10.1.2012 | 17:53
janúarpælingar um ekkert
Hér eins og annars staðar snjóar og hlánar, frýs og rignir og kannski allt á sama sólarhring. Flug liggur niðri oft og tíðum og fólk mokar stéttarnar sínar tvisvar á dag. Nema ég. Ég nenni því ekki. Fátt þykir mér jafn tilgangslaust og að moka snjó. Nema ég sé nokkuð viss um að það snjói ekki aftur í bráð. Og þá liggur við að ég þurfi tryggingu frá veðurstofunni. Ég veit að ég gæti misst nokkur grömm við að moka, en ég bara nenni því samt ekki. Ég missi nefnilega jafn mörg grömm við að klífa skaflana þegar ég þarf að fara ferða minna til heimilisins og frá því. Börnin eru auðvitað alltaf ánægð með snjóinn og leika sér alla daga. Stundum fara þeir út og grafa göng og hús og taka þá kanínuna með sér til að híbýlin hafi einhvern tilgang. (ég vona að "dýravinir" af sortinni sem þarf að setja inn í gæsalappir lesi ekki um þessa misþyrmingu á kanínunni) Annað slagið gerum við, landsbyggðarfólkið okkur breið og fussum yfir hysterískum fréttunum um ófærð og hálku á SV horninu. Það er nú bara einu sinni þannig að við búum við þennan veruleika hér, en á SV horninu hefur vart snjóað svo elstu menn muni! Smá ýkjur, en þetta er nærrum satt!
Það er svosum ekkert skrítið að allt fari í kaldakol á höfuðborgarsvæðinu þegar færð gerist slæm. Fólk er oft að sækja vinnu um langan veg og á leiðinni margar hindranir. Og fólk hér röflar líka um færð og veður. En það hins vegar gerir enginn fréttir úr því. Það sem mér finnst hins vegar sérstakt er krafa fólks um að ef það komi hálka, þá beri Reykjavíkurborg einhverra hluta vegna ábyrgð á því að fólk detti ekki? Það vita allir að það er ekki hægt að salta götur þegar það er blautt. Saltið skolast bara til og verður til einskis annars en að auðvelda ryð á bílum og skemma skótau. Sandurinn er ekki mikið betri og þarf að auki að sópa upp í stórum stíl á vorinn með tileyrandi kostnaði og veseni þar sem hann rispar allt sem fyrir verður, fari hann að fjúka um þegar blæs. Ég tek því undir orð borgarstjóra þegar hann segir; við búum á Íslandi!
Er ekki frekar komið mál til að við búum okkur undir það að hér komi af og til stríðir vetrar, fáum okkur mannbrodda og jafnvel göngustafi með broddum, fylgjumst með veðurspám og gerum ráðstafanir fram í tímann ef það mun augljóslega hlána og hálka og bloti þekja umferðaræðarnar (t.a.m. með að taka strætó) og umfram allt, vera ekki á ferð á vanbúnum bílum í glærahálku? Ég hugsa að þetta sé mun skynsamlegra og svo ekki sé minnst á, ábyrgari leið til að koma í veg fyrir slys, heldur en að tuða alltaf í öllum öðrum um ábyrgð eða framkvæmdarleysi.
Stundum er bara nóg að við hugsum örlítið sjálf um hvernig öryggi okkar sé sem best tryggt. Við búum jú á Íslandi og hér er allra veðra von?
Athugasemdir
Rétt eina ferðina snilldar blogg elskan mín :o)
Hulda Herdís (IP-tala skráð) 10.1.2012 kl. 18:04
Held þú hafir hitt þarna naglann beint á höfuðið!
Við erum að verða dálítið lík kananum í þeim skilningi að sjálfsábyrgðin er engin hjá okkur. (Get sagt þetta þar sem ég bjó í kanalandinu) en þar er alltaf allt öðrum að kenna. meira að segja eigin ábyrgð! Samanber, kona kaupir heitt kaffi, missir það yfir sig, kærir og vinnur málið!! WTF!
Linda (IP-tala skráð) 10.1.2012 kl. 18:15
Ég er alveg að missa vitið yfir þessu endalausa kvarti. Ef fólk er ekki að kvarta yfir veðrinu er það að kvarta yfir fólki sem er að kvarta yfir veðrinu! (þetta gerir vinnuna mína heldur leiðinlegri en ella)
- ÞEtta verður kannski til þess að fólk fer að lesa veðurspár - og taka mark á þeim áður en það rýkur af stað á milli landshluta... það má amk. alltaf halda í vonina!
Elín Björk (IP-tala skráð) 10.1.2012 kl. 18:42
Borgarstjórinn á að sjálfsögðu að sjá til þess að það snjói ekki í Reykjavík umfram þessi snjókorn sem þarf til að gera jólin jólalegri. Fyrir það fær hann borgað.
Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 10.1.2012 kl. 22:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.