Af bruðli opinbers fjár...

Ég er í Reykjavík. Sá vonda leiksýningu í gær og sat fjármálaráðstefnu Sveitarfélaganna dagana tvo á undan. Og ekki er flogið heim. Veðrið er ágætt hér en í gærkvöld var syndaflóðinu hinu síðara sturtað yfir okkur á höfuðborgarsvæðinu. Það var hálf spaugilegt að allir leikhúsgestir mættu með rennandi blautt hárið og maskarann aðeins neðar á andlitinu en upphaflega til stóð. Ég var engin undantekning að undanskildu hárinu, enda með skotthúfuna góðu sem tengdó prjónaði á mig í fyrra.

Ég er alltaf svo hugsi yfir þessum ráðstefnum. Fundarstaðurinn er Hilton hótelið og þar gista og nærast flestir fundarmenn. Afturhaldskommatittir eins og ég reyndar þvertaka fyrir að gista á þessu fokdýra hóteli á kostnað bæjarfélags sem lepur dauðann úr skel og þarf endalaust að skera niður í grunnþjónustu vegna fjárskorts. Eigi maður ekki fyrir reikningunum, gistir maður ekki á Hilton. Það er ekkert flóknara en það. Það er nú þannig að sveitarstjórnarfólk fær greitt fyrir sína vinnu. Í Bolungarvík eru það vissulega afar lág laun en enginn getur sagt að maður hafi annað en boðið sig fram til þeirrar láglaunavinnu! Ég er ekki óvön því að fá illa greitt fyrir vinnuframlag mitt svo að ég læt vera að væla yfir því. Enda barðist ég bókstaflega með svita og tárum til að komast í þessa téðu bæjarstjórn. Eins og allir sem þar sitja.

Þegar ég fer á fundi og ráðstefnur á vegum bæjarins er þrennt sem ég þarf: ferðina, mat og gistingu. Ég er svo heppin að ég verð ekki fyrir launatjóni á meðan því að ég get haft vaktaskipti og/eða verið búin að vinna af mér eða gert það þegar heim er komið. Því þigg ég ekki dagpeninga. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli að sem starfsmaður bæjarins reyni ég alltaf að spara fyrir hans hönd. Er það ekki einmitt mitt hlutverk? Á sama hátt hvarflar ekki að mér eitt andartak að gista á Hótel Hilton á kostnað bæjarsjóðs þegar ég er stödd í Reykjavík. Ég á nóg af ættingjum og vinum sem ég hef þess kost að gista hjá. Ég er bara svona ljónheppin! Ætti ég þess ekki kost að fá fría gistingu, væri eflaust hægt að finna allþónokkurn fjölda gististaða sem er í mun hentugri verðflokki fyrir bæjarfélag sem er með eftirlitsnefndina andandi ofan í hálsmálið.

Og þá erum við komin að matnum. Fyrst af öllu, þá gleður það mig innilega að Samband íslenskra sveitarfélaga sé svona stöndugt að geta veitt sveitarstjórnarmönnum vel í mat. Og drykk. Ég hef ekki farið mjög oft á fundi sem sambandið heldur, en það hefur þó einkennt þá alla að alltaf hefur verið boðið upp á vín. Og ég hreinlega skil það ekki. Ég get vel komist af án víns í tvo daga. Mér finnst þó áhyggjuefni að Sambandið telji að við, fundarmenn, getum það heilt yfir ekki og því hljóti það að teljast liður í eðlilegum útgjöldum við þinga- og ráðstefnuhöld, að veita vín.
Ég hef stundum hugleitt að biðja bara um peninginn í staðinn og jafnvel á meðan ég reykti, að gá hvort ég mætti ekki bara fá sígarettupakka á meðan hinir drykkju vínið í boði Sambandsins, en ég hef ekki kunnað við það.

Að gamni slepptu. Mér finnst hreinlega, nú á þessum síðustu og verstu, ekki forsvaranlegt að bjóða skatt- og útsvarsgreiðendum sveitarfélaganna upp á það að þurfa að greiða tveggja rétta máltíðir á Hilton, gistingu á einu dýrasta hóteli landsins, áfengi og smárétti og þar fram eftir götum, fyrir fulltrúa sína, sem blátt áfram slógust um atkvæði þeirra einu, tveimur eða þremur árum áður. Hétu því að vinna heiðarlega og ötullega að heill og velfarnaði sveitarfélags síns. Ég hefði vonað að nú í djúpri efnahagslægð, væru hlutir eins og frítt bús, ekki partur af nauðsynlegum útgjöldum við ráðstefnuhald. Hvort sem það eru sveitarfélögin sjálf sem splæsa eða Samband þeirra. Ég veit nefnilega fyrir víst að það er þetta sem fólk er að neita sér um í kreppunni því að það eru einfaldlega ekki til peningar fyrir þessu.

Félagar mínir í bæjarstjórn hafa gert góðlátlegt grín að mér fyrir að vilja ekki gista á Hilton og vera að þessu fjasi. Ég blæs á það og held mínu striki. Aðrir geta átt það við sína samvisku hvort þeir vilji þiggja lúxusinn. Fyrir mér er þetta bara prinsippatriði. Þegar maður ætlar að vinna fyrir einhvern, þá reynir maður að gera það af heilindum. Ég meira að segja hugleiddi það þegar ég sat yfir tveggja rétta hádegisverðinum á Hilton á fimmtudaginn, hvort ég ætti ekki næst að taka með mér nesti! Aldrei að vita nema ég geri það næst. ;)

Maður á alltént að standa við það sem maður prédikar. Og ég þoli ekki þegar almannafé er sóað í óþarfa fyrir örfáa fulltrúa þeirra sem almannaféð eiga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Það er hægt að lesa marga hillumetra af hagfræði og fara samt á hausinn. Hagsýni (sem kennd var við húsmæður) og almenn skynsemi eru líklegri til árangurs. Skynsemi eins og lýst er í þessum pistli.

Kristallast kannski í þessari snjöllu setningu:
"Eigi maður ekki fyrir reikningunum, gistir maður ekki á Hilton."

Haraldur Hansson, 15.10.2011 kl. 15:17

2 identicon

Góður pistill Ylfa Mist. Hann minnti mig á góðan vin, Þjóðverja, en við vorum vinnufélagar í tugi ára hjá einu ríkasta lyfjafyrirtæki heims. Við fórum oft saman á ráðstefnur og auðvitað á kostnað fyrirtækisins. Ég tók eftir því að vinur minn fór aldrei í dýr hótel eða á dýra veitingastaði og ég spurði hann af hverju. Svar hans var að hann tæki mið af því hvað hann mundi gera, yrði hann sjálfar að greiða reikninginn. Einkennandi fyrir Þjóðverjann var “Bescheidenheit”, eða “modestu” á ensku. Þess má geta að þessi maður var á sínu sviði (NMR eða MRI spectroscopy) algjörlega á heimsklassa, ef ekki sá besti. Fleiri mættu vera prýddir svona hegðun.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.10.2011 kl. 17:11

3 identicon

En getur nú ekki verið að það sé hagstæðara að hafa alla ráðstefnugesti eða allavega flesta á sama og eina staðnum?

Er ekki einnig mögulegt að þegar svona margir ráðstefnugestir koma saman að þá fái þeir afslátt af gistingu,leigu á ráðstefnusal mat, víni og öðru sem viðkemur ráðstefnunni?

Ég efa að ef ráðstefnugestir hefðu farið að finna sér "ódýrari herbergi um Reykjavík hefði það ekki þurft að vera ódýrara. Því þá er eftir að reikna kostnað við samgöngur, tíma sem fer í að fara á milli staða ect.ect.

Þó alltaf megi spara, og flott ef fólk getur gist hjá vinum og ættingjum þá er það ekki á færi allra.

Hvernig ætli þessi ráðstefna hafi gengið ef allir gestir hennar hefðu verið dreifðir um allt höfuðborgarsvæðið og hver hefði verið kostnaðurinn við það?

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 15.10.2011 kl. 18:28

4 identicon

Haraldur. Það er hugarfarið sem skiptir hér megin máli. Ekki að nokkrar krónur sparist eða ekki. Svona hugarfar mótar starf allra á mjög jákvæðan hátt og er til fyrirmyndar og til góðs fyrir samfélagið. Manneskja með þessu hugarfari verður seint fórnarlamb spillingar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.10.2011 kl. 19:15

5 identicon

Hún er að halda því fram að með því að halda ráðstefnuna á Hilton sé verið að bruðla, en er það endilega bruðl? Getur ekki verið að þetta hafi verið hagkvæmasti kosturinn?

Það hlýtur að vera sem skiptir megin máli, hvað er hagkvæmast að gera fyrir sveitarfélagið. Ekki hugarfarið!

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 15.10.2011 kl. 19:36

6 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Hugarfarið er mikilvægara. Hagkvæmnin verður ekki mæld nema með réttu hugarfari.

Sigurbjörn Sveinsson, 15.10.2011 kl. 20:43

7 identicon

Þannig að ef allir hefðu hugsað eins og hún fundið hótel eða gistiheimili hver fyrir sig hefði það þá verið hagkvæmast? Hefði það ekki verið bruðl?

Auðvitað skiptir hugarfarið, og það hlýtur að gilda um þegar hagkvæmustu kostirnir eru valdnir fyrir heildina.

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 15.10.2011 kl. 20:55

8 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Haraldur Haraldsson. Ég fæ með engu móti séð hvernig það getur talist bruðl að sleppa því að veita áfengi á kostnað útsvarsgreiðenda, gista hjá vinum og vandamönnum í stað Hiltons? Það er alls ekki svo að herbergi á því ágæta hóteli geti talist hagkvæmt í neinum skilningi. Veistu hvað nóttin kostar?  Og er þar með sagt að ekki sé hægt að leigja ráðstefnusal Hilton án þess að sofa í næsta herbergi við Yoko Ono og annað celeb-fólk? Hvert sveitarfélag finnur gistingu fyrir sína fulltrúa, eða þá að þeir gera það sjálfir.

Ég tek fram að ég minntist á að ÉG væri svo lánsöm að eiga þess kost að geta gist hjá vinum og ættingjum í RVK. Ég sagði aldrei að allir væru það? Enda er ég ekki að mæla fyrir munn annarra. Einungis að útskýra mín eigin sjónarmið. Og réttlæta þau. Alveg eins og þú finnur þig knúinn til að gera nú. Einhverra hluta vegna. ;)

Ylfa Mist Helgadóttir, 16.10.2011 kl. 03:26

9 identicon

Þú gleymir að þegar stór hópur að fólki kemur saman á ráðstefnu þá er ekki borgað uppsett verð. Menn leita tilboða og fá það og taka væntanlega hagstæðasta boðinu. Þannig er það hagkvæmast heldur en að hver og einn finni gistingu fyrir sig.

Hvað varðar það að bjóða uppá léttar veitingar þá er það nú ekki mikill kostnaður, það er ekki eins og menn séu að fara á eitthvað húrranidi fyllerí. Þarna kemur sveitarstjórnarfólk saman í lok ráðstefnu og gjarnan mynda tengslanet sín á milli og ræða um ráðstefnuna. Ekkert sveitarfélag fer á hausinn með að bjóða uppá 1-3 glös af léttu víni.

Gisting á Nordica samkv. verðskrá er frá ca. 11.000 kr og uppúr. 

En hver var kostnaður á hvern ráðstefnugest, og hvar hefði verið hægt að fá ódýrari gistingu og mat?

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 16.10.2011 kl. 11:44

10 identicon

Hafandi haldið ráðstefnur á Íslandi nýlega og fengið oft tilboð í slíkt, þá get ég fullyrt að það er mjög ólíklegt að Hilton hafi verið ódýrarsti kosturinn. Þegar ég hef fengið tilboð hafa önnur hótel alltaf verið ódýrari.

Til dæmis hafa Grand Hótel, Hótel Saga, Natura hótel (áður Hótel Loftleiðir) o.fl. yfirleitt boðið betur þegar ég hef leitað tilboða

Adda (IP-tala skráð) 16.10.2011 kl. 17:47

11 identicon

Og hefur munað miklu?

Hvaða daga vikunnar voru þessar ráðstefnur?

Hversu margir sóttu þær?

Var gisting innifalinn,matur?

En samt er það ekki ólíklegt að Hilton geti verið ódýrari kostur,getur verið að Samband íslenskra Sveitarfélaga sé með samning við Hilton og þar að leiðandi fá hagstæðara verð?

Það er ekki hægt að fullyrða að um bruðl hafi verið að ræða nema að hafa samanburð. 

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 16.10.2011 kl. 18:17

12 identicon

Lengi lifi flottræfilshátturinn, Haraldur. Það er margt rétt sem þú bendir á í þínum innleggjum, samt sem áður er það líka rétt sem síðuhöfundur bendir á. Þú gætir réttlætt kaup á flottri gólfkylfu, þó þú gætir ekki borgað húsnæðislánin þín. Ylfa sér ekki þörfina á að kaupa gólfkylfu.

Hafa verið búandi í Þýskalandi í langan tíma, skil ég Ylfu mætavel og finnst hennar grein mjög þarft innlegg í mjög mikilvæga umræðu (sem fer vonandi af stað fyrir alvöru). Þetta snýst um miklu meira en að bera saman kostnað í krónutölum. Þetta snýst um aðra hugsun, aðra sýn á hlutina.

Stutta sagan hans Hauks (innlegg nr. 2) er mjög góð og án efa sönn. Nógu oft hef ég upplifað það sama. 

Takk Ylfa, bestu kveðjur.

Valgeir (IP-tala skráð) 16.10.2011 kl. 19:15

13 identicon

Valgeir það sem ég er að benda á er að það sem allir eru að borða á sama stað þá er það töluvert ódýrara. Það væri annað ef matur og slíkt er ekki í boði og hver þarf að sjá um sig sjálfur.

Auðvitað er það réttur hugsunarháttur eins og kemur fram í innleggi 2.

En að halda því fram að það sé bruðl bara af því að það er á Nordica án þess að færa fyrir því frekari rök, stenst ekki.

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 16.10.2011 kl. 19:51

14 identicon

Ég er algjörlega sammála Ylfu. Ég var að fara í fyrsta skipti á fjármálaráðstefnu og hér í mínu sveitarfélagi hafa sveitarstjórnarmenn alltaf gist annað hvort hjá ættingjum eða á annan ódýran máta. Ég sjálf gisti í verkalýðsíbúð sem kostaði 5000 kr. nóttina. Allt í góðu að hafa ráðstefnuna á Hilton ef það hefði verið gott tilboð sem barst í það en það hefði algjörlega mátt sleppa snittum og hvítvíni seinni part fimmtudagsins, það hálf stóð í manni eftir framsögur dagsins þar sem sveitarstjórnarmenn ræddu um slæman fjárhag síns sveitarfélags. Spurning hvort þeir hinir sömu hafi síðan tekið lyftuna upp í hótelsvítuna.  En gagnleg ráðstefna engu að síður.

Salbjörg Engilbertsdóttir (IP-tala skráð) 17.10.2011 kl. 17:17

15 identicon

Salbjörg með því að gista á öðrum stöðum eykst kostnaður við að komast á milli staða.

Þannig að þó gistingin sé ódýrari þarf heildarkostnaður við ferðina ekkert að vera minni fyrir vikið.

Er ekki í lagi að bjóða mönnum uppá snittur og smá vín. Þarna koma þeir saman og ræða ráðstefnuna og mynda tengsl sín á milli.

Kostnaðurinn er ekki svo mikill ef litið er á heildarmyndina. Það hefði kannski bara verið best að menn mættu á ráðstefnuna og svo færu allir í sitthvora áttina að henni lokinni?

Þarna er kjörinn vettvangur fyrir sveitarsjórnarfólk að hittast og fara yfir málin. Og ekkert að því.

Það er ekki eins og svona ráðstefnur séu haldnar í hverri viku.

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 19:11

16 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Salbjörg, takk fyrir síðast! Þitt sveitarfélag er til fyrirmyndar hvað þetta varðar.

Haraldur. Hvernig í veröldinni geturðu fengið það út að leiðin sem Hólmavík fer sé dýrari? Mig langar að sjá það reikingsdæmi.

Smá vín og snittur? Er það eitthvað sem fólki þarf að bjóða til að það staldri við og spjalli saman? Ég styrki mitt tengslanet á hverri ráðstefnu og þarf ekki áfengi né pinnamat til. Né hótelherbergi. En það hlýtur þá að vera mín sérgáfa?

Það eina sem mitt sveitarfélag þurfti að greiða fyrir mig Haraldur, var ferðin suður og hádegisverður á fimmtudeginum. Hvernig gat einhver verið að tapa á því?

Svo gleð ég þig með því að þrátt fyrir að hafa gist útí bæ, hitti ég margt skemmtilegt fólk og "bondaði" helling. Og strætó heim að kveldi.

Ylfa Mist Helgadóttir, 20.10.2011 kl. 01:30

17 identicon

Sumt gerir maður ekki, þótt það sé ekki það óhagkvæmasta. Maður kaupir ekki glæsibifreið eða villu þegar maður er á hausnum. Maður veitir ekki kampavín og kavíar og ekki einusinni freyðivín og grásleppuhrogn þegar maður sker niður með beittum hníf. Og maður gistir ekki á lúxushóteli, þegar venjulegt hótel er í boði, þótt litlu muni.

Samt á þetta sér stað og er til merkis um firringu og aðgreiningu sem leiðir af sér elítísma og flottræflahátt sem rýrir trúverðugleika kosinna fulltrúa okkar.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 20.10.2011 kl. 11:10

18 identicon

Þannig að ef Hilton er ódýrara en segjum t.d. Flóki þá velurðu samt Flóka því það er ekki eins mikill lúxus?

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 22.10.2011 kl. 21:49

19 identicon

Ætli Haraldur eigi einhverra hagsmuna að gæta? Mér finnst sem hann berjist á hæl og hnakka að verja Hilton og neiti að skilja sjónarmið flestra hér... vangavelta!

En annars finnst mér pistill þinn afar góður Ylfa og þetta er nákvæmlega það sem þarf til þess að eitthvað breytist, það er að koma svona umræðu af stað til að sýna fram á bruðlið og ,,ruglið"!

Ein að norðan... (IP-tala skráð) 28.11.2011 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband