opið bréf til Þrastar Óskarssonar frkvstj FSV.

Þröstur á þessa grein:  http://bb.is/default.aspx?pageid=26&NewsID=153959

Kæri Þröstur.

Verandi starfsmaður Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Bolungarvík, -þinn undirmaður, verð ég nú að fagna því að búa í frjálsu landi. Annars gæti ég líklega ekki skrifað þennan pistil án þess að óttast um vinnu mína.

  Málið er nefnilega það, Þröstur, að mér brá svo heiftarlega í brún við að lesa greinina þína á bb.is í dag að mig setti hreinlega hljóða um stund. Og allir sem  mig þekkja, vita að til að svo sé, þarf gríðarlega mikið til. En vitanlega, -og sem betur fer, jafnaði ég mig fljótt og fékk málið á ný. Og þá get ég alls ekki orða bundist Þröstur!Þar, eins og ég skil skrif þín, - varar þú fólk við því að geysast fram ritvöllinn með illa ígrundað efni sem aðeins verður til þess að skapa óþarfa óróleika, og eðlilega spyr ég; hjá hverjum? Og eftir lestur greinarinnar fæ ég ekki betur séð en að meintur óróleiki sé mestur hjá yfirmönnum Heilbrigðisstofnunnar Vestfjarða. Hvers vegna? –kannt þú þá að spyrja? Jú, vegna þess að greinin er að mínu mati blátt áfram löðrandi í hroka.

Hroka í garð þeirra sem hafa efasemdir um ákvarðanatökur stjórnenda Heilbrigðisstofnunnar Vestfjarða. Og eins og þú veist Þröstur þá er hroki varnarviðbragð óttans og óöryggisins.Ég vitna í grein þína:„Að reka heilbrigðisþjónustu í núverandi umhverfi er krefjandi þar sem ýmis sjónarmið eru uppi og mis háværar raddir með einu réttu lausnirnar. Illa ígrunduð hlaup ýmissa aðila í fjölmiðla eru ekki til þess fallin að gera starfið auðveldara og því miður skapa þau óþarfa óróleika.“Nú er það svo Þröstur, að ég geri mér fulla grein fyrir því hversu krefjandi starf þitt er. En það getur ekki verið hafið yfir gagnrýni frekar en störf annarra, er það?

Og ég leyfi mér að vitna áfram í grein þína:

„Skemmst er þess að minnast að fyrrverandi læknir á Flateyri ákvað að flytja til Bolungarvíkur en þar með lagðist af föst búseta læknis á Flateyri.

Þú fyrirgefur Þröstur þó ég spyrji: hvað kemur það málinu við? Hefur hinn almenni þjónustuþegi í Bolungarvík eitthvað með það að gera? Er það á ábyrgð okkar hvar læknar annarra sveitarfélaga kjósa að búa? Ég veit að þetta hlýtur að hljóma mjög eigingjarnt Þröstur, en eins og málin standa, höfum við bara engan áhuga á búsetu annarra lækna en okkar eigin. Því skil ég alls ekki hvað þetta kemur málinu við. Þó að starfshlutfall fyrrum læknis á Flateyri hafi verið orðið það lítið að hann hafi ekki séð forsendur fyrir því að hafa þar búsetu, er það algjörlega óskylt þessu máli. Ekki satt? Eða er þetta einhverskonar aðdróttun? Og gegn hverjum þá

Og áfram gerist ég svo djörf að grípa niður í greinina þína:

„Hugmyndin er sú að læknisþjónusta í Bolungarvík sé veitt með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi og því geti sá tími sem læknir er þar verið breytilegur eftir eftirspurn hverju sinni.“

Þetta er nú gott og blessað. Og vil ég byrja á að spyrja þig Þröstur, getur þú mögulega gefið mér upp hver þörfin fyrir lækni verður í Bolungarvík, tjah... segjum bara til ársloka 2011? Nei, mér finnst þetta mjög einkennileg framsetning. Ég trúi því heldur alls ekki að hagsmunir Bolvíkinga séu hafðir að sérstöku leiðarljósi í þessu máli, því miður. Til þess hefur allt þetta sameiningaferli virkað of ómarkvisst eins og það kemur mér fyrir sjónir.  En það er bara mín persónulega skoðun og upplifun. Vonandi á hún eftir að breytast.

Nú þarf ég enn og aftur að grípa niður í grein þína Þröstur:

„Hér á norðanverðum Vestfjörðum hefur þróunin verið á sama hátt. Lítil einmenningslæknishéruð hafa verið sameinuð stærra læknishéraði, í kjölfar þess að áðurstarfandi læknar létu af þjónustu. Með því hefur verið unnt að tryggja áframhaldandi læknisþjónustu á viðkomandi stöðum.“

Þegar ákveðið var að minnka viðveru læknis hér í Bolungarvík hafði starfandi læknir í Bolungarvík ekki ákveðið að flytja. Það er vitað mál.  Hvað varð um þörfina fyrir lækni i Bolungarvík og á þessum  minni stöðum ? Hvarf hún með því að einstaklingurinn í starfinu flutti? Er með þessu verið að segja að gefa í skyn að beðið sé með óþreyju eftir að læknar „einmenningslæknishéraða“ hafi sig af spenanum svo hægt sé að hefja hagræðingaraðgerðir? Er mögulegt fyrir fávísa konu sem mig sjálfa, að fá þetta útskýrt á mannamáli?

Og veistu Þröstur, nú skal ég fara að stytta mál mitt, þú ert kannski að verða leiður, en ég bið þig að fyrirgefa, ætlun mín er hreint ekki að láta þér leiðast, en ég verð samt sem áður að fá að vitna aðeins meira í greinaskrif þín:

„Ekki verður séð á gögnum Heilbrigðisstofnunarinnar í Bolungarvík né Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hver nákvæm viðvera læknis í Bolungarvík hefur verið undanfarin ár. Ekki er því hægt að fullyrða með neinni vissu um hve mikið viðvera lækna á heilsugæslustöðinni breytist nú. Hins vegar er ljóst að læknir mætir nú alla morgna virka daga á stöðina.“

Veistu, það er sama hvernig ég velti þessari málsgrein fram og tilbaka, mér finnst hún jafn spes fyrir því. Er þetta aðdróttun? Eða þýðir þetta að ekki hefur verið nógu skilvirkt viðveru-skráningarkerfi á Heilsugæslustöð Bolungarvíkur? Voru þeir læknar sem unnu í fullu starfi í Bolungarvík að „svindla?“ Ég held að ég þurfi enn og aftur að biðja um nánari útskýringu því að ég trúi því ekki að þú sért að vega að starfi lækna þeirra sem starfað hafa hér í Bolungarvík á liðnum árum. En þetta hljómar svo sannarlega þannig og því held ég að til að forðast misskilning væri fjarskalega gott fyrir okkur Bolvíkinga að fá að vita við hvað er átt, nákvæmlega!

En, þú segir að í dag sé að minnsta kosti starfandi læknir við Heilsugæslustöðina í Bolungarvík alla morgna, eins og það sé útaf fyrir sig einhver framför, eftir því sem ég kemst næst eru það fjórir læknar sem skipta því starfi með sér. (Og auðvitað upplifum við núna að þetta hljóti að vera fjarskalega óvinsælt starf, þar sem þú ýjar að því í grein þinni að enginn læknir af þó öllum þeim sem starfi á Ísafirði vilji búa hérna.) Það þýðir væntanlega að ef að ég sem móðir með veikt barn, þarf að koma á stofu daglega í mínum tæplega þúsund íbúa heimabæ,  -segjum td. bara í eina viku, þá fyrirhitti ég fjóra mismunandi lækna? Er það gæðaþjónustan sem þér finnst að þið séuð að veita? Því að þá erum við, Þröstur, svo hjartanlega ekki á eitt sátt um það, hvað eru gæði í heilbrigðisþjónustu! Og velji ég mér einn þessara lækna sem heimilislækni, segjum bara sem svo að ég kjósi þann sem er mest bókaður, það er varla neitt óeðlilegt við það? Þá get ég einungis pantað tíma hjá honum einn ákveðin dag í viku? Er það ekki svo? Enn og aftur Þröstur, fjarskalega leggjum við misjafna merkingu í þetta orðalag þitt:“ að læknisþjónusta í Bolungarvík sé veitt með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.“ Mér finnst það nefnilega slök þjónusta.

Og þá er það heimaþjónustan. Blessuð heimaþjónustan sem er svo mikilvæg. Hversu undarlegt má teljast að ekki hafi tekist að manna í stöðu sjúkraliða við heimaþjónustu í Bolungarvík? Ha? Og það á þessum síðustu og verstu tímum atvinnuleysis? Sótti enginn um? Samdist ekki við umsækjendur? Tja.. maður spyr sig? Vegna þess að ég sá jú að það var auglýst í þessar stöður. Og þetta er verulega leitt með tilliti til þess að þegar sameinað var þá fengu Bolvíkingar það loforð að stafshlutfall við heimaþjónustu yrði aukið.

Og ég vitna aftur í þig Þröstur, eins og biluð plata:

Skólahjúkrunarfræðingur skipuleggur og stjórnar skólahjúkrun á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Í Bolungarvík munu hjúkrunarfræðingur heilsugæslustöðvarinnar og skólahjúkrunarfræðingur hafa samstarf um þetta. Með þeim hætti er tryggt að skólahjúkrun í Bolungarvík verði með þeim hætti sem faglega er talið réttast hverju sinni.“

Rosalega flott og faglegt orðalag. Mjög smart. En mér þætti samt bara einfaldara að fá að vita sem móðir barna við Grunnskólann í Bolungarvík;  hver er skólahjúkrunarfræðingur Grunnskólans? Hvað heitir hún/hann?  Fer það kannski bara eftir því hvað telst „faglegast hverju sinni?“

Og má ég svo leggja fyrir þig eina spurningu, Þröstur? Hvert var starfshlutfall fastráðins hjúkrunarfræðings við Heilsugæslustöðina í Bolungarvík þegar þær stöllur þrjár, Íris Sveinsdóttir, Hulda Karlsdóttir og Sigrún Gerða skrifuðu þessa „illa ígrunduðu grein sína?“ Eftir því sem þú skrifar á bb.is núna, fylgir hjúkka þeim lækni sem kemur þann daginn til Bolungarvíkur, og ekki misskilja mig; rausnarskapurinn er ekki illa þeginn. Alls ekki! Ég bara veit ekkert hver það er! Og mig fýsir að vita, hvert var starfshlutfall hennar/hans, þegar greinin þeirra birtist? Ástæðan fyrir því að ég spyr er einföld: þú ert að draga sannleiksgildi skrifa þeirra þriggja kvenna, stórlega í efa. Og því finnst mér aðeins sanngjarnt að vita hvort forsendur séu mögulega dálítið „breyttar?“

Jæja Þröstur, nú ætla ég alveg að fara að hætta í bili. Hreinlega af því að þetta er orðið svo langt hjá mér, ekki af því að brunnur  forvitni minnar sem vaknaði við greinaskrif þín sé tæmdur, vel má vera að ég haldi áfram þegar ég hef tíma fyrir lengri og ítarlegri pistil. Af nægu er að taka!  En að lokum vil ég bæta því við að „nú þegar samdráttur og aðhald er alls ráðandi í ríkisfjármálum er brýnt að fara vel með opinbert fé,“ svo ég noti bara þín eigin orð. Það hef ég sem starfsmaður við aðhlynningu reynt samkvæmt minni bestu vitneskju. Ég get með góðri samvisku sagt að mitt starfsframlag og starfsmetnaður er alls ekki ofgreitt af stofnuninni og svo held ég að sé með marga ríkisstarfsmenn sem starfa hjá þér. Þú hlýtur að vera mér sammála með það ekki satt? Þrátt fyrir það þykir mér vænt um starfið mitt og sinni því af alúð og af metnaði. Og þess vegna þykja mér sumar „hagræðingafregnanna“ frá Ísafirði stundum hreinlega ótrúlegar. Og neita eiginlega að trúa sögusögnum á borð við þær að það hafi verið til peningar til að greiða fólki sem sagt var upp, biðlaun í ár og þar fram eftir götum á meðan starfsfólk þurfti að taka á sig ýmsar skerðingar. Fáránlegt, ekki satt? Enda líklegast um sögusagnir að ræða þar sem hvert mannsbarn sér að engin hagræðing er fólgin í svona löguðu.

Þröstur, ástæða þess að ég skrifa er sú að mér er annt um Bolungarvík og mér er annt um okkur öll sem búum hérna. Þess vegna er mér alls ekki sama um það hvernig þessum heilbrigðismálum er háttað hér. Og ég leyfi mér að birta þennan pistil þrátt fyrir að hafa lesið eftirfarandi varnaðarorð þín: „Vestfirðingar þurfa að standa saman um þá góðu þjónustu sem veitt er hér á svæðinu og ekki láta úrtölufólk og svartsýnisraus ráða för.“  

Við erum áræðinlega tilbúin að standa með hverjum þeim, Þröstur, sem lætur sig óskir okkar einhverju varða.  A.m.k ég! En ég veit ekki til þess að eftir þeim hafi verið leitað! Leiðréttu mig endilega ef ég fer með rangt mál, en ég held að allar ákvarðanir sem teknar hafa verið við þessa „sameiningu“ (fallegt er nú annars orðið sam-eining útaf fyrir sig) hafi verið teknar án minnstu hugsunar um það hverjar óskir Bolvíkinga eru. Að minnsta kosti hafa öll fundarhöld og eða kannanir þess efnis farið algjörlega framhjá undirritaðri.

Á mitt heimili hefur komið inn blaðsnepill nokkur, mig minnir að það hafi verið í vor eða snemmsumars, þar sem mér var tilkynnt um sam-eininguna og hvernig opnunartímum yrði háttað í nánustu framtíð. Án undirritunar, ef ég man rétt. Það er eina kynningin á þessum mikilvæga gjörningi sem mér hefur borist frá höfuðstöðvum HSV, Ísafirði sem almennum borgara.

Ég er hvorki úrtölufólk né með svartsýnisraus. Ég er starfsmaður FSV-Bolungarvík, bæjarfulltrúi í Bolungarvík og þjónustuþegi HSV.

Virðingarfyllst,Ylfa Mist Helgadóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr heyr, flott grein og vel skrifuð hjá þér Ylfa Mist fann margt í greinni þinni sem ég vil líka fá svör við,þar sem ég hef sjálf starfað í meira en 30 ár á Sjúkrahúsinu í Bolungavík og verið notandi Heilsugæslustöðvarinnar síðan 1978:) Takk

Ásdís Gústavsdóttir (IP-tala skráð) 23.9.2010 kl. 17:03

2 identicon

Sæl Ylfa.

Langar bara að þakka þér málefnalega og hnitmiðaða grein sem hittir beint í hjartastað.  Hef fylgst aðeins með málum ykkar þarna fyrir vestan þar sem þið líkt og við hér á Blönduósi eruð að berjast fyrir réttlátri og lögbundinni heilbrigðisþjónustu.  Óska þér og þínum velfarnaðar í baráttu ykkar... kv.

Anna Kr. Davíðsdóttir (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 10:19

3 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Þakka ykkur innilega fyrir mætu konur. Ég óska ykkur Blönduóssbúum hins sama. Það er ekki verra að standa saman þegar á reynir :)

Ylfa Mist Helgadóttir, 30.9.2010 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband