Færsluflokkur: Bloggar

Virginíukonsert Ylfu Mistar Helgadóttur.

Ylfa Mist Helgadóttir er þrjátíu og fimm ára.

Ylfa Mist Helgadóttir getur sungið þokkalega.

Ylfa Mist Helgadóttir hefur oft sungið fyrir fólk við ágætar undirtektir.

En....

Ylfa Mist Helgadóttir hefur aldrei haldið tónleika.

Og þá erum við að tala um almennilega tónleika. Með Ylfu Mist Helgadóttur í aðalhlutverki.

Þann 10.10, verður gerð á því bragabót. Þá ætlar Ylfa Mist Helgadóttir að halda sinn eigin konsert í Einarshúsi í Bolungarvík. Og syngja fullt af uppáhaldslögum. Meðspilari verður Baldur Ragnarsson, Ljótur Hálfviti frá Húsavík...-reyndar sennilega sá sætasti af þeim annars Ljótu Hálfvitum, langyngsti og svo er hann meira að segja á lausu! Margrét nokkur Sverrisdóttir, söngkona úr Túpílökum verður gógópía og ísfirska sönggyðjan Hjördís Þráinsdóttir, sem ásamt Ylfu Mist Helgadóttur skipar dúettinn "Sítt að neðan," verður einnig á staðnum með sín mezzósópranísku raddbönd.

Aðgangseyrir verður hóflegur, svona af því að þetta er frumraunin og einnig af því að það er kreppa!

Spurningin er bara; ætla einhverjir fleiri en ofantaldir að mæta?

 


Popppunktsferð og fleira

Í gær hefði pabbi minn orðið 73 ára hefði hann lifað. En hann lést í nóvemer síðastliðnum. Fyrir tæpu ári. Og það er  einhvern vegin rétt að síast inn núna að hann sé virkilega dáinn og ég eigi aldrei eftir að heyra aftur frá honum eða hitta hann. Skrítið hvað maður er lengi að meðtaka. Kannski er það að hluta til vegna þess að við bjuggum svo langt í burtu hvort frá öðru síðustu árin og hittumst ekki það oft.

En jörðin snýst áfram og maður reynir að hrapa ekki fyrir borð á meðan maður hangir hérmegin torfunnar sjálfur.

Pabbi elskaði krækiberjasaft. Og krækiberjalíkjör ;) Í tilefni afmælisins ruddist ég í krækiber, eins og Inga, fóstran mín myndi segja, og tíndi slatta til að gera hrásaft fyrir veturinn.  Ég fann loksins svartar þúfur eftir laaaanga leit og þegar ég var búnað moka af þeim með brjálæðisglampa í augunum, týna úlpunni minni einhversstaðar útí rassgati og strá berjafötum og drasli á ca ferkílómeterssvæði gerði úrhelli og þvílíkt rok, að ég varð hundrennandi á augabragði og neyddist til að hætta og fara að leita að reyfinu af mér og finna bílinn. En ég kom heim með einhverja lítra sem ég er að reyna að haska mér í að fara að merja í saft. Ég er bara svo helv.. löt í dag. Ég er að fara á kvöldvakt og hlakka til að hitta heimilisfólkið mitt á Skýlinu. Það er verst að ég er raddlaus, náði mér í kverkaskít svo að ég get ekki sungið mikið í vinnunni en það er helst þar sem einhver nennir að hlusta á mig syngja! Flestir á heimilinu mínu eru Guðslifandi fegnir að ég komi hvorki upp hósta né stunu!

Skemmtikvöldið var auðvitað skemmtilegt eins og skemmtikvöld eiga að vera. Svo ég vitni í Stuðmannamyndina; það var létt stemning og fólk brosti :)

Nú ætla ég suður á fimmtudaginn í einhverja gagnslausa höfuðsóttarrannsókn en ferðin verður nú ekki til ónýtis því ég ætla líka að sjá lokaúrslitaþátt Popppunkts í sjónvarpssal, hvar Hálfvitarnir mínir etja lokakappi við Jeff Who? og bera vonandi sigur úr býtum. Á meðan ég er í RVk mun bóndinn hinsvegar fara á Túpílakatónleika í Einarshúsi (sem ég er auðvitað drullufúl að missa af!) og hýsa einhverja úr fyrrnefndum Ljótum Hálfvitum yfir helgina. Svo það verður nú ekki alslæmt hjá honum þó kerlingin verði af bæ.....

læt fylgja með eina mynd af litlu bollunni á heimilinu (hinni bollunni) hún liggur á bakinu sökum holda og kemst ekki á magann!! :)

Kola bolla

 


Sullurinn, eiginmaðurinn og höfuðsóttin.

Helvítis sullaveikin er að ganga frá mér. Ég er að verða meira og minna rúmliggjandi af hennar völdum og það rétt á meðan höfuðsóttin heldur sig til hlés og ég ætti að vera á fótum! En liggi maður fyrir gefst tími til að blogga. Og bloggið einkennist af líðaninni. Biturt eins og magasýra. Ég þarf nú samt að hysja mig upp á rassgatinu og reyna að hressa mig eitthvað við. Tala nú ekki um þar sem ég ætla að fara að halda uppi skemmtilegheitum á laugardagskvöldið í Einarshúsinu. Vertinn þar var nú reyndar búin að lofa neðanmittisbröndurum og fullorðinsleikjum skilst mér. Ég hef meira að segja fengið spurningar á borð við; hvenær á klámkvöldið að vera hjá þér Ylfa??

Ekkert klám.

Ég er ekki gefin fyrir klám. Tvíræðar skrítlur og skemmtilegir leikir eru mér vissulega að skapi og þeir sem hafa gaman af slíku ættu að geta skemmt sér nk. laugardagskvöld. En grófara verður það nú ekki....

að sinni.....

Annars ætlaði ég að ganga fram af eiginmanninum og vinnufélögum hans með því að lofa þeim súludansi á laugardagskvöldið en ég hefði nú betur sleppt því. Haraldur lætur ekki ganga fram af sér og svaraði hinn rólegasti; jæja góða. verður þá öryggisnefnd Byggingaeftirlitsins búin að kanna húsnæðið fyrst?

Múahahahahahahahaha

Jæja, þá fer þessu bitra bloggi að ljúka. Mér tókst nú eiginlega ekki að hafa það eins beiskt og ég ætlaði..... Verð þó að reyna;

Ég var að lesa fundargerð bæjarráðs Bolungarvíkur og rak þá augun í eftirfarandi klausu:

-----------------------------------

3. Tillaga Baldurs S. Einarssonar að breyttri gjaldskrá íþróttamiðstöðvar.

Bæjarráð samþykkir að bæta við núverandi gjaldsrkrá:

1. Gullkort (12 mán.) hjóna eða sambýlisfólks í Íþróttamiðstöð kosta 59.900,-.

Verðið gildir allt árið.

2. Árskort námsmanna sem eru í fullu námi þegar kortið er keypt kosta 25.900,-.

Verðið gildir allt árið.

3. Gildistími sértilboða sem eru í gangi, framlengist til 1. október 2009.

-------------------------

Sko! Mér finnst það gott mál hjá bæjarráði að vilja lækka gjöldin í íþróttahúsið á þessum síðustu og verstu tímum. Persónulega hefði ég þó frekar vilja sjá þjónustuna óskerta og að fólk héldi vinnunni sinni áfram í íþróttamiðstöðinni, heldur en að hjónum og sambúðarfólki væri hyglað sérstaklega umfram t.a.m. einstæðar mæður....  þetta fer að jaðra við einhverja hreintrúarstefnu hér í Bolungarvík. Er ekki þorrablótið nóg?? (úbbs, þarna var stigið á skottið á einhverjum Tounge )

Ég hlakka til að sjá hvað fer fram á bæjarstjórnarfundinum í kvöld! Þetta fer að verða spennandi. Kannski að eitthvað fleira leynist þar í pokahorninu sem er jafn ævintýralegt og þessi bókun! :)


Haustannir.

Það er búið að fara í smalamennsku, taka upp kartöflur, tína alltof lítið af berjum en alltof mikið af fjallagrösum á þessu heimili. Sláturgerð verður ekki framin að þessu sinni enda getur undirrituð ómögulega komið slíkri fæðu niður á þessum síðustu og verstu. Sem leiðir til almennrar holdrýrnunar og myndu nú einhverjar horgrindurnar líklega segja; tjah, ekki veitti nú af! En þeim horgrindum vil ég benda á að mér er t.a.m. ALDREI kalt. Og ber fyrst að þakka mínu þykka lagi af náttúrulegri einangrun. Að auki er mér sárt um hluta af þessu varmalagi mínu þar sem mér þykir það gera mig að konu með "hefðbundið vaxtarlag," svo vitnað sé í hina afrísku Mma Ramotswe! Og allir vita að holdugar konur löðra bókstaflega af kynþokka og mýkt! Það er gott að kúra hjá þeim og gott að strjúka þeim.....

En öllu má nú ofgera og það drepur mig nú varla að sjá eftir 10-20 kílóum af þessum verndarhjúp sem hefur skipað mér undanfarin ár í flokk landgengina sjávarspendýra..... Þó mér þætti auðvitað enn betra að vera bara feit og sæl, megandi éta mína kjetsúpu, slátur og svið! Ég hef jú alltaf verið þeirrar skoðunnar að megi maður ekki láta ofan í sig það sem manni þyki gott, sé jafngott að drepast bara. En það vill mér til happs að mér þykir allt sem að kjafti kemur fremur gott svo að ég þrífst ágætlega á megurðar-dögurðinni og þeim rýra kosti sem ég þarf orðið að velja ofaní mig.

En nóg um mat og matarinntekt.

Hvolparnir bláeygðu dafna, búið er að lofa tíkinni svörtu en sá guli er ennþá að leita að heimili. Ekki þar fyrir, að finni hann ekki heimili verður hann bara hér hjá móður sinni. Dýralæknirinn kom í kaffi til mín ásamt börnum sínum á liðinni helgi og eftir að hún var búin að hvá og segja að hún hefði ALDREI, á sínum ferli sem dýralæknir séð svona feita hvolpa, (þeir liggja ósjálfbjarga á bakinu) bauð ég henni í kaffi útí sundlaug þar sem við tókum gott slúður í heita pottinum á meðan börnin gerðu heiðarlegar tilraunir til að drekkja sér.

Það er bilað að gera, skóli, vinna og viðbjóðslegur fjöldi af nemavöktum fram að áramótum. Einhvern vegin hlýt ég þó að geta klofað yfir þetta á mínum stuttu, digru staurum (sem þó fara ört rýrnandi) og haldið jólin í drasli og fjöllum af óhreinum þvotti.....´

Ég er búnað taka eina nemavakt á FSÍ og það var ferlega skemmtilegt. Enda er leiðbeinandi minn skonnorta mikil sem siglir á við fjóra, fullum seglum og lætur mig bara "vaða" í það sem "vaða" þarf í! Enda er það besta leiðin til að læra. Svo stefnum við Dórasplóra á suðurferð um miðjan mánuð hvar ég þarf að fara í einhverjar höfuðsóttarrannsóknir. Fyrirmælin voru einkennileg. "vaktu í sólarhring og komdu svo klukkan átta um morguninn og sofnaðu í tuttugu mínútur." Sérkennilegar óskir. En hafa eflaust tilgang........

eins og allt.


Myndir af "barnabörnunum!"

Af því að ég mun ekki eignast aðra "stelpu" en hana Urtu mína sem er auðvitað tíkin mín, líður mér svolítið eins og ömmu. Sérstaklega af því að ég horfði á þessi kríli koma í heiminn! Þau stækka og fitna enda ekki margir um hituna/spenana!

Hér eru myndir af þessum gullfallegu hvolpum sem hafa hlotið skammtímanöfnin Gulur og Kola.

Þreytta mamma með börnin sín

Urta með Gul og Kolu

Svo ein af Kolu, dagsgamalli.

Kola, dagsgömul


Kola og Gulur

Tveir lifandi hvolpar fæddust í fyrrinótt, einn dauður. Tíkin er svört en rakkinn er gulur eins og Urta. Ég set inn myndir í kvöld. :)

Amman!


Til eftirbreytni!

Þetta er ég að hugsa um að taka alfarið upp hér á heimilinu í kreppunni! Verst að ég tími heldur ekki að kaupa moggann og fréttablaðið tímir ekki að senda okkur Vestfirðingum blöð! Ég gæti auðvitað klippt niður tuskur og síðan bara þvegið þær reglulega? Tja... eða hreinlega bara notað indversku aðferðina; vinstri og vatn? Hm... þetta er orðið verulega flókið. Maður fær orðið varla póst, allt orðið rafrænt, og ekki skeinir maður sig á rafrænu?

Gaman að segja frá því atviki sem henti á dögunum hvar ég var stödd í Bónus, einmitt að kaupa klósettpappír, og frekar roskin kona vindur sér að mér og segist vera farin að skammta sér blöðin. Rúllan kosti hundrað krónur af almennilegum pappír! Tvö blöð hámark fyrir smáverk, sex blöð fyrir stærri verk!

Til eftirbreytni. það er klárt! Það hlýtur að vera lúxus að skeina sig á rándýrum pappír í miðri kreppu?


mbl.is Fokið í flest skjól á Kúbu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég gerði það sama!

...léti fylgja mynd ef ég ætti ekki viðkvæma fjölskydu sem hefur fengið ALLA spéhræðsluna í vöggugjöf sem átti að úthluta mér..... en brást.
mbl.is Bað Guð um stærri brjóst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir af sumri

Vek athygli á því að við höfum aftur virkjað myndasíðuna okkar á flickr. þar má sjá sumarið okkar að hluta.

Hér er, ótrúlegt nokk, sól og hiti!


Af gefnu tilefni......

...vil ég taka fram, að ég hef ALDREI, mun ALDREI og dytti hreinlega ALDREI í hug að leggja nafn mitt við undirskriftalista til höfðus kríuvarpi í Bolungarvík! Ég er þráspurð að þessu og lýsi því hérmeð yfir að það er ekki í mínu valdi frekar en annarra að ákvarða varpstöðvar farfugla. Nóg má þykja um frekjuna og stjórnsemina í mér en þarna þekki ég vanmátt minn! Enda fer krían akkúrat ekkert í taugarnar á mér. Ég geng í miðju varpinu með prik og minn hund eins og herforingi og læt hana ekkert bögga mig. Og svo ek ég sandveginn afar varlega á varptímanum til að aka ekki yfir kríur, endur, hrossagauka og jaðrakanunga. Og málið er leyst. Með einu priki og rólegum akstri.

Vilji ég svo vera laus við gargið í henni, þá vel ég mér bara aðra gönguleið. :)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband