Færsluflokkur: Bloggar
11.1.2009 | 23:41
Gleðilegt ár!
Loksins!
Ég er að hamast við að "gera upp" árið í huganum. Er að setja það á blað. Set það inn fljótlega, þegar ég er búnað greiða úr flækjunni, því árið var allt í senn: dásamlegt, hörmulegt, sorglegt og gleðilegt.
Þangað til, Adjö.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.12.2008 | 16:15
Illfyglin!
Frúin í Hraunbergi er búin að setja í gamla ofninn, eitthvað fygli, sem annað hvort er dvergvaxinn kalkúni eða ofvaxin hæna. Með fyllingu. Við erum vön að borða nautakjöt á gamlárskvöld en af því að við vorum með lambalæri á aðfangadag og splæstum heimalöguðu bernaise sósunni á það, er lítið varið í nautið ;) Ágætt að breyta til. Mest langar mig þó að taka litla hundkvikindið hennar mömmu, troða einhverju í það aftanvert og henda inn í ofninn með hinu illfyglinu! Þetta er nú meira dýrið þessi hundur! Hann er sko svona lítill og SVONA ljótur!!! Hann er bæði búinn að bíta börnin mín, blaðberann og í skálmar flestra gesta. Svo liggur þetta kvikindi bara eins og hver önnur hátign uppí rúmi hjá gömlu konunni og urrar á alla sem nálgast. Hann er meira að segja farinn að urra á mig. Og þó gef ég honum að éta! Svo mígur þetta innanhúss og er sí-geltandi!!! Það væri vitlegast að líkna kvikindinu sem fyrst! En mamma má ekki heyra á það minnst!
Ég ætla að skrifa áramótapistil þegar ég er minna upptekin af þessu hundrassgati og meira upptekin af öðru! Við ætlum að bjóða gamalli vinkonu og syni hennar í mat í kvöld svo að það er best að fara að huga að pútunni þarna í ofninum!
Ég óska ykkur gleðilegst gamlárskvelds, nýjárskveðjur koma síðar!
Frú Ringsted
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.12.2008 | 00:51
Og hvað annað en gleðileg jól?
Sjálfsagt inntak flestra bloggfærsla í dag. Aðfangadagur er liðinn og jólanóttin næðir á gluggum Skýlisins hér í Bolungarvík. Það er bara drulluveður, ekki vitund jólalegt. Snjórinn fallegi orðinn að slabbdrullu og hitinn langt ofan við frostmark! Iss, þrátt fyrir það áttum við dásamlegan aðfangadag eins og vonandi flestir. Borðuðum læri klukkan fimm og vorum komin í messuáheyrn í útvarpinu klukkan sex. Helltum okkur svo í pakkana! Ástæðan fyrir breyttri tímasetningu var aðallega sú að ég átti að mæta á næturvakt, hvar ég er núna stödd.
Allir heima hjá mér fengu fínar gjafir þó að við sjálf gæfum engar þessi jólin, -nema börnunum okkar, -sökum kreppu, sem læst hefur klónum í veskið. Börnin voru sátt og glöð, nema Baldur sem er orðinn útkeyrður af jóla-streitu. Hann sefur of lítið af spenningi og borðar meira nammi en honum er hollt!
Á morgun er svo bara hangikjöts og náttfatadagur og svo aftur næturvakt annað kvöld.
Guð veri með ykkur og gleðilega jólahátíð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.12.2008 | 04:03
Jólaundirbúningur og næturvaktir
Það er rólegt í augnablikinu á næturvaktinni minni. Samstarfskonan mín prjónar og ég horfi á ógeðslegar myndir á stöð tvö og bíórásinni, þrátt fyrir að vera með prjónapokann við hlið mér. Makalaust hversu lítið spennandi efni er á næturnar! Klukkan er fjögur og ég fer í tveggja daga frí á morgun. Mæti aftur næst á miðnætti á aðfangadagskvöld og tek þá tvær nætur í röð. Svo eina vakt þann 29. og svo er ég í fríi um áramótin. En þá þarf aftur á móti bóndinn að vinna í löggunni. Þannig að það er eins gott að vestfirðingar hagi sér sæmilega á gamlárskvöld!
Við höfum eitthvað smávegis verið að þrífa og tína áfram upp úr jólakössunum síðustu daga. Það er nú ekki eins og maður baki sautján sortir og geri loftin hrein! Glætan! Baldur er að hafa sig uppúr lungnabólgunni og til að halda uppá það veiktist Birnir blómálfur í kvöld. Með hita og slappleika en ekkert kvef eða slíkt. Hann á það til að fá hita án annarra einkenna þessi elska. Og verður þá voðalega slappur og ræfilslegur. Við krossum fingur og vonum að allir verði hressir þegar stóri dagurinn rennur upp. Strákarnir vakna alltaf eldsnemma til að líta í skóinn og viti menn; Baldur hefur bara fengið eina kartöflu. Ekki það að hann hafi ekki átt skilið að fá fleiri, nei, sveinkarnir eru bara í svona góðu skapi þessa dagana :) Þeir eru orðnir spenntir og nú er ekkert lesið fyrir svefninn nema jólabækur og sagðar jólasögur. Meira að segja sungin jólalög.
Unglingurinn tekur þessu öllu með stóískri ró og reynir að fela sig ýmist á bak við tölvuskjáinn eða fyrir framan sjónvarpið og verður eiginlega hálf móðgaður þegar mamma hans, gribban sú arna, fer að skipa honum í hin og þessi verkefni. T.d að taka til. Hann er ekki hrifinn af því.
Nú byrjar einhver ógeðis-ræman í sjónvarpinu, það er best að tékka á henni og gá hvort hún er jafn blóðug og þær sem hafa verið undanfarnar nætur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.12.2008 | 10:43
Húrra fyrir því!!!
Kröfur verði felldar niður að hluta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.12.2008 | 00:05
BÚIN!!!!!
Hamingjan góða hvað ég er fegin að vera búin í prófunum! Síðasta prófið var í morgun og ég fékk útkomuna strax eftir hádegi. Og á minn hófstillta og hæverska hátt hringdi í bókstaflega í ALLA sem ég náði í til að tilkynna að ég hafi fengið TÍU! Svo að mínar einkunnir líta druuuulluvel út þessa fyrstu önn. Ja... nema sálfræðin. 7 - 9 - 9.4 og 10!!! Svei mér ef ég held ekki bara áfram í skóla útí það óendanlega bara. Þetta er svo skemmtilegt!
Baldur reyndist vera með lungnaberkjubólgu og fékk penicillin hjá Dr. Theodóru í dag. Hann ætti að ná sér fljótt og vel. Birnir og hann eru orðnir jóla-spenntir og mér sýndust vera litlar legófígúrur komnar í skóinn hjá þeim áðan þegar ég leit inn til þeirra um miðnættið. Jólasveinnin var eitthvað snemma á ferðinni í kvöld.
Ég borgaði stóóóóran reikning í dag og mikið fjarskalega líður mér vel með það. Mikið hlakka ég til þegar sá dagur rennur upp, að ég skulda engum neitt.... líklega verður það þó í næsta lífi!
Á morgun ætla ég að sofa til a.m.k. klukkan tíu og dúlla mér svo við tiltekt og föndur með Baldri fram eftir degi. Svo annað kvöld fer ég í Holt í tólfsporin mín, sem ég hef ekki komist í rooooosalega lengi. Það verður frábært.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.12.2008 | 00:40
9.10 og andlegt hrun.
Ég sit ein í hálfrökkrinu og nýt birtunnar frá jólaljósunum í stofunni minni. Ég er að læra fyrir síðasta prófið sem verður í fyrramálið. Það er komin nótt og ég ætti með réttu að vera farin að sofa. Æi.. ekki alveg strax. Ég þarf aðeins að líta betur yfir systolískan og diosystolískan þrýsting.... hver var nú aftur munurinn? Ég sver það að þó ég hafi verið að lesa þetta þá man ég ekki lengur hvernig þetta er skrifað, hvað þá fyrir hvað það stendur.
En semsagt. Próf í bóklegri hjúkrun á morgun. Fékk lokaeinkun í Líffæra og lífeðlisfræði í dag. 9.4. Ég varð himinlifandi. Áttaði mig svo á því að ég hefði verið hækkuð uppí tíu EF ég hefði bara fengið 0.1 í viðbót. Benti kennaranum mínum voðalega pent á það. En hún sendi mér bara fingurkoss. Ég er því með slétta 9 í lokaeinkunn þar sem það er bara gefið í heilum tölum. Tíu hefði auðvitað hljómað...... best. En níu er líka æði. Ég er sátt við það.
En svo ég láti nú af einkunnagrobbinu þá er þokkalega létt yfir mér í kvöld. Ég hef verið rosalega þreytt síðan ég kom heim. Svo þreytt að ég á í mesta basli við að halda mér vakandi, hvað þá á næturvöktunum! Það er til vandræða hvað ég er syfjuð alltaf. Held að andlát pabba og tíminn fyrir og eftir það sé að "kikka" inn. Tilheyrandi kvíðaköst og þunglyndi vilja fylgja með í kaupbæti, alveg óumbeðið. Ég þarf að fara að gera eitthvað í því. Mér er alltaf hætt við að vera "hinn óhaggandi klettur" á meðan álagið er mikið en svo tekur það auðvitað sinn toll. Líklega það sem er að gerast núna.
En akkúrat núna er ég vel stemmd. Sem er fínt. Er að spá í að halda því eitthvað áfram. Systir mín vill meina að ég þurfi að skæla meira og oftar og nú er ég að æfa mig í því. Það gengur samt ekkert voðalega vel. Ég ætti kannski að prófa að stinga títuprjónum í augun á mér og gá hvort það virki?
Annars er Baldur litli veikur. Alveg hundveikur meira að segja. Fór á jólaball í leikskólanum í morgun og sló svona líka svaðalega niður aftur. Ræfilstuskan er með agalega barkabólgu og líklega er eitthvað sigið bæði niðrí bronkur og lungu á honum. Þarf að skoða hvernig hann verður á morgun. Þyrfti kannski að láta kíkja á hann. jæja, ég ætti að hunskast í rúmið og reyna að fá einhvern svefn svo að ég sofni ekki ofan í prófblöðin í fyrramálið.
Góða nótt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2008 | 21:28
þær laðast að mér eins og mý að mykjuskán.....
Á þessu heimili eru komnar fjórar sortir í dósir og þrjátíu laufabrauðskökur sem ekki hafa þegar verið bruddar, hafa verið læstar niður fram að því heilaga. Það er nauðsynlegt eftir allt ofgnóttarfylleríið að taka upp gamla siði og láta sig, -og börnin hlakka til að smakka á kræsingunum því að sannast sagna, þá er manni ekkert heilagt lengur. Fá það aftur í gagnið, takk.
Og talandi um að ekkert sé lengur heilagt, þá lá ég með lækninum (sem er hún) uppí rúmi í vel á annan klukkutíma á föstudagskvöldið. Já, við erum að tala um hjónarúmið mitt. Það var hin besta skemmtun og hún er hér með boðin velkomin, að deila rekkju minni hvenær sem er! Enda er hún bæði sæt og skemmtileg og úr Arnarfirðinum að auki. Þaðan er nú ekkert slordónalið. Og svo ég haldi áfram með rýrnun á heilagleika þá rauk hinn læknirinn (sem er líka hún og er í barnseignafríi) á mig í sturtuklefanum í dag í lauginni, -kviknakin, sem ég og líka var, og faðmaði mig heitt og innilega. Vissulega hafði hún sínar ástæður fyrir því og verða þær ekki tíundaðar hér........
Sjálfri er mér náttúrulega ekkert heilagt, að segja frá þvílíku og slíku en það er nú bara eins og vant er. mér er bara fyrirmunað að skilja þessi gífurlegu áhrif sem ég virðist hafa á lækna. Kvenkyns lækna.
Ég á að vera að læra undir próf sem ég fer í á morgun. Og hjá mér á að vera ungur karlmaður sem ætlaði að lesa yfir með mér en hann er ekki kominn svo að ég bryð smákökurnar og svolgra í mig kaffið sem ég var búin að bera hér á borðið...fyrir hann! Brjóstsviðinn er orðinn svo yfirþyrmandi af þessum sökum að ég fer bráðum að spúa eldi!!
Uss... nú verð ég að taka mér tak og hverfa inn í heim Sternum, pia mater, humerus, mid sagittale og hvað það nú heitir þarna helvítis beinið í eyranu.... eða hvar það nú var.....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.12.2008 | 17:46
Sjö
í lokaeinkun í sálfræði. Veit ekki alveg hvort ég er ánægð með það eða á bömmer. Mér finnst allt undir átta hörmulegt en í ljósi lélegrar mætingar síðustu vikurnar og einbeitingaskort var ég hreinlega farin að örvænta og búast við að falla. En það hefði náttúrulega verið tómt rugl. Ég er bara fegin að þessum áfanga er lokið. Mér þótti hann alveg ægilega leiðinlegur! Má ég frekar biðja um líffæra og lífeðlisfræði, hjúkrun eða ensku, frekar en rannsóknir á slefmagni hunda og festa á þær nafn! Fá nóbelinn fyrir jafnvel! Þetta var eini áfanginn í Sálfræði sem ég þarf fyrir sjúkraliðann. Annars skilst mér að hún skáni þegar líður á.
Á mánudaginn er svo LoL-próf, hjúkrunarfræðin þann sextánda og svo bara frí. Nema auðvitað í vinnunni. Sem minnir mig á að ég á að fara á næturvakt í kvöld sem ég var búnað steingleyma!!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.12.2008 | 01:43
Og lífið heldur áfram.
Ég er loks komin heim. Það tók sólarhring að keyra hingað til Bolungarvíkur þar sem hálka og hvassviðri meinaði eðalbifreiðinni að haldast á veginum þegar Strandirnar voru eknar í gærkvöldi. Úr varð að gista á Hólmavík enda sagði Vegagerðin að ekkert vit væri í að halda áfram í hlákunni og rokinu. Gistiheimilið á Hólmavík er dásamlegt og ódýrt í ofanálag. 7000 krónur kostuðu tvö herbergi með fjórum uppbúnum rúmum. Það er ekki mikið.
Ég skrifaði afar langa og ýtarlega minningargrein um pabba sáluga í moggann og þurfti að stytta hana um tvo þriðju! Það er svona þegar málæðið fer með mann. Ég ákvað að birta hana í staðinn í heild sinni hérna en ég ætla að bíða með það í einn-tvo daga. Aðeins að ná andanum og setja upp smávegis af jólaljósum fyrst. Prófin bíða mín líka og svo þarf ég virkilega að hreyfa á mér skrokkinn eftir þriggja vikna setu og át!
Nú er ég komin á næturvakt. Hér er rólegt og allir sofa svefni hinna réttlátu. Úti snjóar og snjóar og allar greinar og húsþök eru þakin hvítum jólasnjó. Serían skal upp á húsið á morgun og svei mér ef ég þríf ekki einn-tvo glugga líka. Það er skrítið að detta aftur inní normallífið eftir svona langa pásu en samt gott. Nú ætlast ég til að mín eigin heilsa haldist til friðs framvegis, ég er alveg búin að fá skammtinn í bili. Og hana nú! Það er best að leggja það í hendurnar á Almættinu og vonast eftir því besta.
Ást og kossar til allra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)