Dagar með vélbyssunef.

Það snörlar í nösum Baldurs þegar hann sýgur upp í horfyllt nefið. Mamma; -segir hann þá. Ég er með vélbyssunef! Hlustaðu bara!

Það koma alveg dagar sem draga úr manni allan mátt. Þessi er einn af þeim. Allir drengirnir veikir og féll í minn hlut að vera heima og gæta þeirra. Ekki það að sá elsti geti ekki passað, mér finnst bara dálítið langt gengið að láta veika drenginn minn passa hina veiku drengina :) Og ég kem engu í verk. Engu. Og það er ekki það að ég viti ekki hvar ég eigi að byrja. Það skiptir engu hvar ég byrja, allsstaðar er þörf fyrir tiltekt og þrif. Svo að ég tali nú ekki um allan páskabaksturinn sem bíður... glætan!!!

Í dag hef ég akkúrat EKKERT gert, nema hangið í tölvunni og étið. Það var svo mikið afrek fyrir mig að labba eina ferð í þvottahúsið og hengja úr vél að ég varð að verðlauna mig með nammi á eftir. Nú sit ég og ét það nammi og mér finnst það ekki einu sinni gott. Bragðast eins og saltaður appelsínubörkur sem hefur verið dýft í sykurlög. Ógeðslegt. En ég gefst ekki upp og klára úr pokanum eins og þæg stúlka. Svei mér ef ég verð ekki að skreppa í sundlaugina á eftir og synda af mér Haribo pokann. Nema að ég leggi mig og síkreti af mér s.s. tíu kíló á meðan.... kannski alveg jafn vænlegt?

Börnin horfa á Simpson og ég stari á fólk út um gluggan og hugsa: hvaðan kemur öll þessi orka? Mér finnst allir alltaf vera að gera eitthvað. Sjálf hef ég varla orku til að blikka augunum! Hvernig stendur eiginlega á þessu?

Jæja, Upp með þig Ylfa Mist. Á fætur og komdu einhverju í verk! Einn.... tveir..... ognú!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir

Stundum á maður bara að leyfa sér að vera "orkulaus", slaka á og safna kröftum Það er nú bara þannig með flesta að orkan er ekki endalaus!  Þannig að Ylfa mín, bara taka þá ákvörðun að þessi dagur sé til að safna ORKU, þá verður morgundagurinn betri

Knús frá einni sem er lögst í veikindi

Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir, 26.2.2008 kl. 17:40

2 Smámynd: Laufey B Waage

Eina skýringin sem mér dettur í hug (og þú vilt örugglega ekki heyra) er sú staðreynd, að nammi er orkusuga, en ekki orkugjafi.

Svo er auðvitað ekki sérlega orkugefandi að vera heima hjá veikum börnum og hugsa um allt það sem mann langar að gera, þyrfti að gera og ætti að vera að gera, en er ekki að gera.  

Laufey B Waage, 26.2.2008 kl. 18:58

3 identicon

Hef ekki komist í tölvu lengi,var að lesa um lödufyrirboðann,góður guð pissaði næstum því á mig....segji það og skrifa þú ert heinn snillingur Ylfa.Takk fyrir skemmtileg skrif mbk Birna

Birna (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 21:41

4 identicon

Það á að spara orku - ekki spreða henni útí andrúmsloftið og valda loftslagsbreytingum, heimsendi og öðrum leiðindum. Þvottahúsferðir eru ofmetnar.

rödd úr djúpi þjóðlífsins (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 22:43

5 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

jú elsku frænka ég er í danmörku, en þetta voru dönskuóbyggðirnar. fer með þig þessa leið næst þegar þú kemur !

verður fermingarveisla hjá ykkur ?

hlakka svo til að hitta hundinn þinn

Bless í bili

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 27.2.2008 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband