Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Dagur tvö í áskorun vorri.

Annað hvort fannst fjölskyldunni minni kakan sem ég bakaði í gærkvöld svona sérstaklega góð, eða þá að ég baka of sjaldan því að allir settust hátíðlegir við borðstofuborðið með mjólkurglas og kakan hvarf sem dögg fyrir sólu. Hún var alls ekkert slæm. Stökk skorpa á henni svona nýbakaðri og alls ekki sæt. Ég hafði drussað flórsykri yfir hana sem gerði hana örlítið meira sæta en hún var furðulega djúsí, sennilega vegna eplamauksins. Mér fannst samt vanta "fyllinguna" þar sem ekkert var smjörið.... En það er nú bara ég. Ég gæti þó alveg gert þessa köku aftur en myndi líklega setja á hana súkkulaði-krem eða kannski líkjörsglassúr.  Af henni var milt kryddbragð en þó alls ekki of frekt og eiginlega pínulítið óvænt af því þetta er súkkulaðikaka.

kakan

Ég vinn vaktavinnu og verð auðvitað að taka mið af því þegar ég ákveð hvaða uppskriftir ég nota úr Gyðingauppksriftabókinni minni góðu. Í dag verður því svona meðlætisréttur sem er mögulega pólska útgáfan af rifnu káli með rúsínum, eins og við þekkjum mörg frá bernsku. Rifnar gulrætur, kál eða rófa var gjarnan skreytt með rúsínum og djúsi hellt yfir svo var þetta borið fram með steiktum fiski eða öðru tilheyrandi.

Þetta er öllu flóknara, kálið er soðið og síðan svissað með lauk á pönnu og síðan er örlitlum sykri og vel af nýpressaðri sítrónu með í restina. Þessi réttur tekur um það bil hálftíma í vinnslu og því kannski svolítið mikil fyrirhöfn en ef þetta er gott þá er það frábært. Kál er jú bæði ódýr og hollur matur og kannski dálítið vanmetið hjá okkur. Öfugt við austantjaldsþjóðirnar sem eiga svo margar leiðir til að matreiða kál að maður dáist að.

Það er mælt með því að þetta sé borið fram með pottsteik eða grilluðum kjúklingi. Sagt er frá því í inngangi uppskriftarinnar að á meðal pólskra Gyðinga séu rúsínur afskaplega vinsæll félagi hvítkálsins á alla mögulega vegu. Hvort heldur er í súpum eða fyllt með kjöti. Kálblöð fyllt með kjöti og ýmsu grænmeti eru vinsælir réttir í Austur Evrópu og þeir nota kálið gríðarlega. Það hefur eflaust bjargað þeim frá hungurfalli enda harðgerð planta, kálið.

Ég skal játa minn helsta löst en hann er að vera B-manneskja. Ég vakti alltof lengi í nótt við að horfa á; já, giskaðu nú? FOOD NETWORK! Fyrir matarfíkla eins og mig er himnasending að vera með sjónvarpsstöð sem BARA fjallar um mat. Þannig að ég druslaðist ekki á fætur fyrr en löngu var liðið á dag, nánar tiltekið hálf tvö. En á morgun byrjar skólinn og þá lofa ég bót og betrun. NOT.

Og þá var eftir að fara í sturtu, þvo þvottinn og allt þetta sem er svo leiðinlegt og svo gat ég farið að elda Pólska rúsínukálið.

1 lítill hvítkálshaus, þveginn og saxaður eða rifinn niður. Takið grófa stilkinn úr og hendið. -eða gefið kanínunni, eins og ég gerði.

1-2 msk olía

1 stór laukur

salt og nýmalaður pipar

2 msk tómat-puré eða tomat paste

1/2 bolli vatn

1/3 bolli rúsínur, ég setti mun meira og sé ekki eftir því

1-2 msk sykur

2-3 msk safi úr sítrónu.

Kálið er soðið í söltu vatni í 3 mínútur og síðan sett í sigti og látið renna vel á það úr krananum. Látið síga af því og þegar það fer aftur í pottinn er reynt að kreista umfram vatn úr með höndunum. það er gaman! Subbulegt og gaman!

olían er hituð og laukurinn saxaður smátt og svitaður í henni í fimm mínútur, eða þar til hann verður glær. Þá er kálinu bætt útí. Þegar hér er komið stóðst ég ekki mátið og setti smjörklípu saman við. Ekki stóra en aðallega til að bæta sálargeð mitt! Í um það bil fimm mínútur er þetta látið svitna og krauma og hrært vel í. Varlega þó til að þetta verði ekki grautur. Síðan er vatninu og tómatpastanu bætt útí, ríflegu magni af pipar og salti, sykurinn og rúsínurnar sömu leið, lokið á og látið krauma í 15 mínútur.

Ég verð að játa að á meðan þetta kraumaði horfði ég ásakandi á hundinn sem lá í eldhúsdyrunum, handviss um að hún væri sífellt rekandi við. Áttaði mig svo á því að kálið væri líklega orsakavaldurinn. Þegar 15 mín. voru liðnar fannst mér þetta enn svolítið of blautt svo ég hækkaði aðeins hitann og lét lokið ekki á og hrærði svolitla stund meðan vökvinn var að gufa upp. Svo kreisti ég sítrónu (heila-ég er sítrónutýpan) og lét þetta blandast vel, pipraði meira og saltaði og húrra! Þetta var tilbúið.

rúsínukálið pólska.

En svo er það spurningin, hvernig bragðaðist þetta?

Þetta er ekki slæmt. Reyndar bara nokkuð gott. Þetta er ódýr og hitaeiningaléttur réttur og ef maður notar vel af rúsínum, salti, pipar og sítrónu, kæfir maður bragðið af kálinu, líki manni það ekki. Ég ét allt eins og helvítis kötturinn svo að ég get auðveldlega komið þessu niður og finnst þetta bara hinn ágætasti réttur. Það sem er kannski einna helst "að" er að maður er óvanur þessu bragði. En auðvitað er ekkert vit í að éta alltaf sama matinn?

Ég mun allavega borða þetta upp til agna eins og annað sem ég kemst í! Baldri og Birni fannst þetta ekki gott, ég bíð eftir að Halli komi heim og segi hvað honum finnst. Björgúlfur er ekki matvandur svo hann getur eflaust borðað þetta. Næst þegar ég geri þennan rétt ætla ég að breyta honum. Sleppa tómatpastanu og setja kúmenfræ í staðinn. Kúmen og kál eiga sérstaklega vel saman.

En ég skora á ykkur að prófa þetta. Þetta er hollt og ódýrt og fínt að hvíla kolvetnaríkar kartöflurnar. Og nú fer ég í vinnuna vopnuð káli (það ku vera svo ilmgefandi) afgangs kjúklingi og grilluðu grænmeti frá í gær.

Gastronomic heaven!

IMG_3189


Áskorun hins nýja árs.

Góðir lesendur, gleðilegt ár.

Ég horfði nú á jóladagskvöld á myndina Julie and Julia og varð hrifin af þeirri hugmynd að setja sér markmið í formi matardagbókar, byggða á einni uppskrift á dag úr ákveðinni bók.

Ég renndi í gegnum matreiðslubækurnar mínar með það í huga að velja mér eina bók og elda úr henni 365 uppskriftir á ári komanda. Ég á gríðarlega margar uppskriftabækur. Big red book of tomatoes, er til dæmis girnilegur, gríðarþykkur doðrantur sem inniheldur fleiri hundruðir uppskrifta sem innihalda tómata. Indverskar uppskriftabækur, austur evrópskar bækur með rauðrófusúpum, pýrúshkjís, réttum sem fara vel með vodka og ógrynni leiða til að matreiða kál. Nigella á sinn sess, Helga Sigurðar, Nanna Rögnvalds, Gestgjafinn á einhverja metra af hilluplássi og bækur sem ömmur og mömmur hafa handskrifað eru rúsínan í pylsuendanum.

Auðvitað hefði mér þótt allra best að taka bara sushibókina stóru og kála málinu þannig. En það er ekki víst að sá með fiskofnæmið hefði elskað mömmu sína fyrir vikið. Svo hefði mátt taka indverskt. Ég er bara búin að elda svo margar uppskriftir úr þeim bókum. Franska alfræði-uppskrifta-matarbókin er svo hryllilega stór og þung, auk þess sem erfitt er að fá alla þessa osta og pylsur, foi gras og allt það rándýra hráefni.

Hvað með 1000 Jewish recipes eftir Fay Levy?

Kosher? Hvað ER það? Ég kann það ekki? Ég hef aldrei eldað Kugel, ég þekki ekkert til matseldar gyðinga. Þetta er alltof flókið og pottþétt frekar vont líka.

En ég skoðaði bókina betur. Og betur. Og sannfærðist um að þarna lægi áskorunin mín.

Svo að:

hér kemur fyrsta uppskriftin úr bókinni minni: 1000 leiðir til að matreiða Gyðinga (djók) og hún er kökuppskrift sem á nýju ári ber hinn viðeigandi titil: Low-Fat Chocolate Applesauce Cake, eða:

Fitulítil súkkulaðikaka með eplamauki.

Olíusprey

1 1/2 bolli hveiti

1/3 bolli kakó

1 1/4 tsk kanill

1/4 tsk engiferduft

klípa af neguldufti (má sleppa)

1 tsk matarsódi

3 msk bragðlaus olía (ég notaði isio-venjulega)

1 bolli sykur (einmitt! Þó það sé fitulaust þá er það sannarlega ekkert heilsu!)

1 stórt egg

1 og 1/2 bolli eplamauk (applesauce- fæst í bónus frá td. euroshopper)

Hitið ofninn í 350°F (ég veit ekki einu sinni hvað það er mikið svo ég stólaði á mínar venjulegu 180 gráður á Celsíus)

Sigtið þurrefnin saman. En setjið sykur og blautefni- olíu og egg- saman í hrærivélaskálina og þeytið þar til það verður ljóst og fluffy. Síðan þegar þeirri áferð er náð, skal setja í smá skömmtum, eplasósuna og þurrefnablönduna í hrærivélina en núna má taka þeytarann úr og nota Káið (hvíta hrærarann sem er eins og sexhyrningur með K í miðjunni) Það er nefnilega þannig að ef maður þeytir hveiti með þeytaranum verður baksturinn seigur. Og það er lummó.
Notið sleikju til að ná niður af börmunum reglulega (hljómar næstum dónalega) og síðan er þessu þrumað í form sem búið er að spreyja með olíuúða.

Ég bakaði hana í hálftíma-40 mín í hringformi. Svo tók ég hana úr og dustaði flórsykri yfir. Það er alltíkei með þessa köku en ég hef svo sem alveg líka bakað betri kökur. Og verri. Það er náttúrulega ekkert smjör...... sem er alltaf til vansa W00t

fitulítil súkkulaði og eplakaka.

Á morgun ætla ég að hafa afganga af veislufugli og hrygg í matinn og með því verður Polish Cabbage with raisins, eða hvítkál með rúsínum að pólskum sið. Þetta ætla ég svo að taka með mér á kvöldvaktina annað kvöld.....

Lifum á nöfinni, annað er bara drasl :D


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband