Færsluflokkur: Bloggar

Áfram niður Memory Lane....

Ég hef verið að kjafta við Ellurósu vinkonu mína á msn. Hún býr í Danmörku. Svo hitti ég Lindu í gær. Og í fyrrakvöld hitti ég gamla bekkjasystur og æskuvinkonu, hana Silju Gunnars. Þegar farið er að rifja upp gamla daga fer einhver skriða af stað. Þar á meðal þessi:

Sérlega hallærislegt lag og myndbandið er AGALEGT!  Enda er þetta sænsk Country-sveit, ekki við öðru að búast!

En... engu að síður, ..eitt af þessum lögum sem rifja upp einhvern sérstakan stemmara. Blöndu af angurværð, fortíðarþrá og ...einhverju sem ekki er hægt að útskýra.

Annars er ég að fara heim á morgun. Loksins! Björgúlfur minn á afmæli á sunnudaginn. Fjórtán ára! Hann hélt matarboð í kvöld fyrir vini sína. Þau fengu sér hamborgara og spiluðu. Eittvað annað en ég var að gera þegar ég hélt uppá fjórtán ára afmælið mitt! Það er á hreinu! Hann er góður drengur og fetar ekki í fótspor mömmu sinnar þegar kemur að unglingahegðun. Sem betur fer!

Á sunnudaginn verður vöfflukaffi fyrir alla sem vilja kíkja.


Rainbow

Þegar ég var unglingur þekkti ég mann sem var mikill Rainbow aðdáandi. Ég lærði auðvitað að meta þessa eðalgrúppu með öllum sínum mannabreytingum og skrautlega ferli.  Ég varð ótrúlega svag fyrir síðhærðum gítarleikurum á þessum tíma, sérstaklega hetjugítarleikurum eins og Ritchie Blackmore. Það var eiginlega algjört skilyrði að þeir sæjust aldrei brosa. Þeir urðu að vera alvarlegir, fjarrænir, síðhærðir, með opið niðrá loðna bringu, frekar hallærislegir í klæðaburði, (svona eins og Brian May og Blackmore) og helst með nógu andskoti sítt og rytjulegt hár! Að þessum skilyrðum uppfylltum, heimsóttu þeir dag-og næturdrauma, unglingsstúlkunnar á Ásvegi 2 á Dalvík! Fyrstu geisladiskarnir sem ég keypti mér sjálf (í plötubúðinni á Neskaupsstað af einhverjum ástæðum) voru Rainbowplöturnar: Bent out of shape, Difficoult to cure, Down to earth, straight between the eyes og fleiri gullmolar.

Já, hann var einkennilegur, smekkur unglingsstúlkunnar á Ásvegi 2, þegar kom að karlmönnum. Mér þóttu þeir piltar sem hvað vinsælastir voru á þeim tíma yfirleitt lítið spennandi! Nei, síðhærðu gítarhetjurnar voru mín kyntákn! Svo ekki sé nú minnst á gullmola eins og Alice Cooper!

Auðvitað, sem sannur aðdáandi Hár-metalsins, átti ég fyrir plöturnar Dream evil og Holy Diver með R.J. DIO.  En Dio var auðvitað fyrsti söngvari Rainbow. Hann var með svakalega rödd og ég man ennþá hversu vonsvikin ég varð þegar ég sá þennan tyrðil fyrst! Hann var í engu samræmi við röddina! Þá var nú Graham Bonnet eitthvað annað! Enn þann dag í dag þegar ég sé hann taka smelli á borð við þennan:

 .

........kikna ég verulega í hnjáliðunum! Hafið þolinmæði við að hlaða inn myndbandinu, ég lofa því að það er þess virði!!! Bonnet er auðvitað löðrandi í kynþokka og ekki síður í "Since you´ve been gone." Það er nótt og enn vaki ég heima hjá Tótu vinkonu, með tölvuna uppí rúmi og hlusta og horfi á gamla sjarma. Gamlar minningar banka uppá... minningar sem ég deili bara með Lindu, Ellu Rósu og engum öðrum!!LoL Minningar sem hæfa ekki ömmum, frænkum, systrum eða vinnufélögum. Bara gömlu vinkonunum! Það er dásamlegt að eiga svoleiðis minningar. Unglingsárin voru ekki þau prúðustu, það veit Guð. Og þau voru helvíti erfið, það vita þeir sem hafa verið unglingar..... allflestir, sem sagt! En mikið djöfull var nú oft gaman!!!

Svona "Walk down Memory Lane" er nauðsynlegt að taka af og til. Það er eitthvað svo..... HRESSANDI! Rifja upp allar öfgarnar. Í öllu! Það var of mikið af öllu! Of mikið drukkið, of mikið reykt, of mikið r**** og vakað, djammað, elskað, rifist, grátið, hlegið og öskrað. Öfgar í öllu. Og tónlistin alltaf í forgrunni á hæsta styrk. Síðhærðar gítarhetjur og söngvarar með ótrúlegt raddsvið. Syngjandi línur á borð við þessa: We belived, we catched the rainbow.............

Já, þær eru skrítnar þessar landsbyggðarstelpur!


Besta heilbrigðiskerfi í heimi........

Mánudagur:Ylfa er með miklar hjartsláttartruflanir. Ylfa missir meðvitund, skellur í gólfið og rekur höfuðið í dyrastaf í leiðinni. Ylfa  rankar við sér þegar fjögurra ára sonur hennar öskrar: Mamma, mamma, vaknaðu!!! Sonurinn grætur af því að hann er hræddur. Mamma liggur í gólfinu og það blæðir úr enninu á henni. það er nóg til að barnið verði viti sínu fjær af hræðslu. Ylfa sest upp og tekur barnið í fangið og reynir að hugga það. Barnið grætur og Ylfa grætur líka. Þegar börn gráta þá grætir það gjarnan mæðurnar líka. Unglingssonurinn hennar Ylfu kemur og fer að reyna að hringja í lækni. Hann er hræddur og man ekki númerið hjá upplýsingum og veit ekkert hvað hann á að gera. Ylfa tekur símann, fer inná bað, lokar og hringir í lækninn. Hún býr í næsta húsi og kemur strax. Hún fer og skrifar bréf til læknanna á Landspítalanum og segir Ylfu að taka það með sér strax næsta morgun, hún vilji láta leggja hana inn á Bráðadeild.  Ylfa verður fjarskalega fegin að loksins sjái kannski fyrir endann á þessum köstum, en líka dálítið stressuð yfir því að þurfa að fara með svona stuttum fyrirvara. En hún gerir ráðstafanir með börnin, skólann, vinnuna og allt hitt sem mömmur gera, pakkar svo niður í tösku og fer að sofa.

Þriðjudagur: Palli barnsfaðir Ylfu sækir hana á flugvöllinn og keyrir hana heim til sín. Þar bíður Berglind konan hans, sem gegnir líka því hlutverki að vera vinkona Ylfu. Hún fer með Ylfu á bráðadeildina og bíður með henni þangað til að búið er að leggja Ylfu inn. Ylfa er tengd við mónitór og tekin er blóðprufa og hún má hvorki borða né drekka. Á bráðadeildinni er brjálað að gera og Ylfa heyrir sögu hvers sjúklingsins á fætur öðrum, heyrir nöfnin þeirra, hvað er að þeim, heyrir þegar þeir eru sónarskoðaðir í næsta rúmi, hvað kom út úr endaþarmsþreifingunum þeirra, hvernig þeir hlutu áverkana sína, hvenær verkurinn fyrir brjóstinu byrjaði...... og þar fram eftir götum. Ylfa undrar sig á því að ekki séu til fleiri sjúkrastofur í landi allsnægtanna, svo að fólk geti haft sína nekt, sínar líkamsathuganir og þvagblöðruskoðanir, sínar sjúkrasögur og sína prívatlíðan í friði fyrir öðrum. Ylfa biður vinkonu sína hana Berglindi að koma með eyrnatappa. Læknir kemur og segir Ylfu að hún eigi að liggja þarna til morguns því að gera eigi rannsóknir. Klukkan er að verða þrjú og Ylfa er orðin ofsalega þyrst. Hún á að fasta og má ekkert drekka.

Einhvernvegin tekst Ylfu að blunda. Líklega hafa eyrnatapparnir hjálpað. Hún er vakin af hjúkrunarkonu sem segir: Ylfa, þú mátt fara heim. Það er búið að útskrifa þig! Ylfa sest upp í rúminu og veit ekki alveg hvort hún er vöknuð. Önnur kona kemur og segir: þú mátt klæða þig og fara. Ylfa bendir á tækið sem hún er tengd við með allskonar snúrum og spyr: á ég að taka þetta með??  Konan snýr við og losar Ylfu. Það þykknar í Ylfu og hún spyr: á hvaða forsendum var ég lögð inn og á hvaða forsendum er ég útskrifuð? Hjúkkan segir að læknirinn sem hafi útskrifað hana sé farinn og hún geti ekki svarað. En hún skuli sækja einhvern. Aðstoðardeildarlæknirinn kemur. Það er ung stúlka sem segir Ylfu að það sé búið að hafa hana í mónitór í sex tíma og ekkert hafi gerst. Hún megi því fara heim. Ylfa verður reið. Segist nú ekki beint vera að koma úr næsta húsi, hún þurfi að fá að vita hvað eigi að gera næst. Aðstoðardeildarlæknirinn segist ekki geta svarað því. Hún voni bara að allt gangi vel.

Það sem sagt var í kjölfarið er ekki hafandi eftir. Ég læt nægja að skýra frá því, að þegar Berglind kom að sækja Ylfu varð hún að sækja trefilinn hennar. Ylfa getur aldrei látið sjá sig aftur á Bráðadeild. 

Miðvikudagur: Ylfa hefur það gott heima hjá Tótu vinkonu sinni. Hún er búin að hringja í Lækninn sinn og kvarta hástöfum undan þessari meðferð/meðferðarleysi. Læknirinn hennar reynir að hringja í hjartalækninn hennar Ylfu en hann er í fríi fram í næstu viku. Svo að Ylfa fer heim aftur og bíður þangað til hún dettur aftur í gólfið. Þá endurtekur sagan sig.

Kæra landstjórn: er það þetta sem þið eigið við þegar þið talið um besta heilbrigðiskerfi í heimi?


Ruglan

Arg,...

Heilsan hefur verið með besta móti, undanfarinn mánuð en skyndilega hef ég aftur þörf fyrir að skalla gólf og veggi! Með myndarlega kúlu á enninu og gott glóðarauga í aðsigi hef ég því fengið reisupassann til Reykjavíkur. Fyrirheitni staðurinn er Landspítalinn. Það verður líklega upplit á staffinu þar þegar ég segi því hvað gerðist: ég datt á hurð.......Wink Ég á að leggjast inn á bráðadeild hjarta.....deildar, svo að hægt sé að troða mér í þessa aðgerð sem ég þarf annars að bíða eftir í ár. ÁR!! Ég meina, hver veit hvað verður eftir ÁR???? Maður gæti allt eins verið búinn að geispa golunni! En það er nú gott að landstjórnin ákvað að byggja hátæknisjúkrahús fyrir símapeningana mína... og þína. Ég bara vona að það gangi betur að manna það en þau sjúkrahús sem við eigum fyrir. Ég vona líka að það verði þá hægt að útrýma biðlistum, fyrst ekki var hægt að setja þessa peninga í ríkisspítalana sem hanga endalaust á horriminni, í rekstrarhalla, vanskilum, niðurskurði og hörmung. Djöfull getur þetta helvítis, fokking "frábæra" heilbrigðiskerfi okkar gert mig BRJÁLAÐA!!!  (ég bið aldraðar móðursystur og aðra viðkvæma að afsaka orðbragðið... ég er bara svo helvíti geðvond. Það fylgir því að fara svona snöggt í lárétta líkamsstöðu...)

Þannig að aftur er ég kominn í sömu súpuna, get ekki keyrt, get ekki unnið, get ekki mætt í skólann..... Ég er dálítið spæld en vona að eitthvað gott hljótist af þessu öllu saman Halo........ döh...

Og þar sem ég veit að Dr.Theodóra les bloggið mitt, þá segi ég bara: Tehodóra mín, ég er afar glöð með að hafa vitni að þessu með hjúksapar-ráðstöfunina!!!! LoL 

Set nú inn eina svona skemmtilega til að enda þetta nú á jákvæðu nótunum. Það má örugglega heimsækja mig á sjúkrahúsið, ef einhver nennir að tala við geðvonda konu með meiningar gagnvart heilbrigðiskerfinu........

Við kaldalón í sumar


Sunnudagur

Úff hvað ég er þreytt. Ég var á næturvakt í nótt og börnin mín hafa líklega sammælst um það að þegar ég kæmi heim, fengi ég ekki mínútusvefnfrið! Á endanum, núna um hálftvöleytið ákvað pabbi þeirra að fara með þá í sund til að ég fengi næði en þá er það of seint. Ég gat ekki sofnað. Þetta er gallinn við næturvaktir. Og mér finnst alltaf jafn sérstakt að heyra fólk segja: þetta er nú ekkert mál fyrir ykkur, þessar ungu! En það gleymir því að við, þessar ungu eigum venjulega dágóða súpu af börnum sem eru ekkert endilega innstillt á það að mamma þurfi svefnfrið á daginn!Tounge

Svo að ég er geðstirð, úrill og úldin í meira lagi!

Kannski ég bara drífi mig á eftir þeim í laugina. Reyni að skola af mér geðvonskuna og syfjuna.


Saltkjöt og bjúgur

eða öllu heldur saltkjöt og baunir og bjúgur í eftirrétt!

Ég rakst á svo dásamlegt tilboð á söltuðum lambarifjum í´Bónus á dögunum að því varð ekki hafnað! Rifin eru nefnilega það albesta! Feit og væn og á beini! Salkjöt eins og það gerist best! Og þar sem ég elda bara saltkjöt um það bil tvisvar á ári, hef ég baunasúpu með. Og ét yfir mig í bæði skiptin! Og fæ góða viðbót á fætur, háls og hendur! Ég er líklega búnað drekka tvo lítra af vökva í kvöld án þess að fara svo mikið sem einu sinni á klósettið að pissa! Nei, -allur þessi vökvi hleðst samviskusamlega á sköflunga, ökkla, varir og fingur! Það má pota vísifingri á kaf í fótlegg og liggur við að maður þurfi að vera nokkuð rammur að afli til að toga fingurinn úr holunni!!!

Ég ELSKA saltkjöt! Ég veit vel að ef ég borða það, þá fæ ég hroðalegan bjúg, ég GET bara ekki hamið mig! Lái mér hver sem vill, en vel feitt saltkjöt, rófur, gulrætur og passlega sölt baunasúpa er bara mitt hlið að himnaríki! Nema ef vera skyldu vel slegin og söltuð svið! Mmmmmmmm...

Að hugsa sér! Hér sit ég, rórillandi í umframholdum og bjúg, beinlínis búin að éta á mig óþrif, og hvað hugsa ég um?? MAT!!!!

Svona fólki er hvorki vorkun né björgun!


Saga af Frú Heppin

Frú Heppin fór út að ganga í fyrrakvöld ásamt tíkinni sinni. Frú Heppin fór í langa, langa göngu og kom við hjá vinkonu á leiðinni heim. Frú Heppin var ánægð með sjálfa sig, veðrið og allt saman. Því næst datt Frú Heppin kylliflöt, aftur fyrir sig, beint á bakið! Frú Heppin lagðist í rúmið og bruddi verkjartöflur. En síðan fór Frú Heppin í sund í gærkvöldi, lá í pottinum og gerði æfingar í lauginni. Frú Heppin er því miklu skárri í dag. Frú Heppin er því eftir allt saman afar heppin.

Móðir Frú Heppin er flutt inn tímabundið. Móðirin bíður eftir dvalarheimilisplássi og ætlar að vera hjá dóttur sinni, Frú Heppin, þangað til. Frú Heppin og Herra Heppinn verða því að klára kjallaraherbergi elsta sonarins snarlega svo hann geti flutt niður og látið ömmu sinni eftir hornherbergið. Heppni að amma skyldi koma, þá fær unglingurinn loksins kjallaraherbergið sitt. Frú Heppin og fjölskylda hennar eru því heppin eftir allt saman.

 


Ill veður, Ármann fertugur og þar frammeftir götum

Hér hefur verið bylur síðan á fimmtudag. Og sko... ég meina BYLUR! Með tilheyrandi bílafestingum, mokstri og almennri smábæjar-óveðurs-ófærðarstemmningu! Og þá tekur maður eftir einu: pólverjar eru hjálpsamastir allra! Tja.. fyrir utan auðvitað Fal Þorkelsson og frænda hans Sigmund sem björguðu okkur í dag og brugðust við beiðni eins og sannir herramenn! Enda ekki ósjaldan sem dýrðin hann Falur og hans frú hafa verið manni bóngóð! En merkilegt með þetta pólska fólk! Það er svo vant samfélagshugsuninni að það setur sig úr leið til að ýta á fastan bíl, moka nokkrar skóflur fyrir mann, eða einfaldlega bjóða "Godan daginn," brosmilt og fallegt!

Við höfum verið í afmæli í tvo daga í röð. Og það í bæði skiptin hjá Bríeti Finnbogasystur sem hélt tveggja daga langt afmæli ásamt Eddu Borg vinkonu sinni. Og á þessu hefur maður grætt óhemju súkkulaðivelgju! Pylsur og súkkulaðikaka er ekki góð blanda fyrir fólk sem fær auðveldlega brjóstsviða! Sem þekkt fyrir að vera "konan sem hótar óþekkum börnum flengingu" hélt ég auðvitað uppi járnaga í barnaafmælinu sem var í dag. Öll leikskóladeild Bríetar og Baldurs var samankomin og ekki veitti af vendinum! Rosaleg læti geta verið í tuttugu börnum sem eru fjögurra ára gömul!  Úff!! Ég vona að guttarnir mínir vilji framvegis bara hafa "fámenn" afmæli.......... En þrátt fyrir lætin þá sér maður svo ótrúlega vel í svona afmælum hvað börn eru ótrúlega stillt án foreldra sinna! Það að hafa svona marga krakka í einu herbergi gengur aðeins upp ef spillandi foreldraáhrifa gætir EKKI!!

Annars á fyrrum sambýlingur minn og einn besti "karlvinur" fertugsafmæli í dag. Ármann Guðmundsson, Húsvíkingur og ljóti hálfviti heldur upp á afmælið sitt með tónleikum í Rósenberg í kvöld. Leitt að komast ekki! Ég get bara yljað mér við minninguna um þrítugsafmælið hans sem hann hélt ásamt Togga, -einnig Húsvíkingur og hálfviti, í Hugleiksbækistöðvunum gömlu við Aðalstræti eitt í Reykjavík. Nú stendur þar held ég eitthvað hótel. En í den var þar gamall og reisulegur timburhjallur sem ekki hélt vatni né vindum en við héldum mörg partýin og leiksýningarnar í.  

Og í þrítugsafmæli félaganna tók ég að mér að elda súpu og búa til bollu. Frómt frá sagt var bollan gerð úr einhverju heimabruggi og var rosalega áfeng. Svo áfeng að ég dó afar snemma inni í reykingarherberginu! Svei mér ef ég tróð ekki sama kvöld upp með karlakór sem ég hélt fyrir einhvern misskilning að væri blandaður kór! Fullkomlega óumbeðin! Það er ekki skrýtið að ég drekki sjaldnast áfengi í dag! Það klæddi mig lítt betur en aðra!

Hér er ein mynd af hálfvitum, sem ég stal af moggasíðunni, þar sem allar myndirnar af Ármanni eru í annarri tölvu. Til hamingju með afmælið gamli!

halfvitar

 


Jólasnjókoman, feita fósturbarnið og kreppufæði.

Birnir og Ísak vinur hans komu rétt í þessu inn með eplakinnar og báðu um heitt kakó og ristað brauð. Og það var græjað samstundis. Enda er þannig dagur í dag. Ég var á næturvakt í nótt sem var hreint út sagt ansi fjörug, kom heim og lagði mig frá níu til hálf tvö. Þá kom fósturbarnið sem ætlar að vera hjá okkur í smá tíma á meðan mamma þess fer til Reykjavíkur. Þetta fósturbarn er hlutfallslega feitasta veran á heimilinu og leysir mig þar með af hólmi! Og það er þakklátur starfi! Og er hann enda loðnastur líka, leysir því Halla og Urtu af hólmi! Hann heitir Patti og er risastór blendingur af Golden, Border collie, íslenskum og einhverju trölli! Gulur og spiiiiikfeitur! En fallegur er hann!

 Snjór á Vitastígnum

Þar sem allt feitt hér á heimilinu er í hægri bráðnun, var tekið til óspilltra málanna að bræða mörinn af Patta. Við snöruðum okkur því þrjú út í góða veðrið, ég, hann og Urta. Við fórum stóóóran hring, byrjuðum við sjóinn þar sem ég dáðist að öldunum, risastórum, sólinni sem skein á mjallahvíta Jökulfirðina, bátunum sem voru að sigla inn Víkina og hauststillunni. Svo fór aðeins að snjóa. Og aðeins meira. Og loks þegar við Urta drógum þann feita upp að húsinu vorum við öll komin með álímda, hvíta hulsu. Og áfram snjóaði. Hvítar, límkenndar kornflygsur sem prýða nú tré og runna í fullkominni jólastemmningu. Og það er hætt að snjóa. Og aftur komið logn. Og sól. En hún kúrir bak við fjöllin.

Víkin og sandurinn á vetrardegi

Við elduðum kjötsúpu í gær. Getur einhver sagt mér að kjötsúpa sé ekki það dásamlegasta sem til er? Sá hinn sami hefur ekki smakkað mína kjötsúpu! Afganginn tökum við með okkur til Auðar og Rúnars í kvöld þar sem tillagðir verða afgangar af kjúklingi! Það er því kreppumatseðill á boðstólum. Og það er best. Við bættum í frystinn á sunnudaginn heljarinnar býsn af kindakæfu sem á eftir að smakkast dásamlega með heimabökuðu rúgbrauði í allan vetur! Það er gaman að gera kæfu en mikið djöfull verð ég illa haldin af brjóstsviða í kjölfarið maður...... obbobbobb...!

Framundan er löng helgi í skólunum mínum og strákanna en vinnuhelgi hjá mér. Svo ætlar líka Finnbogi fallega fósturbarn að vera hjá okkur. Og það verður nú gaman!


Rúgkökur, tilkynningar og meira skólagrobb

Enn hef ég ekkert heyrt  um framhald frá the all mighty doctors of Reykjavík. Enda er ég bara alþýðukona og heilinn í mér ekki ýkja merkilegur. En mikið samgleðst ég samt fólki sem er í þesslags stöðu að því nægir að detta í gólfið til að fá greiningu og aðgerð í sömu vikunni. Það hlýtur að vera góð tilfinning að vera svo mikilvæg persóna! Auðvitað segir það sig sjálft að eitt heilabú í Bolungarvík er kannski ekki mikilvægt fyrir aðra en nánustu fjölskyldu þess!                                  Það mætti jafnvel bara segja að það gæti verið hverri alþýðukonu hollt, að skella (brátt flötu) trýninu vel og rækilega í jörðina af og til, svona þó ekki nema til að sýna tilhlýðilega auðmýkt í smæðinni!? Æi já. Það er gott að búa í velferðarþjóðfélagi og geta alltaf treyst því að öllum sé jafnhátt undir höfði gert.

 Mér finnst heilinn minn samt alveg skila sínu því að ég var að fá að vita úr mið-annar-matinu í skólanum (sem er eitthvað nýuppfundið, hlýtur að vera. Ég hafði allavega ekki hugmynd um hvað var verið að tala um!) og ég fékk eitt "gott" og restin var "ágætt." Ég er alsæl með það. Er reyndar aðeins að velta því fyrir mér hvort ég eigi að ofsækja kennarann sem gaf mér bara gott,en æi..... býtterinn, eins og maður sagði hér í den..... Metnaðargirndin er ágæt upp að vissu marki.......

Híramía mín, fornafn: Guðmunda, kemur heim á morgun svo að ég verð ekki eins og vængbrotið villifygli án hennar meira. Og svei mér ef ég steiki ekki rúgkökur handa okkur í bílskúrnum um helgina svo að hægt sé að maula þær í frímínútum! Já, flatbrauð er gott, rúgbrauð líka. En brauð er orðið svo dýrt að það er varla kaupandi lengur! Sérstaklega ekki þar sem heilt brauð er étið í mál, eins og þessu fjögurra karla heimili! Svo að ég fékk afbragðs uppskrift af flatbrauði hjá henni Matthildi í leikfiminni á meðan við gerðum "sundur, saman, sundur, saman" æfingarnar. og svei mér ef ég hnoða ekki úr eins og einni skeppu af rúgmjöli á morgun!

Hann pabbi gamli hefur verið veikur síðan á föstudag. Fékk blæðingu við heilann og hefur legið á spítala. Hann fékk þó að koma heim í gær og fær líklega afbragðs hjúkrun hjá henni Tótu sinni. Ég hef alltaf verið pabbastelpa. Þegar foreldrar mínir skildu varð ég eftir hjá pabba. Mörgum fannst það skrýtið, skildu ef til vill ekki af hverju? Hjá mér kom ekkert annað til greina. Pabba lán var að kynnast Tótu sinni. Og þegar hún veiktist í fyrra og það leit ekki vel út, var hann eyðilagður. En með undraverðum hætti sagði hún krabbanum stríð á hendur og bar sigur úr býtum! Guði sé lof fyrir það! Því að ég veit að hann pabbi gamli lifir fyrir Tótu sína og það skiptir máli að hafa eitthvað dýrmætt að lifa fyrir þegar maður þarf að berjast við erfiða sjúkdóma. Guð blessi þau bæði, hjónakornin. Það er erfitt að vera svona langt í burtu frá ástvinum þegar sjúkdómar og erfiðleikar banka uppá. Og ég veit að þeim hefur þótt erfitt að vera svona langt frá mér í mínum veikindum. En sem betur fer hefur maður netið og símann, annars væri þetta óþolandi.

Tvær tilkynningar að lokum: Hjördís! Ég er sko meira en lítið til í að taka með þér slátur. Hér sé ég frammá að allt verði búið í byrjun desember, svo rækilega gengur á birgðir, svo að segðu bara til!

og Halla Signý! það verður boðað til fyrsta fundar bókaklúbbsins "Mæting" á sunnudagskvöldið klukkan níu! Hér hjá mér. Kreppukaffi og rúgkökur verða á boðstólum. Bókin Hilda á Hóli verður krufin til mergjar! Police

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband