Ljótir eru þeir, satt er það!

En samt einhvernveginn svo sætir!

Mér finnst afar athyglisverð stellingin sem Toggi er í þarna þegar hann blæs í Óbóið. En svona hljóta menn auðvitað að þurfa að vera þegar þeir spila á Óbó. Það segir sig sjálft!

Fyrrnefndur Toggi hringdi einmitt í gær og tilkynnti komu þessara Ljótu Hálfvita vestur á firði fljótlega. Eins gott að fara að steikja kleinur! Halla til ómældrar gleði mun að öllum líkindum ferðast með þeim Hálfvitum, Kristjaníubúinn og æskuvinur hans, Boggi. Veit ekki hvort Boggi borðar kleinur.

En það er best að segja litla sögu, núna þegar klukkan er að verða tólf og ég er svo sólbrennd að ég get ekki sofnað. Halli er á lögguvakt og börnin sofnuð. Sem frægt er orðið hugðum við á flutninga til Danmerkur en erum komin heim með skottið á milli lappanna og farin að taka upp úr kössunum. Þetta var útúrdúr sem mér fannst bara svo fyndinn. En hér kemur sagan. Hún er líka fyndin.

Á Kastrup voru að sjálfsögðu þó nokkuð margir íslendingar og þar með talin ein ágæt dalvísk kona, Gugga Tona að nafni. Gugga var hluti af uppvexti mínum, sem starfsmaður íþróttahússins og hefur látið köldu bununa dynja á mér í sturtuklefunum oftar en ég hef tölu á, eftir íþróttaiðkanir þær sem ég var skylduð til í æsku. Guð má vita að ég er hætt þeirri vitleysu. Enda engin Gugga verið nærri til að kæla mig niður. Eins og títt er um íslendinga, hvað þá sveitunga í útlöndum, klístruðum við okkur saman og settumst öll niður til að borða á meðan beðið var eftir fluginu. Við erum auðvitað að þvælast með þrjú börn og þau frekar þreytt og geðstirð þannig að erillinn við þetta allt saman hafði verið töluverður.

Ég er með brest. Hann lýsir sér í því að þegar atið og hamagangurinn verður mikill þá kemst ég í annarlegt ástand og verð vægast sagt frekar ...........utangátta.  

Þegar börnin voru loks búin að ákveða hvað þau vildu borða og allir voru sestir og byrjaðir að spjalla sullaði eitthvað af börnunum mínum niður. Ég stóð ég upp til að ná í servíettur á skenkiborð sem stóð skammt frá. Ég settist aftur og hélt áfram að tala, með fullan munnin af pizzu og ætlaði að fara að þurrka upp af borðinu. Það var ekkert á borðinu. Ég leit upp og starði beint framan í bláókunnugan mann sem sat á móti mér með fartölvuna sína og skildi augljóslega hvorki hvað ég var að segja, né þá heldur hvað ég var að gera þarna!! Fyrir aftan mig hlógu íslendingarnir og það sem verra var; fyrir utan þennan eina "útlending" sem ég hlussaði mér fyrir framan, var borðið þéttskipað íslendingum!

Gugga stundi: Þú hefur nú lítið breyst, Ylfa Mist.

Og það er eflaust alveg rétt.

En Haraldur hefur hins vegar breyst. Það sást best á því þegar við vorum búin að standa töluvert lengi, uþb. klukkustund eða svo í röðinni niðri í "tékkinninu" að bíða eftir að þessi eini kvenmaður sem var að afgreiða, myndi nú lifna við, eða að minnsta kosti vakna. Hún var á þessum klukkutíma búin að afgreiða þrjá. Flestir í röðinni, sem auðvitað voru mest íslendingar, voru farnir að  ókyrrast töluvert þegar öðrum deski er skellt upp og röggsamur kvenmaður fer að tékka inn. Þegar röðin kom loks að okkur þá geystust skyndilega hjón inn í sjónlínuna og hentu sér á afgreiðsluborðið. Við bökkuðum og heyrðum óánægjukurr fyrir aftan okkur í röðinni.

Nú.! Undir venjulegum kringumstæðum er það Frú Ringsted sem sér um svonalagað í aðstæðum sem þessum. Það er oftast Frú Ringsted sem sér sig knúna til að standa yfir fólki í sturtuklefunum og heimta að það þvoi sér án sundfata. Það er Frú Ringsted sem bendir fólki á það að það sé óþarfi að tala hátt í bíó. Það er líka Frú Ringsted sem snuprar dónalegt afgreiðslufólk eða skilar matnum á veitingahúsum, falli hann henni ekki í geð. Frú Ringsted tæki slíkt jafnvel að sér fyrir aðra líka, væri sá gállinn á henni. En þarna var Frú Ringsted bara orðið heitt, hún var þreytt og þyrst. Barnið á handleggnum seig í og hún vildi bara komast í gegn um innritun á alls vesens. En viti menn! Haraldur Ringsted, hinn dagfarsprúði geystist fram og þrumaði yfir salinn! You are not next!!! Fólkið horfði á hann og skildi ekki alveg hvað hann átti við, enda höfðu þau ekki tekið eftir hlykkjóttri röðinni aftan við "bandið" sem halda á öllu í skefjum í svona byggingum sem þessari. Haraldur Ringsted æddi að fólkinu og bókstaflega henti því aftur fyrir hníf og gaffal, alla leið í hinn enda salarins þar sem það mátti reka lestina.

Haraldur Ringsted uppskar ómælt þakklæti íslendinganna í röðinni og ómælda undrun eiginkonunnar.

Þegar ég impraði nú á því við hann að fólkið hafi ekkert vitað að það væri að troðast fram fyrir, hreytti hann því út að það væri nú ekkert skrítið; þetta væru ÚTLENDINGAR!!!                                       


mbl.is Hálfvitaleg plata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ég borða kleinur...

bibbi (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 00:39

2 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Og þá FÆRÐU kleinur.

Borðaðirðu kleinur í brúðkaupinu mínu Bibbi?

Ylfa Mist Helgadóttir, 30.6.2007 kl. 00:56

3 identicon

já, og alveg helling meira. úff hvað var það aftur sem þú gafst mér þegar ég var að fara daginn eftir? man ekkert hvað það var en ég man að það var agalega gott.

bibbi (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 19:09

4 Smámynd: Laufey B Waage

Gaman að heyra að ástkær eiginmaður þinn getur tekið af þér bredduhlutverkið þegar á þarf að halda - og jafnvel toppað þig. 

Ég fór á tónleika um daginn með Ljótu hálfvitunum, ásamt hinum hálf-svarfdælsku Hundi í óskilum. Þeir voru mjög skemmtilegir. Þú getur byrjað að hlakka til.

Ég á smá slatta af krukkum. Viltu að ég sendi þær með Björgúlfi?

Laufey B Waage, 30.6.2007 kl. 19:49

5 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Takk Laufey mín en ég held að Björgúlfur komi ekki fyrr en í lok júlí.

Bibbi: Þú fékkst líklega heimabakað rúgbrauð með plokkara úr saltfiski. Hann var ferlega góður. Og alveg í takt við allt annað. Eins og brúðkaupsvísurnar þínar

Ylfa Mist Helgadóttir, 30.6.2007 kl. 20:31

6 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

þú ert bara dásamleg !

kveðja héðan á afmælinu hans gunna.

ljós

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 1.7.2007 kl. 09:08

7 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Athugasemd mín varðar lok færslunnar: Það verður að vera einhver spenna í þessu!

Berglind Steinsdóttir, 3.7.2007 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband