Læknamafían

... eftir Auði Haralds er ein af mínum eftirlætisbókum. Ég gat hlegið mig máttlausa af litríkum lýsingum sögupersónunnar af baráttu sinni við þrjóska besservissera með læknamenntun sem ekki vildu samþykkja hennar eigin sjúkdómsgreiningu. Við höfum öll lent í þessu. Sérstaklega við sem eigum börn. Ég hef staðið með grátandi barn dag eftir dag á Landspítalanum, Borgarspítalanum og læknavaktinni og þrábeðið um lugnamyndatöku en fengið hverja úthreinsunina og magaröntgenmyndina á fætur annarri. Alltaf sætti ég mig við þetta. Þetta eru jú læknar. Og þá ber að virða. Þeir vita best. "Takk fyrir laxeringuna læknir, barninu mínu hefur samt ekkert batnað! Heldurðu ekki að það sé mögulegt að hann sé með lungnabólgu? Nei ekki það? Allt í lagi, jájá, ég fer bara heim og athuga hvort þetta lagist ekki bara ef ég gef honum aðeins fleiri stíla...... fyrirgefðu ónæðið."

Einn góðan veðurdag brast eitthvað og ég tók krakkann minn litla undir handlegginn, fór með hann til barnalæknis, skellti honum á bekkinn og sagðist vilja röntgenmynd. Barnið væri með lungnabólgu. Þegar eitthvað átti að fara að malda í móinn hvarf hið dalvíska uppeldi sem lítið svosem var, út um gluggann og ég öskraði á karlmanninn sem stóð fyrir framan mig: Gekkst þú með þetta barn??? Eyddir þú 32 klukkustundum í að koma því í heiminn? drakk það úr brjóstunum þínum? hefur þú hlustað á hvern einasta andardrátt þess síðan það fæddist? Þekkir þú það yfirhöfuð?? ERTU AÐ HALDA ÞVÍ FRAM AÐ ÉG ÞEKKI EKKI BARNIÐ MITT!!!!!!????

Fyrir aumingja manninn var um tvennt að velja. Hringja á lögregluna og barnaverndarnefnd eða taka helvítis röntgenmyndina og vera þá laus allra mála. Laus við þessa geðbiluðu konu. Myndin var tekin og lungnabólgan kom í ljós. En þeirrar tegundar sem ekki heyrist þegar brjóstið er hlustað. En lungnabólga engu að síður. Það vissi ég. Enda móðir drengsins. Sama drengs og viðbeinsbrotnaði tveimur árum síðar og átti ekki að fá röntgenmyndatöku. Af því að ekkert fannst við þreifingu. Minnug ábyrgðar minnar sem móður drengsins og þeirrar sem best þekki hann gekk ég rólega að yfirlækni Sjúkrahúss Ísafjarðar og sagði blíðlega: ég er mamma hans. Ég veit þetta. Sá ágæti maður hafði rænu á að hlýða umorðalaust. Og sá ekkert eftir því held ég.....

Ég gerði mér grein fyrir því að læknar vita ósköp fátt þegar kemur að því að greina sjúkdóma. Enda ekki von. Þeir eru oftast að sjá mann í fyrsta skipti. Og auðvitað eru þeir misvel gefnir eins og við öll hin. Og auðvitað margir þeirra sem kannski myndu vilja vera að gera eitthvað allt annað en að skoða uppí horug nef, bólgna, illa lyktandi hálsa og útlitsljótar gyllinæðar. Launin ættu auðvitað að vera þeim einhver sárabót en samt: þeim er náttúrulega vorkun! Þetta er ömurlegt starf! Hitti samt einn lækni í dag sem var að sjá mig í fyrsta skipti. Skoðaði mig vandlega og sá undir eins hvað að amaði. Sagði mér meira að segja að ekki tæki nema fjóra daga að lækna mig. Ég sem hef legið eins og skata í rúminu í næstum viku! Flottur kall. Fékk mig til að hugsa um allavega hluti. Meðal annars það hversu fáránlegt það er að vita ekki sjálfur hvað að manni amar. Maður veit yfirleitt nákvæmlega hvað amar að börnunum.

En í trausti þess að ég sé öll að hressast og komist jafnvel bráðum í vinnu, ákvað ég í bjartsýniskasti að blogga! Aðallega þó af því að elskan mín hún Stína á heilsugæslunni skammaði mig ógurlega fyrir að hafa tekið frí. Stína! þú skalt þá líka kvitta fyrir lesturinn!!! Ég þarf mína örvun alveg eins og þú! Ef þú ekki hlýðir þá sest ég ofan á þig!! Mannstu þegar ég leit svona út???!!!!!!

255148994_6b749ccf1f

Það hefur svosem ekkert breyst síðan.......... nema þá kannski að barnið er farið. Allt hitt sat bara sem fastast......

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

Þú ert stórkostleg Ylfa Fyndið hvernig kúlan virðist smeygja sér út fyrir ramma myndarinnar hehehe

Harpa Oddbjörnsdóttir, 1.11.2007 kl. 16:12

2 Smámynd: Laufey B Waage

Af því að ég er nú tónlistarkennari, þá dettur mér í hug sú samlíking, að læknum megi líkja við nótur. Þær eru mjög gott (stundum nauðsynlegt) hjálpartæki, og dáldið svona "pró", en auðvitað er þitt eigið eyra og tilfinning þín fyrir tónlistinni það sem mestu máli skiptir. Og oftast er best að blanda þessu saman eftir hentugleikum.

Eitt það unaðslegasta í læknaframförum seinni ára, er að mínu mati það sem kallast upplýst samþykki sjúklings (eða foreldris). Þá ert þú fyrst uppfrædd um það sem er að, eða gæti verið að, og hverjar séu mögulegar lækningaleiðir. Svo velur þú þær leiðir sem þér hugnast best. 

Laufey B Waage, 1.11.2007 kl. 18:41

3 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Ég hef þjáðst af töluverðum sjóntruflunum undanfarið Laufey mín sem útskýrir (vonandi) af hverju ég las þetta aftur og aftur svona:

Eitt það unaðslegasta í læknasamförum seinni ára, er að mínu mati það sem kallast upplýst samþykki sjúklings (þarna var farið að fara verulega um mig!!!)(eða foreldris). Þá ert þú fyrst uppfrædd um það sem er að, eða gæti verið að, og hverjar séu mögulegar lækningaleiðir. (á þessum tímapunkti fór ég að leita að stafsetningarvillu)Svo velur þú þær leiðir sem þér hugnast best. 

Ylfa Mist Helgadóttir, 1.11.2007 kl. 19:17

4 Smámynd: Laufey B Waage

Það er ekki oft sem ég hlæ svona brjálæðislega við lestur athugasemda. Vá hvað einn stafur getur breytt miklu.

Laufey B Waage, 1.11.2007 kl. 22:34

5 identicon

Guð gefi þér góðan daginn Ylfa mín Mist.

Þetta bjargar alveg deginum að þú skulir hafa drifið þig upp úr „veikindunum“ og byrjað að skrifa aftur. Haltu því áfram

P.s. Íris biður að heilsa.

Stína (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 11:37

6 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Ég hélt að þú værir hætt.  Ertu kannski ein af þessum sem alltaf eru að þykjast hætta til að fá fullt af innleggjum um hvað þú sért frábær og hvað allir munu sakna þín?  Ha?

Ég saknaði þín auðvitað, en vildi bara ekki skrifa það, enda skyggir engin eins mikið og fallega á mig og þú.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 2.11.2007 kl. 12:44

7 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Ekki hætt Matthildur mín, komin í pásu. Þetta tvennt er ekki alveg sami hluturinn elskan. Ég skal útskýra það fyrir þér á einfaldan hátt svo að þú skiljir það, næst þegar við hittumst...

Auðvitað saknaðir þú mín. Þú hefur hvorki haft mig í orði né á borði í umtalsverðan tíma.

Ylfa Mist Helgadóttir, 2.11.2007 kl. 13:47

8 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Þú ert æði, bæði með barni og án.

Og ég er álíka lesbildn og þú... las að sjalfsögðu "læknasamförum"!

ÞE 

Þórdís Einarsdóttir, 2.11.2007 kl. 17:27

9 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

gott að sjá þig aftur, hef heldur engan tíma til að blogga, það er svo mikið aðgera, kíkti samt smá inn og sá að þi varst paa.

AlheimsLjós til þín

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 4.11.2007 kl. 15:42

10 identicon

Frábært að þú gefur þér smátíma til að gleðja okkur hin, sem höfum þjáðst af fráhvörfum í nokkra daga Blessuð vertu ekkert að taka þér þessa pásu, þú getur alveg bloggað smá.........og jú ég fékk tölvupóstinn frá þér.

Kveðjur úr bófaveldi

valrun (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband