7.1.2013 | 21:15
Nei, það gengur ekki.
Ég er búin að lesa allar uppskriftirnar 1000 í Gyðingabókinni og miðað við töluna sem var á vigtinni í gær, þá verð ég hreinlega að játa mig sigraða. Það er bara of mikið af hráefni sem ekki hentar kolvetnafíklinum "mér" í þessari bók. Pasta, Matzo, núðlur, kartöflur, hrísgrjón og kúskús er gríðarlega mikið notað og sykur er ofarlega á vinsældalistanum hjá þessum annars frábæra höfundi. Og ég hef þyngst síðan ég hætti á mínu græna fæði í haust. Ótæpilega.
Nú er ég aftur komin í agann og ég held það henti mér best. En ég ætla samt að halda áfram uppskriftabloggi og reyna að setja inn 365 uppskriftir, eftir sem áður á þessu ári, þær verða bara frá sjálfri mér. Og myndina fáið þið líka!
Í dag fékk ég mér yndislega sojapönnuköku í morgunverð með steiktum eplum og skyrsósu. Ég tók enga mynd af því reyndar enda mjög algengur morgunverður í agaða matseðlinum mínum. Ég borðaði morgunmat ótrúlega seint og því er næsta máltíð kvöldmaturinn með reyndar smá grænmetissnarli á milli mála.
En uppskrift dagsins er réttur sem ég fæ þó ekki að njóta nema reyksins af. Hin rammíslenska (en þó danskættaða -þeir eiga jú sitt Ölbrauð, sem er um það bil það sama) rúgbrauðssúpa.
Þannig er að í gærkvöld rak ég augun í rúgbrauðskubb sem var farinn að þorna ótæpilega og skammt í að hann færi að mygla. Svo ég muldi hann niður og lét í bleyti í nótt í vatni, rétt nægu til að fljóti yfir, ásamt einni sneið af heilhveitibrauði. Þetta fór í lítinn pott og stóð bara á hellunni. Áðan bætti ég hálfri dós af maltöli saman við og smá klípu af xylitolsykri (má alveg nota venjulegan!) örlitlum rifnum sítrónuberki, safa úr hálfri sítrónu og smá meira vatni. Þetta sauð ég svo við hægan eld þangað til samfelldur grautur varð úr. Svo bætti ég nokkrum rúsínum og sveskjum útí og þetta verður svo snætt með lausþeyttum rjóma. Afar hægðabætandi og nærandi máltíð. Verður þó bara eftirréttur að sinni þar sem jólahangikétið á að borðast í kvöld.
Ég vona að mér fyrirgefist að hafa gefist upp á Gyðingnum, línurnar eru mér bara allt! Eða þar um bil.......
Athugasemdir
Líst mjög vel á þá þróun - leggja kolvetnapúkanum og setja heldur inn td. uppskriftir sem innihalda engan sykur, sterkju né hveiti? það væri ágætis challenge.. :) þá meina ég ekkert í sósum eða neinu ..ekki samt hætta - það er svo gaman að fylgjast með þér Ylfa og skemmtilegt að fá svona Ylfukomment á eldamennskuna
Ilmur (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 03:24
Er það virkilega gyðingunum að kenna að þú borðar rangt og ert of feit?
Voru þetta uppskriftir úr Gamla testamentinu? Hefurðu þá reynt það Nýja. Ég hef heyrt að super-size árátta Jesús sé hættuleg þeim sem vilja gæta fínu línanna.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 8.1.2013 kl. 08:14
Þetta líst mér vel á! Ég á eftir að græða á þessu líka þar sem "megrunar" uppskriftirnar þínar eru alltaf svo góðar
Hjördís Þráinsdóttir, 8.1.2013 kl. 09:39
Þú gætir reynt að adaptera gyðingauppskriftirnar að heilsufarskröfum þínum...og útbúið einhvers konar heilsu-megrunar-gyðingarétti. Án gríns, þá yrði það stórkostleg hugmynd, þýðir þetta svo á ensku og þú gætir grætt ótæpilega á henni ef þú ferð til einhvers góðs útgefanda. Þetta er enginn brandari, þetta er áskorun ;) Þetta væri svo gaman.
lesandi (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 10:22
Milljónir manns í Bandaríkjunum eru á "Jesús kúrnum", eða "Biblíu kúrnum", heitir ýmsum nöfnum og gengur út á að borða að fyrirmynd Biblíunnar. Það eru til nokkrar útgáfur af kúrnum og fjöldi metsölubóka. En ég held bókin hennar Ylfu hljóti nú að vera talsvert skemmtilegri.
lesandi (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 10:28
Kæri Vilhjálmur Örn.
Já, það er gyðingum að kenna. Auðvitað! Er ekki venjan að kenna þeim um allt sem miður fer í heiminum?
Nei, það er ekki þeim að kenna. Vitanlega ekki. En af því einmitt að ég hef ekki stjórn á mér, þarf ég að hætta að elda mat sem ég á erfitt með að forðast. En óttist eigi: ég mun áfram gefa góðar uppskriftir. Þér er velkomið að nota þær- jafnvel þó þú þurfir ekki á megrun að halda, sem ég auðvitað veit ekkert um
Nú ætla ég nefnilega að henda mér í Nýja Testamentið. Gyðingar vildu það aldrei svo að það hlýtur að vera megrandi.... :D
Lesandi: Ég græði aldrei á neinu. Það er þekkt staðreynd innan stærðfræðinnar.
Ylfa Mist Helgadóttir, 8.1.2013 kl. 19:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.