Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Af bruðli opinbers fjár...

Ég er í Reykjavík. Sá vonda leiksýningu í gær og sat fjármálaráðstefnu Sveitarfélaganna dagana tvo á undan. Og ekki er flogið heim. Veðrið er ágætt hér en í gærkvöld var syndaflóðinu hinu síðara sturtað yfir okkur á höfuðborgarsvæðinu. Það var hálf spaugilegt að allir leikhúsgestir mættu með rennandi blautt hárið og maskarann aðeins neðar á andlitinu en upphaflega til stóð. Ég var engin undantekning að undanskildu hárinu, enda með skotthúfuna góðu sem tengdó prjónaði á mig í fyrra.

Ég er alltaf svo hugsi yfir þessum ráðstefnum. Fundarstaðurinn er Hilton hótelið og þar gista og nærast flestir fundarmenn. Afturhaldskommatittir eins og ég reyndar þvertaka fyrir að gista á þessu fokdýra hóteli á kostnað bæjarfélags sem lepur dauðann úr skel og þarf endalaust að skera niður í grunnþjónustu vegna fjárskorts. Eigi maður ekki fyrir reikningunum, gistir maður ekki á Hilton. Það er ekkert flóknara en það. Það er nú þannig að sveitarstjórnarfólk fær greitt fyrir sína vinnu. Í Bolungarvík eru það vissulega afar lág laun en enginn getur sagt að maður hafi annað en boðið sig fram til þeirrar láglaunavinnu! Ég er ekki óvön því að fá illa greitt fyrir vinnuframlag mitt svo að ég læt vera að væla yfir því. Enda barðist ég bókstaflega með svita og tárum til að komast í þessa téðu bæjarstjórn. Eins og allir sem þar sitja.

Þegar ég fer á fundi og ráðstefnur á vegum bæjarins er þrennt sem ég þarf: ferðina, mat og gistingu. Ég er svo heppin að ég verð ekki fyrir launatjóni á meðan því að ég get haft vaktaskipti og/eða verið búin að vinna af mér eða gert það þegar heim er komið. Því þigg ég ekki dagpeninga. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli að sem starfsmaður bæjarins reyni ég alltaf að spara fyrir hans hönd. Er það ekki einmitt mitt hlutverk? Á sama hátt hvarflar ekki að mér eitt andartak að gista á Hótel Hilton á kostnað bæjarsjóðs þegar ég er stödd í Reykjavík. Ég á nóg af ættingjum og vinum sem ég hef þess kost að gista hjá. Ég er bara svona ljónheppin! Ætti ég þess ekki kost að fá fría gistingu, væri eflaust hægt að finna allþónokkurn fjölda gististaða sem er í mun hentugri verðflokki fyrir bæjarfélag sem er með eftirlitsnefndina andandi ofan í hálsmálið.

Og þá erum við komin að matnum. Fyrst af öllu, þá gleður það mig innilega að Samband íslenskra sveitarfélaga sé svona stöndugt að geta veitt sveitarstjórnarmönnum vel í mat. Og drykk. Ég hef ekki farið mjög oft á fundi sem sambandið heldur, en það hefur þó einkennt þá alla að alltaf hefur verið boðið upp á vín. Og ég hreinlega skil það ekki. Ég get vel komist af án víns í tvo daga. Mér finnst þó áhyggjuefni að Sambandið telji að við, fundarmenn, getum það heilt yfir ekki og því hljóti það að teljast liður í eðlilegum útgjöldum við þinga- og ráðstefnuhöld, að veita vín.
Ég hef stundum hugleitt að biðja bara um peninginn í staðinn og jafnvel á meðan ég reykti, að gá hvort ég mætti ekki bara fá sígarettupakka á meðan hinir drykkju vínið í boði Sambandsins, en ég hef ekki kunnað við það.

Að gamni slepptu. Mér finnst hreinlega, nú á þessum síðustu og verstu, ekki forsvaranlegt að bjóða skatt- og útsvarsgreiðendum sveitarfélaganna upp á það að þurfa að greiða tveggja rétta máltíðir á Hilton, gistingu á einu dýrasta hóteli landsins, áfengi og smárétti og þar fram eftir götum, fyrir fulltrúa sína, sem blátt áfram slógust um atkvæði þeirra einu, tveimur eða þremur árum áður. Hétu því að vinna heiðarlega og ötullega að heill og velfarnaði sveitarfélags síns. Ég hefði vonað að nú í djúpri efnahagslægð, væru hlutir eins og frítt bús, ekki partur af nauðsynlegum útgjöldum við ráðstefnuhald. Hvort sem það eru sveitarfélögin sjálf sem splæsa eða Samband þeirra. Ég veit nefnilega fyrir víst að það er þetta sem fólk er að neita sér um í kreppunni því að það eru einfaldlega ekki til peningar fyrir þessu.

Félagar mínir í bæjarstjórn hafa gert góðlátlegt grín að mér fyrir að vilja ekki gista á Hilton og vera að þessu fjasi. Ég blæs á það og held mínu striki. Aðrir geta átt það við sína samvisku hvort þeir vilji þiggja lúxusinn. Fyrir mér er þetta bara prinsippatriði. Þegar maður ætlar að vinna fyrir einhvern, þá reynir maður að gera það af heilindum. Ég meira að segja hugleiddi það þegar ég sat yfir tveggja rétta hádegisverðinum á Hilton á fimmtudaginn, hvort ég ætti ekki næst að taka með mér nesti! Aldrei að vita nema ég geri það næst. ;)

Maður á alltént að standa við það sem maður prédikar. Og ég þoli ekki þegar almannafé er sóað í óþarfa fyrir örfáa fulltrúa þeirra sem almannaféð eiga.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband