Færsluflokkur: Bloggar
15.9.2010 | 19:44
Swimmers-syndrome
Hún Margrét frænka mín -en við erum bræðradætur- er svona hundamanneskja eins og ég. Til allrar Guðs lukku þá sá hún á Facebook að ég var að tala um að ég ætlaði að láta svæfa fatlaða hvolpinn í gær. Hún benti mér snarlega á eitthvað sem heitir "swimmers syndrome" í hvolpum og er helst að komi fram hjá stórum og þungum hvolpum. Þá fletjast þeir út, brjóstkasinn verður flatur, þ.e. rifjahylkið flest út og þeir komast ekki af maganum. Þetta veldur því að þeir geta aldrei gengið og kafna á endanum þegar þyngdin fer að pressa á lungun. Eeeeeeeeen; þetta má laga!! Og það er djöfulsins vesen en samt alveg yfirstíganlegt. Nú er því búið að spelka litla fatlafólið og hanna á það strokk svo að litli skrokkurinn komist í lag. Þetta á að lagfæra rifjahlylkið og gera honum aukna hreyfigetu. Og svo er bara sjúkraþjálfun hjá "mannamóðurinni-mér." Honum hefur farið rosalega fram bara frá í gær! Er farinn að geta reist sig upp betur og er ekki sama pönnukakan og hann var í gærmorgun. Andardrátturinn er líka allur annar.
Kannski á hann líf!
Á morgun er bæjarstjórnarfundur. Ég er ennþá ferlega fúl yfir því að meirihluti bæjarstjórnar hafi samið um launahækkun við bæjarstjórann, þegar nýafstaðnar niðurskurðaraðgerðir eru ennþá að valda fólki sárindum og erfiðleikum. Mér finnst einfaldlega bæjarfélagið ekki hafa efni á að hækka laun um ca milljón á ári hjá einum starfsmanni þegar öðrum er sagt upp eða vinnuhlutfall skert. En... ég er jú í minnihluta, þetta vildu kjósendur. Annars er bæjarpólitíkin skemmtileg, so far. Fór á Fjórðungsþing og hitti annað sveitastjórnarfólk sem var bara nokkuð skemmtilegt! :)
Og nú styttist í opnun ganganna. Hér er fólk að urlast yfir því hvað þau heita, þau heita víst Bolungarvíkurgöng og ýmist finnst fólki það réttnefni eða algjör hörmung. Í daglegu tali eru þessi göng kölluð Óshlíðargöng og svo held ég að verði áfram. Mér finnst það mun skemmtilegra nafn í ljósi þess að þau liggja jú bæði TIL Bolungarvíkur og FRÁ Bolungarvík og í Hnífsdal. En ég er ekkert að missa legvatnið yfir þessu neitt. Bið fólk bara að halda ró sinni og bendi á að "vestfjarðargöngin" sem aldrei eru kölluð annað, heita "Göng undir Breiðadals og Botnsheiði." Það nafn hef ég aldrei heyrt nokkurn mann láta útúr sér. Bara lesið á skiltinu. Aðalatriðið er að við erum að fá göng og þið, landsmenn góðir, eruð líka að fá göng.
Love to all....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2010 | 16:25
Haustið er komið, strýkur burt laufblað af limi...
Í gær hefði pabbi minn, Helgi Þorsteinsson, orðið 74 (breytt, sló óvart inn 75 áðan!) ára, hefði hann lifað. og þrátt fyrir að nú séu næstum tvö ár síðan hann dó og að ég hafi ekki munað fyrr en í gærkvöld að hann hefði átt afmæli, var ég mikið að hugsa um hann í gær. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar kom í hug mér að "hringja í pabba." Sennilega af því að ég er að vinna úr þessum 40 berjalítrum sem við Auður vinkona mín komum með úr berjaferðinni góðu sem við fórum í að Langadalsströnd inní Djúpi í síðustu viku. Haustverkin minna mig á pabba. Hann hringdi árlega til að spyrja mig um rabarbara, rifsber og reyniber. Yfirleitt vildi hann svör við sömu spurningum og árinu áður. Hann var nú ekki sá minnugasti frekar en dóttirin, ég. Ég sakna hans.
Lífið er einhvernvegin eins og keðja. Það myndast nýir hlekkir í sífellu eftir því sem maður klífur keðjuna og um leið losnar um hlekki á henni neðan til. Og þannig á það bara að vera. Stöðug hreyfing. Auðvitað vill maður helst hafa sumt eins og það hefur alltaf verið. En þá er víst engin hreyfing í lífinu. Þegar sumir hlekkjanna losna finnur maður fyrir sársauka og vanmætti. Svo stundum brýtur maður sjálfur einhverja þeirra sem héldu óþarflega fast. Það getur verið fjári erfitt en skapað mikin létti þegar til lengri tíma er litið. En þetta eru nú bara hugleiðingar sem allir eiga í....
Haustið er komið, strýkur burt laufblað af limi, segir í góðu kvæði. Haustið hér kom í nótt. Með kulda og roki. Losaði um síðasta hlekk sumars sem maður hafði ríghaldið sér í. Núna þarf að gera pláss fyrir nýja hlekki vetrarins.
Unglingurinn í skóginum finnur sig vel í Menntó, hann er alltí einu orðinn svo mikill karlmaður. Maður bara verður feiminn við þennan unga herramann sem var bara pottormur í gær! Baldur bolla kemur öllum á óvart með því að vera iðinn og góður í skólanum, -sagðist reyndar í dag ætla að sprengja skólann og að þegar hann yrði pabbi, yrðu engar reglur í heiminum! Spæderljónið, -hið kramda miðjubarn, líður hins vegar bara áfram í friðsæld og spekt og lætur ekkert fyrir sér hafa.
Húsbóndinn spilar í nýsamsettri hljómsveit um helgar á Ísafirði. Þeir leika fyrir dansi. Sennilega í fyrsta skipti sem Haraldur spilar fyrir eðlilegum dansi...
Annar hvolpurinn er með sömu fötlun og kom í ljós í gotinu hennar Urtu í fyrra og þarf að sofna hinum langa svefni.... Sem er sorglegt því að hann er agalega sætur og krúttlegur.
Sjálf er ég bara að hamast við að vera húsmóðir, vinnandi stétt og söngkona sem er að fara að gera plötu. Og ÞAÐ er spennandi! Sennilega bara það mest spennandi sem ég hef gert um ævina!
Húrra fyrir tilverunni, haustinu og afmælinu hans Pabba heitins í gær!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.9.2010 | 11:11
Sumarið, sólin og allt það!
Veðurfarslega séð var þetta besta sumar sem ég man eftir. Ekkert lát á blíðviðrinu og þegar sólin skín, finnst manni lífið alltaf svolítið gott. Ég hef ekki fært inn síðan í vor, haldandi að allir vinir mínir væru á facebook, og hafandi bara svo margt að gera í góðviðrinu. En eftir skammir frá einhverjum örfáum féslausum og smá bloggfráhvarf, finnst mér þetta orðin bara ágæt pása og mál til komið að byrja aftur.
Af heimilislífinu er það m.a. að frétta að nú á ég bara skóladrengi. Baldur Hrafn drattaðist með formælingar á vörum í skólann, sannfærður um að viðurstyggilegri stað mætti ekki finna í þessu lífi. Hann hafði auðvitað rangt fyrir sér og er bara hinn kátasti í skólanum skilst mér. En hann er ekkert sérlega glaður með að vakna á morgnana samt. Björgúlfur Egill byrjaði í Menntaskólanum á Ísafirði og mér fannst ég gömul! Honum líkar vel, þetta er auðvitað heilmikil breyting fyrir þessa krakka og heimilið líka og við erum öll að sjatla okkur í gegnum þetta í rólegheitum.
Urta eignaðist tvo fallega hvolpa í ágústlok. Svartir blendingsrakkar eru afrakstur frjálsra ásta á Vestfjörðum. Þrátt fyrir kynið var annar hvolpurinn (sá sem Baldur Hrafn á) umsvifalaust nefndur Blondie af elsta meðlim drengjahópsins, þar sem að hundur Hitlers hét víst því nafni. Þykir elsta syninum sá yngsti stundum hafa viðlíka harðstjórnartilburði og kallar hann af og til "Adolf," þegar frekjan í örverpinu gerir útaf við heimilismeðlimi.
Birnir Spæderljón er ólíkur albróður sínum í útliti og lunderni. Hann er ljúft lítið ljós. Þægur og góður og verður eflaust kramið miðjubarn sem á eftir að segja við sálfræðinginn sinn seinna meir; ég var ósýnilega barnið....
Ekki svo að skilja að Baldur sé óalandi og óferjandi! Alls ekki. Hann er bara afar frekur. En hann er líka með skemmtilegri drengjum. Og afskaplegt krútt. Svo hefur hann frekar lítið hjarta og vill mikið knúsa móður sína sem er allltaf vel þegið! :)
Þetta er bara svona. Allir eru ólíkir en allir eru dásamlegir í sinni háttu.
Þetta voru smá morgunhugleiðingar sem áttu ekkert að fara í þessar áttir, ég ætlaði að stikla á stóru og gera sumarið upp í máli og myndum en það bíður bara betri tíma. Ég er í fríi í dag, tók daginn snemma, fór í sund og ætla svo með vinkonu inní Ísafjarðardjúp, alla leið yfir að Rauðamýri á Snæfjallaströnd, í berjamó. Við ætlum að gista og hafa það ferlega náðugt í kvöld. Grilla pylsur, (annað er of mikil fyrirhöfn) hreinsa ber og spjalla saman.
Love to all....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.7.2010 | 15:47
Bara best.
I've nothing much to offer
There's nothing much to take
I'm an absolute beginner
And I'm absolutely sane
As long as we're together
The rest can go to hell
I absolutely love you
But we're absolute beginners
With eyes completely open
But nervous all the same
If our love song
Could fly over mountains
Could laugh at the ocean
Just like the films
There's no reason
To feel all the hard times
To lay down the hard lines
It's absolutely true
Nothing much could happen
Nothing we can't shake
Oh we're absolute beginners
With nothing much at stake
As long as you're still smiling
There's nothing more I need
I absolutely love you
But we're absolute beginners
But if my love is your love
We're certain to succeed
If our love song
Could fly over mountains
Sail over heartaches
Just like the films
There's no reason
To feel all the hard times
To lay down the hard lines
It's absolutely true
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.6.2010 | 14:10
Talía, ég er að koma!
Á morgun fer ég að Húnavöllum á leiklistarskóla Bandalags Íslenskra leikfélaga. Ég er reyndar ekki að fara á námskeið heldur er í ár boðið uppá nýbreytnina "Höfundar í heimsókn." Það er nú samt eins og mig minni að fyrsta árið sem BÍL skólinn var starfandi í Svarfaðardal, hafi verið viðlíka í boði fyrir þá sem vildu koma og skrifa. Ég hugsa að það séu þrettán ár síðan ég fór fyrst í þennan Bandalagsskóla. Og í kjölfarið flutti ég suður, gekk í Hugleik og það var líka í þessum skóla sem ég fór að skrifa leikrit fyrir nokkuð mörgum árum. Sennilega svona.. átta árum eða svo. Karl Ágúst Úlfsson kenndi mér í tvö sumur í leikritasmíð. Og svo lá þetta nú eiginlega að mestu niðri hjá mér.
En á morgun ætla ég að taka upp þráðinn og byrja að skrifa meira. Kannski verður það bók, kannski leikrit, kannski bara innkaupamiðar og matseðill fyrir framtíðina.... :)
Ég kem aftur heim þann tuttugasta og þá verður Dr. Tóta með í för. Svo heldur bara sumarið áfram og vonandi verður það jafn yndislegt og það hefur verið hingað til. Fyrsti rigningardagurinn í margar vikur í dag og manni bara bregður við enda orðinn steiktur af langvarandi sólskini og útiveru.
En nú, vinir mínir, hverf ég á vit Talíu í tíu daga eða svo.
Love to all.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2010 | 17:21
HOT HOT HOT!
Þvílík og endalaus blíða á þessum útkjálka alheimsins. Það eru þessir dagar og þessar nætur sem bæta upp tímann þegar myrkur grúfir hér yfir vikum saman og lægðirnar raða sér upp í bið eftir því að færa sig yfir landið og hrella þunglynda molbúana sem kúra sig inannadyra á milli þess sem þeir staulast í og úr vinnu, oft við illan leik og snjóugir upp fyrir haus.
En svo kemur vorið! Og hvergi í heiminum kemur annað eins vor. Og óvíða er því tekið með öðru eins þakklæti og hér. Það er sól allan sólarhringinn og maður eiginlega tímir aldrei að sofa! Verandi í fríi, sef ég framundir hádegi en vaki nóttina nánast á enda og ligg ýmist úti í glugga eða hangi úti í garði til að missa ekki af neinu. Kyrrðin, fuglarnir, fiðrildin, appelsínugulir fjallatindar, spegilsléttur sjórinn sem liggur eins og kvikasilfur uppað fjöruborðinu þar sem æðarkollurnar kúra með ungana sína, krían sem aldrei þagnar hamast í endalausri leit að einhverjum til að skeyta skapi sínu á og lognið er algjört. Þetta er mitt himnaríki. Og á þessum dögum og nóttum, rifjast það einmitt upp fyrir mér af hverju ég á heima hérna.
En ég er einmitt í sumarfríi sem er æðislegt. En ég kíki alltaf við og við á Skýlið til að kyssa og kela við fólkið mitt þar. Fá mér kaffisopa og taka púlsinn á lífinu þar. Einn vinur minn, hann Haddi gamli, hefur verið líkamlega slakur undanfarin ár en hugurinn algjörlega skýr. Þetta var maður sem stundaði sjóinn í sextíu ár. Þess vegna var það einkar viðeigandi þegar þessi gamli og virðulegi skipstjóri kvaddi sinn lúna líkama í gær, á sjómannadag, tók sér stöðu við stýrið á einhverju himinfleyi sem okkur er ennþá hulið og lagði í sína síðustu siglingu. Hér blöktu fánar við hálfa stöng í gær, ólíkt öðrum sjómannadögum hvenær flaggað er í topp. Hávarður gamli, laus við hið gamla og úrsér gengna hismi, farinn á vit ævintýra sem okkur eru ennþá ókunn. En eflaust feginn að vera laus úr prísundinni sem hver sá sem orðinn er lúinn hlýtur að upplifa.
Ég á aldrei eftir að gleyma þessum góða og gamla vini.
Það er dásamlegt að vinna mína vinnu. Kynnast þessum fallegu gömlu sálum sem glíma við að eiga heima í lélegu hulstri. Fá að þykja vænt um þau og taka þátt í að gera líf þeirra eins gott og best verður á kosið. En mikið finnst mér alltaf tómarúmið stórt sem hver og einn skilur eftir sig. Ég sakna hverrar manneskju sem kveður. Þó ég samgleðjist sálinni að vera frjáls þá sakna ég viðkomandi alltaf. Sumir segja að maður öðlist "skráp." Að maður læri að taka þessu sem hluta af vinnunni. En ég vona að ég öðlist aldrei þann skráp. Af því að þá hlýt ég líka að koma mér upp skráp gagnvart fólkinu sem ég annast. Og gerist það, finnst mér ég ekki hafa neitt að gera í svona vinnu lengur. Ef manneskjurnar eru farnar að vera verkefni fyrir mér en ekki einstaklingar sem ég læt mér þykja vænt um, þá held ég að það væri kominn tími á nýtt starf. Ég vil þá frekar sakna þeirra sem kveðja.
Nú er ég búin að kæla mig niður og ætla að fara aftur út í sólina og halda áfram að brasa við að stinga upp fíflana í garðinum hjá mér. Makalaust hvað er mikið af þessum fíflum í kringum mig.... hljóta bara að kunna svona vel við félagsskapinn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.6.2010 | 14:27
Merkilegir dagar.
Þegar ég skifa "merkilegir dagar" í fyrirsögnina, þá er ég ekki að tala um upphæðina sem ég fékk greidda út í morgun. Hún var verulega lítið merkileg. Jafn merkilegt og mér þykir starf mitt vera, jafn illa meta ráðamenn þjóðarinnar vinnu mína.
Nei, merkilegu viðburðirnir eru þeir, að í dag útskrifast litli/stóri sonur minn, Björgúlfur Egill, úr Grunnskóla Bolungarvíkur. Í gær eða fyrradag, fór hann í Vesturbæjarskóla með nýju skólatöskuna sína, sex ára gamall og hóf þennan hluta ævi sinnar. Hann var með skarð í neðri góm því að þar vantaði tvær tennur. Alla hans skólagöngu hefur hann verið (eftir því sem ég best veit) prúður og stilltur drengur, -það dró reyndar ögn úr því síðasta árið, en einhverntíma verður maður líka að fá að vera unglingur í uppreisn!
Birnir,- spiderljónið mitt litla, er að klára 3. bekk. Hann er kílói léttari en litlibróðir, lítill og nettur eins og blómálfur á laufi. Honum er alveg sama því að móðir hans hefur sannfært hann um að það geri ekkert til. Hann hafi nefnilega þau fegurstu augu sem til eru í heiminum. Augnhárin kolsvört, löng og þétt, augun risastór og blá með þeim stærstu sjáöldrum sem ég hef séð í barni. Hann er kominn með fullorðinstennur sem hæfa stórvöxnu heljarmenni. Hann er því varla neitt nema tennurnar. :) En einn dag á hann eftir að stækka uppí þær.
Baldur Hrafn er útskrifaður úr leikskólanum. Hann er með skarð í neðri góm því að í gær datt seinni framtönnin þar. Það ljær honum svolítið sérstakan svip, því að Baldur Hrafn er með andlit tveggja ára barns að öðru leyti. Hann er ennþá með "gerber" lúkkið. Hvíta hárið, -sem er nú reyndar aðeins að dökkna, bollukinnarnar sem nánast lafa, og bláu augun undir hvítum toppnum. Hann er ægilegt krútt, en hann er líka um leið "quite a handful" svo maður orði það pent. Og það virðist loða við allan hans árgang sem nú mun ryðjast í haust inní grunnskólann. Þetta eru allt miklir víkingar og kvensvarkar. Öll frekar mikil fyrir sér og það er vægt til orða tekið. Það verður því fjör í skólanum næstu tíu árin!
Það er komið sumar. Bæði á dagatalinu og veðrinu. Skólaútskriftin í dag. Góðir tímar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.5.2010 | 23:17
Af eigin rammleika.
Ég er hálf slæpt eftir síðustu daga og vikur. Það er álag að vera í framboði! En mikið dj... er það nú samt skemmtilegt. Það besta er auðvitað fólkið. Maður er alla daga starfandi með skemmtilegu fólki. Og eins og allir sem mig þekkja vita, þá er það mitt uppáhald. Þ.e.a.s. fólk. Ég leyni því ekki að ég var spæld yfir því að við skyldum ekki ná meirihluta. Og það er líka í góðu lagi að vera spæld.
Ólíkt mörgum frambjóðendum ætla ég ekki að tala um varnarsigur né reyna að benda á það hvernig mótframboðið hafði af okkur atkvæðin, eins og virðist vera viðtekin venja í stjónmálum og stór partur af því líklega hversu litlar vinsældir alvöru stjórnmálamenn búa við. Það er nefnilega alveg komið gott af þess háttar spekúleringum í þjóðfélaginu. Ef maður vinnur ekki, þá tapar maður. Það er svo einfalt. Og þá er að skoða ofan í saumana á því af hverju tapið stafar, læra af því og nýta reynsluna.
Ég hitti ísfirska konu í sundi í dag og við fórum að spjalla svona eins og maður gerir í heita pottinum. Og á meðan rann upp fyrir mér hvað ég er lánsöm að fólk skuli treysta mér til að starfa fyrir sig. Ég er ekki héðan og einu ættingjar mínir hér í bænum eru börnin mín. Þó hlaut ég 3. Sæti í opnu prófkjöri Bæjarmálafélagsins. 20 manna forval og hátt í hundrað manns kusu. Og ég marði það inní bæjarstjórn. Án þess að nokkur skrifaði fyrir mig framboðsræðu. Án þess að eiga nokkurn einasta frænda eða frænku sem skyldleikans vegna gaf mér atkvæði sitt.
Í augum margra og jafnvel flestra Bolvíkinga, er ég utanbæjarmanneskja. Ég hef bara búið hér í 8 ár. Þar af hef ég einungis verið í 2-3 ár á bolvískum vinnumarkaði. Í raun mætti því segja að ég hefði hér lítið bakland. En það er þó alls ekki rétt. Hér á ég augljóslega stórt og mikið bakland. Ekki svo að segja að öllum líki við mig? Enda geri ég ekki kröfu til þess. Mér líkar heldur ekkert við alla. Flesta þó, sem betur fer!
Mikið fjarskalega er ég glöð og sátt í dag með að geta sagt; ég komst í bæjarstjórn Bolungarvíkur á mínum eigin forsendum. Vegna minna eigin verðleika! Mér finnst þetta hljóma ákaflega fallega á ferilskránni! J Ekkert sérlega hógvært, -en samt töff!
Bæjarfulltrúinn býður góða nótt ......
Bloggar | Breytt 31.5.2010 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.5.2010 | 13:22
Til kjósenda í Bolungarvík
Kosningabaráttan hefur að miklu leyti snúist um hugtakið "ábyrg fjármálastjórnun." Við ákváðum í byrjun samstarfs okkar, við sem skipum K-listann, að fela fólkinu í bænum alfarið að meta það hvort það fráfarandi bæjarfulltrúar okkar hefðu í raun borið alla þá ábyrgð á erfiðri fjárhagsstöðu bæjarins eftir tæplega hálft kjörtímabil, sem í veðri hefur verið látið vaka. Við sjálf vitum betur. Og fögnuðum því þegar þessir sömu fráfarandi bæjarfulltrúar sendu öllum heimilum í bænum bréf sem útskýrði hvað í raun gekk á.
En við erum nýtt fólk og okkur er treystandi.
Exelskjöl og skipurit eru mér óþekkt stærð. Og það er líka í góðu lagi. Vegna þess að með mér eru menn eins og t.a.m. Ketill Elíasson sem hefur rekið sitt fyrirtæki farsællega árum saman og það með mjög miklum ágætum. Arnþór Jónsson, sem hefur sýnt að hann er maður sem ekki gefst upp heldur lítur á áföll sem merki um nýtt tækifæri til þess að skapa nýjan grundvöll. Þar fer maður sem ekki básúnar sína sigra, þó margir séu og meiri en okkar margra. OG HANN kann á exelinn! :) Jóhann Hannibalsson. Stöðuglyndur og traustur maður með hjartað á réttum stað.
Við sem skipum efstu fjögur sæti lista Bæjarmálafélagsins, erum öll jafn ólík og dagur og nótt. En við höfum komist að því undanfarið að við vinnum vel saman og erum hópur þar sem hvert okkar bætir annað upp. Fjölbreytileiki okkar er helsti styrkleikinn. Og við höfum öll sömu markmið; að skapa öllum Bolvíkingum þá umgjörð sem við þurfum hér til þess að byggð hér megi blómgast og dafna. Ekki með sérstaka áherslu á "eldri borgara," "öryrkja," "barnafólk." Nei, heldur alla Bolvíkinga! Svo einfalt er það. Fólk er ekki dregið í dilka. Allir eiga sama rétt, allir eiga kröfu um að lifa við félagslegt öryggi og með reisn.
Nú er þessi lesning mín að verða ansi hreint löng og kannski margir hættir að lesa. En það er tvennt sem mig langar þó að tæpa á. Fyrir fjórum árum gat fólk innan Sjálfstæðisflokks ekki unnið saman. Þar klauf sig einn út, stofnaði framboð með öðru ágætisfólki. Einu og hálfu ári síðar gekk sami frambjóðandi í eina sæng með sínum fyrri félögum undir því yfirskyni að "umsvif Soffíu Vagnsdóttur væru orðin of mikil." Það var ekki fyrr en mun síðar, sem fjármálin urðu helsta ástæða stjórnarslitanna. Enda hafði hugmyndafræðin um umsvifin ekki fallið í góðan jarðveg og margir, þar á meðal frambjóðendur, sögðu sig af téðum A-lista. Oddviti A-listans býður sig nú fram í 2. sætið, næst á eftir Elíasi Jónatanssyni, manninum sem hún gat ekki hugsað sér að vinna með fyrir fjórum árum. Ég ræði um annars þá vel gefnu konu, Önnu Guðrúnu Edvardsdóttur. Konuna sem rýndi svo skemtilega í stefnuskrá okkar sem þekkt er orðið. +
Mitt minni nær lengra en fjögur ár aftur í tímann. Nú er spurning; hversu langt aftur nær minni kjósenda?
Og þá að því síðara sem ég vildi tæpa á.Ketill Elíasson, maðurinn í okkar brú, oddviti K-listans. Hann er maður sem hefur, eins og ég sagði áðan, rekið farsælt fyrirtæki í áraraðir og er þar að auki frumkvöðull. Það skal því enginn halda því fram, að Katli Elíassyni sé ekki treystandi fyrir peningum eða rekstri. Hann hefur sýnt að svo er. Því held ég að með Ketil í brúnni, sé Bolvíkingum óhætt að treysta K-listanum fyrir ábyrgri fjármálastjórn.
En Ketill er ekki bara farsæll fyrirtækjarekandi. Hann er félagshyggjumaður. Réttsýnn og ber hag bæjarins fyrir brjósti. Hann er gagnrýninn og hann er sanngjarn. Umfram allt, hann er heiðarlegur. Þetta voru helstu ástæður þess að ég setti Ketil í 1. Sæti í forvali Bæjarmálafélagsins. Af því að ég treysti honum og hef mikið álit á honum.Bolvíkingar.
Þegar þið gangið til kjörklefa á morgun, bið ég ykkur að íhuga þessi orð mín. Hvar liggur traust ykkar? Hvernig sem allt fer, þá megið þið treysta því að við, frambjóðendur K-lista, munum vinna að heill og velferð bæjarfélagsins óháð því hvort það verður í meiri, -eða minnihluta. Við höfum verið lýðræðislega kjörin til að vinna fyrir ykkur.
Ylfa Mist Helgadóttir.
Höfundur skipar 3. sæti K-lista Bæjarmálafélags Bolungarvíkur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)