Færsluflokkur: Bloggar
13.10.2008 | 23:27
annasamur dagur í borginni
Yndislegu kvöldi að ljúka í íbúðinni hennar Tótu minnar við kertaljós, prýðilegasta lasagna, ís og nærveru góðra vina.
Morguninn var tekinn snemma eftir svefnlitla nótt. Ekki það að hún Tóta eftirláti mér ekki bærilegt legupláss! Öðru nær. Hún gengur úr sínu rafdrifna heilsurúmi fyrir gesti og holar sér sjálf í sófann. Eitthvað varð mér þó lítið svefnsamt í þessu ofurtæknilega rúmi, mér var heitt og ég var stressuð að sofa yfir mig. En upprisnar vorum við þó fyrir allar aldir og ég tók mér gott sturtubað í tvöföldu sturtunni hennar Tótu (það dugar ekkert minna orðið fyrir mann!) og í þann mund sem ég skrúfaði fyrir og opnaði augun áttaði ég mig á því að ég stóð í vatni upp fyrir ökkla! Ég kallaði fram til Þórunnar og spurði hvort svelgurinn væri kannski stíflaður? -Nei, nei! Það lekur bara hægt niðrum hann! -svaraði hún. Sem var mesta vitleysa því að það lak yfir í eldhús! Ég þurfti að bjarga mér á hundasundi fram á gang! Við ákváðum að þetta væri seinni tíma vandamál, þurrkuðum upp mesta blotann og höskuðum okkur uppá Borgarspítala.
Á biðstofunni skemmtum við okkur við að lesa upphátt úr Fréttablaðinu fyrir viðstadda og ræða um gífurlegt framboð sleipiefna á innanlandsmarkaði. Fljótlega tæmdist biðstofan og röðin var komin að mér. Ég var látin liggja á bekk með tæplega þrjátíu víra festa við hausinn og horfa í blikkljós og mása eins og hundur!! Ekki veit ég nú hvað hefur komið úr þeirri rannsókn! Við fórum svo aftur heim og Linda mín yndislegust kom og hélt mér selskap þangað til ég mætti í Domus til að láta segulóma í mér heilabúið. Það gekk ágætlega eftir því ég best veit, svo vel meira að segja að ég sofnaði í segulómunartækinu sem er eins og geimskip sem manni er troðið inní með skorðaðan og rígbundinn hausinn á meðan tækið beljar í eyru manns eins og sjálfur andskotinn sé um borð! Þrátt fyrir hávaðann blundaði ég og var alveg steinhissa þegar ég var dregin úr hylkinu! Þetta sögðust hjúkkurnar nú ekki sjá á hverjum degi og svarðaði ég þeim því til að þriggja barna móðir í námi og vinnu lifði nú sjaldan annan eins lúxus og að vera einangruð frá umheiminum góða stund, ein með sjálfri sér! :)
Eftir skóleiðangur síðla dags lagðist ég uppí sjúkrarúmið hennar Tótu, eftir að vera búnað moka upp hálfum mannslíkama úr niðurfallinu, tók mér bók í hönd og harðneitaði að hreyfa mig hið minnsta fyrr en kallað væri í mat! Ég væri nú einu sinni gestur eftir allt saman! Eyfi kom og eldaði Lasagna á meðan Tóta skrapp að vinna og ég drattaðist fyrst frammúr á brókinni þegar hún kom heim ásamt Jóni stórtenór Þorsteinssyni sem ætlaði að borða með okkur. Þau fengu sér rauðvín og líkjör, við hlustuðum á Hyden og Sjostókóvítsj, sátum við kertaljós og borðuðum og borðuðum. Rifjuðum upp dásamlega tímann sem þau voru hjá okkur fyrir vestan í sumar og höfðum það bara yndislegt!
Og á morgun fer ég heim. Þegar ég verð búnað kaupa 65 cm langan, bleikan rennilás í nýju lopapeysuna sem Björgúlfsamma, sá himneski engill er búnað prjóna handa mér!
Bloggar | Breytt 14.10.2008 kl. 01:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.10.2008 | 21:17
Stórholt
Ég steig þungt til jarðar höfuðborgarinnar eftir órólegt flug í dag. Lá svo í sófanum hjá Tótu vinkonu og gerði ekki neitt þangað til Björgúlfspabbi og stjúpmóðir buðu okkur í ammrískar pönnukökur með sýrópi og smjöri. Þar voru fjármálin rædd. Aðallega fjárhagsvandræði...... og hversu dýrar tannréttingar væru! Nú sit ég ein í tótuíbúðinni á meðan hún æfir sig í að syngja útí bílskúr og á meðan ætla ég að horfa á einhverja Jane Austin mynd frá BBC. Hún á slíkt í hrönnum.
Ég ætla í engar heimsóknir í Reykjavík. Morgundagurinn fer í læknastúss, næsti dagur í heimferð. Stutt og laggott að þessu sinni.
Gesturinn í Stórholtinu kveður í kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.10.2008 | 09:54
Einnkunnadagur í dag.
Fékk úr tveimur prófum í dag. Og ég er bara drulluglöð! Ég var svo sannfærð um að ég næði ekki fimm fyrir sálfræðiprófið sem ég mætti ólesin í (þurfti auðvitað að bjarga verðmætum þegar ég átti að vera að undirbúa prófið og taka slátur.....) en viti menn! ég fékk 7.1! sem segir mér að ég geti brillerað í þessu fagi ef ég fer að taka mig á í lærdómnum! Rétt áðan fékk ég svo úr bóklegri hjúkrun og sá þá hina fjarskalega notalegu tölu TÍU!!!! Húrra! Verst að ég á ekki bót fyrir boruna frekar en aðrir þessa dagana svo að ég held bara uppá þetta með því að fá mér....... GÓÐAN göngutúr!
Annars finnst mér lífið yndislegt. Ég er svo glöð með dásamlegu fjölskylduna mína. Aumingja kallinn minn fékk í bakið og hefur verið heima í tvo daga, held hann ætli í vinnu í dag. Það er ótrúlegt með hann Harald, öfugt við aðra karlmenn, ....flesta a.m.k, að hann verður eins og óþekkur krakki ef hann veikist. Ég þarf nánast að setjast ofan á hann til að láta hann leggjast í rúmið. (hljómar mjöööög tvírætt en það er nú einu sinni þannig að setjist ég ofan á einhvern,.. tja.. þá stendur hann ekki upp fyrr en ég stend upp!! ) Ibufen hef ég skammtað honum og tryggt að hann gleypi töflurnar, borið á hann bólgueyðandi gel og skipað honum í heita pottinn og að hafa sig hægan á milli. En sama hvað, hann kvartar aldrei!
Unglingurinn er farinn að setja á sig rakspíra.. óumbeðinn, og hann er að fara á Íþróttahátíðina í skólanum í dag. Unglingastigið hefur verið að undirbúa þetta alla vikuna, skreyta salinn fyrir ballið með seríum og huggulegheitum. Merkilegt með þessa unglinga. Nú er ég með leiklistarnámskeið fyrir unglingastigið í skólanum og það er svoooo gaman! Þau eru svo frábær og áhugasöm. Mér þykja unglingar nefnilega oftast eitthvað svo ískyggilegur hópur. En svo bara eru þau frábær!
Og ferðinni er heitið suður á bóginn á sunnudaginn, rannsóknir á mánudaginn og svo aftur heim á þriðjudag. Ég nenni nú ekki að eyða of löngum tíma þarna syðra þar sem fólk fer og mokar út peningum til að troða í bankahólf, æðir í búðir til að byrgja sig upp af innfluttri vöru og ég veit ekki hvað og hvað. Skil ekki af hverju aumingja fólkið borðar ekki bara slátur??? :)
Ég held að við hér finnum ekkert svo mikið fyrir þessari kreppu. Vestfirðir hafa verið í áratugalangri kreppu hvort eð er, utan einstaka lukkunar pamfíls sem var úthlutað sneið af þjóðarkökunni og gat selt hana. Þeir eiga margir hverjir enn heimili hér hjá okkur. A.m.k sumarheimili.........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.10.2008 | 22:47
Við étum bara slátur!
Einhvern tíma sagði mætur maður (hlýtur að hafa verið Sjálfstæðisflokksbundinn.... gæti mögulega heitað Pétur Blöndal!) að það mætti vel lifa af 100 þúsund kalli á mánuði. Maður æti bara slátur.
Nú, ég ruddist ásamt góðri konu í sláturgerð, enda fátt annað í stöðunni í krepputíð. Og við kláruðum þetta með glans, heimasaumaðar alvöru vambir og allur pakkinn. Og nú er ég að baka. Enda eru peningar mánaðarmótanna búnir og ekki nema..... sjöundi.. eða eitthvað. Allavega laaaaangt til næstu mánaðarmóta. En nóg er til í kistunni af sviðum og slátri, grænkálið vex eins og vindurinn í matjurtagarðinum og kartöflurnar óuppteknar, mjölbirgðir í búrinu og þá er engum hér neitt að vanbúnaði. Lett ðe físt bíginn!!!!!
Ætla að taka kúmenbrauðið úr ofninum og troða haframjölskryddbrauðinu inn. Ef ég hætti að blogga í náinni framtíð.... nú, þá er það bara af því að rafmagnið hefur verið tekið af! :)
(Elsku Guðmunda mín, ef þú lest þetta þá verð ég með þér í huganum á morgun. Guð blessi minningu bróður þíns og ykkur fjölskyldu þína. Og ég hlakka til að fá þig heim og láta þig fá slátrið þitt! Það bragðast unaðslega!)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.10.2008 | 18:25
Frk. "Best í öllu"
Er það ekki ótrúlegt hversu mikil ítök heimtufrekjan getur haft í einni manneskju? Ég er bókstaflega að rifna úr frekju og tilætlunarsemi! Ég fékk svo fínar einkunnir fyrir þrjú síðustu verkefnin í Líffæra og lífeðlisfræði, (10 fyrir þau öll) að ég bjóst ekki við neinu undir níu fyrir hlutaprófið sem ég tók á mánudaginn. Þegar ég fékk einkunnina, 8.8 varð ég í alvörunni drullufúl! Einhvern tíma hefði mér nú þótt allt yfir fimm ágætt en nú er það orðið þannig að allt undir níu er bara engan vegin ásættanlegt. Ég vil vera BEST!! Ég stóð mig meira segja að því að fara að argast við kennarann, greina spurningarnar sem ég fékk vitlaust fyrir og reyna að kenna henni um að ég hafi svarað vitlaust! Spurningarnar væru ekki rétt fram bornar! Allt í einu áttaði ég mig og dauðskammaðist mín! En um leið finnst mér þetta svo fyndið því að þetta er ekkert líkt mér.
Ég hef aldrei verið neitt sérlega dugleg að leggja mig fram við eitt né neitt. Ég meina ekki að ég sé algjör slugsi, heldur bara að ég hef ekkert verið að reyna meira á mig við hlutina en nauðsynlegt er! En nú er það orðið þannig að meira segja í gítartímanum áðan var ég að farast úr pirringi yfir því að geta ekki spilað alveg eftir bókinni! Þangað til Halli gítarkennari benti mér á það, á sinn yfirmáta hægláta og hógværa hátt, að þetta væri nú annar tíminn og mér óhætt að slaka á!!!
Kannski er ég bara að "missaða!" -það er nú varla það versta!
Próf í hjúkrun á morgun og á morgun fer mamma. Hún er búnað vera hér í tvær vikur, tæpar. Sláturgerð um helgina og svo próf í Sálfræði í mánudag. Og þá er nú farið að styttast í rannsóknina stóru. Ég krossa bara fingur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
1.10.2008 | 00:45
Ofvirkni?
Eftir síðustu færslu lá við að mér liði sem súperkonunni einu og sönnu þegar ég las kommentin. En svo datt ég þungt á minn stóra rass og raunveruleikinn blasti við. Það er fátt súper hér. Jú, ég er í námi en í vinnunni er ég í veikindafríi. Ekki er nú fyrir dugnaðinum að fara þar!
En svo ég svari nú spurningunni; já, ég tók við gítarnáminu af Birni sem nennti ekki að æfa sig og varla að mæta. Svo að nú er ég að læra á gítar. Það er ótrúlega gaman. Ég er búnað læra gamla nóa og Það blanda allir landa upp til Stranda! Þá hlýt ég að vera orðin partýhæf!
Annars er ég að fara að hátta. Ég er stödd hjá vinkonu minni sem missti bróður sinn í dag og ég ætla að gista hjá henni. En ein áminning um hverfulleika lífsins. Í einu vetfangi er allt breytt. Varanlega og verður aldrei bætt. Það er erfitt og átakanlegt. En þá er ekkert hægt að gera annað en að trúa því að síðar renni upp bjartur dagur með heiðum himni og lífið fái aftur sinn tilgang. Þetta eru hugleiðingar mínar rétt fyrir svefninn.
Valrún! Það er ekkert jafn dásamlegt og einmitt það að ganga í stillu og björtu veðri þegar sólin skín á hvítan snjóinn og heyra marrið undir skósólunum! Kuldinn kemst ekki í gegnum þykku ullarsokkana og lopapeysan góða vermir brjóstið. Nefið er það eina sem verður rautt af kuldanum og litlar nálar stingast inn í lærin þegar maður kemur inn og þau fara að hitna!
Og um helgina Valrún mín, um helgina verður tekið slátur!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.9.2008 | 14:52
Þar sem norðursins fegurð....
...ríkir ein ofar hverri kröfu!
Það er svo fallegt á haustin. Veðrið getur aldrei ákveðið sig, sól og rigning í sama vetfangi og fallegir regnbogar prýða himininn dag hvern. Þessi hreina og tæra haustlykt sem minnir mig alltaf á bernskuna á Dalvík þegar maður gekk í skólann og braut ísskæni af pollunum með nýju kuldastígvélunum, í nýrri úlpu og andaði gufu útí loftið. Alltaf svona einhver sérstök stemmning yfir þessari árstíð.
Ég fór í Líffæra og lífeðlisfræðipróf í morgun. Mér gekk alveg prýðilega. Nema að ég hafi bara vaðið í villu og svíma og talið mig vita öll svörin og fái svo bara þrjá! :) Held samt ekki. Mér var svo létt þegar ég sá að ég réði alveg við þetta því að í sannleika sagt svaf ég varla í nótt vegna kvíða! Allt getur maður nú gert sér að kvíðaefni!
Nú ætla ég að vaska upp, fara í gítartíma, fara með drengina mína í íþróttahúsið og leyfa þeim að svamla í lauginni á meðan ég er í sundleikfimi, henda brauði, eggjum og einhverju snarldrasli á kvöldverðarborðið og skríða svo snemma uppí með sálfræðibókina og lesa um ....viðbragðasvörun...... eða eitthvað.
Fallegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
27.9.2008 | 18:24
Prófundirbúningur
Ég á að fara í próf í Líffæra og lífeðlisfræði á mánudaginn þannig að Halli skutlaði mér yfir á Flateyri eftir hádegið og hér sit ég í eldhúsinu hjá Guðmundu skólasystur minni og við erum í smá pásu frá náminu. Við erum búnar að borða hálft kíló af nammi...ðööööööhhh.... og drekka töluvert af kaffi með. Við sjáum fram á að fá á bilinu 0 til 6 í einkunn...
Í morgun fórum við snemma á fætur, Birnir og ég. Hann fór á boltaæfingu og ég skellti mér í jóga. Það er laaaang síðan ég stundaði jógað hjá Elínbet og ég fann það svo sannarlega á skrokknum!! Lærin á mér nötra enn af álaginu! Það er svo ótrúlega margt í boði núna í Víkinni fyrir þá sem vilja hreyfa sig. Jóga, hörkupúl í ræktinni, Areroboxing, danshópar í Einarshúsi, sundleikfimin sem mér finnst svo æðisleg, stafagönguhópar...... möguleikarnir eru endalausir og það er vel sótt í þetta allt! Enda veitir ekki af. Vetur konungur er farinn að undirbúa komu sína með nöktum greinum trjánna, rauðum, gulum og appelsínulituðum fjallshlíðum, hvítum tindum og haustlægðum. Tími ullarteppanna, flóaðrar mjólkur með kamillu og hungangi er runninn upp og þá er svo nauðsynlegt að hreyfa skrokkinn sinn til að breytast nú ekki í þunglynda sófakartöflu í vetur.
Ég er á tólf-spora námskeiðinu í Holti, búin að fara í tvö skipti og sökkva mér ofan í námsefnið. Mér finnst eins og þetta sé eitt af því besta sem ég hef gert á ævi minni. Þetta verður verkefni, erfitt verkefni enda sál mín tætt og lemstruð líkt og hjá öllum öðrum. Nú er ég að æfa mig í umburðarlyndinu. Að taka það ekki sem persónulega árás þó aðrir séu á allt annarri skoðun en ég sjálf. Það er allt í lagi. Og mig langar til að verða fær um að umgangast allskonar fólk án þess að nokkur fari í taugarnar á mér. Án þess að dömpa minni eigin vanlíðan og óöryggi yfir á aðra. Að hætta að gagnrýna hegðun annarra til að breiða yfir mína eigin galla. Þetta er verkefnið mitt akkúrat núna. Og ég gleymi því oft en man það samt stundum. :)
Nú er Guðmunda farin að gera athugasemd við hversu lengi ég hef verið í pásu.... best að fara að huga að marglaga flöguþekjum og ísótónísku-jafnseltnu....einhverju.
God bless.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.9.2008 | 19:16
einn og fimmtíu á kant.
Birnir Spiderljón Ringsted er afar lítill eftir aldri, grannvaxinn og undurfagur eins og blómálfur. Með heljarstór gráblá augu og augnhár sem væri hægt að festa undir götusóparabílinn með þeim afleiðingum að göturnar yrðu tandurhreinar. Hann er óttalegt strá, þessi elska en hann kann vel að svara skilmerkilega og á skeleggan hátt ef því er að skipta.
Eins og ég hef stundum sagt þá er ég svona sirka einn og fimmtíu á kant. En það er svosem allt í lagi og hér í Bolungarvík á ég margar "sisters in the FLESH." Eitthvað voru börnin í öðrum bekk grunnskólans að ræða mæður sínar blessaðar og ein bekkjasystir Birnis heyrist segja:
Mamma mín er alveg svooooona stór! (hún býr til ímyndaðan stóóóran framhluta á sinn litla búk með höndunum)
Iss! svarar litla prikið mitt. Mamma mín nær nú alveg útí næsta vegg!!!!
Góða helgi!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.9.2008 | 16:16
Mánudagur
Notaleg helgi að baki. Sundferðir laugardag og sunnudag eins og vant er, matur með góðu fólki og huggulegheit. Á laugardagskvöldið fór Halli á lögguvakt fram á næsta morgun en ég var svo ljónheppin að Guðmunda, vinkona mín og bekkjasystir, kom og gisti hjá mér ásamt dóttur sinni. Gaman frá því að segja, enda ekki oft sem rígfullorðnar konur hafa svona náttfata "sleepover!" Við kjöftuðum langt fram á nótt og héldum svo áfram næsta morgun. Ég var voðalega fegin að hún kom til að gista því að mér er ekkert sérlega vel við að vera ein heima heila nótt eins og staðan er akkúrat núna. Eins og mér finnst nú oftast notalegt að vera ein af og til.
Það er í hæsta máta sérkennilegt mig dreymir Valrúnu hverja einustu nótt! Þetta er líklega 5. vikan sem hún heimsækir mig í svefni? Hún vill meina að ég þurfi að ræða þetta við sálfræðinginn minn og þegar ég fari í heilasneiðmyndina í október komi bara mynd af henni!! Það er allt eins líklegt. Enda finnst mér þetta orðið ágætt hjá henni. Það sé alveg að koma tími á fyrir hana að koma aftur heim!! En það er auðvitað bara af því að ég er svo eigingjörn!
En nú er ég að fara í sundleikfimina, mér heyrist strákastrollan ætla með mér öll eins og hún leggur sig sem er ágætt nema fyrir það að mamma gamla er að koma á eftir með fimmvélinni og þá verður enginn heima nema Urta til að taka á móti henni........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)