22.12.2008 | 04:03
Jólaundirbúningur og næturvaktir
Það er rólegt í augnablikinu á næturvaktinni minni. Samstarfskonan mín prjónar og ég horfi á ógeðslegar myndir á stöð tvö og bíórásinni, þrátt fyrir að vera með prjónapokann við hlið mér. Makalaust hversu lítið spennandi efni er á næturnar! Klukkan er fjögur og ég fer í tveggja daga frí á morgun. Mæti aftur næst á miðnætti á aðfangadagskvöld og tek þá tvær nætur í röð. Svo eina vakt þann 29. og svo er ég í fríi um áramótin. En þá þarf aftur á móti bóndinn að vinna í löggunni. Þannig að það er eins gott að vestfirðingar hagi sér sæmilega á gamlárskvöld!
Við höfum eitthvað smávegis verið að þrífa og tína áfram upp úr jólakössunum síðustu daga. Það er nú ekki eins og maður baki sautján sortir og geri loftin hrein! Glætan! Baldur er að hafa sig uppúr lungnabólgunni og til að halda uppá það veiktist Birnir blómálfur í kvöld. Með hita og slappleika en ekkert kvef eða slíkt. Hann á það til að fá hita án annarra einkenna þessi elska. Og verður þá voðalega slappur og ræfilslegur. Við krossum fingur og vonum að allir verði hressir þegar stóri dagurinn rennur upp. Strákarnir vakna alltaf eldsnemma til að líta í skóinn og viti menn; Baldur hefur bara fengið eina kartöflu. Ekki það að hann hafi ekki átt skilið að fá fleiri, nei, sveinkarnir eru bara í svona góðu skapi þessa dagana :) Þeir eru orðnir spenntir og nú er ekkert lesið fyrir svefninn nema jólabækur og sagðar jólasögur. Meira að segja sungin jólalög.
Unglingurinn tekur þessu öllu með stóískri ró og reynir að fela sig ýmist á bak við tölvuskjáinn eða fyrir framan sjónvarpið og verður eiginlega hálf móðgaður þegar mamma hans, gribban sú arna, fer að skipa honum í hin og þessi verkefni. T.d að taka til. Hann er ekki hrifinn af því.
Nú byrjar einhver ógeðis-ræman í sjónvarpinu, það er best að tékka á henni og gá hvort hún er jafn blóðug og þær sem hafa verið undanfarnar nætur.
Athugasemdir
Jahérna hér segi ég nú bara. Spennandi sjónarpsefni á vaktinni. ;)
Eigðu ljúfan dag á mín elskuleg.
Aprílrós, 22.12.2008 kl. 05:14
yndilseg ertu frænka mín !
KærleiksJólakveðja til ykkar allra !
Steina frænka
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 22.12.2008 kl. 07:34
Ha, ha, ha :-). Þú getur sagt unglingnum að litli bróðir hans hér fyrir sunnan hafi verið látinn taka fullan vinnudag í dag í tiltekt. Reyndar var það bara hans eigið herbergi, en honum þótti nóg um. Framlag litla fiðrildisins var að fara í leikskólann og leyfa hinum að þrífa í friði...
Hlakka til að sjá ykkur öll í faðmi fjalla blárra um næstu helgi, ef færð og veður leyfa.
Berglind, a.k.a. vonda stjúpan (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 23:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.