Færsluflokkur: Bloggar

Gunna í Ártúni.

Auðvitað finnst mér eins og við, gömlu bekkjarsystkinin í árgangi ´74 í Dalvíkurskóla séum rétt nýskriðin úr níunda bekk og séum um það bil að hefja ævina. En það er víst langur vegur frá því. Og það sést best á börnunum okkar sem sum hver eru að verða hálf fullorðin!

En það er fleira sem gefur það til kynna að við séum engin börn lengur. Foreldrar okkar ganga á vit feðra sinna. Gangur lífsins. Ég veit. En þegar manni finnst maður vera ungur þá kemur það á óvart. Sum okkar misstu foreldra sína fyrir aldur fram. En sum okkar erum að kveðja þau "snemma" á fullorðinsárum.

Og nú er ein góð kona gengin. Gunna Ben. Hún var mamma Örnu, vinkonu minnar úr skóla. "Örnu í Ártúni," eins og hún er alltaf kölluð. Mamma hennar, Gunna í Ártúni, var orðin ekkja. Stefán, pabbi Örnu dó fyrir nokkru. Þetta voru sæmdarhjón sem bjuggu í litla Ártúni, beint á móti Afa í Mörk og þau voru held ég það umburðarlyndasta fólk sem ég þekki! Ég man aldrei eftir að hafa fengið skammir í Ártúni, þrátt fyrir að þar hafi gefist kjöraðstæður til prakkarastrika! Við Arna og stelpurnar framkvæmdum nú ýmsa misjafna gjörðina þar en ég minnist þess ekki að Gunna hafi nokkrun tíma æst sig eða skammað okkur þó hún kannski tæki okkur á tal!

Einu sinni, eftir að ég var orðin hálf fullorðin, sátum við Gunna einhverra hluta vegna bara tvær í eldhúsinu hjá henni og lentum á trúnó. Þetta samtal man ég bókstaflega orðrétt. Kannski af því að þetta var í fyrsta skipti sem ég fór á "trúnó" við eitthvað foreldrið, kannski bara af því að við töluðum svo hispurslaust um lífið. Líf okkar beggja. Og hún sagði við mig hluti sem ég hef alltaf geymt í hjartanu.

Gunna og Stebbi voru gott fólk og það er alltaf missir af góðu fólki. Ég sendi Örnu, Benna, Jóku, Stebba og Sigtrygg mínar samúðarkveðjur.

 


Dagurinn sem fór ekki eins og hann átti að fara en lítur svo vel út þrátt fyrir það

Plan þessa laugardags var eftirfarandi:

Vakna klukkan 8:30 og borða morgunmat með drengjunum.

9:30, skella þeim á reiðhjólin og taka þá með í laugardagssprettinn með hlaupahópnum.

11:00, mæta við Íþróttahúsið og taka þátt í hreinsunarátaki bæjarins, ganga um bæinn með ungunum og tína rusl.

13:00; fá okkur grillaðar pylsur og tilberhör með hinum hreinsunarmönnunum.

14: fara niður á sand með börn og hunda og gera sandkastalann sem við gátum ekki gert síðustu helgi þegar sandkastalakeppnin fór fram.

Enda á því að verðlauna okkur með ís í sjoppunni og fara svo heim í garð að slá.

En hinn raunverulegi dagur lítur í staðinn svona út.

Í nótt klukkan 03.10; Baldur Hrafn skríður uppí til mömmu sinnar, grenjandi og sjóðheitur.

16:30; ekkert annað hefur verið gert í dag en að hafa ofan af fyrir lasna innipúkanum og útskýra fyrir honum af hverju hann megi ekki vera úti og verjast barsmíðum að launum fyrir þá fræðslu.

En ég ætla samt að elda Fylltan, marokkóskan ávaxtakjúkling með pönnubrauði og Kúskúsi og bjóða Dóru Splóru í mat! Svo að kvöldið verður gott!!!


Heimsveldið og Nýdönsk.

Baldur Hrafn, sem oft gengur undir nafninu Heimsveldið, eða jafnvel Stórveldið, hefur ákveðnar skoðanir á því sem hann vill hlusta á. Hann hefur yfirhöfuð ákveðnar skoðanir á öllum hlutum. Hann hefur tekið ástfóstri við disk sem inniheldur Íslensk "eighties" lög. Þar á meðal er Nýdönsk-lagið sem mig minnir að heiti "Fram á nótt." Þetta lag þekkja auðvitað allir Íslendingar sem einu sinni hafa farið í partý eftir að Höfðafundurinn var haldinn. Þennan texta höfum við jú öll kyrjað á fjórða glasi í eitthvert sinn!

Baldur Hrafn hefur mætur á laginu og syngur grimmt; Hvernig kemst ég inn, þegar allt er orðið hljótt? Því þá er FORSETINN, að djamma fram á nótt!

Birnir bróðir hans spurði um daginn, þar sem þeir bræður sátu í aftursætinu og Heimsveldið var búið að syngja þetta nokkrum sinnum yfir; Mamma, hvað er að djamma? Sá yngsti var ekki í neinum vafa um svarið og sagði kokraustur: að djamma; það er að reykja!

Ég er ekki frá því að þessi ágæti texti hafi loksins fengið merkingu við þessa smávægilegu breytingu... Mér finnst hann allavega hafa hlotið nýtt líf!


Að taka á móti gestum er góð skemmtun. En þá er gaman að hafa fínt hjá sér....

Það er gott að búa í Kópavogi, segir Gunnar Birgisson. Ég tel þó, að betra sé að búa í Bolungarvík. Að flestu leyti. Bolvíkingum þykir vænt um bæinn sinn og þola illa gagnrýni á hann. þeim sjálfum leyfist að gagnrýna hann, en aðeins upp að vissu marki. Auðvitað má svona "aðkomulið" eins og ég ekki hafa nema takmarkaðar skoðanir á hlutunum. Mér má ekki þykja þráalykt af pólitíkinni hérna, mér má ekki þykja farið að súrna í ýmsum gömlum hefðum sem haldið er í.... hefðanna vegna, og þar fram eftir götum. Ég skil það alveg. Sjálf er ég smábæjarbúi að upplagi og man vel hversu mikið hið "glögga gestsauga" gat fírað upp í mínu eldfima geði á Dalvíkinni draumabláu. Það var ekki fyrr en ég hleypti heimdraganum og skoðaði í kringum mig, sem ég sá hlutina í sama ljósi og "gestsaugað."En hér verð ég líklega að sætta mig við að vera "aðkomumanneskja" svo lengi sem ég bý hér. Og það er allt í lagi. Á meðan get ég a.m.k haft skoðanir á Víkinni án þess að vera að bryðja vinnulúin bein genginna forfeðra sem "gáfu allt sitt til að byggja upp samfélagið" og "gefa skít í átthagana." Ég hef jafnvel þurft að sitja undir hnútuköstum fólks sem hefur búið annars staðar meiri part lífsins en er "miklu meiri Bolvíkingar" en nokkurntíma ég. Og það þó svo að ég búi þó hér, en það geti ekki hugsað sér það!En héðan hleypti heimdraganum maður. Hann snéri tilbaka eftir 20 ára fjarveru, mikill og merkilegur tónlistarmaður og alveg ótrúlegur happafengur fyrir bæinn. Hvort bæjarbúar kunna að meta það er svo annar handleggur. Hann hefur búið erlendis lengi og ferðast grimmt. Og eins og flestir Íslendingar virðast gera sér grein fyrir í dag, sér hann mikla möguleika á ferðtengdum iðnaði á fallega landinu okkar. En.... hann gerir sér líka grein fyrir því að til þess að verða ákjósanlegur staður fyrir ferðamenn, þarf bærinn að geta státað af einhverju öðru en fjöllum og sjó. Því að það er nóg til af slíku annarsstaðar á Íslandi.

Vissulega er fallegt í Bolungarvík. Og bæjarstæðið er mikilfenglegt! Um það efast enginn. En hér er líka geysilegt drasl! Fyrirtækjum og einstaklingum virðist vera fyllilega frjálst að safna ryðhræjum, plastdrasli og rusli af öllum sortum í kringum sig án nokkurra afskipta. En ég fékk aftur á móti bréf frá bæjarstjóranum í  vikunni sem leið þar sem meðal annars stóð, að mér sem hundaeiganda væri gert skylt að þrífa upp skítinn eftir hund minn á MINNI EIGIN LÓÐ, sem og annars staðar! How ironic is that?? ´

En á meðan fýkur plastið, draslið og ruslið á víð og dreif innan um gömul vélarhræ, ryðhrúgur af óþekktum uppruna og annað drasl og fangar auga hvers þess sem heimsækir bæinn. Bolvíkingurinn víðförli ákvað að ýta aðeins við okkur, samborgurum sínum, gekk í um klukkustund eða svo og tók myndir. Hann stillti engu upp, leitaði að engu sérstöku. Tók bara myndir af því sem fyrir augu bar. Nema hann sleppti fjallstoppunum og sólarlaginu sem við erum svo stolt af!  Hann gerði síðan úr þessum myndum plakat með tilvitnun í hinn virta túristabækling Lonely Planet, sem er að ég held mest seldi upplýsingamiðill fyrir túrista í heimi. Þar er fjallað um Bolungarvík sem druslulegan smábæ sem lítið hafi að bjóða nema tvö söfn og ofgnótt af rusli.

Sjálf hef ég alltaf keypt mér Lonely Planet bækurnar þegar ég hef farið erlendis og tekið á þeim fullt mark, þar sem þær eru ýtarlegar og upplýsingarnar hafa aldrei klikkað. Því geri ég fastlega ráð fyrir því að aðrir sem þær kaupa treysti þeim sem nýju neti.  Þegar ég sá þessi plaköt, hugsaði ég strax; ÓMÆGOD! Er þetta svona hræðilegt í alvörunni?? Úff! Og þvínæst; ég fer sko pottþétt með poka með mér í göngutúr næst og tíni rusl sem á vegi mínum verður! Mér fannst þetta frábær áminning. Og ég var voðalega fegin að hún kom frá „Bolvíkingi“ en ekki einhverjum „aðkomu“ eins og mér! J

En hvað gerðist? Plakatið var RIFIÐ NIÐUR! Og það sést ekki lengur neins staðar. Af öskureiðum Bolvíkingum sem fannst þetta argasti dónaskapur og hið versta níð um ástkæra bæinn! -Þvílíkur brandari, að halda að með því að neita að horfast í augu við hlutina þá séu þeir ekki lengur til!? Hvað gekk þessum ágætu mönnum, -og eða konum, til með að losa sig við sönnunargögnin? Heldur fólk að ef að ekki eru til myndir af draslinu þá sjái það enginn?

Mér finnst þetta skrítið.  Og ég skil þetta ekki heldur.

En ég veit það, að ef þessi endastöð sem Bolungarvík er, ætlar að gera það ákjósanlegan kost fyrir ferðamenn að sækja sig heim, þá þarf að taka til. Hér eru mörg snyrtileg og falleg hús og ótrúlega fallegir garðar miðað við veðráttu og harðbýli fyrir gróður. En ferðamenn sjá þetta ekki. Þeir skoða höfnina, aðalgötuna. Hvað blasir við þar? kíkja kannski í sundlaugina sem státar af nýrri og skemmtilegri rennibraut og fallegu útigólfi. Annað er orðið frekar slappt. Tjaldstæðið? Er það sambærilegt öðrum tjaldstæðum á landinu hvað þjónustu varðar?  Jú, við höfum Náttúrugripasafnið og Ósvör. En það dugar ekki eitt og sér.

Auðvitað rær bæjarfélagið lífróður, skítblankt og allt það. En þarna getum við fundið peninga. Í ferðamönnunum. En þá verðum við líka að hafa eitthvað að bjóða. Og snyrtilegt bæjarumhverfi kostar ekki mikla peninga. Vinnu og skipulag, já.  Og nú spyrð þú þig kannski ágæti lesandi; og hvað ætlar þú, Ylfa Mist, sem ert svona dugleg að munda pennann að gera? Ha? Svarið er; ég ætla að reyna að hafa umhverfið mitt snyrtilegt. (þó að Guð einn viti að í þeim efnum komist ég aldrei með tærnar þar sem nágrannakonur mína hafa hælana, með alla mína ómegð og hunda!) Þegar vorverkunum lýkur, og hretin eru afstaðin vonast ég til að ég geti horft á þá sem framhjá húsinu mínu ganga, án kinnroða og skömmustutilfinningar, og sagt, hér bý ég!

Og vonandi getum við allir Bolvíkingar, innfæddir og aðkomu, tekið stoltir á móti ferðamönnunum okkar í sumar og sagt, án kinnroða eða skömmustutilfinningar; þetta er fallegi bærinn minn.


Bara svona dagar....

Klukkan er hálf þrjú, það er björt nótt úti með bleikum skýjum á ljósbláum himni. Gluggarnir á nærliggjandi húsum eru bleikir og gylltir. Ég er í vinnunni þar sem allir sofa nema ég og samstarfskona mín. Það er rólegt, og þannig á það að vera um nætur. Það þýðir að allir sofa rótt í rúmum sínum. Það er þröstur að syngja fyrir mig hérna í næsta garði og annar sem svarar söngnum aðeins fjær. Þeir geta ekki vitað að ég er lítið gefin fyrir söng þrasta. Mófuglar og mávar eru mínir fuglar. Jaðrakan, hrossagaukur, stelkur og sjófuglarnir. Þrastahljóðin eru eitthvað svo aggressív!

 Drengirnir mínir, útiteknir og sprækir, hamast úti allan daginn á hjóli, trampólíni eða í boltaleik. Það er ferlegt að koma þeim í svefn á kvöldin því að það er jú dagbjart! Þeim finnst ekki vera nein nótt. Og það er rétt hjá þeim. Það er engin nótt! Bara endalaus dagur. Veðrið hefur verið fallegt, garðurinn bíður eftir slætti og birkirunnarnir mínir ilma.

Við förum, ég, Dóra Splóra og Urta, í okkar gönguferðir í vorinu, sundlaugin er heimsótt á milli og svo er nýtilkominn hlaupahópur sem ég hef gengið til liðs við. Já, haldið ykkur fast, (því jörð getur skekist) Ylfa Mist Helgadóttir er farin að HLAUPA! Ekki sérlega hratt.. en þó eru þetta hlaup! Tjah... eða skokk! Ég er nú ekkert að grennast þrátt fyrir alla þessa hreyfingu enda hef ég ennþá heilbrigða matarlyst og ét minn eðlilega dagskammt, á við þrjá hrausta karlmenn, til að viðhalda "mínu hefðbundna vaxtarlagi." En allt styrkist og þolið eykst.

Skólinn er búinn í bili. Ekki fór gæfulega fyrir stærðfræðinni en í öllum eðlilegum námsgreinum öðrum, var engin einkun undir níu. Stærðfræði mun seint teljast eðlileg námsgrein og hér með held ég því fram, fullum fetum, að það sé bara skrítið fólk sem getur lært stærðfræði! Ég get reiknað, mikil ósköp. En reikningur og stærðfræði er bara tvennt ólíkt. það er ég búin að læra :)

En nú er lag að leggjast í sófann og líta á nætursjónvarpið. Það býður venjulega uppá morð, ofbeldi og annan hrylling sem ætti að halda mér vakandi til klukkan átta. Þá fer ég heim og legg mig. Ekki lengi samt, því að sumarið leyfir ekki langan svefn. Það bíður og bankar á gluggann!

 

 


Próftími og garðhugleiðingar

Ég er ekkert dugleg að skrifa hér færslur þessa dagana. Ég er í prófum og er að reyna að rembast eitthvað við að læra. Fer nú ekkert sérlega mikill tími í það samt.

Ég er búin að fá vetrareinkunnir úr hjúkruninni, Líffæra og lífeðlisfræðinni í hús. Þær voru báðar yfir 9 svo að ég er bara góð. Þá er bara að sjá hvað kemur úr lokaprófunum. Ég er búin að fara í eitt próf, það var í lyfjafræði. Mér hefur nú alveg gengið betur í prófi svosem. Er spennt að sjá hvort mér fannst bara ganga illa eða hvort mér actually gekk illa.....

Hlakka bara til sumarsins. Ég ætla að jafna hér öll blómabeð við jörðu og rækta EKKERT í garðinum sem ekki má éta! Það verða því bara kál og kryddjurtir sem getur á að líta hér næsta sumar. Að auki ætla ég að slátra tveimur öspum sem eru hér að framan og fá mér ribsberjarunna í staðin. Til hvers að hafa gróður sem er óætur?

Jæja, þá er héraðslæknirinn væntanlegur til að hlýða mér yfir í Anatómíunni. Best að smella upp námsefni á skjáinn og þykjast vera að læra!


soya eða ekki soya?

Baldur Hrafn (5 ára) og móðir hans (35 ára....) voru að gera sig klár í kjörkaffi á Ísafirði á kjördag. Með þeim í för, ásamt restinni af fjölskyldunni, voru héraðslæknirinn og hennar eiginmaður, Jón Hilmar von Lundur, og þeirra börn. Baldur vill endilega að Stefán (6 ára) vinur hans, sonur þeirra hjóna, komi í bíl með okkur. Móðir hans reyndi að útskýra fyrir honum að Stefán ætti að fara í sínum bíl, þar sem hann ætti sinn eigin bílstól í honum. Baldur Hrafn var ekki alveg sáttur við þessar málalyktir þangað til að allt í einu rann upp fyrir honum ljós; Já, hann er auðvitað með svona SOYABÍLSTÓL!!!???

Stefán er nefnilega með mjólkurofnæmi og neytir því soyamjólkur í stað kúamjólkur............


Þjónustudeild aldraðra á Ísafirði og nágrenni.

Ég fór áðan með samnemendum mínum í skoðunarferð á Hlíf. Flott stofnun sem Hlíf er. Ég gæti alveg hugsað mér að eiga þar íbúð þegar ég fer að reskjast. Allt til alls, verslun, hægt að kaupa heitan mat, heimahjúkrun, rúllur og perm í hárið, handavinnustofa, vefstofa, smíðaverkstæði.... Bara að nefnaða. Og innangengt í allt batteríið!

En svo er það þjónustudeild aldraðra. Olnbogabarn, sem vegna skilgreiningarvandamáls fer að loka. Bærinn rekur þetta sem hjúkrunarheimili enda full þörf á slíku, ríkið hinsvegar greiðir daggjöld í samræmi við skilgreininguna "Dvalarheimili." Og flest skiljum við það nú að dvalarheimiliskostnaður er töluvert frábrugðin kostnaði við rekstur á hjúkrunarheimili. Ástæðan er sú að þetta hjúkrunarheimili uppfyllir ekki nútíma kröfur varðandi fermetrafjölda pr.vistmann, og því skilgreinir ríkið þetta á annan hátt en það er. Pólitísk ákvörðun bæjaryfirvalda Ísafjarðarbæjar er því sú, að taka ekki inn fleiri vistmenn, því er þessi þjónustudeild aðeins hálfnýtt. Og þegar síðasti vistmaðurinn kveður, verður henni lokað eftir því sem ég best fæ skilið.

Ég veit ekki hjá hverjum skömmin liggur. En skömm er það engu að síður, að sveitarfélag á stærð við Ísafjarðarbæ hafi ekkert hjúkrunarheimili í réttri skilgreiningu þess orðs. Það er öldrunarlækningadeild á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Eða hjúkrunardeild.... ég hef ekki ennþá fengið nein afgerandi svör við því. Það er nefnilega skilgreiningaratriði! En eitt veit ég! Þó að aldraðir þurfi á hjúkrunarvistun að halda, kæra sig fæstir um að leggjast inn á spítala! Sama hvaða nafn gangurinn sem þá á að vista inná, ber! Sjúkrahús merkir yfirleitt aðeins eitt í augum þeirra eldri; þeir koma ekki aftur út!

Á Flateyri fór ég fyrir skemmstu, að skoða "elliheimilið" þar. Það heilsaði ég uppá vistmenn, þeir eru þrír, og sá strax að þetta er fólk sem á heima á hjúkrunarheimili. Þar er sama staðan, nema hvað að þar er starfsmannafjöldi miðaður við að þetta sé dvalarheimili á meðan vistmenn eru á hjúkrunarstigi. Engu að síður fékk ég þær upplýsingar hjá Skóla og fjölskylduskrifstofu að þetta væri hjúkrunarheimili samkvæmt þeirra skilgreiningu!! ??? ....ég vera ruglaður?? Einhver annar vera líka ruglaður??

Nú hefur Sjúkraskýlið í Bolungarvík verið sameinað Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar. Margir eru uggandi um framtíð þess. Hvernig kemur þessi stofnun til með að verða skilgreind? Hún uppfyllir áræðanlega ekki nútímakröfur um hjúkrunarheimili. Verður hún Elliheimili? Þurfa þá kannski aldraðir bolvíkingar að fara inná Ísafjörð og leggjast þar á öldrunarlækningadeildina til að fá að deyja? Eða hvað?

Málefni aldraðra eru í tómum ólestri hvað skilgreiningar varðar hér á norðursvæði Vestfjarða. Og áræðanlega víðar. Það hefur ekkert með starfsfólk þeirra stofnana sem hér hafa verið upptaldar að gera. Heldur skilgreiningarhlutann og peningana. Það er eins og við, þessi sem yngri erum, gleymum því að áður en við snúum okkur við, verðum við sjálf orðin öldruð,-beri okkur gæfa til langlífis, og þurfum þá á viðhlítandi þjónustu að halda. En .... svona komum við nú UNDAN GÓÐÆRINU! Hvernig fer þá kreppan með þennan málaflokk? Ætli maður dagi ekki bara uppi á klassísku fátækraheimili, sprottnu úr bókunum um Emil í kattholti? Þar sem ein forstöðukona stelur bæði mat og neftóbaki frá okkur gamla fólkinu og rennir sér í sleðaferðir á eftir einni góðri pylsu? Ein góð pylsa er alltaf ein góð pylsa.....Tounge

Ég ætla að halda áfram að kynna mér þessi mál, það er greinilega brotalöm víða. Og þó ég geti ekki mikið upp á eigin spýtur, hef ég þó munn fyrir neðan mitt eðalnef og ætti að geta vakið athygli á því sem mér finnst miður fara.

Frú Áhugamanneskjaumþjónustuviðaldraða kveður og fer að læra fyrir líffæra og lífeðlisfræði próf.

(tek það fram að það er ástæða fyrir því að þessi færsla er sett inn EFTIR kosningar ;o) )


Drukknanir

Ég er að drukkna!

Prófin voka yfir mér eins og óveðursský, verkefnin hlaðast upp sem þarf að skila og mér finnst ég vera í rassgati með þetta allt saman. Systursonur minn fermist næsta laugardag og ég kemst ekki til að vera við fermingu drengsins vegna vinnu og prófa. Það er agalegt! En ég verð með honum í anda og svo sendi ég líka erfingjann í minn stað svo að þetta verður svona "almost, but not quite!"

Kosningahelgin var eins og hjá öðrum... hún einkenndist af... kosningum. Ég er reyndar ekki alveg jafn sátt við úrslitin og vonir stóðu til, það er bara eins og það er og lífið heldur víst áfram. Við mæðgur höfum þráttað hressilega um stjórnmál undanfarið og haft gaman að. Ég var að uppgötva að mamma er búin að vera hjá mér í meira en hálft ár! Það er eiginlega ótrúlegt því að við erum nú ekki líkt skapi farnar en með tímanum hefur það slípast og mér er farið að þykja ósköp notalegt að hafa hana hérna hjá mér. Lífið er svo hverfult og tækifærin til að vera með okkar nánustu eru eiginlega of fá til að hafna þeim. Það hef ég fundið eftir að pabbi heitinn dó. Ég gæti svosem alveg lifað án hundkvikindisins hennar en hún getur það aftur á móti ekki svo að það verður víst að fylgja með í kaupunum!

Ég og héraðslæknirinn, Dóra Explóra, einsettum okkur að taka vorinu fagnandi með daglegum gönguferðum við þriðju tík, hana Urtu, og höfum nokkurn vegin staðið við það. Svei mér ef það hressir okkur ekki bara allar! Sundferðir eru nýttar ef ekki viðrar til göngu. Þriðja tíkin nýtur reyndar ekki góðs af því þar sem hundahald er bannað í lauginni. En við sjávarspendýrin, ég og héraðslæknirinn, svömlum með myndarlegum sporðaköstum og blæstri og drekkjum okkur svo smástund í bubblupottinn á eftir. Svo stöndum við upp og potturinn tæmist af vatni, þeim sem á eftir koma til mismikillar ánægju. Á góðum dögum gerum við svo okkar besta til að stífla rennibrautina!

En nú er mál að koma sér í háttinn.

 


Lyktin af vori

Páskarnir liðnir og ilmur af vori í lofti! Það jafnast á við endurnýjun lífdaga að finna þennan ilm! Hamingjan hellist yfir mig og mig langar að fara að róta í moldinni og huga að gróðri. Er strax farin að hlakka til að feta mig um fjöll, -léttfætt sem hind.... í sumar til að tína grös og svo síðar, ber. Í einu skiptin sem ég hreyfi mig af tómri ánægju er þegar ég er að afla fanga :) Ná í eitthvað að éta!

Valla mín fór til Danmerkur aftur og nú er bara að vona að ég lifi það af ... Það var dásamlegt að hafa hana og ég hlakka strax til að sjá hana aftur!

það eru að koma gestir í mat, Gummi og Fríða Birna með Markús Björgúlfsvin og Önnu Karenu, systur hans. Ég er að elda eitthvað sem heitir Dorritoskjúklingur og ákvað að taka ekki til, þrátt fyrir að vera að fá gesti. Kemur það einhverjum á óvart? Ég hef verið á næturvöktum og hlakka til að fara uppí rúm í kvöld og sofa þangað til í fyrramálið. En þá er mál að haska sér af stað til Flateyrar því að ég ætla að skoða elliheimilið þar klukkan tíu í fyrramálið með samnemendum mínum. Og þá man ég það; ég fékk 9.2 í hlutaprófi í Líffæra og Lífeðlisfræði sem ég tók fyrir páska. Einkunnin kom í gær. ég get nú þakkað Héraðslækninum fyrir stóran hluta þar sem hún sat og hlýddi mér yfir fram eftir nóttu kvöldið fyrir próf.

En nú er klukkan fimm í sjö, maturinn ekki tilbúinn og ég ekki búnað fara í sturtu! Og gestirnir að koma.... ÓMG!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband