almennar hugleiðingar sem þróast í aðra átt....

Einhvern veginn er það þannig að þegar sumarið hefur verið svona langt og yndislegt, er maður frekar í stakk búinn til að taka mót vetrinum. Amk. ég. Mér þykir ekkert svo slæmt að það skuli vera farið að snjóa í fjallstoppana eða að laufin fjúki í norðanrokinu. Sem er bæðövei, íííííískalt! Þá bara dregur maður upp DVD diskana með BBC þáttunum og leggst yfir sjónvarp. Ég horfi nánast aldrei á sjónvarp. En detti ég í þáttaraðir, þá verð ég að horfa á þær. STRAX. Ekkert eitthvað einu-sinni-í-viku-vesen fyrir mig takk. Þá er ég löngu dottin út. Ég verð að útvega mér alla seríuna og horfa á hana í striklotu, eða ekki. Og um helgina horfði ég að Bleak House, þætti frá BBC eftir sögu Charles Dickens. Og þetta var maraþon. Frá hálf níu að kveldi til fimm um morguninn. Ekki einu sinni wc-pása. Gaman!

Litli fatlaði hvolpurinn, "jazz hands," er að braggast, reyndar hefur smá afturkippur komið í hann aftur svo að ég teipaði saman á honum framfæturnar í morgun. En hann er farinn að geta reist sig upp á framfótunum en afturlappirnar eru ennþá í tómu böggli og tjóni. Greyið er samt svo mikið krútt að ég á örugglega aldrei eftir að getað látið hann frá mér. Hann fer amk ekki að heiman fyrr en hann er orðinn alveg vel gangfær og sjálfbjarga.

Næstu helgi verða Óshlíðargöngin opnuð og það eiga að vera heljarinnar hátíðarhöld. Það verður hlaupið í gegnum göngin, minnisvarði afhjúpaður, skemmtun, örugglega óhófleg ræðuhöld (þó að allir segist bara ætla að halda stutta ræðu) og svo er matur og ball í íþróttahúsinu um kvöldið. Sjálf verð ég að vinna og sé bara um að halda uppi stuðinu á Skýlinu í staðinn. Ekki verri stemning þar en annarsstaðar, svo mikið er víst. Ég get nánast svarið fyrir það að ég myndi frekar vilja eyða laugardagskvöldi í vinnu en á balli. Svona er nú skemmtanaáhuginn orðinn hjá mér!

 Mér finnst svo leiðinlegt að vera innan um drukkið fólk að ég tek alveg út fyrir það! Að fara ótilneydd á öldurhús, ball eða eitthvað djammpartý er algjörlega útúr kortinu hjá mér. Og verst af öllu er þegar fólk undir áhrifum finnur sig knúið til að leggjast í símann og hringja í mig. Þá fyrst kastar nú tólfunum í leiðindunum maður! Úff... En sem betur fer þarf ég ekki að umgangast ölvaða frekar en ég kæri mig um. Tók mig samt smá tíma að fatta það. Hálfa ævina, ef svo má segja. Enginn stórviðburður ævi minnar hefur ekki á einhvern hátt litast af hegðun drukkinna manneskja, utan fæðingu barna minna. Brúðkaup, fermingar, jarðarfarir, stórafmæli... alltaf hefur einhver sem ekki þekkir eða ræður við mörkin komið því þannig fyrir að hegðunin gleymist ekki. Og það er svo sorglegt. Og mér fannst alltaf sem ég væri fórnarlamb þessara aðstæðna, (sem maður auðvitað er upp að vissu aldursskeiði) en smátt og smátt hef ég lært að forðast þessar aðstæður. Þvílíkt frelsi þegar ég áttaði mig á því að ég þurfti alls ekki að umgangast drukkið fólk.

Alkinn er vissulega sjúklingur. Það er ekki það. Ég veit vel að enginn vill eyðileggja líf sitt með brennivínsdrykkju, skandölum og vanlíðan.  Það er agalegt að sjá líf fólks, tala nú ekki um þeirra sem manni þykir vænt um, fara í súginn og verða "verðlaust." Og umhverfisáhrifin eru verst. Áhrifin sem veikindi alkans hafa á nærumhverfi hans. Allir sem þurfa að líða vegna drykkjusýkinnar. Allt ruglið sem sagt er í óminnisþoku og sjúklingurinn man jafnvel ekki eftir sjálfur, en hefur samt brennt gat á sál aðstandendans. Svikin, lygarnar, óheiðarleikinn, ístöðuleysið.... Allt þetta markar aðstandendur svo mikið að þegar yfir lýkur eru þeir sjálfir orðnir fárveikir. Þess vegna held ég að maður haf alveg fullan rétt til þess að segja; Nei, ég kæri mig ekki um þetta. Ég vil þetta ekki. Þetta er ekki, og skal ekki vera partur af minni tilveru. Og skella á.

Þetta blogg fór  í aðra átt en stefndi, eins og gerist svo oft :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðar hugleiðingar og sérstaklega þetta að við ráðum því sjálf hvort við umgöngumst alkahólista. Það gleymist alltof oft að hver er sinnar gævu smiður og getur ekki endalaust kannt öðrum um.

Bjarnveig (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 17:00

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Þetta eru skemmtilegar pælingar í "þverættartengdri og niðjaklofinni Vestfjarðafrenju".

Sigurbjörn Sveinsson, 20.9.2010 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband