Færsluflokkur: Bloggar

Eftirlætisdrykkur minn á unglingsárunum

 

 Þessum barþjóni á að drekkja í Tequila. Stinga trekt í kokið á houm og hella. Líkt og gert er við Foi Gras fuglana í Frakklandi.

Tequila er stórhættulegur drykkur! Ég man eftir því frá mínum ögn blautu unglingsárum, að þetta var aðaldrykkurinn af því að maður varð svo fljótt blekfullur af þessu. Tequila með salti og sítrónu eða bara einfaldlega "slammer" eins og það hét rann ótæpilega ofaní okkur vinkonurnar með tilheyrandi subbuhætti því eins og allir þeir sem voru "late eighties" unglingar vita, þá freyðir slammerinn alveg ferlega og sprite-ið límist við borð, stóla og veggi!

Ég man eftir að hafa drukkið hálfa flösku af tequila í eitt skipti og síðan ekki söguna meir. það var held ég síðasta ærlega fylleríið af þessum eiturdrykk. Eftir það, þoldi ég ekki einu sinni lyktina af þessu. Ég rankaði allavega við mér í einhverjum bíl sem var að keyra frá Akureyri til Dalvíkur og komst að því að ökumaðurinn hafði hirt mig upp í eymd minni í miðbæ Akureyrar, veskislausa, vinalausa og farlausa. Ég hef aldrei hitt þennan mann aftur og aldrei þakkað honum fyrir. Hann hefði vel getað verið einhver sem ekki hefði gott í hyggju og af þeim sökum hirt upp sauðdrukkin, vegalausan stelpukrakka og keyrt með hann útí buskann. Ef sá hinn sami væri svo ólíklega að lesa þetta og man eftir þessum atburði þá segi ég, -bæði sem unglingsstúlkan sauðdrukkna, og sem móðir; Takk góði maður. Takk fyrir að bjarga mér frá einhverjum hörmungum.

Svo veit fólk vart hvaðan á sig stendur veðrið þegar ég segist eiginlega aldrei smakka vín! :)

Það eru of margar svona sögur í farteski mínu, bæði af mér og öðrum, sem gera víndrykkju svo lítið sjarmerandi í mínum huga.

Próf í fyrramálið, pensillínátið heldur áfram að fyrirskipan Dr. Dóru Explóru og hálskirtlarnir eru hættir að lafa alveg jafn langt niðrí kok. Allt á uppleið!


mbl.is Lést eftir að hafa drukkið 45 tekíla skot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drengurinn hennar mömmu sinnar!

Stundum held ég að barnaverndarnefnd myndi gera stórar athugasemdir við uppeldið á elsta drengnum mínum. Hann hefur alltaf verið dálítið sér á parti hvað það varðar, þar sem hann var nú einu sinni svo lengi einn með mömmu sinni. Hann til dæmis átti ekkert rúm fyrstu fjögur árin, heldur svaf BARA uppí. Dæmi nú hver fyrir sig hversu hollt það má teljast. Hann hefur náttúrulega erft einkennilegan húmor foreldranna því að ef fólki finnst ég slæm, þá er það BARA af því að það hefur ekki hitt Pál, pabba hansWink

Mamma, sem býr hjá okkur núna, telur að það hljóti að vera óhollt fyrir fermdan drenginn að horfa á móður sína striplast heilu og hálfu dagana, hvort sem það er vegna þess að henni þyki óeðlilegt að ungir drengir sjái mæður sínar naktar eða hvort henni þyki bara svona hræðilegt fyrir hans hönd að sjá MIG nakta er ekki til frásagnar. Henni þykir þetta bara "óviðeigandi." En ég kæri mig kollótta og striplast eins og mér sýnist. Hann er vanur.......

Stundum þá er svo gaman að ganga framm af unglingum, en það er ekkert auðvelt að ganga framm af Björgúlfi mínum. Það kemur til af uppeldinu! Um daginn hélt ég yfir honum langa tölu um hversu erfitt hlutskipti það væri að vera kona. Maður ætti sæg af lötum drengjum sem drösluðu allt út, ætu það sem væri verið að spara til helgarinnar, nenntu ekki með fötin sín í vélina og gætu ekki einu sinni smurt nestið sitt sjálfir! Og til að kóróna það allt saman, þá væri enginn friður fyrir spólgr... köllunum þegar konurnar legðust örþreyttar til hvílu seint á kvöldin! Hvers konar líf héldi hann eiginlega að þetta væri?? Ég rétt væri nú að vona að mér tækist að ala hann og bræður hans upp til að verða nýtanlegir eiginmenn sem virtu svefntíma kvenna sinna og gæfu þeim stundlegan frið þó ekki væri nema eftir miðnætti á rúmhelgum dögum!

Drengurinn horfði grafalvarlegur framan í móður sína og svaraði svo:  að sjálfsögðu. Til hvers heldurðu að hjákonur hafi verið fundnar upp????

 

LOL


Þriðjudagur

Það er ekki einleikið hvað heilsan á heimilinu er bágborin. Aumingja Halli er búnað vera hundveikur, Baldur fékk einhvern viðbjóð, kossageit að nafni, og auk þess að fá sífelldar aðkenningar að andlátum hefur frúin sjálf verið með hálsbólgu, eyrnaverk og kvef. Í tvígang! Björgúlfsbarnið fékk hálsbólguna sem og Birnir, sem er með eitla á stærð við hænuegg bæði inna og utan á hálsinum. Hefur sá drengur verið svo dragfúll í andardrætti að við foreldrarnir höfum báðir gert okkar besta til að forðast nánar samræður við hann!

Þessi árstími er ekki alveg uppáhalds hvað þetta varðar, en í uppáhaldi hvað annað varðar. Ég elska litina þegar sólin er farin að gægjast upp fyrir fjallsbrúnirnar og veðrið hefur verið svo fallegt og yndislegt undanfarið. Það er farið að vera bjart lengur og lengur hvern dag, og mér finnst þessi umskipti alltaf gerast svo hratt!

Annars er bara ágætt að lifa.


Þorrablót bolvískra menningarkvinna.

Hið bolvíska hannyrða og menningarkvenfjelag mun halda sitt árlega þorrablót annað kveld.

Afar strangar reglur gilda um blót þetta sem og alla fundi HBHM-fjelagsins.

Í tilefni þessa er rétt að rifja upp reglur fjelagsins.

Kvinnur verða að hafa menningarlegan uppeldislegan bakgrunn, ýmist í formi náms, þekkingar eða þjóðfélagsstatus.

Kvinnum er forboðið að ræða ómerkilega hluti s.s. ástarlíf sitt og annarra, nágrannaslúður og tilhæfulausar kjaftasögur. Eru þungar fjársektir viðurlagðar við glæpum sem þessum og rennur ágóði þeirra í sjóð fjelagsins.

Umræður skulu uppbyggilegar, þjóðfélagsmál, bókmenntir, listir og góðgerðarmál eru tilvalin umræðuefni sem er ágætt að brydda uppá og ræða í hörgul.

Þjeringar (þéringar) eru hafðar í hávegum á fundum kvinnanna og frávik kosta fjárútlát í formi sekta.

Blátt bann er lagt við því að karlmönnum sé til blóts boðið og annarra funda, sem og nokkrum öðrum en fjelagskvinnum.

Nýir meðlimir eru vandlega handvaldir af fjelagskvinnum og er réttur áskilinn til fullkomlega Kremlískra vinnubragða.

Kvinnur mæta til blóts með sitt eigið trog.

Kvinnur skulu viðhalda þeim góða og gegna sið að hafa hannyrðir handa í millum við hvern fund.

Eru þá reglur upptaldar.

Undir ritar; háæruverðug Frú Ylfa Mist H. Ringsted.


En sú glæsta framtíð, Part II

Þau mistök urðu að ég henti hálfkaraðri færslunni inn í morgun!! Ég var alls ekki búin enda rétt farin að tæpa á stefnuræðunni!! en hér kemur hugleiðing mín í fullri lengd!

Í stefnuræðu bæjarstjóra hins nýja meirihluta í Bolungarvík, Elíasar Jónatanssonar, kennir margra grasa. Á flýtiferð yfir ræðuna sem má nálgast hér, virðist sem svo að leysa eigi fjárhagsvandann hratt og örugglega með uppsögnum og ákaflega miklum niðurskurði sem einna helst bitnar á fjölskyldufólki. Hækka á tónlistaskólagjöld um 25% ásamt því að setja þak á fjölda nemenda. Hvernig á að velja nemendur inn í skólann??? Ég hef nú þegar ekki efni á því að hafa börnin mín í tónlistarkólanum þetta misserið og sé nú að öruggt er að þeirra tónlistarnámi við Tónslistarskólann í Bolungarvík er lokið. Allavega fram að næstu kosningum.

Spara á í heilsdagsskólanum líka. Þar eru núna, eftir því sem ég best veit, tveir starfsmenn. Ekki veit ég upp á hár hversu mörg börnin eru en ég veit þó að þar eru tvö börn sem þurfa fullan stuðning. (hver ætli sjái þá um hin börnin) Ég get ómögulega séð hvernig á að spara þar! Nema þá ögulega að hækka gjöldin þar líka?

Grunnskólinn: " framboð kennslu verði skv. lögbundnu lágmarki, en sérkennsla er áætluð í samráði við skólastjórnendur. M.a. er reiknað með að forfallakennsla falli niður í 8. til 10. bekk." WHAT???? Þetta er áræðinlega löglegt en kommon!! gáfulegt er það ekki!

Sem tiltölulega lágt launuð fjölskylda sem er hætt að fara til útlanda, hætt að fara í skemmtiferðir sem kosta peninga, hætt að kaupa óþarfa eins og áfengi og vínarbrauð, hætt að fara í bíó og á leiksýningar, er okkur vissulega nokkuð áfram um að halda börnunum okkar í einhverskonar íþróttaiðkun, alveg eins og hinum efnameiri. Þar hafa frístundakort bæjarins verið himnasending. Það kostar 15.000 krónur fyrir hvert barn pr.önn, að stunda íþrótt í UMFB, sem er hið ágætasta félag. Frístundakortin giltu sem 15.000 uppígreiðsla yfir veturinn þannig að í stað þess að greiða 30.000 krónur fyrir hvert barn yfir veturinn, voru það aðeins 15.000 krónur á haus. Frístundakortin eiga að fjúka. Sem þýðir að það, að leyfa börnunum okkar að vera í íþróttum kostar 30.000 krónur yfir veturinn fyrir hvert barn. Reikni nú hver fyrir sig. Einhver systkinafsláttur er þó veittur en ég er ekki með það á hreinu hversu hár hann er. Þetta er verulega mikil skerðing fyrir okkur og eflaust flestar barnafjölskyldur.

Það má með sanni segja að íþróttamiðstöðin Árbær, hafi verið það sem við fjölskyldan botn-nýtum. Þar er öll helsta aðstaða til íþróttaiðkunnar undir hinu hripleka steypuþaki, heitir pottar og dásamleg rennibraut. Enda iðar þessi helsti samkomustaður bæjarbúa af lífi frá opnun til lokunnar. Frá því að við fluttum í bæinn hefur orðið gríðarleg aukning í nýtingu miðstöðvarinnar, eftir því sem ég fæ best séð. Við förum svo til hvern einasta dag í sund. Og það er yndislegt. Ég hef oft og mörgum sinnum sagt: ef ekki væri fyrir þessa sundlaug, þá væri þessi staður eiginlega ekki byggilegur. Það er auðvitað mitt smekksatriði. Mér hefur þó alltaf þótt opnunartíminn of stuttur. Sérstaklega á sunnudögum og mánudögum. Viti menn, það á að stytta opnunartímann. Lokað á mánudögum og styttri opnun um helgar. Að auki, og það þykir mér hið grafalvarlegasta mál;  á að fækka stöðugildum.

Mig langar að rifja upp tvö tiltölulega nýskeð óhöpp sem urðu í þessari téðu laug. Það hryllilega atvik varð fyrir nokkrum misserum að drengur drukknaði í lauginni. Bekkjarbróðir sonar míns. Fyrir kraftaverk, og ekki síst ótrúlegt snarræði og hugrekki starfsfólks var lífi drengsins bjargað, en ég veit að börnin sem voru þarna þennan dag, starfsfólk og við foreldrarnir, gleymum aldrei þessum degi. Hefði þetta lánast svona ef aðeins hefði verið einn starfsmaður?

Dæmi tvö: fyrir skemmstu var sundmót. Unglingsstúlka hné niður í sturtuklefanum og missti meðvitund. Málinu lyktaði farsællega og stúlkan er við bestu heilsu eftir því sem ég best veit. En hvað ef þetta hefði gerst, eða myndi gerast á þeim tíma hvar EINN starfsmaður sæti vaktina og fylgdist með fullri sundlaug af börnum, myndavélunum fyrir sundlaugargarðinn AUK ÞESS AÐ AFGREIÐA OG ÞURRKA UPP ENDALAUSAN LEKA ÞAKSINS???? HVAÐ ÞÁ???

ARG!! Ég held að þetta ákvæði í stefnuræðu ágæts bæjarstjóra sé það sem hleypi í mig hvað mestum skratta! Þarna erum við að tala um lágmarks öryggi, auk þess að það þykir sjálfsagt að hafa baðverði af báðum kynjum.

Að auki hef ég heyrt því fleygt að það eigi að hækka sundgjaldið upp fyrir Akureyrargjaldtökuna  (sem er með því hæsta á landinu og kostar fyrir fjölskylduna það sama í sund þar og staðgóð máltíð fyrir átta manns) sem þó réttlætist af glæsilegum laugum og risastórum garði, en ekki leku húsi og tveim sprungnum pottum! Þar að auki að það eigi einungis að vera frítt fyrir BOLVÍSK börn!!!! (því var komið hér á í veru Eiga þau að sýna nafnskírteini þegar þau koma?? Eigum við ekki líka að rukka fólk af gyðingaættum meira af því að gyðingar eru svo ríkir??? Hahahahah, ég vona að þetta sé bara djók!

Útsvarið verður einnig það hæsta á landinu. Það er ég alveg tilbúin að taka á mig. Einnig færri sorphirðudaga.  Ég er meira en lítið til í að borga hærra útsvar, fái ég áfram þá þjónustu sem mér finnst sjálfsagt að bæjarfélagið veiti mér. Og mér finnst hið besta mál að flokka mitt eigið rusl og fara með í gáma. Mín vegna mætti hirða sorpið einu sinni í mánuði!!

það er alls ekki það, að ég skilji ekki að það þurfi að spara!? Sjálf hef ég aldeilis þurft að draga saman seglin undanfarin tvö-þrjú ár og skil vel hvað það er að þurfa að "cutta niður" útgjöld. En ég reyni, -ólíkt batteríinu: Bolungarvíkurkaupstaður.is, að gera það þannig að sem minnst bitni á börnunum mínum!

Ég sé frammá tvo kosti og hvorugan góðan. Annað hvort að þreyja þorrann og vona að við fjölskyldan höfum gott af því að fara sjaldnar í sund, sleppa öllu aktiviteti. s.s. íþróttum og tónlistarnámi, vona að enginn þurfi á skertri félagsþjónustunni að halda, nota ekki undirmannaðan heilsdagsskólann og treysta því að unglingurinn læri sjálfur í forföllum kennaranna! Ef Guð lofar, færir þetta okkur saman og gerir okkur, -og ekki síður börnin að nýtari þjóðfélagsþegnum!!

Hinn kosturinn er að flytja. Sigta einfaldlega út það bæjarfélag/land sem býður uppá góða þjónustu fyrir barnafjölskyldur og reyna að koma sér þar fyrir. Sem væri synd. En maður spyr sig líka: hvað kemur börnunum til góða? Hvað er best fyrir okkur sem fjölskyldu?

ég er: Ylfa Mist Helgadóttir, íbúi í Bolungarvík, útsvarsgreiðandi, láglaunaþegn, skattgreiðandi, foreldri, og síðast en ekki síst; uggandi um framtíð bæjarfélagsins og eigin fjölskyldu. Telur að það sé vænlegra að greiða hægar niður skuldir bæjarins og halda frekar í útsvarsgreiðendur með því að halda þjónustustiginu á mannsæmandi plani. 


Í Austurbænum

Það er dásamlegt að vera hjá Tótu vinkonu. Liggja uppí sófa og glápa á rómatískar, breskar gamanmyndir, fara í unaðslegu sturtuna hennar og fá að sofa í nýja sjúkrarúminu hennar, sem ég held að hún hafi keypt bara fyrir mig! Allt rafdrifið og gasalega hentugt. Það er yndislegt að vera ekki á spítala, geta borðað þegar manni hentar og drukkið þegar maður er þyrstur. Svo býr Tóta í Austurbænum, Holtunum, þægilega stutt frá öllum helstu lækna og rannsóknarstöðvum þeim sem ég þarf að sækja heim af og til. Einhverntíma sagði mér maður (mig minnir að hann heiti Haraldur) að hann þaulrataði um allt þetta hverfi fyrir þær sakir að í gamla daga hefði búið svo mikið af einstæðum mæðrum hér! Man að mér þótti það frekar fyndið.....En nú er ég í lækna og rannsóknarleyfi fram á mánudag. Og ef Guð lofar, fer ég heim á þriðjudag.

Sara frænka kom að heimsækja mig í dag og við skemmtum okkur ágætlega þangað til að ég fékk eitthvað bakslag seinnipartinn. Maður verður fárveikur af því að leggjast inná spítala og ég er búin að vera allan tímann með ógeðslega hálsbólgu. Þá alverstu sem ég hef fengið síðan ég var með hálskirtla! Sama tilfinning og fyrstu dagana eftir að kirtlarnir voru teknir úr mér! Þetta er ekki eðlilegt. Mér finnst bókstaflega allir vera með einhverjar fjárans pestir, flensur, magaveiki eða hvað þetta nú allt er. Er þetta árstíminn? Er þetta alltaf svona ár hvert? Er maður bara svona fljótur að gleyma á milli ára? Allavega lagðist ég undir feld og horfði á myndina Fjögur brúðkaup og jarðarför. Einhverra hluta vegna er ég eina manneskjan í heiminum sem aldrei sá þessa mynd á hennar prímatíma! Hún er alveg ágæt.

Takk fyrir allar bataóskir, góðar kveðjur og hlýjar hugsanir undanfarna daga. Lovjúall...


á meðan þjóðfélagið er skekið í pólitíkinni...

.....er ég í einangruðu og vernduðu umhverfi ríkisins.

Á deild 14 G á landspítalanum sit ég og bíð eftir að komast í aðgerð. Í nærbuxum sem hafa sennilega verið hannaðar í starfsmannapartýi saumastofunnar, klukkan fjögur um morguninn! Ég þekki í það minnsta engan sem hefur tuttugu cm breitt klof, og getur notað teygjulausar nærbuxur.

Ég er flækt í víra og snúrur, fæ hvorki vott né þurrt og er orðin svo þyrst að ég er farin að froðufella!!

kannski á að fresta aðgerðinni minni, var mér sagt rétt í þessari andránni, ég má samt ekki fá neitt að drekka.... EF ég kannski kæmist inn seinnipartinn....... 

Konan sem var við hliðina á mér í nótt var send heim "í leyfi" sem þýðir að hún mátti drífa sig heim, helst sem hraðast, án þess að hafa fengið bót meina sinna. Hún var verulega spæld.

Á ganginum eru rúm við alla veggi og þar liggur fólk í misslæmu ástandi, flestir í súrefni. Það er ekki pláss fyrir það á stofu.

Á bráðadeildinni niðri liggja sex saman á stofu. Allir þurfa að segja kennitöluna sína hvað eftir annað, starfsfólkið gefur upp nöfn viðkomandi, sjúkrasagan er sögð, mælingar eru gerðar og allt fer þetta fram í vitna viðurvist. Það er ekkert prívat.

Svona er besta heilbrigðiskerfi í heimi.....

En nettnengingin virkar!!


Innbrot!

Klukkan hálf þrjú í nótt, fór ég að heyra eitthvað hljóð niðri. Mér fannst eins og dyrnar sem snúa út í bakkgarðinn væru opnaðar. Reyndar fannst mér smátt og smátt eins og verið væri að opna allar hurðar hússins! "Halli!... Halli!! þú verður að fara fram! Það er einhver frammi!" Halli sagði að þetta væri bara vindurinn. Óþarfi að vera með læti yfir því! Áfram héldu torkennileg hljóð að berast og þegar tíkin, sem alltaf sefur fyrir framan Birni sinn í kojunni hans stökk á fætur og fór að ókyrrast og væla, var eiginmanninum hent fram úr rúminu til að hlaupa fram og hrekja gestinn á flótta. Eftir stutta leit að náttsloppnum rauk Haraldur fram og æddi niður þar sem ég heyrði stympingar, hurðarskelli og öskur! "Ónei! Kannski er þjófurinn vopnaður," hugsaði ég. "Kannski eru þeir margir saman!" Að lokum barst leikurinn upp og hér frammi á gangi tókst Halla að yfirbuga innbrotsþjófinn og reka hann út um galopnar útidyrnar sem tíkin kastaði sér á, því að sjálf ætlaði hún sér að ná tangarhaldi á innbrotsþjófnum! Hún vældi og skældi á meðan Halli hljóp um allt hús og rammlæsti öllum dyrum og gluggum. Og á meðan á þessu öllu stóð gelti raðgreiðslurottan hennar mömmu inní herbergi eins og enginn væri morgundagurinn!

Púff... nú var loks að komast ró á fólkið aftur en tíkin var ósátt og grenjaði. Fannst okkur því líklegast að skrattakollurinn væri jafnvel ennþá að sniglast fyrir utan. Jú, mikið rétt. Hann byrjaði að henda sér á kjallaradyrnar sem eru staðsettar undir svefnherberginu með ólátum og djöfulgangi. Hann var alveg orðinn brjálaður! "Halli, þú verður að hringja og láta fjarlægja hann á stundinni!" -skipaði frúin. Þreytulega tók Haraldur upp gemsann og valdi númerið. "Blessaður," sagði hann mæðulega, "heyrðu þú kannski kemur og sækir hundinn þinn?"

Tíkin er semsagt lóðandi og í bænum er hundur sem ætlaði ekki að láta bóndadagsfenginn framhjá sér fara!!

Til hamingju með daginn, bændur!


Diskarnir.

Ég er búnað gera upp við mig hvaða geisladiskar sem út komu á síðasta ári hafa staðið uppúr hjá mér. Fyrst skal telja: Hinn Íslenska Þursaflokk og Caput, í Höllinni á Þorra 2008. Diskurinn er snilld, Þetta eru nú ekki neinir aukvisar þarna í Þursaflokknum og skal þar minnst gera úr hlutverki sáðmannsins og föður míns, Rúnars Hartmanns Vilbergssonar :)

Diskur Vilbergs Vilbergssonar; Í Tímans Rás, stóð líka uppúr hjá mér. Hefur auðvitað ekkert með skyldleikann að gera, hvað þá að ég syngi eitt lag á diskinum ;o) Hvað um það, diskurinn er; (þrátt fyrir það) afbragð og hentar við öll tækifæri.

Túpílakar gáfu út disk á þessu ári. svei mér ef hann ekki bara heitir Túpílakar? Hann hefur verið spilaður allra mest í mín eyru. Heilu ferðalög sumarsins voru undirlögð af þessum snillingum, Oddi Bjarna, Margréti og Sigga Illuga. Börnin kunnu alla textanna og meira að segja Halli, textafatlaður maðurinn, var farinn að raula með einn og einn lagstúf. Þessi plata er frábær! Útsetningarnar er drullugóðar, Oddur er náttúrulega skitsófranískur söngvari og í honum búa þúsund aðrir söngvarar, Margrét er nú hreint ekkert slor, og Siggi heldur þessu svo öllu saman! Synd reyndar að heyra hann ekki syngja meira því að hann er með fallega söngrödd. Textarnir eru dýrðlegir! Línur eins og "Drullusokkar falla fyrir Dóru syst, og Dóra fellur klofveg´oná þá!" eru auðvitað algjört sælgæti!

Ekki má gleyma Galdrakarlinum í Oz! Leikhópurinn Lotta gerði þann feikilega flotta barnadisk. Hann var spilaður í hel. Það er náttúrulega frekar fyndið að einn af aðaldiskum ársins skuli vera barnadiskur, en þannig er það bara þegar maður á börn. Þá stjórna þau dálítið miklu um tónlistarval heimilisins........

Ég er alltí einu að átta mig á því að diskarnir eru allir íslenskir. Sem er bara frábært! Ég þarf greinilega ekkert að leita út fyrir landsteinana, nægar eru perlurnar hér.


Ársuppgjör án reikninga.

Gleðilegt ár!!

Loksins hef ég mig í að líta yfir árið 2oo8. Eins og sagði í bráðfyndnu áramótaskaupinu, -þetta var ömurlegt ár, -þá er ég að hluta til sammála því. En það sést týra í fallega ljósbletti inná milli. Fjárhagur heimilisins er tjah... bara í takt við fjárhag heimilanna um þessar mundir. Viðbjóður. Það er bara eitt orð yfir það, en það er nú ekki það versta sem hent getur. Ég lenti í hálfgerðu heilsutjóni og hef haft af því stærri áhyggjur en tittlingaskít eins og blankheitum.  Nú hef ég tekið þá ákvörðun að hunsa veikindi mín. Láta sem þau séu ekki til og sjá hvað gerist.

En það var margt sem við bar á árinu og hér ætla ég að gera á því stutta úttekt:

Ferming

Aldurssjokk ársins: Elsti drengurinn fermdist. Mér fannst ég skyndilega öldruð og virðuleg.

Vonbrigði ársins hin fyrri: bæjarstjórnarklúðrið í Bolungarvík í vor. Of neyðarlegt til að gera því greinilegri skil hér.

Vonbrigði ársins hin síðari: velkist einhver í vafa? Ríkisstjórnin? Útrásarmenn? Bankahrunið?  Nenni ekki að fara yfir þá sögu heldur. Hún er einnig ákaflega pínleg og allir þekkja hana. En svarið er á góðri íslensku;  Yes.

Kaldalón við Djúp

Ferðalag ársins: Tjaldútilega í Kaldalóni með fjölskyldunni í hitabylgjunni í júlí. Sandur, skeljar, fjallalækir, hornsílaveiðar, pylsur og bakaðar baunir á prímus, uppvask í fjallalæk, hljóð himbrimans á lóninu um nótt, kvöldsól, rauður himinn, busl í heitum náttúrulaugum og rústir liðinna tíma, „þar sem norðursins fegurð ríkir ein ofar hverri kröfu.“

Partýið ógurlegaGestir ársins:  Tenórarnir tveir, Eyfi og Jón Þorsteinsson ásamt Dr. Tótu. Hitabylgja sumarsins verður að teljast með gestum ársins. Klárlega. Jú, og Tengdamamma sem átti bestu meltingarfærabrandara ársins.

Breikþrú ársins: fölbleika greiphlaupið mitt sem seldist upp á markaðsdaginn.

Partý ársins: Haldið hér heima.  Mojito bladað í stórar könnur. Flestir gestir aðkomufólk sem söng mikið. Nokkrir heimamenn slæddust með, sér til undrunar og stemningsauka.  Endaði með sjúkrahúsvist og var gefið  magalyf í æð.

Og í framhaldi af því: Ákvörðun ársins:  að neyta ekki áfengis framar. Baldur í útilegu

Blaðaviðtal ársins: pottþétt viðtal Hálfdáns Hálfdánssonar fyrrverandi fréttamanns á BB, við sultudrottninguna og húsmóðurina Ylfu Mist. Þar líkti hann hlátri mínum við skoppandi læk á kyrru sumarkvöldi sem gjálfrar silfurtær í móum... og hvaðeina. Minntist ég á það að hann er fyrrverandi blaðamaður??

Undrun ársins:  einkunnir haustannarinnar.  Sá að ég gat lært. Átti ekki von á því. Hef reyndar áttað mig á því núna síðustu daga að stærðfræðin er mér jafn erfið og fyrr.

Kyntröll ársins: Haraldur! Þarf að spyrja?

Fegurð ársins: Drengirnir mínir. Þarf að spyrja?

 

Og í lokin, svona af því að öllu gríni fylgir nokkur alvara; það sem hafði mestu varanlegu breytinguna á líf mitt eins og ég þekkti það var náttúrulega þegar hann elsku pabbi minn, Helgi Þorsteinsson Von Sauðlauksdalur, eins og ég kallaði hann alltaf, lést þann 25. Nóvember. Ég er ekki ennþá alveg búnað átta mig á þeirri breytingu að pabbi sé horfinn mér fyrir fullt og allt. Mér finnst ég alltaf ætla að hringja í hann, segja honum eitthvað næst þegar ég heyri í honum, sögu, brandara eða uppskrift, en þá man ég að hann er dáinn. Það er skrítið. En gangur lífsins engu að síður.

Helgi Þorsteinsson

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband