Áskorun hins nýja árs.

Góðir lesendur, gleðilegt ár.

Ég horfði nú á jóladagskvöld á myndina Julie and Julia og varð hrifin af þeirri hugmynd að setja sér markmið í formi matardagbókar, byggða á einni uppskrift á dag úr ákveðinni bók.

Ég renndi í gegnum matreiðslubækurnar mínar með það í huga að velja mér eina bók og elda úr henni 365 uppskriftir á ári komanda. Ég á gríðarlega margar uppskriftabækur. Big red book of tomatoes, er til dæmis girnilegur, gríðarþykkur doðrantur sem inniheldur fleiri hundruðir uppskrifta sem innihalda tómata. Indverskar uppskriftabækur, austur evrópskar bækur með rauðrófusúpum, pýrúshkjís, réttum sem fara vel með vodka og ógrynni leiða til að matreiða kál. Nigella á sinn sess, Helga Sigurðar, Nanna Rögnvalds, Gestgjafinn á einhverja metra af hilluplássi og bækur sem ömmur og mömmur hafa handskrifað eru rúsínan í pylsuendanum.

Auðvitað hefði mér þótt allra best að taka bara sushibókina stóru og kála málinu þannig. En það er ekki víst að sá með fiskofnæmið hefði elskað mömmu sína fyrir vikið. Svo hefði mátt taka indverskt. Ég er bara búin að elda svo margar uppskriftir úr þeim bókum. Franska alfræði-uppskrifta-matarbókin er svo hryllilega stór og þung, auk þess sem erfitt er að fá alla þessa osta og pylsur, foi gras og allt það rándýra hráefni.

Hvað með 1000 Jewish recipes eftir Fay Levy?

Kosher? Hvað ER það? Ég kann það ekki? Ég hef aldrei eldað Kugel, ég þekki ekkert til matseldar gyðinga. Þetta er alltof flókið og pottþétt frekar vont líka.

En ég skoðaði bókina betur. Og betur. Og sannfærðist um að þarna lægi áskorunin mín.

Svo að:

hér kemur fyrsta uppskriftin úr bókinni minni: 1000 leiðir til að matreiða Gyðinga (djók) og hún er kökuppskrift sem á nýju ári ber hinn viðeigandi titil: Low-Fat Chocolate Applesauce Cake, eða:

Fitulítil súkkulaðikaka með eplamauki.

Olíusprey

1 1/2 bolli hveiti

1/3 bolli kakó

1 1/4 tsk kanill

1/4 tsk engiferduft

klípa af neguldufti (má sleppa)

1 tsk matarsódi

3 msk bragðlaus olía (ég notaði isio-venjulega)

1 bolli sykur (einmitt! Þó það sé fitulaust þá er það sannarlega ekkert heilsu!)

1 stórt egg

1 og 1/2 bolli eplamauk (applesauce- fæst í bónus frá td. euroshopper)

Hitið ofninn í 350°F (ég veit ekki einu sinni hvað það er mikið svo ég stólaði á mínar venjulegu 180 gráður á Celsíus)

Sigtið þurrefnin saman. En setjið sykur og blautefni- olíu og egg- saman í hrærivélaskálina og þeytið þar til það verður ljóst og fluffy. Síðan þegar þeirri áferð er náð, skal setja í smá skömmtum, eplasósuna og þurrefnablönduna í hrærivélina en núna má taka þeytarann úr og nota Káið (hvíta hrærarann sem er eins og sexhyrningur með K í miðjunni) Það er nefnilega þannig að ef maður þeytir hveiti með þeytaranum verður baksturinn seigur. Og það er lummó.
Notið sleikju til að ná niður af börmunum reglulega (hljómar næstum dónalega) og síðan er þessu þrumað í form sem búið er að spreyja með olíuúða.

Ég bakaði hana í hálftíma-40 mín í hringformi. Svo tók ég hana úr og dustaði flórsykri yfir. Það er alltíkei með þessa köku en ég hef svo sem alveg líka bakað betri kökur. Og verri. Það er náttúrulega ekkert smjör...... sem er alltaf til vansa W00t

fitulítil súkkulaði og eplakaka.

Á morgun ætla ég að hafa afganga af veislufugli og hrygg í matinn og með því verður Polish Cabbage with raisins, eða hvítkál með rúsínum að pólskum sið. Þetta ætla ég svo að taka með mér á kvöldvaktina annað kvöld.....

Lifum á nöfinni, annað er bara drasl :D


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það verður spennandi að fylgjast með þessari áskorun! Gleðilegt ár!

Harpa J (IP-tala skráð) 1.1.2013 kl. 23:10

2 identicon

Umm hljomar vel ...tetta med florsykurinn ;-)

Valrun Valgeirsdottir (IP-tala skráð) 1.1.2013 kl. 23:11

3 Smámynd: Laufey B Waage

Kíki á frönsku og indversku bækurnar hjá þér í næstu vesturferð. Fylgist spennt með matarblogginu þínu.

Sjálf ætla ég að elda rússneska rauðrófusúpu á morgunn (eldaði kjúklingasúpu í kvöld). Á tvær uppskriftir af rauðrófusúpu, - hef þær alltaf báðar til hliðsjónar en fer aldrei nákvæmlega eftir þeim.

Laufey B Waage, 1.1.2013 kl. 23:14

4 identicon

Góð byrjun. Vefsíðan er komin á "bloggrúntinn" hjá mér, fylgist með þér! Kveðja frá Snjóvík :)

Guðný S. Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 2.1.2013 kl. 00:11

5 identicon

Þú ert nú þegar orðin svalasta manneskja ársins fyrir þessa bloggfærslu! Lachaim! :) Plís skrifaðu svo bók um ævintýrið og fáðu hana gefna út fyrst hérna á Íslandi og svo kannski víðar, hver veit? :) Í alvörunni! Þú slært Júlíu við í bestu merkingu! Lofa! :)

:) (IP-tala skráð) 2.1.2013 kl. 02:55

6 identicon

Living on the edge :) Hlakka til að fylgjast með þessari áskorun :)

Ella Rósa (IP-tala skráð) 2.1.2013 kl. 08:35

7 Smámynd: Arndís Baldursdóttir

Líst vel á þetta hjá þér. Svo gaman að fylgjast með skemmtilegum bloggara.

Verð að nota tækifærið að hrósa þér fyrir plötuna þína, fékk hana í jólagjöf og byrjaði að hlusta á hana í morgun á leiðinni til vinnu.

Arndís Baldursdóttir, 2.1.2013 kl. 10:11

8 identicon

Þetta er snilldin ein Ylfa, ég mun fylgjast með og prófa-hlakka til

Þórgunnur R (IP-tala skráð) 2.1.2013 kl. 11:50

9 identicon

Sæl Ylfa. Ætlarðu í alvöru að elda eina uppskrift á dag úr bókinni ? Snilld hjá þér og gangi þér vel :)

Stína Bess (IP-tala skráð) 2.1.2013 kl. 17:26

10 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Já Stína, það ætla ég að gera :)

Þið hin, takk fyrir athugasemdirnar. Þær eru hvetjandi!

Tveir dagar búnir.

Þetta er rétt að byrja :D

Ylfa Mist Helgadóttir, 2.1.2013 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband