Hvar á að byrja??

Úff... flúði minn eigin garð vegna hita. Ég er eskimói í eðli mínu. Held að ég sé eins og hann þarna Guðlaugur sem synti í land og gekk yfir hálft land, eða hvað það nú var! Við rannsókn kom í ljós að hann er með ótrúlega hátt hlutfall brúnnar fitu í líkamanum og þoldi kuldann því sérstaklega vel. Þessi brúna fita er sú sem umlykur til að mynda seli og önnur sjávarspendýr. Ég er semsagt sjávarspendýr að uppruna eins og marg oft hefur komið fram!

Allavega, ferðin inn í Kaldalón var BARA dýrðleg! Ég hef aldrei farið í jafn vel heppnaða útilegu og sjaldan barið aðra eins náttúrufegurð augum. Við erum alsæl og Birnir sagði við okkur daginn eftir að við tjölduðum: Þetta er besti dagur lífs míns! Og er þá tilganginum ekki náð? Við fundum frábæran tjaldstað við lítin læk, u.þ.b. ofan á minnisvarðanum um Sigvalda Kaldalóns! Þar var flatt og gott graslendi, grænar húsatóftir sem gaman var að skoða og hugleiða hvernig innanstokks var háttað, fjaran rétt fyrir neðan og lónið allt blasti við, ásamt Kaldalónsjökli, sem er angi af Drangajökli.

Þetta var semsagt fullkomið. Við gengum upp að jöklinum, veiddum síli, fylltum stóran kassa af skeljum, steinum, fjöðrum, kuðungum og kröbbum, fórum í heitt bað úti í náttúrunni, vöskuðum upp í fjallalæk, drukkum dásamlega gott vatn úr skoppandi lækjum, óðum vatn og sjó, sólbrunnum, skitum undir barði, borðuðum baunir úr dós og pylsur og hituðum hunangsmjólk á prímusnum og bara....lifðum. Við skoðuðum æðislega sögusýningu á Dalbæ sem er í Unaðsdal á Snæfjallaströnd og ákváðum að ganga ströndina á enda næsta sumar. Eins gott að koma sér í gönguform.....

Á leiðinni heim stöldruðum við stutt við í Reykjanesi til að borða fisk og fara í sund. Ókum svo heim í brennandi kvöldsól.

Í dag á Birnir Spiderljón, álfabarn, sjö ára afmæli. Hann er í Reykjavík með pabba sínum og bræðrum, ábyggilega í bíó! Svo held ég að ferð á McDonalds hafi einnig verið á planinu. Svo að ég er ein heima ásamt tveim tíkum, eina sem ég er að passa og svo heimilistíkina auðvitað.... sem er ekki ég, heldur Urta ;o) Ég hugsa að ég fari með þær í göngutúr áður en ég fer að hamast í garðinum mínum. Góðar stundir í hitasvækjunni.......

Ps) það er eitthvað vesen á moggablogginu svo að myndirnar verða að bíða betri tíma. Ætla samt að setja einhverjar á www.flickr.com/photos/ylfa núna snöggvast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bumba

Sæl hjartalóa litla.

Hugsa oft og mikið til ykkar  fyrir vestan. Ekki laust við að ég sakni ykkar töluvert. Kom til Reykjavíkur í fyrradag eftir tveggja vikna unaðslega dvöl í örmum Tröllaskagans. Veðurblíðan með eindæmum áttúrulega, og fegurðin eftir því. Hélt ég myndi brenna til dauðs í henni Vík í gær, þvílíkt drottins dýrðar koppalogn. Hugsaðu þér, er búinn að dvelja heilan mánuð á Íslandi og ekki ringt einn einasta dag í kollinn á mér. Hvílíkt undur. Bið að heilsa elskan, skilaðu kveðju frá afa gamla á ská. Með beztu kveðju.

Bumba, 31.7.2008 kl. 15:26

2 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Til hamingju með drenginn.

Þ

Þórdís Einarsdóttir, 31.7.2008 kl. 15:27

3 identicon

til hamingju með drenginn. ég var að vonast eftir þér í nágrennið ásamt strákunum þínum en sé að þú hefur orðið eftir í víkursælunni.

Nanna (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 17:29

4 identicon

Til hamingju með strákinn. Og gangi þér vel með tíkurnar.

Veistu ég er með svona selspik.

Verð fljótt brún og mér verður aldrei kalt.

Skrítið hvað mér finnst leiðinlegt að synda.

vinkona (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 19:22

5 Smámynd: Gunnar Páll Gunnarsson

Þú ert þá urtubarn í álögum! Þarna kom það. Það var heldur ekki einleikið hversu viðkvæm þú varst í blíðunni hérna í DK um árið. Til hamingju með Birni, SJÖ ÁRA? djö......hvað tíminn líður. Velkomin svo heim eftir þessa frábæru útilegu, og Lappi biður svo að heilsa tíkinni og gangi þér vel í skítajobbinu.

PS: Mig langar í harðfisk MEÐ sméri.                                                                                      

Gunnar Páll Gunnarsson, 2.8.2008 kl. 07:46

6 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Takk elskurnar. "vinkona" ég verð ekki fljótt brún. Hlýt að vera meira í ætt við bláleitu höfrungana?? Já Gunni minn, ég er viðkvæm jurt sem þarf hlíf frá brennandi sólargeislum :)

Ylfa Mist Helgadóttir, 2.8.2008 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband