Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Rainbow

Þegar ég var unglingur þekkti ég mann sem var mikill Rainbow aðdáandi. Ég lærði auðvitað að meta þessa eðalgrúppu með öllum sínum mannabreytingum og skrautlega ferli.  Ég varð ótrúlega svag fyrir síðhærðum gítarleikurum á þessum tíma, sérstaklega hetjugítarleikurum eins og Ritchie Blackmore. Það var eiginlega algjört skilyrði að þeir sæjust aldrei brosa. Þeir urðu að vera alvarlegir, fjarrænir, síðhærðir, með opið niðrá loðna bringu, frekar hallærislegir í klæðaburði, (svona eins og Brian May og Blackmore) og helst með nógu andskoti sítt og rytjulegt hár! Að þessum skilyrðum uppfylltum, heimsóttu þeir dag-og næturdrauma, unglingsstúlkunnar á Ásvegi 2 á Dalvík! Fyrstu geisladiskarnir sem ég keypti mér sjálf (í plötubúðinni á Neskaupsstað af einhverjum ástæðum) voru Rainbowplöturnar: Bent out of shape, Difficoult to cure, Down to earth, straight between the eyes og fleiri gullmolar.

Já, hann var einkennilegur, smekkur unglingsstúlkunnar á Ásvegi 2, þegar kom að karlmönnum. Mér þóttu þeir piltar sem hvað vinsælastir voru á þeim tíma yfirleitt lítið spennandi! Nei, síðhærðu gítarhetjurnar voru mín kyntákn! Svo ekki sé nú minnst á gullmola eins og Alice Cooper!

Auðvitað, sem sannur aðdáandi Hár-metalsins, átti ég fyrir plöturnar Dream evil og Holy Diver með R.J. DIO.  En Dio var auðvitað fyrsti söngvari Rainbow. Hann var með svakalega rödd og ég man ennþá hversu vonsvikin ég varð þegar ég sá þennan tyrðil fyrst! Hann var í engu samræmi við röddina! Þá var nú Graham Bonnet eitthvað annað! Enn þann dag í dag þegar ég sé hann taka smelli á borð við þennan:

 .

........kikna ég verulega í hnjáliðunum! Hafið þolinmæði við að hlaða inn myndbandinu, ég lofa því að það er þess virði!!! Bonnet er auðvitað löðrandi í kynþokka og ekki síður í "Since you´ve been gone." Það er nótt og enn vaki ég heima hjá Tótu vinkonu, með tölvuna uppí rúmi og hlusta og horfi á gamla sjarma. Gamlar minningar banka uppá... minningar sem ég deili bara með Lindu, Ellu Rósu og engum öðrum!!LoL Minningar sem hæfa ekki ömmum, frænkum, systrum eða vinnufélögum. Bara gömlu vinkonunum! Það er dásamlegt að eiga svoleiðis minningar. Unglingsárin voru ekki þau prúðustu, það veit Guð. Og þau voru helvíti erfið, það vita þeir sem hafa verið unglingar..... allflestir, sem sagt! En mikið djöfull var nú oft gaman!!!

Svona "Walk down Memory Lane" er nauðsynlegt að taka af og til. Það er eitthvað svo..... HRESSANDI! Rifja upp allar öfgarnar. Í öllu! Það var of mikið af öllu! Of mikið drukkið, of mikið reykt, of mikið r**** og vakað, djammað, elskað, rifist, grátið, hlegið og öskrað. Öfgar í öllu. Og tónlistin alltaf í forgrunni á hæsta styrk. Síðhærðar gítarhetjur og söngvarar með ótrúlegt raddsvið. Syngjandi línur á borð við þessa: We belived, we catched the rainbow.............

Já, þær eru skrítnar þessar landsbyggðarstelpur!


Besta heilbrigðiskerfi í heimi........

Mánudagur:Ylfa er með miklar hjartsláttartruflanir. Ylfa missir meðvitund, skellur í gólfið og rekur höfuðið í dyrastaf í leiðinni. Ylfa  rankar við sér þegar fjögurra ára sonur hennar öskrar: Mamma, mamma, vaknaðu!!! Sonurinn grætur af því að hann er hræddur. Mamma liggur í gólfinu og það blæðir úr enninu á henni. það er nóg til að barnið verði viti sínu fjær af hræðslu. Ylfa sest upp og tekur barnið í fangið og reynir að hugga það. Barnið grætur og Ylfa grætur líka. Þegar börn gráta þá grætir það gjarnan mæðurnar líka. Unglingssonurinn hennar Ylfu kemur og fer að reyna að hringja í lækni. Hann er hræddur og man ekki númerið hjá upplýsingum og veit ekkert hvað hann á að gera. Ylfa tekur símann, fer inná bað, lokar og hringir í lækninn. Hún býr í næsta húsi og kemur strax. Hún fer og skrifar bréf til læknanna á Landspítalanum og segir Ylfu að taka það með sér strax næsta morgun, hún vilji láta leggja hana inn á Bráðadeild.  Ylfa verður fjarskalega fegin að loksins sjái kannski fyrir endann á þessum köstum, en líka dálítið stressuð yfir því að þurfa að fara með svona stuttum fyrirvara. En hún gerir ráðstafanir með börnin, skólann, vinnuna og allt hitt sem mömmur gera, pakkar svo niður í tösku og fer að sofa.

Þriðjudagur: Palli barnsfaðir Ylfu sækir hana á flugvöllinn og keyrir hana heim til sín. Þar bíður Berglind konan hans, sem gegnir líka því hlutverki að vera vinkona Ylfu. Hún fer með Ylfu á bráðadeildina og bíður með henni þangað til að búið er að leggja Ylfu inn. Ylfa er tengd við mónitór og tekin er blóðprufa og hún má hvorki borða né drekka. Á bráðadeildinni er brjálað að gera og Ylfa heyrir sögu hvers sjúklingsins á fætur öðrum, heyrir nöfnin þeirra, hvað er að þeim, heyrir þegar þeir eru sónarskoðaðir í næsta rúmi, hvað kom út úr endaþarmsþreifingunum þeirra, hvernig þeir hlutu áverkana sína, hvenær verkurinn fyrir brjóstinu byrjaði...... og þar fram eftir götum. Ylfa undrar sig á því að ekki séu til fleiri sjúkrastofur í landi allsnægtanna, svo að fólk geti haft sína nekt, sínar líkamsathuganir og þvagblöðruskoðanir, sínar sjúkrasögur og sína prívatlíðan í friði fyrir öðrum. Ylfa biður vinkonu sína hana Berglindi að koma með eyrnatappa. Læknir kemur og segir Ylfu að hún eigi að liggja þarna til morguns því að gera eigi rannsóknir. Klukkan er að verða þrjú og Ylfa er orðin ofsalega þyrst. Hún á að fasta og má ekkert drekka.

Einhvernvegin tekst Ylfu að blunda. Líklega hafa eyrnatapparnir hjálpað. Hún er vakin af hjúkrunarkonu sem segir: Ylfa, þú mátt fara heim. Það er búið að útskrifa þig! Ylfa sest upp í rúminu og veit ekki alveg hvort hún er vöknuð. Önnur kona kemur og segir: þú mátt klæða þig og fara. Ylfa bendir á tækið sem hún er tengd við með allskonar snúrum og spyr: á ég að taka þetta með??  Konan snýr við og losar Ylfu. Það þykknar í Ylfu og hún spyr: á hvaða forsendum var ég lögð inn og á hvaða forsendum er ég útskrifuð? Hjúkkan segir að læknirinn sem hafi útskrifað hana sé farinn og hún geti ekki svarað. En hún skuli sækja einhvern. Aðstoðardeildarlæknirinn kemur. Það er ung stúlka sem segir Ylfu að það sé búið að hafa hana í mónitór í sex tíma og ekkert hafi gerst. Hún megi því fara heim. Ylfa verður reið. Segist nú ekki beint vera að koma úr næsta húsi, hún þurfi að fá að vita hvað eigi að gera næst. Aðstoðardeildarlæknirinn segist ekki geta svarað því. Hún voni bara að allt gangi vel.

Það sem sagt var í kjölfarið er ekki hafandi eftir. Ég læt nægja að skýra frá því, að þegar Berglind kom að sækja Ylfu varð hún að sækja trefilinn hennar. Ylfa getur aldrei látið sjá sig aftur á Bráðadeild. 

Miðvikudagur: Ylfa hefur það gott heima hjá Tótu vinkonu sinni. Hún er búin að hringja í Lækninn sinn og kvarta hástöfum undan þessari meðferð/meðferðarleysi. Læknirinn hennar reynir að hringja í hjartalækninn hennar Ylfu en hann er í fríi fram í næstu viku. Svo að Ylfa fer heim aftur og bíður þangað til hún dettur aftur í gólfið. Þá endurtekur sagan sig.

Kæra landstjórn: er það þetta sem þið eigið við þegar þið talið um besta heilbrigðiskerfi í heimi?


Ruglan

Arg,...

Heilsan hefur verið með besta móti, undanfarinn mánuð en skyndilega hef ég aftur þörf fyrir að skalla gólf og veggi! Með myndarlega kúlu á enninu og gott glóðarauga í aðsigi hef ég því fengið reisupassann til Reykjavíkur. Fyrirheitni staðurinn er Landspítalinn. Það verður líklega upplit á staffinu þar þegar ég segi því hvað gerðist: ég datt á hurð.......Wink Ég á að leggjast inn á bráðadeild hjarta.....deildar, svo að hægt sé að troða mér í þessa aðgerð sem ég þarf annars að bíða eftir í ár. ÁR!! Ég meina, hver veit hvað verður eftir ÁR???? Maður gæti allt eins verið búinn að geispa golunni! En það er nú gott að landstjórnin ákvað að byggja hátæknisjúkrahús fyrir símapeningana mína... og þína. Ég bara vona að það gangi betur að manna það en þau sjúkrahús sem við eigum fyrir. Ég vona líka að það verði þá hægt að útrýma biðlistum, fyrst ekki var hægt að setja þessa peninga í ríkisspítalana sem hanga endalaust á horriminni, í rekstrarhalla, vanskilum, niðurskurði og hörmung. Djöfull getur þetta helvítis, fokking "frábæra" heilbrigðiskerfi okkar gert mig BRJÁLAÐA!!!  (ég bið aldraðar móðursystur og aðra viðkvæma að afsaka orðbragðið... ég er bara svo helvíti geðvond. Það fylgir því að fara svona snöggt í lárétta líkamsstöðu...)

Þannig að aftur er ég kominn í sömu súpuna, get ekki keyrt, get ekki unnið, get ekki mætt í skólann..... Ég er dálítið spæld en vona að eitthvað gott hljótist af þessu öllu saman Halo........ döh...

Og þar sem ég veit að Dr.Theodóra les bloggið mitt, þá segi ég bara: Tehodóra mín, ég er afar glöð með að hafa vitni að þessu með hjúksapar-ráðstöfunina!!!! LoL 

Set nú inn eina svona skemmtilega til að enda þetta nú á jákvæðu nótunum. Það má örugglega heimsækja mig á sjúkrahúsið, ef einhver nennir að tala við geðvonda konu með meiningar gagnvart heilbrigðiskerfinu........

Við kaldalón í sumar


Sunnudagur

Úff hvað ég er þreytt. Ég var á næturvakt í nótt og börnin mín hafa líklega sammælst um það að þegar ég kæmi heim, fengi ég ekki mínútusvefnfrið! Á endanum, núna um hálftvöleytið ákvað pabbi þeirra að fara með þá í sund til að ég fengi næði en þá er það of seint. Ég gat ekki sofnað. Þetta er gallinn við næturvaktir. Og mér finnst alltaf jafn sérstakt að heyra fólk segja: þetta er nú ekkert mál fyrir ykkur, þessar ungu! En það gleymir því að við, þessar ungu eigum venjulega dágóða súpu af börnum sem eru ekkert endilega innstillt á það að mamma þurfi svefnfrið á daginn!Tounge

Svo að ég er geðstirð, úrill og úldin í meira lagi!

Kannski ég bara drífi mig á eftir þeim í laugina. Reyni að skola af mér geðvonskuna og syfjuna.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband