Haustið er komið, strýkur burt laufblað af limi...

Í gær hefði pabbi minn, Helgi Þorsteinsson, orðið 74 (breytt, sló óvart inn 75 áðan!) ára, hefði hann lifað. og þrátt fyrir að nú séu næstum tvö ár síðan hann dó og að ég hafi ekki munað fyrr en í gærkvöld að hann hefði átt afmæli, var ég mikið að hugsa um hann í gær. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar kom í hug mér að "hringja í pabba." Sennilega af því að ég er að vinna úr þessum 40 berjalítrum sem við Auður vinkona mín komum með úr berjaferðinni góðu sem við fórum í að Langadalsströnd inní Djúpi í síðustu viku. Haustverkin minna mig á pabba. Hann hringdi árlega til að spyrja mig um rabarbara, rifsber og reyniber. Yfirleitt vildi hann svör við sömu spurningum og árinu áður.  Hann var nú ekki sá minnugasti frekar en dóttirin, ég.  Ég sakna hans. 

 

helgi þorsteinsson 6 áraLífið er einhvernvegin eins og keðja. Það myndast nýir hlekkir í sífellu eftir því sem maður klífur keðjuna og um leið losnar um hlekki á henni neðan til. Og þannig á það bara að vera. Stöðug hreyfing. Auðvitað vill maður helst hafa sumt eins og það hefur alltaf verið. En þá er víst engin hreyfing í lífinu. Þegar sumir hlekkjanna losna finnur maður fyrir sársauka og vanmætti. Svo stundum brýtur maður sjálfur einhverja þeirra sem héldu óþarflega fast. Það getur verið fjári erfitt en skapað mikin létti þegar til lengri tíma er litið. En þetta eru nú bara hugleiðingar sem allir eiga í....

Haustið er komið, strýkur burt laufblað af limi, segir í góðu kvæði. Haustið hér kom í nótt. Með kulda og roki. Losaði um síðasta hlekk sumars sem maður hafði ríghaldið sér í. Núna þarf að gera pláss fyrir nýja hlekki vetrarins.

Unglingurinn í skóginum finnur sig vel í Menntó, hann er alltí einu orðinn svo mikill karlmaður. Maður bara verður feiminn við þennan unga herramann sem var bara pottormur í gær! Baldur bolla kemur öllum á óvart með því að vera iðinn og góður í skólanum, -sagðist reyndar í dag ætla að sprengja skólann og að þegar hann yrði pabbi, yrðu engar reglur í heiminum! Spæderljónið, -hið kramda miðjubarn, líður hins vegar bara áfram í friðsæld og spekt og lætur ekkert fyrir sér hafa.

IMG_2199

Húsbóndinn spilar í nýsamsettri hljómsveit um helgar á Ísafirði. Þeir leika fyrir dansi. Sennilega í fyrsta skipti sem Haraldur spilar fyrir eðlilegum dansi...

Annar hvolpurinn er með sömu fötlun og kom í ljós í gotinu hennar Urtu í fyrra og þarf að sofna hinum langa svefni.... Sem er sorglegt því að hann er agalega sætur og krúttlegur.

IMG_2202

Sjálf er ég bara að hamast við að vera húsmóðir, vinnandi stétt og söngkona sem er að fara að gera plötu. Og ÞAÐ er spennandi! Sennilega bara það mest spennandi sem ég hef gert um ævina!

 

Húrra fyrir tilverunni, haustinu og afmælinu hans Pabba heitins í gær!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með pabba þinn <3

Ella Rósa (IP-tala skráð) 14.9.2010 kl. 16:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband