Færsluflokkur: Bloggar
26.5.2010 | 11:44
Kosningabaráttan
Það er ekki á hverjum degi sem maður fær ókeypis auglýsingu frá gagnframbjóðendum. :) Ákaflega áthygliverð grein sem vert er að lesa. Örfáar staðreyndavillur en þær eru leiðréttar í athugasemdunum neðst. Góða skemmtun.
Annars hef ég verið úti að ganga í blíðunni með fjórum öðrum frambjóðendum Bæjarmálafélagsins. Við tókum "fyrirtækjagöngutúr." Löbbuðum inní beitningaskúrana og fiskverkun JV og á Skýlið svo eitthvað sé nefnt. Gaman að hitta fólk og spjalla. Ég á pottþétt eftir að fara aftur niðrí JV fiskverkunina og fá að skoða vinnslusalinn og ferlið allt. Sem gömul "frystihúskerling" er ég alltaf svolítið spennt fyrir að sjá fiskvinnslusali.
Annars er bara sól og blíða dag eftir dag. Björgúlfur farinn í 10. bekkjar útskriftarferð og litlu ormarnir óþreyjufullir að komast í sumarfrí. Það er bara ég sem er búin að vera í sumarfríi frá því 10. maí!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.5.2010 | 14:22
Til hamingju með sjö milljóna króna viðsnúninginn, Bolvíkingar!!
Viðsnúningur í rekstri bæjarsjóð Bolungarvíkur upp á 300 milljónir króna?
Það er mikill munur á að lesa ársreikning Bæjarsjóðs Bolungarvíkur milli áranna 2008 og 2009, alveg himinn og haf þar á milli. Maður fyllist hreinlega þakklæti yfir þeim góðu hlutum sem sitjandi meirihluti hefur áorkað eftir björgunina sem mér, og líklega ykkur hinum, er í svo fersku minni.
Sumir vildu kalla þetta valdarán, en eftir að hafa lesið viðtal við Elías Jónatansson bæjarstjóra í BB á dögunum, ættu þeir að skammast sín og hlaupa upp um háls honum (og sjálfstæðismanna, A listamanna, Óháðra og hvað þeir nú allir heita þarna á listanum sem býður fram undir bókstafnum D) af tómu þakklæti fyrir að hafa lyft viðlíka grettistaki í bolvískum fjármálum.
Árið 2008 var niðurstaða ársreiknings rúmlega 116 milljónir króna í mínus en ársreikningur ársins 2009 er í plús upp á 179 milljónir króna. Það er ekki von að bæjarstjórinn okkar ráði sér ekki fyrir kæti og þessu sé flaggað í óháða fjölmiðli okkar Vestfirðinga, BB! Til hamingju við. Viðsnúningur upp á rúmar 300 milljónir segir hann. Og við segjum; Jei! (reyndar reiknast mér til að hann sé upp á 295.688.000,- krónur sem gerir það tæpar 300 millur, -ekki rúmar 300 millur, en það er nú samt alveg rosalega gott. )
Auðvitað vill hann þakka þessum viðsnúningi þess að Sjálfstæðismenn í umboði A- listans sáluga, gripu í taumana á vormánuðum 2008 og hentu út sökudólgnum sem öllu var búinn að snúa á hvolf hérna í Víkinni. En ekki hvað?
Og þó? Vill maður kannski fyrst spyrja einhverra gagnrýninna spurninga? Viljum við rýna dýpra í málin? Ég vildi það. Og útkoman var þannig að ég tel mér skylt að deila henni með ykkur.
Ekki svo að maður eigi að vera að rifja upp gamlar tölur, maður á auðvitað ekki að dvelja við fortíðina, en stundum er það nauðsynlegt til að sjá hlutina í réttu samhengi.
Þegar sjálfstæðismenn skiluðu bæjarsjóði til nýs meirihluta árið 2006 þá skiluðu þeir ársreikningi upp á mínus 68.635.000 krónur sem framreiknast líklega eitthvað upp á rúmar 90 milljónir ef væri það framreiknað til jafns við ársreikninginn 2008. Ennþá var félagsheimilið fræga samt við hrun og sundlaugargarðurinn álíka aðlaðandi og síberísk freðmýri. Samt var rekstarhalli? Og hann alveg þokkalegur. Rekstrarhalli er því augljóslega vel mögulegur án nokkurra sýnilegra framkvæmda..... Það sýndu Sjálfstæðismenn okkur eftir 60 ára sögu þeirra í óslitnum meirihluta
.En hver er skýringin á þessum viðsnúningi ef rýnt er í ársreikning?
Fyrsta skal telja aukningu á útsvari upp á 83 milljónir, (hver greiðir það? bormenn og bolvíkingar sem eiga eftir að fá reikninginn núna 1. ágúst nk.) Aukning á fasteignaskatti upp á rúmar 11 m.kr. Óreglulegar tekjur (aðkoma ríkisins vegna samnings við eftirlitsnefndina) 163 m.kr. Að vísu lækkar framlag jöfnunarsjóðs upp á 17 m. kr. Þetta er tekjuaukning inn upp á 240 m. Kr.Fjármangsgjöld lækka milli ára upp á 48 m.kr. (lækkun vísitölu og niðurfellinga skulda. (aðgerð ríkisins) Og þá er komin skýringin á viðsnúningi upp á 288 m. kr.
Eftir standa því sjö millur sem sitjandi meirihluti getur hreykt sér af. Vaaaaandræðaleg stjórnarskipti færðu okkur sjö millur.
Til hamingju með 7 milljóna króna viðsnúninginn, sitjandi meirihluti!
Við getum skoðað þetta áfram.....
Sparnaðurinn af afar sársaukafullum uppsögnum bæjarstarfsmanna á síðasta ári eru smáaurar! Launakostnaðurinn lækkaði um 6 milljónir.
Tekjur hafnarsjóðs hækka milli ára um 13 m.kr. það mætti ætla að aðgerð ríkisstjórnarinnar vegna strandveiðanna hafi skilað Bolungarvíkurhöfn dágóðum tekjum? Lífeyrisskuldbindingar lækka um 9 m.kr og inn í rekstur síðast liðins árs komu rúmar 15 milljónir frá þrotabúi EG.
Niðurstaðan er sú að viðsnúningurinn er tilkomin vegna inngripa Ríkisins sem þegar var farið að vinna að, við meirihlutaskipti árið 2008, og eftirlitsnefndin bauð sér sjálf velkomna inn í bæjarkassann þökk sé styrkri stjórn sjálfstæðisflokksins í 60 ár hér í Bolungarvík. Ef einhver hefur komið auga á augljós björgunarafrek AD listans í ársreikningi Bæjarsjóðs Bolungarvikur í gjörningunum vorið 2008? - sá hinn sami gefi sig þá fram.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.5.2010 | 13:32
Fyrirspurn til ritstjóra Bæjarins Besta á Ísafirði.
Ég hef áður bent á í bloggskrifum mínum hversu mjög ég undrast það hvað ritstjórn Bæjarins Besta, eða www.bb.is á Ísafðirði text illa að dylja hægri slagsíðu sína. Það er ekkert athugavert við hægri slagsíðu í ritstjórn, en hún skal þá líka vera skilgreind rétt. Það er ekki alveg í takt við miðil sem skilgreinir sig sem frjálsan og óháðan, að liggja svo undir sífeldum ámæli fyrir að vera alveg algjörlega hliðhollur pólitískum öflum. Þetta orð hefur alla tíð, frá því að ég flutti hingað vestur, loðað við BB en ég hef sjaldan séð það jafn skýrt og nú. Ég bendi fólki á að lesa eldri pistil minn um þessi mál þar sem ég vísa m.a. í ítarlegt opnuviðtal við oddvita sjálfstæðisflokks Bolungarvíkur. Hann má finna hér neðar á síðunni. Þ.e pistilinn, ekki oddvitann!
Og nú, þegar líður að kosningum og frambjóðendur, ég þar á meðal, koma hugðarefnum sínum á prent og senda hinum "óháða" miðli, er alveg ótrúlegt að sjá hvernig flokkunin ræðst hjá ritstjórn Bæjarins Besta. Í dálkinn "pólitík," raðast greinar sjálfstæðisframbjóðenda en í "aðsendar greinar," sem eru neðst á síðunni, koma svo aðrar greinar. Þá er undantekin grein Magnúsar Reynis, hins skelegga, sem er núna staðsett neðst í pólitíska dálkinum. Aðrar greinar jafnaðar og vinstrisinnaðra eru neðst þó þær tengist pólitík alls ekki síður en þær sem hljóta "pólitísk" sæti á vefnum.
Því langar mig að spyrja; kæra ritstjórn, hvað er það sem ræður því hvar grein lendir á miðlinum BB? Miðlinum hafa verið sendar greinar, m.a. frá mér sjálfri, sem eru kyrfilega merktar "pólitík" en eru samt settar með "aðsendum greinum?" Hvernig flokkar ritstjórn greinar, pistla og pólitískar greinar hverja frá annarri? Mig fýsir í svör því að ég vil gjarnan senda inn grein í ykkar "óháða" miðil sem lendir í dálknum "pólitík."
Með fyrirfram þökk og von um svör:
Ylfa Mist Helgadóttir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2010 | 17:05
Af-fötlum umhverfið!
Hvað gerir mannesku fatlaða? Hvað er það sem segir að hún sé fötluð? Hvað er fötlun? -Fötlun felst í því að lifa við einhverskonar takmarkanir í daglegu lífi.
Í raun erum við öll fötluð á einhvern hátt. Við getum td. ómögulega málað þakið á húsunum okkar án hjálpartækja. Það mætti líta á það sem fötlun. Við getum ekki skipt um ljósaperu í götuljósum án stiga eða annars útbúnaðar. Er það ekki líka fötlun? Að vera fatlaður er í raun ekki stærsta vandamál okkar, það er umhverfið. Hvernig það tekur á fötlun okkar. Ergo: hversu fatlað er umhverfi okkar?
Ef manneskja er í hjólastól eða með göngugrind, þá eru stigar mikil fötlun. Ef manneskja er sjónskert þá er löskuð gangstétt fötlun. Ef manneskja er heilabiluð þá er umhverfi sem ekki miðar að þörfum þess hennar, mikil fötlun. Ef manneskja er einhverf, þá er óreiðukennt umhverfi alveg hrein súperfötlun fyrir viðkomandi. Og það má jafnvel ganga enn lengra. Fyrir manneskju eins og mig, er há eldhúsinnrétting agalega fötluð. Pínulitlar buxnastærðir eru gífurlega fatlaðar!
Ég held að við getum flest verið sammála um að fyrir þá, sem teljast fatlaðir, er það umhverfið sem er í raun fatlað. Hindranir hins fatlaða eru í umhverfinu. Til að hnykkja á því, set ég hér eftir gæsalappir um orðið fatlaður.
Nú eru málefni fatlaðra að færast yfir á sveitarfélög frá ríkinu. Í því eru falin mikil tækifæri fyrir okkur til að efla og bæta þjónustu við fatlaða og ekki síst fjölskyldur þeirra. Tækifærin eru aðalega fólgin í því að af-fatla umhverfi þeirra einstaklinga sem einhverra hluta vegna búa við fatlað umhverfi. Að tryggja að fatlaðir og fjölskyldur þeirra búi við sömu lífsgæði og við sem teljum okkur ófötluð, gerum. Að tryggja að við öll búum við sjálfsögð lífsgæði. Eins og þau að geta farið ferða okkar. Að geta notið frístunda okkar. Að tekjur okkar dugi fyrir öllum lífsnauðsynjum. Að við höfum trygga búsetu. Að við höfum einstaklingsmiðaða þjónustu. Það er hægt að halda endalaust áfram en ég læt upptalningunni lokið hér, á þessu sjálfsögðu mannréttindum.
Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Vestfjörðum hefur unnið sérstaklega vandað starf á undanförnum árum og hefur mjög gott hlutfall starfsfólks sem hefur menntað sig á einhvern hátt í þessum þjónustugeira. Það þýðir að við höfum hér marga starfsmenn á þessu sérsviði sem nauðsynlegt er að halda í. Þekkingin og reynslan má ekki glatast okkur. Það verðum við að tryggja til að stuðla áfram að af-fötlun umhverfisins.
Hætt er við því að við tilfærsluna skapist óreiðukennt ástand sem rýrir þjónustuna að einhverju marki til að byrja með. Það er í okkar höndum hversu mikil eða lítil þessi rýrnun verður. Því betur sem við erum undirbúin, þess minni hætta skapast. Þjónusta við fatlaða er góð hér, en hún má samt aldrei við því að versna. Ekki um millimeter! Hún á alltaf að batna. Markmiðin á að setja hátt. Og hækka stöðugt!
Mannauður. ( þetta er merkilegt nýyrði, sem skyndilega er allsráðandi í tungumáli okkar og mörg okkar kannski tæpast vitum hvað merkir? ) -er dýrmætastur af öllu. Mannauður er að mínu viti eitt af fallegustu orðunum á íslenskri tungu. Í því felst nefnilega bæði fegurð, þekking og viska, fjölbreytni og sérstaða hvers einstaklings sem er hluti af órofa heild.
Menn mega hreykja sér á hverju sem er og öllu fögru má lofa. En aðeins þeir sem eru trúir félagshyggjunni, skilja mikilvægi hvers einstaklings, hvort sem umhverfi hans er fatlað eða ófatlað, sama hversu gamall hann er, óháð því hverrar þjóðar hann er, aðeins þeir skilja hvað felst í hugtakinu mannauður. Veit hve mikilvægt það hugtak er og vinnur í þágu þess.Aðeins á þann hátt sýnum við ábyrgð. Samfélagslega ábyrgð.
Ylfa Mist Helgadóttir.
Höfundur skipar 3. Sæti á lista Bæjarmálafélagsins í Bolungarvík.Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.5.2010 | 00:22
Hundraðdaganefndin
Í dag (reyndar í gær, þegar þetta er ritað eftir miðnætti) fór ég í Ráðhúsið í Bolungarvík til að kynna mér niðurstöðu nefndar sem sett var á laggirnar til að vega og meta kosti sameiningu sveitarfélaganna hér á norðanverðum Vestfjörðum, Bolungarvíkur, Ísafjarðarbæjar og Súðavíkur. Í stuttu máli, fannst mér ekkert annað hafa komið útúr þessari hugmyndavinnu í raun, annað en stór greiðsla til ráðgjafafyrirtækis í Reykjavík. Skýrslan var ekki illa unnin, alls ekki. En ég gat alls ekki komið auga á að minn heimabær myndi hagnast á sameiningunni. Óskir íbúa um sitt nærumhverfi hljóta að vega þungt á metum og ég hef ennþá ekki talað við þann Bolvíking sem vill sameiningu.
Ég bar fram eina spurningu eftir skýrslukynninguna. Hún var svohljóðandi; "Það kom fram snemma í kynningunni að reynt yrði leitast við að treysta fjölbreytni atvinnu í byggðarlögum í kjölfar þess að störf yrðu færð til eða lögð niður. Ísafjarðarbær hefur þessa reynslu eftir að hafa sameinast Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Hvernig gekk það upp í því tilfelli? Var reynt að stuðla að atvinnufjölbreytni í hinum smáu bæjum eftir þá sameiningu? Og tókst það?"
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar svaraði því til að engin störf hefðu horfið úr minni bæjunum á vegum stjórnsýslunnar nema störf sveitarstjóranna sjálfra. Nú er það hlutur sem ég þarf að kynna mér ítarlegar, sérstaklega í ljósi þess að síðar kom sú spurning úr sal hvort að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefði ekki ítrekað reynt að flytja Grunnskóla Flateyrar til Ísafjarðar og hann svarði því til að "það hafi einu sinni komið til tals en ekki hafi verið farið útí þær framkvæmdir vegna þess að það hafi m.a. mætt miklum mótbyr foreldra." (ég tek fram að þetta er ekki orðrétt, hvorki spurning mín, né svar bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, en þetta er engu að síður innihald hvors tveggja.)
Nú veit ég að þessi hugmyndavinna um lokun Grunnskólans á Flateyri og flutning skólabarna þaðan og yfir á Ísafjörð hefur mun oftar komið upp. A.m.k fjórum sinnum. Svar bæjarstjóra var því ekki allskostar rétt. A.m.k skildi ég það alls ekki þannig. Í ljósi þess held ég að það sé þarfaverk að kynna sér einnig hvort frekari skerðing hafi orðið á opinberum störfum í smærri byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar eftir sameiningu fyrrgreindra sveitarfélaga.
Nú er ég hlynnt samvinnu þessara smáu sveitafélaga á norðanverðum Vestfjörðum, svo lengi sem hún bætir þjónustu og tryggir atvinnuöryggi íbúanna. En ég er engan veginn tilbúin til að ganga að lögformlegri sameiningu Bolungarvíkurkaupstaðar við Ísafjarðarbæ. Ég trúi því að við myndum alltaf koma til með að bera það skarðan hlut frá borð,i að hagræðingin sem kynnt var í dag uppá 24 m.kr. á ársgrundvelli, borgi sig fyrir framtíð íbúanna hér í Bolungarvík.
Ég vil að Bolungarvík verði áfram sjálfstætt sveitarfélag en að við getum samt unnið að uppbyggingu þjónustu í öllum bæjarfélögunum hér á Vestfjörðum með samvinnu! Ekki sameiningu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2010 | 01:57
VÓ, VÓ!!!
Sko, ég hef nú alveg samúð með fréttamönnum svona stundum þegar þeir gera vitleysur í tímahraki sínu. EEEENNN.... þegar farið er með fleipur í dánartilkynningu míns gamla og góða rokkgoðs þá verð ég nú bara móðguð.
Þessi bútur er tekinn úr fréttinni:" Auk þess að spila í Black Sabbath spilaði Dio með Heaven & Hell and Dio."
Uuuuu... halló? Hvað í veröldinni er Heaven and Hell and Dio? Heaven and Hell var fyrir það fyrsta ekki hljómsveit og það var ekkert AND Dio neitt. Dio var hljómsveitin sem gaf út plöturnar Dream evil og Rainbow in the dark. Snilldarverk báðar tvær og voru bókstaflega gataðar af nálinni á mínu heimili.
Mér finnst þetta ekki nokkur respekt hjá mogganum...... iss...
http://www.youtube.com/watch?v=QwX8yF8k0ls
Ronnie James Dio látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.5.2010 | 00:52
Já já, ég veit, ég veit...
...að ég er alltaf ferlega léleg við heimsóknirnar þegar ég fer suður. Enda á ég alltaf erindi og þau eru sjaldnast heimsóknir. Því miður. Sá dagur mun þó eflaust koma að ég hef tíma og efni til ferðalaga sem eru einungis pleasure. Og ferðalagið sem ég er að fara í núna er reyndar tóm ánægja. Því í bítið í fyrramálið skal flogið suður, -ef Eyjafjallajökull leyfir, og farið á æfingu hjá Dr.Tótu í skúrnum. Á laugardaginn ætlar hún nefnilega að halda upp á afmælið sitt,- annað hvort fertugs eða sextugs, man það aldrei, og ég ætla að syngja fyrir hana og graðka í mig veitingunum. Hún þurfti að hafa fyrir þessu blessunin, m.a. með því að punga út fyrir minn þunga rass suður og svo hýsir hún mig að auki! Það er nú ekkert smáræði. Heill sé henni háaldraðri!
Semsagt, ekki forakta mig þó ég heimsæki engan... plís.
Svo spýtir Eyjafjallajökull mér eflaust beint tilbaka aftur, verði hann í stuði, því að það eru bara tvær vikur í kosningar og nóg að gera. Í kvöld unnum við Arnþór von Geirastaðir (4.sæti) töluverða heimavinnu og ég get ekki látið hjá líða að minnast á það hversu mikill hvalreki sá maður og hans starf er fyrir Bæjarmálafélagið. Það er svo skrítið að kynnast fólki sem maður er búinn að sjá árum saman á förnum vegi en hefur einhverra hluta lítið haft saman við að sælda og komast þá að því að alveg magnaður einstaklingur er þar á ferðinni. Hann er dagfarsprúður maður hann Arnþór. Það verður ekki af honum skafið. Þess vegna er það eins og að finna falinn fjársjóð að uppgötva að undir hæversku yfirborðinu leynist eldklár og snilldarlega þenkjandi maður með rökrétta hugsun og þennan líka dásamlega húmor! Nú mætti ætla að ég hafi haldið að maðurinn væri algjör hálfv...., en það er alls ekki það! Ég bara þekkti hann ekki. Þess vegna er þetta svo mikil bónusuppgötvun fyrir mig á meðan fullt af öðru fólki hefur eflaust vitað þetta alla tíð! :) Fær mann til að hugsa hversu marga maður sér daglega án þess að gefa sérstakan gaum og hversu margir af þeim eru eflaust dásamlegasta fólk.
Maður ætti að safna fólki. Það er svo skemmtilegt.
En nú; pakka (það er víst ætlast til að maður verði eitthvað sérstaklega fínn í afmælinu) og sofa!
Ein hér í lokin af einni grenjandi sem mér skilst að sé ég sjálf...... hélt að ég hefði aldrei grenjað!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.5.2010 | 15:42
Ilmur í húsinu
Ég er með hvolfkökubrjálæði. Splæsti á mig næst-síðasta gestgjafanum sem kom út og þar eru uppskriftir af svokölluðum hvolfkökum. Ég er að prófa þriðju tegundina núna. Þær eru ótrúlega góðar. Ég ætla að fara með tvær- þrjár á fundinn í kvöld hjá Bæjarmálafélagi Bolungarvíkur og monta mig af því hvað ég er mikil húsmóðir. Vona bara að það sé ekki mikið af hundahárum í kökunum. Tíkin hérna er bókstaflega í hamskiptum og við öndum að okkur hárum, borðum hárin, sofum í þeim og klæðumst þeim utan á okkar hefðbundnu fötum. Við lifum semsagt ákaflega "loðnu" lífi núna.
Kosningabaráttan er komin á fullt og fundir öll kvöld með frábæra fólkinu. Við erum búin að halda fyrirlestrarfundi, m.a. um atvinnumál og í kvöld kemur Sóley frá Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra, og ræðir um flutning á þjónustu við fatlaða frá Ríki til Sveitar. Mjög spennandi verkefni, miklir fjármunir sem þarna eru að flytjast yfir og kjörið tækifæri til samvinnu byggðakjarnanna hérna á Vestfjörðum.
Svo á föstudag tek ég flugið suður, þ.e. ef Eyjafjallajökull verður á þeim buxunum, því að hin háæruverðuga Dr. Þórunn Guðmundsdóttir verður hvorki meira né minna en FIMMTUG! Heill sé henni háaldraðri! Ég fer í afmælið en svo tilbaka á mánudagsmorgun í bítið til að taka lokasprettinn í kosningabaráttunni.
Jæja, Bananahvolfkakan tilbúin, næst er það ananas og koktelber í ofninn!
Jei!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2010 | 00:33
Skutull rauður, BB blár?
Tveir stórir fréttavefir eru starfræktir í Ísafjarðarbæ, annars vegar www.bb.is og hins vegar www.skutull.is. Annar vefurinn, þ.e.a.s. Skutull, er "málgagn" ákveðinna pólitískra afla og hefur aldrei reynt að fara í grafgötur með annað. Svo auðvitað bara ræður fólk hvort það kærir sig um að lesa þann vef eður ei. BB auglýsir sig aftur á móti sem "frjálsan og óháðan" miðil. Undanfarin misseri hefur mér þó fundið að sá ágæti fréttavefur hafi sinn bláa front af ástæðu sem hljóti að teljast pólitísk. Þessi grein hér rennir einmitt enn frekari stoðum undir þennan grun minn. Ég skil alls ekki svona blaðamennsku. Með fullri virðingu fyrir hinum mæta manni, Eiríki Finni Greipssyni, sem vissulega hefur fullt skoðanaleyfi og er, eins og ég þekki hann, bæði gegn og mætur maður, þá undrar það mig stórum hvers vegna í veröldinni það skiptir máli hvað honum finnst um þetta mótframboð??
Hvers vegna er ekki bara talað við frambjóðanda Kammónistanna sem um ræðir? Gunnar Atla? Af hverju þurfum við að vita hvort Eiríkur Finnur hefur athugasemdir varðandi framboðið? Af hverju er Albertína hjá Framsókn ekki spurð? Eða einhver af Í-listanum?
Bæjarins besta er ágætis blað. Og ágætur vefur. Ég skoða hann oft. Það er svo sem engin bein "fréttamennska" í gangi þar. Meira svona "hvað er að frétta" mennska. Ef þið skiljið hvað ég á við. Ekkert verið að kryfja málin eða neitt slíkt. Allir geta sent inn greinar og er það vel. En það er auðvitað athyglisvert þegar td. bæjarstjóri Bolungarvíkur fær stórt opnuviðtal stuttu fyrir kosningar og fyrirsögninni "rúmlega 300 milljóna króna viðsnúningu í Bolungarvík." er forsíðuuppslátturinn!
Ég bjóst auðvitað við því, -eins og aðrir að næst yrði þá talað við Soffíu Vagnsdóttur eða einhvern úr minnihluta bæjarstjórnar Bolungarvíkur, svo að janfræðis væri gætt fyrst BB var á annað borð að gefa Elíasi Jónatanssyni þetta fína færi á að auglýsa þennan viðsnúning svona kortér í kosningar, en nei. Því er ekki að heilsa. Ekki enn a.m.k.
Ritstýring Bæjarins besta er að mínu mati heeeeelblá. Sem væri í allra besta lagi EF þeir gæfu sig hreinskilnislega út fyrir það. "frjálst og óháð" finnst mér engan vegin eiga við í sambandi við BB. Blái litur forsíðunnar er afskaplega viðeigandi. En að yfirskriftin sé "frjálst og óháð" blað, -finnst mér ekki jafn viðeigandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.5.2010 | 00:34
og í þriðja sæti....
Bæjarmálafélag Bolungarvíkur, óháð og lýðræðisleg stjórnmálahreyfing íbúa í Bolungarvík samþykkti á almennum félagsfundi þann 4. maí 2010 s.l. framboðslista fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar að undangenginni skoðanakönnun á meðal bæjarbúa sem fór fram daganna 28.4 og 2.5. 2010. Framboðslisti Bæjarmálafélagsins er eftirfarandi:
- Ketill Elíasson. Fiskeldisfræðingur Traðarstíg 1, 415 Bolungarvík
- Jóhann Hannibalsson. Bæjarfulltrúi/bóndi Hanhóli, 415 Bolungarvík
- Ylfa Mist Helgadóttir. Aðhlynning aldraðra Vitastíg 12, 415 Bolungarvík
- Arnþór Jónsson. Véltæknifræðingur Geirastöðum, 415 Bolungarvík
- Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir. Tölvunarfræðinemi Bakkastíg 6a 415 Bolungarvík
- Kristún Hermannsdóttir. Húsmóðir/sjúkraþjálfari Grundarhóli 1, 415 Bolungarvík
- Roelof Smelt. Tölvunarfræðingur Þjóðólfsvegi 9, 415 Bolungarvík
- Birna Hjaltalín Pálmadóttir. Æskulýðsfulltrúi Þjóðólfsvegi 9, 415 Bolungarvík
- Lárus Benediktsson. Verkamaður/form.VSB Holtabrún 17, 415 Bolungarvík
- Gunnar Sigurðsson. Skrifstofustjóri Hólsvegi 6, 415 Bolungarvík
- Matthildur Guðmundsdóttir. Bankastarfsmaður Hólsvegi 7, 415 Bolungarvík
- Sigurður Guðmundur Sverrisson. Vegavinnuflokkstjóri Hlíðarstræti 22, 415 Bolungarvík
- Elías Ketilsson. Útgerðarmaður Þjóðólfsvegi 3, 415 Bolungarvík
- Birna Hjaltalín Pálsdóttir. Húsmóðir Þjóðólfsvegi 5, 415 Bolungarvík
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)