Færsluflokkur: Bloggar

Á einu ári

Í dag er eitt ár liðið síðan að pabbi minn kvaddi jarðarlífið eins og við þekkjum það fyrir fullt og allt. Og ég sakna hans. Ég finn alltaf meira og meira fyrir því hvað ég sakna hans. Þegar maður er orðinn fullorðinn og er ekki lengur í daglegu sambandi við foreldra sína finnur maður ekki endilega fyrir söknuðinum fyrr en hin ýmsu tímamót ber upp. Afmæli, jól, páskar, sumarleyfi.... Og svo einhvern vegin lokast hringurinn á árs dánardægri og tilfinningin um missinn verður varanleg. Mann langar í eitt tækifæri enn. Eitt tækifæri til að spjalla, eitt tækifæri til að strjúka vanga, faðma, horfa, hlæja með, deila með.... Þetta eru tilfinningar sem allir þekkja. Ekki bara mínar tilfinningar. Ykkar líka. Allra sem hafa misst og fundið fyrir söknuði.

Á einu ári hafa liðið jól, afmæli, páskar, tyllidagar, sumarfrí, hversdagslegir atburðir og þetta daglega líf sem rennur framhjá á meðan maður er oftast upptekinn við eitthvað allt annað en að gefa því verðskuldaða athygli. Og annað slagið bankar uppá þörfin fyrir að taka upp símann, hringja í pabba. Deila einhverju með honum. Segja honum eitthvað sem ég veit að hann hefði gaman af. Fréttir af strákunum. Kvarta undan einhverju... eða bara spjalla.

Ég fór aldrei að gröfinni hans í sumar þegar ég var fyrir norðan. Einhvern veginn er hún ekki hans staður í mínum huga. Ég veit að þar hvíla hans jarðnesku leifar, en ég veit að hann er ekki þar. Og því hef ég einhverra hluta vegna enga þörf fyrir að fara að leiðinu. Ég veit að sumir finna hjá sér þörf fyrir að fara að gröf ástvina sinna en ég hef aldrei haft hana. Ætli það sé eitthvað einkennilegt? Erum við ekki bara svona misjöfn? Við höfum bara mismundandi aðferðir til að finnast við vera nærri þeim sem okkur þykir vænt um og hafa kvatt þessa tilvist.

Ár getur verið svo afstæð tímastærð. Bæði einhvern veginn svo stutt og svo langt. En eins og í kvæðinu segir; allt fram streymir endalaust, og það kemur að því fyrr en varir að dagar okkar hinna hafi runnið sitt skeið. Kannski verða þá endurfundir, ég veit ekki alveg hvað ég held um það. Það er eitt af því sem öruggt er að við fáum vitneskju um þegar hvert og eitt okkar fer sína leið.

 

 


Lady Lagðprúð og Lafði Lokkaflóð.

Fæðst hefur nýr dúett hér í Hraunbergshúsi. Drög að honum voru reyndar lögð í sumar þegar við Hjördís Þráinsdóttir, vinkona mín, lögðumst yfir fæðingu dúettsins. Nafnið var sjálfgefið; Sítt að neðan. Hríðarnar stóðu þó yfir í nokkra mánuði en Sítt að neðan tróð fyrst upp sem aukanúmer á tónleikunum sem ég hélt í október. Held meira að segja að það hafi uppskorið meiri aðdáun en ég sjálf. Enda bætum við Hjöra mín hvor aðra upp, hún sprenglærður Mezzósópraninn og ég sjálfmenntaða raddskitsóið sem hvergi getur staðsett sig. Sítt að neðan hefur hlotið geysilega umfjöllun fjölmiðla... sem er lygi. Ein lítil frétt á bb.is hefur birst um þetta tímamótaband sem hefur, eins og segir í fréttinni, það eitt að markmiði, að ganga fram af fólki.  Og það er göfugt markmið.

Giggin sópast að okkur og ætlum við að stíga á stokk í kvöld í einkasamkvæmi og svo erum við að spila á tónlistarhátíðinni "Þorskurinn 2009" í Einarshúsi í Bolungarvík ásamt fleiri listamönnum. En gæfa okkar er ekki jafnmikil í undirleikaramálum. Til að byrja með fengum við Baldur Ragnarsson fluttan hreppaflutningum úr Reykjavík og hingað vestur og mátti segja að hann bókstaflega "rynni inní" Sítt að neðan. Svo kröftug var samkennd okkar við hann. En Baldur býr auðvitað í Reykjavík en við hér svo að hafist var handa við að leita. Það gekk ekkert of vel þar sem skilyrðin voru þau að maðurinn gæti spilað svo að segja allt, gæti risið undir okkur stöllum (sem er nú ekkert létt verk) og væri óviðurjafnanlega kynþokkafullur.

200426403-004

Einn rak á fjörur okkar, ókunnan mann einhversstaðar frá og við negldum hann. Hann kom á æfingu í Hraunbergshús og við vissum ekki betur en það væri bullandi kemestrí í gangi. Næsta dag sást reykurinn á eftir honum útúr bænum. Maðurinn hafði flúið fjórðunginn svo að undir iljar hans sá, og er ekki væntanlegur aftur í bráð. Nú voru góð ráð dýr og rétt í þann mund sem Hjördís var að skrá sig á hraðvirkt gítarnámskeið í tónlistarskóla Lýðveldisins í fjarnám, tókst okkur að þrykkja öngli í Guðmund Hjaltason. Hann er lausráðinn í bili.

Lengi lifi Sítt að neðan!

 


Smá laugardagskvöldsstemmari.....

You could be my unintended
Choice to live my life extended
You could be the one I'll always love
You could be the one who listens to my deepest inquisitions
You could be the one I'll always love

I'll be there as soon as I can
But I'm busy mending broken pieces of the life I had before

First there was the one who challenged
All my dreams and all my balance
She could never be as good as you

You could be my unintended
Choice to live my life extended
You should be the one I'll always love

I'll be there as soon as I can
But I'm busy mending broken pieces of the life I had before

I'll be there as soon as I can
But I'm busy mending broken pieces of the life I had before

Before you

 


er slæmt að vera ég?

Í nótt sem leið gat ég ekki sofið og vorkenndi mér alveg ægilega og þá skyndilega laust því niður í huga mér að sennilega er ég lánsamasta manneskja í heimi!  Ég bara gleymi svo oft að skoða hina hliðina á peningnum. Sem ég faktískt á alls ekki neitt af, -en það er bara af því að ég er ónísk og hef svo lítinn áhuga á fjármunum! Sem betur fer!

 Sko, það eru þessir litlu hlutir sem maður lítur á sem ógæfu sína en eru í raun gæfa manns.Ég er rosalega mikið kvíðabúnt. Sem betur fer, annars hefði ég enga innsýn í það hvernig öðrum kvíðabúntum líður!

Heilsan undanfarin ár hefur verið frekar ...misjöfn. Sem betur fer!  Ég þykist vera heilbrigðisstarfsmaður og þá er nú líklega jafngott að hafa prófað endrum og eins að liggja inná spítala með hjartað í buxunum og gera sér grein fyrir hversu mikið maður hefur að segja um líðan þess sem uppá þjónustu manns er kominn!

Ég má alls ekki smakka áfengi, þá líður mér djöfullega. Magi og vélinda tærist í tætlur og daginn eftir að ég fæ mér í glas er ég nánast farin að spúa eldi! Og það er eins gott! Ég er komin af ölkum langt aftur í ættir og þó ég sé ættleidd þá ólst ég upp við brennivínsáþjánina engu að síður. Ég er því eðal kandídat í fyllibyttu, tala nú ekki um þar sem ég er með kvíðaraskanir! J Það væri laglegt ef ég þyldi að drekka! Það rynni sennilega aldrei af mér!

Ég tek alla hluti inná mig og get legið með sálarkvölum yfir örlögum og ástandi annarra. Jafnvel fólks sem mér kemur ekkert við. Og það er tóm heppni að hafa þann eiginleika! Af því að það er þá einhver sem hugsar um hvernig má leysa vandamálin! Ég kýs að nefna þetta hjartagæsku í stað hins leiðinlega orðs; áráttuhugsanir!

Ég er svo hroðalega hvatvís og kem mér iðulega í vandræði þess vegna! Þar er ég nú heppin! Það er fátt verra en að brenna inni með ósagða hluti sem breytast í harða hnúta og æxli sem einn góðan veðurdag springa.

Ég vil alltaf vera að „bjarga heiminum.“ Dæmigerður „galli“ á fullorðnum börnum alkóhólista að vilja alltaf vera að bjarga öllu og öllum! Draga jafnvel upp hvern óuppdregna lúðann á fætur öðrum lífið á enda til þess eins að átta sig á að honum er óviðbjargandi! En hvílíkur kostur sem það er fyrir heiminn! Hversu dásamlegt væri ekki lífið ef allir vildu alltaf bjarga hlutunum í stað þess að láta sem þeim komi þeir ekki við?? J

Þegar flestir vita að maður á að þegja, geri ég mér enga grein fyrir því! Það er dásamlegt! Er ekki lífið og tilveran full af ósögðum hlutum og gullinni speki?

Ég á mann sem mér finnst æði oft taka mér sem sjálfsögðum hlut. Er það ekki dásamlegt? Að honum finnist nærvera mín og ást, jafn sjálfsögð og súrefnið í loftinu?

Oft var lífið helvíti erfitt þegar ég var að alast upp. Stundum langar mig að taka strokleður og þurrka út einn eða tvo áratugi! Þvílík forréttindi! Ég veit að ég þoli svo margt. Ég hef oft bognað, aldrei brotnað! Ég þekki styrk minn! J

Ég á börn sem nenna ekki að taka til eftir sig og láta oftast eins og þau hafi einkaþjón. Ég er svoooo fegin! Það eru ekki til ómerkilegri hlutir í heiminum til að terrorisera börnin sín með en eilífar glósur og aðfinnslur vegna þess að þau drasla út!

Þegar manni ber að vera passívur og prófessjónal get ég það ekki. Sem er oft ófaglegt og kannski ekki einu sinni viðeigandi. En ég vona samt að þannig verði ég alltaf. Því að það sýnir að sumu venst ég aldrei og ég á stórt hjarta sem slær hratt, óreglulega og alls ekki alltaf eins og það á að gera, en það getur hýst ótalmarga hluti. Og sem betur fer er það ekki vél. Ef það gerist einhvern tíma, þá er ég hætt að vera ég. Og líklega dauð.

 


svínaflensan er ekki kannski góð afþreying en afþreying samt....

Það er komið haust, eiginlega vetur. Það svona örlítið ber á því að að manni sæki smávegis tregi og söknuður eftir sólinni og sumrinu en nú reyni ég að einbeita mér að því að lifa hvern dag sem minn síðasta og hugsa ekki mikið lengra. Nema auðvitað það sem er bráðnauðsynlegt. (eins og td. hvað á að vera í matinn næsta dag...Grin )

Ég hef, sem forgangsmanneskja í þessa svínaflensubólusetningu, mikið verið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að fara í sprautu eða ekki. Man einu sinni eftir að hafa látið bólusetja mig og fékk verstu flensu ævi minnar þann vetur. Mér finnst einhvern vegin hálf óhuggulegt að láta sprauta í mig lasinni, dauðri eða lamaðri veiru. Veit, það hljóma hálf hræsnifullt, komandi frá konu sem reykti pakka á dag í tuttugu ár, en svona er maður. Ekkert nema mótsagnirnar!

Ég heyri Baldur Hrafn kvarta um í hálsinum og reyni að skella skolleyrum við því, vitandi að litli drengurinn í næsta húsi sem hann leikur alltaf við, liggur heima með hita og óráð! sagði mömmu sinni í gær að það væri svo gott að vera bíll! Kannski er bólusetning of seint á ferðinni fyrir þetta heimili hvort eð er.

Nú er spaghettíið í pottinum að soðna og kjötsósan tilbúin. Best að næra fjölskylduna og fara svo að taka myndir af hvolpinum Kópi sem er að leita sér að nýju heimili. Aldrei að vita nema óleglega niðurhalaður þáttur af House verði síðan þreyttur!

Love, love. love to all who need. No others :)


Og það var dásemdin ein.

Dásamlega skemmtileg helgi að baki. Baldur Ragnarsson kom á þriðjudag og þá hófst lagaval og æfingar. Hjördís og Margrét komu úteftir að æfa með okkur svona eftir getu, held samt við höfum bara einu sinni verið öll á sama staðnum. En létum það ekkert stoppa okkur í að setja saman ágætis prógramm sem við frumsýndum svo á föstudagskvöldið í Arnardal fyrir fullu húsi í snarvitlausu veðri og skriðuhlaupum. Tókum fyrst hús á Rúv á Ísafirði og tókum þetta upp þar.  Á laugardagskvöldið voru svo tónleikarnir í Einarshúsi. Það var smekkfullt og bara skemmtilegt. Ég klikkaði algjörlega á myndavélinni og get því ekki sett svo mikið sem eina mynd af atburðinum á netið! En það gerir ekkert til. þeir sem þar voru verða bara að muna og hinir.... já, þeir bara misstu af! Heilsan er búin að vera vægast sagt snautleg undanfarið og sviðsframkoman leið nú töluvert fyrir. En það er þetta með að taka viljann fyrir verkið :) Og við stóðum okkur bara ferlega vel þrátt fyrir það!

Vertinn í Einarshúsi festi eitthvað á sína myndavél og má líta á það hér með hljóðdæmi.

Svo fór elsku drengurinn Baldur í dag. Mikið á ég nú eftir að sakna hans. Var alveg búnað venjast því að eiga svona leikfang! Með krullur og krúttlegt útlit og allt! Hann er frábær strákur og algjör s.n.i.l.l.i.n.g.u.r.! Það var alveg sama uppá hvaða lagi ég stakk, hann horfði alltaf á mig í fullkomnu æðruleysi og sagði bara; já. það er hugmynd! Allt frá hinni þýsku Nenu,  og Rocky Horror Picture Show, til Matthíasar Jochumssonar!

Nú er bara spurning um að hafa það af að halda fleiri tónleika, í Reykjavík og á Dalvík til dæmis. Hugmyndin er allavega góð, hvað sem úr verður.

Takk fyrir mig, allir sem á hlýddu!


Baldurskoma.

Á morgun kemur Baldur Ragnarsson, yngsti og saklausasti meðlimur Ljótu Hálfvitanna vestur. Við ætlum að byrja að æfa fyrir konsertinn sem verður á laugardaginn.

baldur

Baldur er á lausu svo að allt kvenfólk ætti að gleðjast sem á annað borð setur hjúskaparstöðu manna fyrir sig. Hann er líka verulega sætur! Helsti ljóður á hans ráði er að vera einungis 25 ára gamall.

Hvolpurinn Kópur situr undir borði og tyggur á mér tærnar. Mömmu hans er sléttsama, hún tekur bara í hann ef hann nartar í börnin á heimilinu. Hann hefur einstakt lag á að bræða hjarta mitt þegar ég er að reyna að skamma hann og ala hann upp. Sennilega þarf hann að fara að komast á annað heimili. 


Stutt blogg. Stopp. er að fara að vinna, stopp.

Dr. Tóta, vinkona mín segir að ég búi yfir þeim hæfileika að geta ofið mína fátæklegu tilveru ævintýraljóma í orðagjálfri og málalengingum. Já, jafnvel að ég geti búið svo um hnútana að hversdagslegt líf mitt virðist spennandi og viðburðarríkt þegar ég komi því á prent...

En nú ætla ég að nota aðra aðferð. Vegna þess að ég á að vera mætt í vinnu eftir þrjú kortér. Og hefst nú lesturinn.

Einn hvolpur eftir í húsinu. Hinn er dauður.

Tónleikar eftir viku. Ég er heyrnarlaus, finn ekki lykt né bragð og sé ekki frammá að verða orðin sönghæf. Djö.. býttar engu. Kvef er bara kvef.

Það kviknaði í bílnum. Hann er ónýtur. Nú á ég tvo ónýta bíla.

Baldur Hrafn fór með nærbuxur á höfðinu í leikskólann í morgun.

 

 


Hver viltu að annist þig og þína?

Ég hef rosalega gaman af vinnunni minni. Og eftir að ég fór að vinna við umönnun aldraðra var ég ákveðin í því hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór! Og það var sko ekki lítið að geta ákveðið það. Ég var búnað hrærast í því lengi hvað ég í ósköpunum ætti að gera. Hvaða starf myndi veita mér þá viðbót við hið ánægjulega starfsheiti "húsmóðir," að vera aukin lífsfylling og um leið tekjulind. Ég vissi alltaf að ég yrði ekki hálaunamanneskja, sama hvað ég tæki mér fyrir hendur. Áhugi minn og færni beinist einfaldlega ekki í þá áttina. Ég er ekki peningamanneskja. Vildi helst aldrei þurfa að hugsa um peninga. Eða tölur. Þoli þær ekki. Svo að verðbréfaferillinn var úr sögunni frá byrjun!

Að vera sjúkraliði er ótrúlega gefandi starf. Og vinna með öldruðum er frábær. Og ég hef ýmsa hæfileika sem nýtast mér ferlega vel í þessu samhengi. Ég er léttlynd og á auðvelt með að sýna hluttekningu þegar það á við. Og þá er hún einlæg. Ég get sungið og ég get lesið og leikið. Ég á auðvelt með að umgangast fólk. Ég kann að elda mat og ég tala skýrt og rétt með mínum norðlenska hreim. Ég er óhrædd við líkamlega nánd og er tilbúin til að ganga eins langt og ég þarf til að fólkinu sem ég vinn með líði sem best. Jafnvel þó það samræmist ekki alltaf "standard hugmyndum um umönnun."

Ég hef líka fullt af göllum sem starfið hjálpar mér að slípa. Óþolinmæðin er mér jafn eðlislæg og þörfin fyrir að næra mig, og trúðu mér, hún er RÍK! Umburðarlyndið hef ég virkilega þurft að temja mér og þetta starf er verulega góður skóli hvað það varðar. Ég er hroðalega bráðlát og hefur það nú yfirleitt verið minn Akkilesarhæll. En starfið gefur ekki mikið svigrúm til bráðlætis. Svo ekki séu nú taldir allir aðrir vankantar mínir sem bitnað geta á skjólstæðingum mínum. En það sem ég er að reyna að segja er að starf mitt er svo mannbætandi. Fyrir mig.

Ég er á öðru ári í sjúkraliðanáminu. Ætti að klára um þarnæstu áramót ef ég hefði ekki ákveðið að setja námið skörinni neðar heimilinu. Ég hugleiddi að rubba þessu af á sem skemmstum tíma því að ef eitt er víst þá er tíminn af skornum skammti í mínum heimi, en tíminn með fólkinu mínu er auðvitað dýrmætur og verður aldrei fenginn tilbaka ef ég missi mikið úr á þeim vettvangi.

Vinkonur mínar gera að mér góðlátlegt grín og kalla mig atvinnuskeinara og fleira í þeim dúr. Ég kæri mig kollótta því að ég veit, -eins vel og þær, að þó að líkamleg umhirða sé stór partur af starfinu er það samveran með fólkinu sem þyngst vegur. Hitt er bara aukabónus og öll komum við til með að þurfa einhverntíma á ævinni að vera skeind, ekki satt? Og hvern viljum við í það hlutverk?

Þá er ég loks komin að kjarna málsins. Oftar en einu sinni hefur verið sagt við mig; mér finnst það sóun á hæfileikum þínum að gera það að lifibrauði þínu að skeina, þvo og snýta! Um daginn var ég að syngja fyrir fólk og þegar ég var búin sagðist vinkona mín ein,- verulega klár og flott kona, "ég var að hugsa það Ylfa, á meðan þú varst að syngja hvern djöfulinn þú værir að gera sem einhver atvinnuskeinari! Þú átt að nota hæfileikana þína!" -Ég held að hún hafi ekki hugsað málið alveg til enda. Vegna þess að ég spyr; hvaða fólk viljum við hafa í aðhlynningu þegar við hugsum t.a.m. um það þegar að því kemur að foreldrar okkar þurfa aðstoð við allar athafnir daglegs lífs? Hverjir eiga að annast okkur þegar við sjálf þurfum á því að halda að fá alla aðstoð? Erum alfarið uppá aðra komin með allar okkar líkamlegu og andlegu þarfir? Hæfileikalaust lið sem hefur ekkert til brunns að bera annað en það að hafa hvergi annarsstaðar fengið vinnu? ER ÞAÐ ÞAÐ SEM VIÐ VILJUM? Í raun og veru? Hvernig er þegar dæmið snýr að okkur sjálfum eða ástvinum okkar?

Ég er ágæt í að syngja. Ég er ágæt í að elda og baka. Ég er ágæt í að segja frá. Ég er ágætisleikari. En ég er frábær í að annast fólk! Vegna þess að þar get ég nýtt hæfileika mína. Ég get lesið, sagt sögur, hlustað, grátið með fólki, hlegið með því, sungið með því, sungið fyrir það, faðmað, kysst, verið hvetjandi. Og þetta og svo margt annað þarf til að geta verið fær um að annast aðra einstaklinga.

En því miður er starf mitt ekki hátt skrifað í virðingarstiganum. Barn eitt spurði samnemanda minn að því eitt sinn hvað hún væri að læra? Hún sagðist vera í sjúkraliðanámi. "já, er það ekki þetta lægsta á spítalanum?" Þetta er auðvitað drepfyndið en segir samt meira en mörg orð um það mikilvægi sem umönnun þeirra sem á þurfa að halda skipar í þjóðarsálinni. Þangað til við finnum það á eigin skinni. Hvað veit lítið barn um það hver tröppugangur virðingarstigans innan heilbrigðiskerfisins er? Hvaðan koma þær upplýsingar? Frá okkur auðvitað. Foreldrum þess! Þessu verðum við að breyta.

Launin eru svo auðvitað sér kapítuli útaf fyrir sig. Við viljum ástvinum okkar það besta. Og séum við í þeirri aðstöðu að annaðhvort við sjálf eða þeir, séu uppá það komin hvernig það fólk sem sér um umönnunina er, viljum við auðvitað príma fólk! Metnaðarfullt og hlýlegt starfsfólk. Sem hefur eitthvað til brunns að bera annað en að geta skeint! Pardon my french! En með því að halda aðhlynningarstörfum í láglaunadeildinni, er þá von á góðu?

Hugsum aðeins um þetta? Ég er allavega að því þessa dagana. Ég hef sjálf bæði verið neytandi og gefandi hjúkrunar og veit hversu gríðarlegt vald starfsfólkið hefur yfir líðan þess einstaklings sem þarf á þjónustunni að halda. Geðvond og áhyggjuþjökuð manneskja, þreytt á að vera "í neðstu tröppunni" bæði launalega séð og virðingarlega séð (svo einkennilega sem það hljómar er gífurleg stéttaskipting á td. mörgum sjúkrahúsum landsins þó þar starfi einungis fullorðið og menntað fólk!) er ekki að gera góða hluti í vinnu sinni. Hún getur bókstaflega ráðið úrslitum um það hverngi ég, sem sjúklingur upplifi mína vist. Þegar við erum ósjálfbjarga og upp á aðra komin, skiptir öllu hvernig komið er fram við okkur. Það er bara svo einfalt.

Fyrirlestrinum er lokið. Hjúkk segir eflaust einhver!


vegna greinar á BB

Á bb.is skrifar Lýður Árnason hreint ágætan pistil um fyrirhugaða lokun þjónustudeildar aldraðra á Ísafirði. Vegna þessa hef ég ákveðið að birta aftur pistil sem ég skrifaði á bloggið í apríl sl. og undirstrika með því skoðun mína á þessu máli.

"Ég fór áðan með samnemendum mínum í skoðunarferð á Hlíf. Flott stofnun sem Hlíf er. Ég gæti alveg hugsað mér að eiga þar íbúð þegar ég fer að reskjast. Allt til alls, verslun, hægt að kaupa heitan mat, heimahjúkrun, rúllur og perm í hárið, handavinnustofa, vefstofa, smíðaverkstæði.... Bara að nefnaða. Og innangengt í allt batteríið!

En svo er það þjónustudeild aldraðra. Olnbogabarn, sem vegna skilgreiningarvandamáls fer að loka. Bærinn rekur þetta sem hjúkrunarheimili enda full þörf á slíku, ríkið hinsvegar greiðir daggjöld í samræmi við skilgreininguna "Dvalarheimili." Og flest skiljum við það nú að dvalarheimiliskostnaður er töluvert frábrugðin kostnaði við rekstur á hjúkrunarheimili. Ástæðan er sú að þetta hjúkrunarheimili uppfyllir ekki nútíma kröfur varðandi fermetrafjölda pr.vistmann, og því skilgreinir ríkið þetta á annan hátt en það er. Pólitísk ákvörðun bæjaryfirvalda Ísafjarðarbæjar er því sú, að taka ekki inn fleiri vistmenn, því er þessi þjónustudeild aðeins hálfnýtt. Og þegar síðasti vistmaðurinn kveður, verður henni lokað eftir því sem ég best fæ skilið.

Ég veit ekki hjá hverjum skömmin liggur. En skömm er það engu að síður, að sveitarfélag á stærð við Ísafjarðarbæ hafi ekkert hjúkrunarheimili í réttri skilgreiningu þess orðs. Það er öldrunarlækningadeild á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Eða hjúkrunardeild.... ég hef ekki ennþá fengið nein afgerandi svör við því. Það er nefnilega skilgreiningaratriði! En eitt veit ég! Þó að aldraðir þurfi á hjúkrunarvistun að halda, kæra sig fæstir um að leggjast inn á spítala! Sama hvaða nafn gangurinn sem þá á að vista inná, ber! Sjúkrahús merkir yfirleitt aðeins eitt í augum þeirra eldri; þeir koma ekki aftur út!

Á Flateyri fór ég fyrir skemmstu, að skoða "elliheimilið" þar. Það heilsaði ég uppá vistmenn, þeir eru þrír, og sá strax að þetta er fólk sem á heima á hjúkrunarheimili. Þar er sama staðan, nema hvað að þar er starfsmannafjöldi miðaður við að þetta sé dvalarheimili á meðan vistmenn eru á hjúkrunarstigi. Engu að síður fékk ég þær upplýsingar hjá Skóla og fjölskylduskrifstofu að þetta væri hjúkrunarheimili samkvæmt þeirra skilgreiningu!! ??? ....ég vera ruglaður?? Einhver annar vera líka ruglaður??

Nú hefur Sjúkraskýlið í Bolungarvík verið sameinað Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar. Margir eru uggandi um framtíð þess. Hvernig kemur þessi stofnun til með að verða skilgreind? Hún uppfyllir áræðanlega ekki nútímakröfur um hjúkrunarheimili. Verður hún Elliheimili? Þurfa þá kannski aldraðir Bolvíkingar að fara inná Ísafjörð og leggjast þar á öldrunarlækningadeildina til að fá að deyja? Eða hvað?

Málefni aldraðra eru í tómum ólestri hvað skilgreiningar varðar hér á norðursvæði Vestfjarða. Og áræðanlega víðar. Það hefur ekkert með starfsfólk þeirra stofnana sem hér hafa verið upptaldar að gera. Heldur skilgreiningarhlutann og peningana. Það er eins og við, þessi sem yngri erum, gleymum því að áður en við snúum okkur við, verðum við sjálf orðin öldruð,-beri okkur gæfa til langlífis, og þurfum þá á viðhlítandi þjónustu að halda. En .... svona komum við nú UNDAN GÓÐÆRINU! Hvernig fer þá kreppan með þennan málaflokk? Ætli maður dagi ekki bara uppi á klassísku fátækraheimili, sprottnu úr bókunum um Emil í kattholti? Þar sem ein forstöðukona stelur bæði mat og neftóbaki frá okkur gamla fólkinu og rennir sér í sleðaferðir á eftir einni góðri pylsu? Ein góð pylsa er alltaf ein góð pylsa.....Tounge

Ég ætla að halda áfram að kynna mér þessi mál, það er greinilega brotalöm víða. Og þó ég geti ekki mikið upp á eigin spýtur, hef ég þó munn fyrir neðan mitt eðalnef og ætti að geta vakið athygli á því sem mér finnst miður fara.

Frú Áhugamanneskjaumþjónustuviðaldraða kveður og fer að læra fyrir líffæra og lífeðlisfræði próf.

(tek það fram að það er ástæða fyrir því að þessi færsla er sett inn EFTIR kosningar ;o) )"

Greininni lýkur hér. En síðan hún var skrifuð hef ég aftur og aftur hugsað með mér hvort ekki væri fyllsta ástæða fyrir okkur sem hér búum að taka til athugunar rekstur á okkar eigin hjúkrunarheimili. Þessi mál varða okkur nefnilega öll um leið og við annaðhvort eignumst ástvini á slíkum heimilum eða þurfum sjálf á þeim að halda. Hvar viljum við hafa fólkið okkar? Hverja viljum við láta annast fólkið okkar? Og seinna meir; okkur sjálf??


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1

Hvet þig til að senda þetta inn á bb.is :) góður og þarfur pistill sem flestir ættu að lesa.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 14:44

2

Þetta voru sannarlega orð í tíma töluð Ylfa, ég fer að eldast og þykir gott að vita af þér á öldrunarvaktinni. Svana

Svana (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 15:48

3

Tek undir að þú fáir þetta birt í Mogganum. Ótækt að aldraðir sem þurfa hjúkrun sé gert að vera á sjúkrahúsi. hvað svo sem sjúkrahúsið er gott.

bjarnveig Ingvadóttir (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 16:33

4

já en sjáðu nú til mín kæra, nú er stefnan að allir fái þjónustu heima til dauðadags, eða það er að segja það er sú stefna sem þykir fínust og mest mönnum bjóðandi og þess vegna þarf ekki lengur svona hjúkrunar og elliheimili. Helduru ekki að það fari fljótlega að gerast ég er alveg viss um það!!!

lufsan (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 18:14

5

Svo sannarlega orð í tíma töluð. Móðir mín býr á Hlíf í íbúð en vill fara upp á fjórðu hæð nánar tiltekið þjónustudeildina þega hún hættir að geta séð almennilega um sig. Hún er mjög fúl að þurfa leggjast á sjúkrahús þegar að því kemur. Það vantar sárlega stað fyrir akkúrat þetta fólk og þyrfti bæjarfélagið að þrýsta betur á ríkið um byggingu hjúkrunarheimilis, það bæði skapar atvinnu við að byggja það og seinna meir starfsfólk við umönnun.

Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 22:12

6

Sæl skvísa þú ert alveg meiriháttar (engill)  Halo  að koma með þennan pistil, þessu hefur ekki verið sinnt hér fyrir vestan,  sorglegt að metnaður vestfirðinga sé ekki á hærra plani. Úrræði eldriborgara á vestfjörðum eru í einu orði sagt ömurleg til lengri tíma litið. Það er eins og þeir aðilar sem eiga að sinna þessum málaflokki á vestfjörðum hafi bara engann metnað eða þarf ekki bara fólk eins og til dæmis þig og fleirri valkyrjur til að fara að hrista upp í þessu liði.  

Dóra Stóra (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 22:43

7

Sko, ég er alveg búin að sjá hvað kemur út úr kreppunni í þessum málum. Og mín lausn er þessi: allir að eignast fleiri börn!!! (ef þeir eru enn í barneign, alltsvo). Með þessu áframhaldi verður hvorki til félagslegt kerfi né heilbrigðiskerfi þegar ég verð gömul kerling, og þá er bara að taka þetta upp á gamla mátann, eiga nóg af börnum til að leggjast upp á í ellinni! Þannig að börnin eru sennilega besta langtímafjárfesting sem hægt er að leggja í á þessum títtnefndu viðsjárverðu tímum Wink Var ég ekki annars búin að nefna við þig þá hugmynd að við flytjum öll fjögur, foreldrarnir, inn á Björgúlf? Það verður stuuuuuuð á því elliheimili LoL

Berglind (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 23:33

8

þetta eru orð í tíma töluð, skora á þig að senda þetta í öll blöð og netmiðla. Stend með þér í þessari baráttu ef þess þarf, þó svo mínir foreldrar séu ekki eldri en 79 og 84.Wink

Gunna Gumma Hafsa (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 09:49

9

 

Áfram  áfram .......Ylfa valkyrja.

Hinar valkyrjur vestfjarða, komið úr felum !!! Málefnið er stórt en vestfirskar konur og menn eru öflug, ef allir koma úr felum og tjá sig varðandi málefnið er alltaf hægt að fá einhverju áorkað. Ég meina...... er ekki einmitt núna verið að gera göng TIL Bolungarvíkur, raddir fólksins heyrðust og mikilvægi framkvæmdanna varð lýðnum og embættismönnum ljós!!!!

Ég ætla nefnilega að koma tilbaka á elliheimili fyrir vestan þegar MINN TÍMI KEMUR !!!Wink 

Valrun (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 07:13

10 Smámynd: Katrín

Elskan málið leysist af sjálfu sér...ríkisstjórnin lemur skattborgara til að borga skuldirnar  og svelta börnin sín og sjálfan sig ...smám saman fækkar í hópum og í lokin verður ENGINN eftir til að hafa áhyggjur af....er þetta ekki ekta jafnaðarmannahugsjón...allir jafndauðir???

Katrín, 5.5.2009 kl. 00:12


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband