Ástkonan Austin, dusilmenni og fleira sápukennt...

Mikið er ég óskaplega fegin að maginn í mér sé að komast í samt form! Í dag er þriðji dagurinn í þessum "túristahring" mínum um lendur Gullfoss og Geysis og enn er töluverð ólga í iðrum móður jarðar. Allt stefnir þó í rétta átt og því ber að fagna með háværu húrrahrópi. Hávært húrrahróp á þessu heimili þýðir það að munnurinn fyllist af hundahárum, tíkin bókstaflega úðar af sér loðnunni og ryksugan er pokalaus. Því verður háreyðing að bíða til morguns og því er ég fegin. Pokarnir fást nefnilega bara á Ísafirði og þangað nenni ég ekki enda eiginmaðurinn heittelskaði á bílnum. Það má teljast furðulegt að enginn annar á heimilinu hefur verið í jafn nánu sambandi við snyrtinguna og frúin... ennþá. Þó var erfinginn móður sinni til samlætis heima við í gær þar sem gróf í klemmdum fingri og þurfti að bora göng á nögl og hleypa úr. Hann fékk fúkkalyf og þykir honum það hin versta píning að þurfa að gleypa slíkt og heimtar að fá að kaupa sér Candy floss vél í Vörutorgi sjónvarpsins að launum fyrir kvölina. Mamman segir þvert nei. Og það verður ekki frekar rætt.

Nýhreinsuð og fín...

Ég fór í gönguferð í dag með tíkina í unaðslegri, sólbaðaðri Bolungarvík sem hulin er til hálfs af snjó, drifhvítum og púðrandi og gekk meðal annars upp að Hóli og horfði yfir Djúpið bláa. Kíkit við hjá kærri vinkonu sem aldrei kommentar og drakk með henni kaffi. Hysjaði mig heim þegar á skall rok með skafrenningi, mokaði burt ófærurnar fyrir framan húsið og ætla nú í sund til að skola af mér svitann og stæla skrokkinn enn frekar... hef grun um að sundlaugarvigtin verði mér hliðholl eftir slæmsku liðinna daga.´

Ég er í háfleygu stuði sem sést og má mikið að blogg þetta sé ekki í bundnu máli einu saman. Það skapast af þeirri gæfi sem mér hlotnaðist í vesaldómi mínum í gær, að horfa á Jane Austin kvikmyndir í rúminu!! Þvílíkur unaður! Siðareglur aðals og alþýðu á tímum Viktoríu eru mér afar hugleiknar og mætti í einhverju af þeim lærdóm draga nú í dag þegar dónaskapur og (ég leyfi mér að segja) drulluhalaháttur óprúttinna, veður yfir og allt um kring. Sjálf urðum við hjónin nýverið fyrir slíkum og öðrum eins durtshætti að okkur kennir til mikillar ógleði af þeim sökum. Lítilmennska opinberaðist í stuttu máli og hefur það dusilmenni verið kvatt úr okkar lífi, hvorugu okkar til eftirsjár né ama. 

Nú bíða mín þrjár nýjar Jane Austin kvikmyndir, óáhorfðar, og hyggst ég taka þær með mér á næturvaktina í kvöld hvar ég mun gleypa þær í mig, verið ró og friður yfir fólki. Ef ekki þá nýti ég tímann í knús og kelerí við vistmenn og geymi ástkonu mína Austin til annarrar nætur.... InLove

Guð veri með ykkur í öllu. Alltaf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er ekki hissa að þið hafið kvatt :)  Ef maginn verður ekki orðinn góður á Stútungsdag, þá veistu að hákarlinn virkar vel :)

Þið ætlið að mæta pottþétt....er það ekki???

Spákonan á Kambinum (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 18:40

2 identicon

Hvaða Austin myndir ertu að fara að horfa á ? Ég er rosalega veik fyrir henni.
Það var víst verið að gera nýja seríu hjá BBC upp úr Sense and Sensibility - hlaka mikið til að sjá hana, hvenær sem það þú verður.

Kv. Elín. 

Elín Björk (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 20:00

3 identicon

Komment, komment...... ánægð?????

Didda (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 23:00

4 Smámynd: Helen Garðarsdóttir

hehehe skemmtileg færsla, þú ert algjört æði!

Helen Garðarsdóttir, 7.2.2008 kl. 10:21

5 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

øatøk eru gód, tahr sér madur best hvernig madur er, og hvad tharf ad vinna med í eigin bresti ! madur getur víst lítid gert med annarra manna bresti !

kær kvedja frá mér kæra frænka

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 7.2.2008 kl. 10:59

6 identicon

Allavegana komment núna. Kveðja

Freyja (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 16:31

7 Smámynd: Marta

Rosalega er ég ánægð með að þú settir inn mynd af fallegu og hreinu klósetti. Átti von á því versta..

Ég skil skoðun þína á candy floss vélinni. Þú ættir miklu frekar að kaupa súkkulaðibrunninn!!!! ;) Bwahahaha!!! Vörutorg er snilld!

Marta, 7.2.2008 kl. 19:47

8 Smámynd: Kristborg Bóel Steindórsdóttir

Til hamingju með endurheimta heilsu. Hérna megin hefur þetta verið tekið í smáskömmtum, en enginn verið alveg sloppið!

Krissa

Kristborg Bóel Steindórsdóttir, 7.2.2008 kl. 21:07

9 Smámynd: Katrín

helv.... flott sæti.  þarna er hægt að setjast niður, hér er ró og hér er friður

Gott að þú og þínir eru að braggast.  Sjáumst í stríðinu

Katrín, 7.2.2008 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband