Færsluflokkur: Bloggar

leyndarmálið afhjúpað!

Jæja, komið að því að opinbera leyndarmálið!

VALRÚN MÍN ER AÐ KOMA TIL MÍN!!

Þeir sem ekki skilja hversu merkilegur sá atburður er, hafa aldrei kynnst Valrúnu eins og ég! Og eru því ekki skoðanahæfir......

Hún verður hjá mér í nokkra daga fyrir páska, alls ekki nógu marga, auvitað, en ég verð að sætta mig við það. Vona bara að það verði vont veður laugardaginn fyrir páska og ekkert flogið. Hún verður negld niður í sófann og ég ætla að kela hana í kaf! Hnoðast í henni og knúsa hana í klessu! Oooooo hvað ég hlakka til. Stelpurnar hennar koma með og þá yngstu hef ég ekki séð í rúmlega tvö ár! Sem er agalega skrítið því hún var algjört fósturbarn okkar Halla alveg eins og Birnir minn var fósturbarn Völlu minnar. Eiginlega áttum við þessi sex börn bara saman! Ég elska Valrúnu mína eins og móður mína, systur, vinkonu og nánast eins og maka minn líka! Takmarka samt keleríið við siðsamleg mörk, áður en einhver fer að misskilja!!! :)

Ég er að taka síðustu næturvaktina þessa helgi. Þriðja vaktin alltaf erfiðust. Klukkan er rétt eitt og ég er þegar farin að þrá að komast heim í rúm! Ég hef nú reyndar verið dugleg að vinna upp verkefni fyrir skólann sem ég var að brenna inni með svo að þetta er nú ekki alslæmt!

Það er best að gá hvort eitthvað er varið í þessa ræmu sem var að byrja í sjónvarpinu.......


Lífið er sérstakt.

Birnir var að koma heim úr klippingu. Hann er orðinn "hnakki." Vantar bara smá tan og mass. Þá er það komið. Björgúlfur fór í klippingu í gær. Hann breyttist ekkert. Baldur fær sennilega bara rakstur heima :) Efast um að það breyti honum nokkuð, nema hvað hann heimtar líklega vegleg verðlaun.

Í vikunni þegar ég lá lasin og drusluleg með hita, hausverk og beinverki þá þráði ég svolítið svo ægilega mikið. Ég bað heitt og innilega til Guðs um að hann myndi hjálpa mér að láta dálítin draum rætast. Og viti menn, rétt á eftir gerðist svolítið sem lét drauminn rætast. Svolítið dásamlegt er að fara að gerast! Hlutur sem ég hef beðið eftir í laaaangan tíma!!! Ennþá er það leyndarmál en verður opinberað MJÖG fljótlega! Og viti menn, þetta dásamlega, það hleður uppá sig og verður enn dásamlegra með hverri klukkustundinni! :)

Ef ég hefði vitað það fyrr að mér myndi nægja að biðja Guð um að hjálpa mér með það sem ég óska mér, hefði ég byrjað á því mun fyrr!

Næturvaktir framundan á helginni. Fuuuuullt af heimanámi. Ef það verður rólegt þá get ég unnið mig á þurrt á vöktunum.  Þarf reyndar að taka viðtal. Ég er nefnilega í fagi sem heitir "samskipti," og þar er kennsla í að tala fyrir framan fólk, taka viðtöl og semja texta......... Rosalega gaman. Ég reyndi að klóra mig frá þessu með því að segja kennaranum að ég hefði unnið á útvarpi þar sem vinnan hafi verið fólgin í því að taka viðtöl. Það þýddi ekkert. Hann sagði bara að þá myndi ég líklega rúlla þessu upp! Devil Ég slepp ekki. Það er ljóst.

Kjallarinn skotgengur. Búið að fara eina og hálfa umferð á loftin af málningu. Sýnist þær þurfa að vera minnst fjórar! Svo er bara að mála veggina, setja á gólfin og festa upp lista á hurðir, glugga, gólf og í loftin..... þið vitið, þetta endalausa "smotterí" sem ætlar aldrei að verða búið!

Annars fékk ég svo skemmtilega heimsókn áðan. Það var hún Nanna hans Jóns Geirs Pallavinar..... Hún er í Hugleik en við vissum fyrst um tilvist hvor annarrar þegar við áttum sama kærastann. Það var sérstakt........

Lífið er svona....... sérstakt.


and then he kissed me...

S.l. laugardag, þá ég var einu sinni sem oftar stödd í Íþróttahúsinu, vatt sér að mér maður, myndarlegur og hýr á brá og kyssti mig innilega á vangann. Ég uppveðraðist öll, enda orðið nokkuð síðan ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera kysst óforvarendis af öðrum körlum en mínum eigin!

Síðan þá, hefur koss þessi brunnið á vanganum og hugrenningar þotið í gegnum höfuðið... "hver er hann,? hvað vildi hann,? hvers vegna, ? hvað meinti hann, ? skyldi hann líka kyssa mig næst þegar við hittumst?"

Ég hef misst úr svefn yfir þessu dularfulla kossamáli. Hef ekki verið mönnum sinnandi vegna óra minna um þetta dularfulla atvik....

Í gær blasti svo við mér hinn nöturlegi raunveruleiki. Staðreyndin sem ekki var unnt að horfa framhjá. Ég opnaði bb.is og þar blasti við, efst á síðunni, riiiisastór banner. Hann útskýrði allt.

Ég er lögst í rúmið með hita, höfuðverk og beinverki...held það sé ástarsorg...... ég veit ekki hvort ég lít framar glaðan dag.

Vangar mínir sem eitt sinn voru kysstir af gráðugum vörum ástsjúkra manna, eru nú teknir í skiptum fyrir mögulegt atkvæði........

Devil


Íþróttaálfaamæli...

Oh, hvað það verður gott að fara heim í bólið sitt mjúka og góða eftir rólega næturvakt!

Afmælið hans Baldurs Hrafns og vinkonu hans var haldið í gær. Það er bara dagurinn á milli þeirra, við mamma hennar Írisar Emblu lágum saman á FSÍ fyrir fimm árum! Það mættu velflest börnin af leikskólanum þeirra og fengu að hlaupa og leika sér óhindrað í tvo klukkutíma með allskonar íþróttadót, klifrudrasl og dýnur, trampólín og kaðla. Rosalegt fjör!

Við Harpa vorum búnar að útbúa fullt af veitingum en börnin máttu ekkert vera að því að sporðrenna þeim. Það kom því aðallega í hlut sundlaugargesta að gæða sér á heilsusamlegum smásamlokum, ostapinnum, kanelsnúðum og rice crispieskökum. Baldur Hrafn græddi meira að segja á því að bjóða uppá með kaffinu, þúsundkall í afmælisgjöf frá einum af vikulegum saunabaðsgestum laugarinnar, fór beint í búðina og keypti sér legó og nammi fyrir!

Ég held að börnin hafi verið ánægð með daginn. Ég mæli með þessu til að sleppa við tiltekt fyrir og eftir afmæli og kúldrast með heilan bekk, eða leikskóladeild í húsi sínu!

Set inn myndir seinna í dag eða kvöld, þegar ég fer á fætur.


Drengurinn eignaðist Ásgeir og Hildigunni....

Erfinginn að engu, Björgúlfur sonur minn, keypti sér forláta rafmagnsgítar fyrir sumarhýruna, þegar hann fór til pabba síns á helginni. Þetta var sannköllið karla helgi hjá þeim. Tveir einir heima, horfðu á tónleika með Rolling Stones í DVD á föstudagskvöldinu, elduðu sér beikon og egg á laugardagsmorgninum og fóru svo og í hljóðfærabúðir! Næst verða allir karlarnir á heimilinu sendir í svona "langferðabíls-kallaferð" til Reykjavíkur að heimsækja Palla! Berglind getur komið með Matthildi til mín og við haft stelpuhelgi!

Rafmagnsgítarinn hlaut nafnið Ásgeir og Hildigunnur og dregur hann nafn sitt af pokaskjatta sem þeir feðgar fengu undir hann í Góða Hirðinum. Gítarpokinn er sumsé kyrfilega merktur "Ásgeir og Hildigunnur." Það má því telja nokkuð víst að fyrst hljómsveit drengsins mun bera þetta nafn.

Ég er á næturvakt, alveg að drepast oní klofið á mér af þreytu. skil ekki þessa endalausu þreytu! Ég get sofið í tuttugu tíma á sólarhring og verið alveg að sofna þessa fjóra sem ég þó held mér vakandi! Er þetta ekki eitthvað einkennilegt? Ég hef nú alltaf verið frekar orkumikil... já, leyfi mér jafnvel að segja, "fjörug," en það er liðin tíð. Nú er ég bara við það að sofna. ... Alltaf.

bjoggiguitar2 myndataka, Páll Einarsson


Íslendingar lokaðir inni!

Af hverju heldur fólk að við Bolvíkingar lítum svo á að við séum lokuð inni þegar Óshlíðin lokast, eins og í dag??

Þvert á móti, við kennum í brjósti um Íslendingana sem eru lokaðir frá OKKUR!

Hér er bókstaflega allt á KAFI í snjó.  Afmælið var haldið hátíðlegt með kleinubakstri og við vorum öll hérna heima, sáum ekki út um glugga, og héldum afmælið fyrir Hrafna-Baldur! Svo í kvöld hefur verið House Maraþon! dr. DóraSplóra, sem geymir allt sitt fólk í Dýrafirðinum í óveðrinu, kom og fékk mjólk og kleinur og upphófst keppni um það hver væri fyrstur með réttu diagnósuna. Sú átti að fá í verðlaun, heilnudd hjá Haraldi. En hvorug okkar giskaði rétt! Sem segir ekkert um hæfileika okkar á greiningarsviði, heldur bara hvað allir tala óskýrt í þáttunum!!

En nú kallar bóndinn minn, hann vill meiri House! Eða meira af einhverju ;)

(Alla, takk fyrir boðið á upphandleggjum, ég mun nýta mér það næst þegar ég kem að kíkja á kindurnar og þig :) )

 


Afmæli og fleira

Það er í mér einhver lægð. Kannski ekkert skrítið miðað við lægðina sem hangir hér yfir okkur. Í dag hefur snjóað svo gríðarlega að allt er að fara í kaf. Það hefur verið logn en alveg hreint ótrúleg ofankoma. Þakið á húsinu á móti er að minnsta kosti með metersþykkt lag á sér og handriðið hjá mér er með 60 cm jafnfalla mjöll! Við mamma mældum það með málbandi.

Baldur Hrafn, litla barnið mitt, á afmæli á morgun. Hann verður fimm ára! Það er ótrúlegt að yngsta krílið sé orðið þetta stórt! Þeir bræður vaka ennþá, sannfærðir um að það verði "óveður" á morgun eins og sagði í fréttunum! Og við búum okkur undir það hér. Hann á að fá pakka í rúmið í fyrramálið og nýja lopapeysu sem amma hans prjónaði undir hans vökula auga og harðstjórn.....

Björgúlfur er fastur í Reykjavík, Halli var fastur á Ísafirði í kvöld, var hleypt í gegn áðan ásamt helling af bílum en svo átti að loka Hlíðinni aftur.

Dr. Dóra Splóra kom og borðaði hjá mér afganga af svínabóg, sjálf hafði ég ekki lyst til að borða henni til samlætis. Það er nú frekar hallæislegt ef ég hef ekki matarlyst. Gerist ekki oft.

Og áfram snjóar.......

 


Valrún og upphandleggurinn!

Það er svo ótrúlegt að það eru að verða tvö heil ár síðan Valrún mín flutti sig yfir til Aarhus. Mér finnst eins og hún sé búnað vera í burtu forever! Ég veit ekki alveg hvernig ég hef farið að án hennar hérna hjá mér. Enda hef ég varla meira en skrimt, svei mér þá!Smile Það er nú samt svo ótrúlegt að um leið og í harðbakkann slær, hringi ég grenjandi í hana, þessa elsku og þá er næstum eins og hún sé hérna. það eina sem mig sárlega vantar á slíkum stundum er að fitla og strjúka við mjúku, dásamlegu húðina á neðanverðum upphandleggjunum hennar. Oh... þvílík sæla!! Mér leið eins og ungabarni, öruggu og sælu með snuðið sitt í mömmufanginu, þegar ég lá  klesst upp við hana í sófanum með fingurna á kafi uppí erminni á henni, föndrandi við þessa undursamlegu mýkt!

Ég gæfi hálfan fótinn fyrir þetta akkúrat núna.

Sjáið bara þessa takmarkalausu fegurð!!

vallamin


Stórir dagar í vændum og miklar breytingar. Góðar.

Oft þarf að fara hlykkjótta og bratta leið til að yfirstíga erfiðleika. En aðeins að vel ígrunduðu máli. Hlutirnir er jafn erfiðir og við ákveðum. Með örlitlum frávikum þó. Í dag fékk ég skell sem ég ætla að nýta mér til að þroska sjálfa mig. Í gær fékk ég líka skell sem ég ætla að nota til að þroska reynsluheim minn á jákvæðan hátt.

Já, nú er sporavinnan notuð í hvívetna. Enda ekkert, a.m.k. fátt sem ég hef gert jafn gagnlegt.

Ég einset mér núna, alla daga, að vakna á morgnana og hugsa: í dag ætla ég bara að hugsa jákvætt. Ég þarf reyndar að minna mig á svona hundrað sinnum á dag, -sem er líklega algeng aukaverkun, -en þetta virkar svo dásamlega vel!!

Og í dag, hugsa ég bara jákvæðar og uppbyggilegar hugsanir. Það er sunnudagur, stórir dagar í vændum. Stórir og spennandi og ég er full af hamingju.

eftir Söru Vilbergsdóttur (myndin er eftir Sörufrænku)

Luvjúall.


Næturvaktarrugl!

Úff, hvað ég verð einstaklega steikt í hausnum á svona næturvaktarhelgum.

Þegar ég skreiðist heim um hálf níu leytið á morgnana eru drengirnir að vakna, hressir og sprækir til að horfa á barnatímann, nú, eða bara til að gera móður sinni gramt í geði! Þannig fer því æði oft þessar helgar þegar ég tek þrjár vaktir í röð, að ég er að sofa í hálftíma, vakna, hálftíma, vakna, hálftíma, vakna.... og öll mín orka fer í að reyna að sofa. Og í þessum blundum, maður kallar þetta varla svefn, dreymir mig svo mikla steypu að ég er hálfu þreyttari fyrir vikið heldur en ef ég bara lægi og læsi góða bók! Í gærmorgun til dæmis, kom ég heim að ganga níu. Ég hef líklega sofnað um hálftíu leytið og vaknaði með andfælum klukkan hálf ellefu með grátstafina í kverkunum, brölti um allt rúmið að leita að símanum mínum og hringdi í gemsann hans Halla. Á meðan það hringdi út, kom ég smám saman til sjálfrar mín. Mig hafði dreymt að hann væri að fara frá mér! Og hann ók í burt með tveimur konum sem ég þekki vel og hef þekkt alla ævi, vildi alls ekki segja mér af hverju eða hvert hann ætlaði, hann bara var að fara! Og ég var að reyna að hafa uppá honum þegar ég vaknaði og var ekki alveg með á nótunum!! :)

Ég varð að fara fram og fá mér að drekka og jafna mig aðeins eftir þetta dramatíska móment, svo gat ég sofnað aftur, vitandi það að Halli hefði bara farið í ræktina og sund með Baldur. Um hádegið hófst svo truflunin, Birnir og vinkona hans komu heim og því næst Halli og Baldur. Ég barðist við að sofa fram eftir degi en vaknaði aftur upp af martröð og þá var það sama martröðin!! Nema nú ætlaði Halli að fara og búna með samkynheigðum vini sínum í Kaupmannahöfn!! Það var hræðilegt! Ég vaknaði í svo miklu sjokki að hárið á mér var blautt af svita!

Ég spyr nú bara ef einhver læknismenntaður skyldi ramba inn á þessa frásögn mína; er ekki hægt að taka eitthvað við þessu?????Shocking

En nú er síðasta næturvaktin að renna sitt skeið, klukkan er orðin fimm og rólegt. Svo tekur skólavikan við, reyndar með skrópi í dag. Svo fer ég á tvær vaktir í vikunni en verð í fríi um næstu helgi. Þá ætla ég að sofa gengdarlítið......


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband