toppvörur og frostpinnar

Í gær lagðist Baldur Hrafn undir hnífinn á Sjúkrahúsinu á Ísafirði. Þegar hann vaknaði, háls og nefkirtlum fátækari, grenjaði hann ógurlega. Honum fannst vont að vakna upp úr svæfingunni þessu litla stýri og var rosalega ruglaður. En um leið og augun opnuðust almennilega heimtaði hann ís og tveim tímum seinna hafði hann sporðrennt 7 frostpinnum og farið á klósettið. Þá fannst honum kominn tími á að fá eitthvað bitastætt og þegar honum var gerð grein fyrir því að hann mæti bara fá klaka og stappaðan banana, grenjaði hann eins og ljón og heimtaði ristað brauð!

Hann er kominn heim núna og gerir bræðrum sínum gramt í geði með einstakri geðvonsku sem lýðst fyrir þær sakir að hann er með opin sár í hálsinum!

En undur og stórmerki hafa gerst. Júlli í Höfn vélaði mig til að fara að selja dollur undir merkjum Tupperware! Ég sem aldrei hef selt neitt að undanskildum klósettrúllum í níunda bekk, ætla nú að verða þessi óþolandi sem píni allar vinkonur til að halda "kynningu!" Ég man vel eftir óteljandi kynningum sem ég fór sjálf á hérna einu sinni en ég satt að segja hélt að tupperware væri ekki lengur selt á Íslandi! En nú get ég farið að fá mér nýja varahluti ss. lok á skálar og fleiri...... Allavega: ef ykkur vantar Tupperware þá vitiði hvert á að leita ;o)

Birnir er byrjaður að læra á kassagítar. Fyrsti tíminn var í gær og á meðan hann var í tíma sat ég á kaffistofunni í Tónó með nýlagað og kjaftaði við skemmtilegt fólk. Þetta er það sem gerir lífið í svona litlum bæ svo sjarmerandi! En þrátt fyrir að búa í svona sjarmerandi bæ, dugir það ekki til og ég er aftur farin að poppa gleðipillurnar mínar.... Að sjálfsögðu samkvæmt læknisráði og ég er að reyna að sætta mig við að hafa "gefist upp" fyrir ruglunni og þurft að stabílisera mig með kemískum efnum. En hvað er svosem að þurfa að taka eina tvílita á dag á meðan sumir þurfa að ryðja í sig ógeðslegum krabbameinslyfjameðferðum til þess eins að halda lífi!!?? Þá er nú skárra að vera "obbolítið geggjaður" og geta haldið því nokk í skefjum er ég hrædd um. Flýtur á meðan ekki sekkur, sagði einhversstaðar.

Jæja, helgin fyrir stafni og ég ætla að elda kjötsúpu í kvöld svo að litli hálskirtlalausi drengurinn minn geti fengið stappað grænmeti og súpu.  Set eina mynd hérna inn sem var tekin af drottningunni Urtu og fóstursyninum Gretti sem bjó hjá okkur um tíma. þau eru að "kyssast" og þetta er svo líkt því þegar við hjónin erum að kela!!! Góða helgi öll sömul!

Kossar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Páll Gunnarsson

Ja hérna! Þú átt þó ekki nein heilsulaus börn góa mín, einhven tíman var sagt við mig að maður þyrfti að vera stálhraustur til að þola alvarleg veikindi. Hann á eftir að spjara sig með allri þessari matarlyst. Hlakka líka til að spila saman með Birni næst þegar þið komið???( plííís) til DK.  Ég á tvo gítara.                      HMMMMM  Tupperware! ég veit ekki hvort er meira gegjað að bryðja tvílitar af og til eða þá að selja Tupperware. Í alvöru? Skellið þið hjúin saman skoltum á þennan hátt? Respekt!

PS: Kveðjur til Halla frá mér. 

Gunnar Páll Gunnarsson, 18.1.2008 kl. 21:29

2 identicon

Detta mér allar dauðar lýs úr höfði..eða þannig..Tupperware !!!

Jæja það vill til að þú þekkir orðið helling af fólki á vestfjörðum sem vill þér vel og kemur örugglega til með að smella upp einni kynningu fyrir þig.

Óhætt að segja að , þegar þú lést tilleiðast, að mæta á slíkar sölusamkomur á hinum ýmsu vörum , var tekið til hendinni ( eða í peningabuddunni) og ýmislegt keypt og prófað, átt líklega inni eina, tvær kynningar

Annars hef ég sjálf selt Tupperware á mínum sokkabandsárum og man ekki betur en að ég hafi yfirleitt haft gaman af, enda alltaf gaman að vera með hressum konum...verst að raða upp og pakka niður

Gott að bollan mín er bara hress eftir aðfarir slátrarans og vonandi að heilsufarið verði betra.

Mikið verður gaman að heyra Birni spila eftir 1 -2 mán , tónleikar á skypinu

Hér er 7 stiga hiti, sængur hanga á snúrum og verið að þvo rúmfötin, sést til sólar, góður dagur án geðlyfja. Loveja all.

valrun (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband