður alltaf í ofvæni eftir bloggi eftir að ég hef heimsótt aðra hvora stofnunina, þá kemur hér ítarleg færsla um nýjustu sjúkdómsgreininguna. Dr. Dóra splóra fékk miðjubarnið í hausinn í morgun. Spiderljónið var úti að leika sér í allan gærdag og kvartaði um verki í ökkla við heimkomu. Þar sem yngri bróðir hans, Heimsveldið, er að jafna sig eftir afar spennandi (klínískt séð) lungnabólgu, var nú blásið á þetta væl í drengnum. Í gærkvöld var hann farinn að skríða og var rekinn í rúmið. Nú, hann stóð ekki upp í morgun og var borinn til læknis. Hann er tognaður á  hægri ökkla og sennilega á báðum þar sem smáverkur í vinstra fæti hefur ágerst. Hann er því borinn um allt hús af aldraðri móður sinni sem á frí um helgina og ætlaði að skreppa með fjölskylduna í útilegu og gista í nýja/gamla tjaldvagninum. En það eru gömul plön. Nýju plönin eru náttúrulega bara að halda áfram að vera Florence Nightingale og nýta þetta sjúkraliðanám!

Elsti sonurinn kennir sér einskis meins. Ennþá. En hann fær einkunnirnar í dag og þá sjáum við til.....

Það kemur sér nú aldeilis vel að hafa aðgang að svona frábæru  heilbrigðisstarfsfólki og svona framúrskarandi læknisþjónustu, þegar börnin veikjast. W00t 

(man ekki eftir að hafa notað  broskalla áður í bloggi...)


Lungnabólgan.

Litla rófan, Baldur, varð voðalega lasinn í fyrrinótt. Fékk alveg svakaleg verkjaköst og mallaði við hægan hita. Nærri suðupunkti. Eftir tvær heimsóknir næturlæknis var drengurinn sendur á sjúkrahús. Við fengum þó að koma heim nokkrum klukkutímum síðar, eftir blóðprufur og myndatökur, vel birg af penicillíni og með sjúkdómsgreininguna Lungnabólga í farteskinu. Æði. Hélt eiginlega að þetta lugngabólguvesen væri að verða historí. En það er lengi von á einum, eins og kerlingin sagði.

Drengurinn er allur að hressast. Hann sýnir sitt venjulega skapferli án nokkurra breytinga, frussar á mann penicillíninu og grenjar ógurlega yfir verðlaununum sem hann fær ef hann fæst til að kyngja þrem skömmtum yfir daginn, af því að hann langaði "ekki í þessi verðlaun, heldur einhver önnur!"

Ég held að fátt vinni á erfiðri skaphöfn drengsins, svei mér þá. Spurning um að fá særingarmann?

Æi hann er nú alveg ægilega sætur og stundum kelinn og blíður. En það er ekkert mjög oft....... En maður kemst nú samt þokkalega langt á því að vera krútt..

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband