Hrós vikunnar fær ÁSBJÖRN!

... fyrir að gera þjóðinni það ljóst hversu háð við erum listsköpun og þá um leið, listamönnum. Ég er ekki viss um að fram að þessu hafi hinn almenni borgari áttað sig á því að án menningar og lista er ekkert þjóðfélag. Ég hef stundum sjálf hugsað sem svo; jæja.. eru nú til peningar til að borga listamannalaun en ekki til að veita fólki lögbundna þjónustu? Huh! Svo hef ég snúið mér að sjónvarpsskjánum.... Mótsögn í því. Vandræðalega mikil mótsögn. Og ég hugsa að flestir hafi áttað sig á því sama þegar hetjan hann Ásbjörn sagði þessa óborganlegu setningu: af hverju fær þetta fólk sér ekki bara vinnu eins og aðrir. Hann er náttúrulega styrkþegi þjóðarinnar. Situr á Alþingi. Þannig að ég hef kosið að trúa að þetta hafi verið einskonar "öfug sálfræði" hjá dúllunni honum Ásbirni. Hann hafi í raun ætlað að láta okkur sjá ljósið.... :D

Upp hefur sprottið áköf umræða sem hefur svipt hulunni af augum mínum. Á hverju ári þarf fólk sem framleiðir list að hlusta á okkur hin gagnrýna styrkveitingarnar. Og við gerum okkur enga grein fyrir því hvað við fáum fyrir þessa styrki í staðinn. Hvað í raun við erum að græða! Listamannalaun eru ekki há. Og það er mikið sem við fáum í staðinn. Standi svo listamaðurinn ekki við sínar framleiðsluskuldbindingar eru launin hans tekin af honum. Sem er ekkert endilega gert við alla launþega? Er það? Fá hæstaréttardómarar ekki örugglega alltaf sín laun þó sumir þeirra séu fullkomlega vanhæfir? Bara svo dæmi séu tekin?

Ég held í raun að listamenn geti verið Ásbirni þakklátir og í raun ætti að splæsa á hann svona eins og einum mánaðalaunum úr styrkveitingarsjóðum listamanna, bara til að þakka honum fyrir að opna augu okkar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð! Aumingja Ásbjörn gerði sér sennilega enga grein fyrir að hann væri að kasta boomerang úr ræðustól Alþingis.

Hulda (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 17:48

2 identicon

Ég var ummitt að pæla í þessu sama!
Að það hefði verið ljómandi að fá þetta komment til að starta umræðum.

Það var umræðan á síðasta ári sem setti þetta í samhengi fyrir mér.

Það þarf sennilega að vekja athygli á þessu alveg reglulega.

Sigga Lára (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 17:48

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Erró er listamaður og hefur alltaf verið.Hann er í fullri vinnu við list sína, vinnur eins og annað fólk.Hann hefur aldrei þegið"listamannalaun".Hann er ekki betlari.

Sigurgeir Jónsson, 8.10.2010 kl. 18:15

4 identicon

Ásbjörn er bara kjáni, líklega ómenntaður og heimóttarlegur. Skiptir þjóðina auðvitað engu máli, nema, að þessi maður situr á Alþingi.

Það er nokkuð sem gerir málið graf alvarlegt.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 18:27

5 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Ásbjörn á ekki hrós skilið fyrir þessa kjánalega athugasemd, þótt hann hefur beðið afsökunar. En umræðan í kjölfar um listsköpun og mikilvægi þess er mjög jákvæð.

Úrsúla Jünemann, 8.10.2010 kl. 18:42

6 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Sigurgeir Jónsson. Það að fá framlag úr ríkissjóði í eitt ár gerir menn varla að betlurum? Er það? Því að þá ertu um leið að kalla mig betlara ásamt öllum þeim sem hafa þegið styrk til að standa að menningar eða listtengdum viðburðum. Ég hef þegið styrk til að halda leiklistarnámskeið fyrir börn. Svo hef ég að auki þegið barnabætur úr ríkissjóði. Ég hef þegið ókeypis heilbrigðisþjónustu (reyndar hef ég greitt fyrir hana í formi skatta, nokkuð sem ég held að fólk sem starfar við list geri líka) og þar fram eftir götum. Þú hefur greinilega ekki þurft að nýta framlög frá ríkinu og ert þar af leiðandi varla búsettur á Íslandi?

Listamannalaun eru ákveðinn samningur. Standi listamaðurinn ekki við sinn samning, fær hann ekki laun. Það er svo einfalt. Í raun er því um keypta þjónustu að ræða, ekki satt?

Ylfa Mist Helgadóttir, 8.10.2010 kl. 18:50

7 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

@Haukur: Ég er líka frekar ómenntuð og eflaust dálítið heimóttarleg. Ég held að það í sjálfu sér geri fólk ekki óhæft til góðra verka né hæft til vondra. Það er innrætið og hugsunin sem ræður hæfni fólks, trúi ég.

@Úrsúla: ég er eiginlega sammála því. Ég var að reyna að beita kaldhæðninni.... :=)

Ylfa Mist Helgadóttir, 8.10.2010 kl. 18:54

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,Erró er listamaður og hefur alltaf verið.Hann er í fullri vinnu við list sína, vinnur eins og annað fólk.Hann hefur aldrei þegið"listamannalaun".Hann er ekki betlari."

Afhverju segirðu það?  Hafnaði hann td. þessu eða fæekk hann það ekki (og hann er ekki bara nefndur þetta umrædda ár)?

,,28 listamenn fá heiðurslaun á næsta ári samkvæmt tillögu  menntamálanefndar Alþingis. Hver og einn fær 1,8 milljón króna og fjárveiting nemur því samtals rúmum 50 milljónum.
Listamennirnir eru eftirfarandi: (...)  Erró (...)" (mbl.is 22.12.2008)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.10.2010 kl. 19:27

9 identicon

Þessu er ég ósammála Ylfa Mist. Ég er ekki að tala um háskólamenntun. En ég er þeirrar skoðunar að alþingismaður, fæddur 1962, eigi að hafa stúdentspróf. Einnig ætti hann að hafa verið erlendis og kynnst siðum og menningu annara þjóða að vissu marki. Margir virðast líta að starf þingmanns, eins og bara eitthvað venjulegt djobb, en það er rangt. Verðum við ekki núna dags daglega vitni af því hvað það hefur kostað þjóðina af hafa vanhæfa fúskara í hæstu embætttum stjornsýslunnar?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 19:27

10 identicon

Ásbjörn á ekkert hrós skilið. Ummæli hans voru heimskuleg og ekkert annað. Honum hefur nú verið gert skiljanlegt að hann ætti að biðjast afsökunar. Mikilvægi listar og menningar hefur lengi verið ljóst og Ásbjörn afhjúpaði aðeins eigin skilningsleysi. Það er merkilegt til þess að hugsa að listamaðurinn Björk hefur gert meir til að auglýsa landið og markaðssetja en öll markaðssetningarátök til samans. Það er einfaldlega þannig að til þess að geta skapað listaverk verður fólk að hafa eitthvert lífsviðurværi. Snorri Sturluson skrifaði Heimskringlu og líklega margt annað. Hann var einn auðugasti og valdamesti maður landsins. Hann hafði skrifara og nóg af nautgripum. Mikill meirihluti listamanna er í öðru fullu starfi samhliða list sinni. Fjölmargir tónlistarmenn og tónskáld eru kennarar. Margir bændur eru einnig skáld svo dæmi sé tekið. Starfslaun listamanna eru eðlileg en um einstaka tilnefningar og menn má deila.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 19:48

11 Smámynd: Katrín

F'olk ætti nú að fagna þessum ummælum í stað þess að hneyklast.  Listamenn hafa aldrei fengið eins mikla athygli og þessi dægrin.  Í mínum huga hafa listamannalaun verið enn ein birtingarmynd spillingar þar sem ráðherrar og stjórnarþingmenn hvers tíma hafa notað til að hygla sínum og getur varla verið eftirsótt að fylla þann hóp.  List á Íslandi hefur aldrei verið fyrir sauðsvartan almúgann og má telja á fingrum annarra handar hversu oft t.d. mín fimm manna fjölskylda hefur komist í leikhús svo ég tali nú ekki um viðburði árlegrar Listahátíðar. 

Og svona í lokin þá er gott að muna að skoðanir manna eiga allar rétt á sér, hversu ósammála maður er þeim....án mismunandi skoðanna verða umræður ansi einsleitar og reyndar steingeldar!

Katrín, 8.10.2010 kl. 20:53

12 Smámynd: Þórir Kjartansson

Haukur,  voru það einhverjir heimóttarlegir og illa menntaðir menn sem settu þjóðfélagið á hausinn?  Aldeilis ekki. Þetta voru allt hámenntaðir asnar.  Nú er þetta hámenntaða fólk sífellt hótandi því að flýja land til að fá ,,mannsæmandi" kaup.  Síðan kemur það væntanlega aftur heim þegar ómenntaði og heimóttarlegi lýðurinn er búinn að byggja upp fjárhag þjóðarinnar á nýjan leik.

Þórir Kjartansson, 8.10.2010 kl. 20:53

13 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Rétt hjá þér Katrín. Enda erum við hér að hafa skoðanaskipti.

Ég er alls ekki sammála þér með að listin sé of dýr til að hennar megi allir njóta. Ég myndi teljast til láglaunamanneskju án þess að til þess þyrfti neinna flókinna útreikninga við. Samt fer ég með börnin mín stöku sinnum í leikhús. Ekki oft, ég viðurkenni það. Enda bý ég líka langt frá stóru leikhúsunum. En á móti kemur að ég sé áhugasýningar sem eru einmitt styrktar af bæði ríki og sveit.  Að auki njótum við fjölskyldan ritlistar í gríðarlegu magni.  Við lesum fáránlega mikið, bækur eru reyndar dýrar en við notum bókasafnið töluvert og skiptumst svo á bókum við aðra líka.

Leiklistarinnar njótum við reyndar töluvert í formi sjónvarpsefnis. Þar er í miklu uppáhaldi ríkisstyrkt íslensk dagskrárgerð.

Og ekki má gleyma tónlistinni. Hún er í eyrum okkar fjölskyldunnar alla daga. Það er nóg að kveikja á útvarpi, þá hlustum við á bæði klassík og popp. Sumt komið frá ríkisstyrktum batteríum eins og td sinfóníuhljómsveit íslands. Svo eigum við töluvert af geisladiskum sem við hlustum líka á.

Myndlistar nýt ég líka þegar því verður við komið. Það er ekki langt síðan að Afi á Ísafirði, Villi Valli, var útnefndur bæjarlistamaður ársins. Því fylgdi aðallega heiður en samt einhverjir aurar líka. Þó held ég að ég geti fullyrt að það hafi á engan hátt tengst þessari birtingarmynd spillingar sem þú nefnir.

Svo að eins og ég segi, ég er þér allsendis ósammála. List er daglegt brauð á mínum borðum, þrátt fyrir lítil efni og án hennar gæti ég held ég ekki lifað. Tja... ekki mjög lengi amk. :D

Ylfa Mist Helgadóttir, 8.10.2010 kl. 21:29

14 identicon

Þórir, ég veit að nú er ég kominn inn í umræðu, sem er erfið á meðal Íslendinga. Menntun hefur aldrei verið í hávegum höfð á skerinu. Verkfræðingar míga upp í vindinn, er enn sagt. En ég geri einfaldlega þá kröfu að alþingismenn séu góðum gáfum gæddir og hafi í það minnsta stúdentspróf, þó það segi kannski ekki mikið. Undantekningar verða alltaf til og sanna oftast regluna. Ég hef hinsvegar aldrei fullyrt að menn með háskólagráður geti ekki verið óheiðarlegir og gert skelfileg glappaskop í starfi. Að mínu mati byrjar námið, alvörunámið, þegar út í starfið er komið. Öll menntun, sem á undar fer, er aðeins undirbúningur fyrir það nám. Og þetta gildir ekki bara fyrir starf sem krefst háskólamenntunar. En það sem verður alltaf, sko alltaf að vera fyrir hendi, er „control“. Á öll störf þarf að nota einhverja mælistiku með reglulegu millibili. Hverjir fylgjast með störfum alþingismanna? Jú, kjósendur. En hverjir fylgjast með starfi háttsettra embættismanna? Hver fylgdist með starfi Davíðs sem seðlabankastjóra? Kellingin hans? Verstu útrásarvíkingarnir voru ómenntar menn. Þá geta menn verið heimóttarlegir, þrátt fyrir 2-3 utanlandsferðið á ári hverju. Sýna ekki landi sem þeir heimsækja, né íbúum þess hinn minnsta áhuga. Koma jafnvel til baka, ógeðslega timbraðar, og tala um aumingjana sem þarna búa, þar sem þeir eiga ekki eins flott hús og eins stóra bíla og þeir sjálfir. Og menn með pungapróf í lögfræði frá HÍ, geta verið ómenntaðir með öllu, í þeim skilning sem ég vil leggja í orðið menntun.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 21:48

15 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Enginn verður listamaður af því einu að ríkið segist skuli borga honum fyrir að vera það.Listamaður er listamaður af því að hann hefur þörf fyrir að skapa og vera frumlegur.Síðan er listamanninum auðvitað í sjálfsvald sett, hvort hann þiggur fé fyrir sköpunina,rétt eins og listasmiður fær greitt fyrir það sem hann skapar eða listakokkur.En að fara að greiða einhverjum fé fyrirfram fyrir það sem honum kynni að detta í hug að gera í framtíðinni er rugl og drepur niður alla listsköpun eins og dæmin sanna.Sovét.Ég endurtek Erró er ekki betlari. hann er listamaður sem vinnur fulla vinnu , og hefur gefið Íslendingum listaverk fyrir stórfé.Og auðvitað á Ásbjörn þakkir skilið fyrir að vekja þessa umræðu.

Sigurgeir Jónsson, 8.10.2010 kl. 22:43

16 identicon

Nokkurs misskilnings gætir í umræðunni um listamannalaun.

Margir virðast halda að einhver elíta sitji að laununumm. Þeim sé aðeins úthlutað til sérvalinna vildarvina spilltra valdhafa. Þó eflaust megi tína til einhver slík dæmi heyra þau til undantekninga. Hafa ber í huga að heiðurslaun eru annar handleggur og koma þessari umræðu ekki við.

Allir geta sótt um listamannalaun. Umsóknir eru metnar og þau verkefni styrkt sem matsnefndum þykja áhugaverð hverju sinni. Margir hafa oft fengið synjun áður en þeir leggja fram umsókn sem hlýtur náð fyrir augum nefndar. Þannig má segja að launin hvetji til metnaðarfullrar listsköpunar. Mörg dæmi eru til um frábær verk sem hafa orðið til vegna þess svigrúms sem launin gefa listamönnum. Oft er um að ræða verk sem SKAPA ATVINNU (galdraorð í umræðunni) fyrir fjölda manns.

Listamannalaun eru ekki gjöf. Þau eru skattskyldar tekjur svo stór hluti þeirra rennur beint aftur í Ríkissjóð.

Heildarupphæð listamannalauna svarar til rúmlega eitt þúsund króna á hvern Íslending. Ég þori að fullyrða að framlögin sklia sér margfalt til baka í beinhörðum peningum. Um andlegan hagnað ætla ég ekki að fjölyrða. Hans njóta allir, jafnvel þó þeir átti sig ekki á því eða neiti að viðurkenna það.

Eyþór Gunnarsson (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 23:11

17 identicon

Réttast væri að taka það fé sem fer í listamannalaun og setja það í velferðarmál.  Geta ekki allir verið sammála því?

Framlög til listamannalauna er eini málaflokkurinn í fjárlögum þar sem framlög hækka á tímum niðurskurðar.

Ef ég væri ráðherra og ætti að velja hvort að ég setti meira fé til listamannalauna eða í hjúkrunarými fyrir langveik börn, hvort haldið þið að ég myndi velja?

Ég veit alla vegana hvað þið hin sem talið fyrir hönd  listamanna myndu velja að auka framlög til.  Og það væri ekki til málaflokks eins og langveik börn.

Ísak Þ. Magnússon (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 23:14

18 identicon

Magnað hvað Ásbjörn hefur rétt fyrir sér...... um Ásbjörn:

http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Bubba/kvotagreifi-menningarvana

Ásbjörn Óttarsson er afæta!

Ísbjörn (IP-tala skráð) 9.10.2010 kl. 00:06

19 Smámynd: Katrín

Ég nefndi sérstaklega leikhús og Listahátíð og er þar að tala um atvinnuleikhús og Listahátíð og er aðgöngumiðinn þar ekki gefins og þess vegna illa aðgengilegur sauðsvörtum almenningi sem eiga bara buddu með einu litlu hólfi eða jafnvel enga buddu enda bankinn búin að hirða hana.

þegar til stendur að loka sjúkrahúsum á landsbyggðinni er ekki undarlegt að fólk velti fyrir sér hvort ekki væri ráð að forgangsraða...og ef litið er til sögunnar mun listin lifa áfram þó listamannalaun lækki eða jafnvel hverfi nokkur ár. 

Hins vegar er égr ekki svo viss um að allir sjúklingar munu lifa af bið eftir sjúkraflugi til að komast á yfirfullt hátæknisjúkrahús í Reykjavík, þar sem starfsfólkið er orðið svo yfir sig þreytt vegna vinnuálags að það gleymir sjúklingum inn á vakningu.

Einn gamall og góður hélt því meira að segja fram að upp úr skortinum spretti hin stórkostlegu listaverk...og svei mér ef ég er ekki bara sammála honum!

Katrín, 9.10.2010 kl. 00:42

20 Smámynd: Árni Gunnarsson

Listamannalaun eru móðgun við fólk í samfélagi sem er svo illa statt að til stendur að koma heilbrigðisþjónustu dreifbýlis inn í viðmið 19. aldar.

Og þau eru storkun við foreldra sem þurfa að betla sér mat handa börnum sínum.

Með sömu rökum tel ég að framlög til þjóðkirkjunnar og annara trúfélaga ætti að frysta í a.m.k. 2-3 ár. Í það minnsta þarf að endurskoða þann samning við ríkið rækilega við þessar aðstæður.

Og svona mætti nokkuð lengi telja.

Mér er alvara. 

Í þessu felst ekki nein andúð í garð þessara tilgreindu málaflokka.

Árni Gunnarsson, 9.10.2010 kl. 11:03

21 identicon

Ég held að margir séu á sama máli og Ásbjörn, eins óvinsælt og það er.

Hann nefndi Hörpu - nú byggjum við tónlistarhús þegar raðir svangra lengjast með hverri viku. Við eyðum milljarði í aðildarviðræður. Við lokum spítulum og semjum ekki við lækna. Biðlistar veikra lengjast. Öll þjónusta við fatlaða leggst mest meggnis af ef ríkið kemst upp með það.

Listamannalaun mega vel lækka. Kartín bætti nokkrum tugum á listamannalaun þegar hún tók við embætti. Hvaða rugl var það?

Listamenn ættu að fá svipaðan pening í styrk og atvinnuleysisbætur meðan árferðið er svona. Þeir gætu þá fengið að vinna með styrknum ef þeim líkar illa að styrkirnir lækki.

Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti þegar kreppir að. Sjúkir, fatlaðir, svangir og aldraðir eiga að ganga fyrir.

Listamenn eru ekki svo frábærir að ég vilji fórna þeim sem minna mega sín fyrir styrki þeirra.

Við verðum að horfast í augu við að við eigum enga peninga og haga ríkisrekstrinum eftir því.

Eva Sól (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 21:36

22 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ef listamaður skapar eitthvað sem fær þann góða stimpil list hlýtur hann að geta selt verkið/verkin. Því á hann ekki að þurfa að vera ríkisrekinn.

Eyþór Gunnarsson, hvaða atvinnu skapa listamenn? Störf fyrir safnverði á söfnum sem eru flest rekin af ríkinu?

Það liggur í augum uppi að list getur ekki skapað verðmæti nema einhverjir hafi áhuga á listinni og vilji fá aðgang að henni. Þeir sem það vilja eiga að fjármagna sína lyst á list úr eigin vasa.

Ekki úr vasa skattgreiðenda, sem eru reknir fársjúkir heim til sín af ríkisreknum sjúkrahúsum ef þeir þurfa að fara þangað, af því að það eru ekki til peningar til að hlúa að þeim. Á sama tíma og svokallaðir listamenn við heila heilsu safna spiki á kostnað ríkisins.

Theódór Norðkvist, 11.10.2010 kl. 08:40

23 Smámynd: Theódór Norðkvist

Vil taka fram að ef þetta er Eyþór Gunnarsson í Mezzoforte segi ég að það er listamaður sem ég er tilbúinn að koma og hlusta á. En ég mun þá borga aðgangseyrinn sjálfur, ekki láta ríkið fjármagna hljóðfæraleik hans fyrir mig.

Theódór Norðkvist, 11.10.2010 kl. 08:43

24 Smámynd: Gunnar Waage

Þótt ég efist ekki um að einhver hluti þessa fjár skilar sér aftur inn í ríkiskassann og að vissulega er listalíf hluti þess sem að ferðamenn sækja, þá gætum við eytt fé með margvíslegum hætti sem myndi auglýsa landið og það fé kæmi aftur inn í ríkiskassann.

Á meðan að Ylfa Mist lætur sér nægja að "framleiðsluskuldbindingar" sé settar til viðmiðunar við afgreiðslu á starfslaunum listamanna, þá er það í raun óásættanlegt.

Arðsemiskrafa í hverju afmörkuðu tilfelli þyrfti að koma til. Gera á þá kröfu að beinn hagnaður hljótist af verkinu sem listamaðurinn fær starfslaunin fyrir að búa til.  

Vissulega eru listamenn sem hafa haft mikil áhrif á á ferðamannaiðnaðinn, en eru það þeir listamenn sem þiggja starfslaun listamanna?

Svar; Í fæstum tilfellum. Þeir listamenn sem hafa áhrif í þá veru á alþjóðlegum vettvangi eru nær undantekningarlaust atvinnumenn og fyrir löngu síðan komnir með starfsfyrirkomulag sem byggist ekki á styrkjum eða starfslaunum sem þessum.

Þetta fólk hefur þurft að gera vissa kröfu til sín um arðsemi afmarkaðra verkefna, svo lengi sem einhver alvara hefur verið á ferðinni í þeirra listsköpun.

Listamenn eru ekkert merkilegri eða viðkvæmari en annað fólk sem vinnur hvaða önnur störf sem er. Guðmundur Ingólfs jazzpíanisti átti það til að starfa í vélsmiðju. Sjálfur hef ég hlaupið í alls kyns störf til sjós og lands og vitið þið, ég myndi ekki vilja hafa hlutina neitt öðruvísi, mér myndi einfaldlega ekki líka við sjálfan mig.

Gunnar Waage, 12.10.2010 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband