30.11.2010 | 14:19
Dísa móðursystir er ekki á feisbúkk!
...og hún segist vera orðin dauðleið á því að opna bloggsíðuna mína og sjá alltaf Ásbjörn og helvítis hrósið! (reyndar hefur Dísa alveg örugglega ekki sagt helvítis hrósið. A.m.k. mætti ég þá örugglega ekki hafa það eftir henni! )
Ég hef ekki haft frá sérlega miklu að segja. Og þegar maður er á feisbúkk þá einhven vegin virðist maður fá útrás þar fyrir alla svona "smáfréttamiðlun."
Feisbúkk er snilld. Mér finnst æðislegt að renna í gegn um færslulistann og skoða mannhafið svona eins og það vill birtast okkur hinum að innan. Sumir skrifa alltaf persónulega statusa. Þessa sem eru á þessa leið: svaf geðveikt illa í nótt! -eða: yndislegt kósýkvöld framundan með prinsessunum mínum/prinsunum og disneymynd í sjónvarpinu. - Jafnvel: Gunni bróðir er að jafna sig vel eftir gyllinæðaraðgerðina og þarf núna bara að passa að halda hægðunum mjúkum. (viðurkenni að hafa aldrei séð þessa síðustu, en hún færi klárlega í flokk með persónulegu feisbúkkurunum!)
Svo eru það Pólitísku feisararnir. Meðvituðu þjóðfélagsþegnarnir sem lesa allar fréttir og linka í gríð og erg. Þeir eiga það til að vera harðorðir og óvægnir í kommentum sínum þegar þeir ná að læsa klónum í pólitískan andstæðing sem er með allt klárlega niðrum sig og er kominn með það í fjölmiðla. Þeir samt linka sjaldan í greinar sinna eigin flokksbræðra eða skoðanasystra nema algjörlega gagnýnislaust. Þessi tegund feisara er svolítill þverskurður af flokkakerfinu í heild sinni. Maður heldur með sínum flokki, burtséð frá því hverjir eru í honum eða hvernig hann hagar sér.
Síðan eru það kaldhæðnu og skotheldu feisbúkkararnir. Það er týpan sem gefur aldrei neitt upp um sjálfa sig en ígrundar hvern status mjög lengi. Statusinn þarf að vera fyndinn og helst kaldhæðinn. Hann má aldrei endurspegla tilfinningar viðkomandi eða raunverulegar hugsanir. Af því að það er ekki mjög flott. Þessi týpa feisara myndi frekar deyja en að skrifa eitthvað á þá leið að hann fyndi til með svöngu börnunum í Afríku og bæði fyrir þeim. Af því að það er hreinlega ekki nógu hnitmiðað eða írónskt. Það er ekki svo að þessi tegund feisara hafi ekki tilfinningar? Hreint ekki! Hann bara vill ekki tapa kúlinu, það er allt og sumt. Og feisbúkk er einmitt staðurinn til að rækta upp gott kúl.
Svo eru það "börninmínerulífmitt, feisararnir." Það eru þeir sem pósta sextíu myndum af börnunum sínum á dag. Þeir skrifa jafnmarga statusa um allt það sem börnin þeirra taka sér fyrir hendur. Hvort sem það er að hjala, tala, slefa, kúka, fá bólusetningu og grenja, fá bólusetningu og grenja ekki, lemja einhvern á leikskólanum eða taka utan um háls foreldrisins og hvísla fallegum orðum í eyra þess. Og foreldrið hleypur, yfirkomið af tilfinningum og stolti, lóbeint í tölvuna og póstar nýjasta undrinu á feisbúkk. Þessir feisarar fá yfirleitt svolítið mörg komment. Flest eru þau svona: aaaaawwwwww.... -eða: æi, sætamúsiiiiin!! -stundum: oh.. ég man þegar hann Þröstur minn var á þessum aldri. Þá.... og svo frv. Þessi tegund feisara fær mann stundum til að hugsa: þykir mér EKKERT vænt um mín börn? Er ég ómöguleg móðir??
Ofurkonurnar á feisinu eru líka sér kapítuli. Það eru þær sem pósta tólf sinnum á dag gríðarlega löngum og afloknum verkefnalista sem þær hafa með sínu görl-páveri einar getað leyst. "vaknaði úthvíld og æðislega hress klukkan fimm í morgun og hljóp tólf kílómetrana, kom síðan heim og bakaði bollur og vínarbrauð áður en ég vakti englana mína og elsku manninn minn með fiðluspili og kertaljósum og átti með þeim yndislega morgunstund áður en þau fóru öll útí vinnudaginn með þriggja hæða nestisboxið með heimatilbúnum kræsingum. Setti í tvær vélar, handþvoði fjögur ullardress og var mætt kortéri of snemma í vinnunna þar sem ég sló í gegn með æðislegum nýjum vinaleik sem ég var að hanna og föndra við langt fram á nótt. Í hádeginu borðaði ég lífrænt spelt og skolaði því niður með grænum spírulínudrykk og skrifaði á öll jólakortin. Svo vann ég eins og brjálæðingur til fimm, sótti börnin, fór í Hagkaup, bakaði sautján smákökusortir og síðan reiddi ég fram fjögurra rétta kvöldverð. Síðan æfðum við fjölskyldan saman íslenska glímu ásamt þjóðlegum dönsum í stofunni fyrir háttinn. Við erum ógeðlsega hamingjusöm fjölskylda......." Þessari feisbúkkkonu langar mann iðulega að senda sprengju í pósti. En maður þekkir af eigin reynslu að þetta var eini dagurinn á árinu sem var svona æðislegur og því óþarfi að amast við því.....
Svo er það enn ein tegundin. Það er forward-feisarinn. Það er þessi sem póstar öllum fjöldastatusunum. Setur inn langa og ógnandi statusa á borð við: ef þú lætur þennan status ekki vera uppi hjá þér í amk klukkutíma, er þér skítsama um aldraða, fatlaða, krabbameinsveika, svöngu börnin í Afríku, mömmu þína, börnin þín og hefur enga sjálfsvirðingu. Þú ert sjálfselskur og ferð beint til helvítis!
Sjálf tilheyri ég öllum þessum feisbúkkpersónuleikum. Ég flakka úr því að vera pólitísk, persónuleg, ofurkonuleg, og stundum meira að segja forwarda ég líka... Af og til virðist ég ekki eiga mér neitt líf annað en börnin mín og dett jafnvel svona spari, í að reyna fyrir mér í kaldhæðnu og markvissu deildinni.
Það er í raun bara ein tegund feisara sem ég fyrirlít í hjarta mínu og vona að ég komi aldrei, aldrei til með að tilheyra. Það er hinn lítt geðslegi og skinhelgi kærleiks-statusa fíkill. Og ekki misskilja mig! Ég hef ekkert á móti skemmtilegum tilvitnunum, góðri speki eða heilræðum. Það er ekki sú tegund sem ég á við. Það eru þessir örfáu sem skipta dögunum niður í skitsófranískar færslur þar sem dagur eitt hefst á fyrirbæn og henni fylgir fast á eftir smá pistill um kærleikann og hversu mikið við séum nú öll systkin á þessari jörð og þurfum öll á brosi, kærleika, faðmlagi eða hverju öðru sem er að halda. Síðan, til að maður hreinlega þurfi að gubba sykurmolum, -koma heilræði og spekitilvitnanir um ljósið og andann og hreinleikann sem mannssálinni sé nú nauðsynlegur.
Og maður kyngir sýrópinu eftir lesturinn og reynir að halda klígjunni niðri, vitandi það að á degi tvö,... jáh.. þá kveður við dulítið nýjan tón. Þá hafa kærleiksstatsusarnir vikið fyrir viðbjóðslegum skítmokstri yfir nafngreinda aðila, hvar fólk er rakkað niður á ógeðslegastan hátt og því engin gaumur gefinn að gærdagurinn var einmitt dagur fyrirgefningar og kærleika? Jæja! hann er líka löngu liðinn! Þessi tegund feisbúkkara vill gjarnan gefa sig út fyrir að vera hressa og skemmtilega týpan. Og umfram allt afar þenkjandi persóna. En gerir sér enga grein fyrir því að á feisbúkk lesa allir hvern mann maður hefur að geyma. Hvernig á maður að getað innprentað börnum sínum, sem eru jú öll á feisbúkk, að einelti sé ekki líðandi. Að maður rakki aðra ekki niður? Að það sé ljótt að segja ljóta hluti um fólk um leið og maður eys óhróðri yfir nafngreinda einstaklinga?
Ég er ekki að segja að maður eigi ekki að hafa skoðun! alls ekki. En það er bara svo agalegt að láta hanka sig á helgislepjunni og illgirninni með ekkert á milli, nema kommentakerfið!
Dísa, ég vona að þú komir á feisbúkk!!
Athugasemdir
Elska pistlana þína Ylfa! :)
Og já "Dísa frænka" komdu á feisbúkk, þetta er svo sannarlega skemmtilegt fyrirbæri :)
Ég er þessi persónulega/börninerulífmitt feisari! :) Stundum pósta ég líkamsræktar statusum en það er bara til að peppa sjálfa mig upp í að drullast til að halda áfram að hreyfa mig! :)
Margret (IP-tala skráð) 30.11.2010 kl. 17:42
Dásamlega upplífgandi pistlar alltaf hjá þér, Ylfa. Ofurkonustatusarnir fara einmitt ótrúlega í geðið á mér ;) Og Dísa frænka hefur örugglega ekki sagt helvítis upphátt!
Þórgunnur (IP-tala skráð) 1.12.2010 kl. 14:04
Hahaha þú drepur mig kona !!
ertu með ælufötu við tölvuna ?
Ragnheiður , 2.12.2010 kl. 12:54
Ylfa þú ert einn besti penni sem ég þekki.
Mér finnst að þú eigir að fá þetta birt í góðu blaði......Án djóks.
Þú ert snillingur.....ferekkiofanafþví!!
En samkvæmt þessu er ég Feisbúkk hóra; er smá af þessu öllu......nema ég er kannski ekki nógu pólitísk.
Gleymdu aldrei að þú ert frábær!
Helga Björk (IP-tala skráð) 5.12.2010 kl. 00:49
Frábær lestur Ylfa mín, þetta er alger snilld! Kannast við alla þessa feisbókar-persónuleika og fleiri til, held að blundi slatti af hverjum þeirra í mínum eigin feisbókarkarakter.
Ég er samt afskaplega fegin að það er nánast enginn úr minni nánustu fjölskyldu á facebook, þá yrðu stöðuuppfærslurnar mínar ansi mikið öðruvísi býst ég við.
Bimma Hafsteins (IP-tala skráð) 5.12.2010 kl. 23:13
Ath Þú átt marga lesendur sem ekki eru á feisinu.
Sakna bloggsins.
Óska þér og þínum gleðilegra jóla Gsv
gisli sv (IP-tala skráð) 24.12.2010 kl. 01:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.