Slátur gerir mig of æsta!

Fjúff....Haustið er tími annríkis og í mínum huga er annríki aðallega tengt matargerð J

Ég tók níu stk.slátur í gær og næst liggur fyrir að ráðast í kjötið og gera bjúgu. Sauð svið í kvöldmat í kvöld, slátur í gær og nú bíð ég bara eftir hjartaslaginu! Einum of þungur matur svona tvo daga í röð.... Enda hefur orðið brjóstsviði öðlast alveg nýja merkingu...

Það fór náttúrulega ekki framhjá neinum að göngin opnuðu með pompi og pragt á laugardaginn.

Ég mætti á ferlega flotta opnun á sýningu af því tilefni á laugardagsmorguninn á Náttúrugripasafni Vestfjarða. Þar gat að líta sögu Óshlíðarinnar, gerðar hennar og viðhalds í máli og myndum auk sögu gagnagerðarinnar. Það var búið að rigga upp svaka gangalíkneski inní salnum sem hægt var að ganga í gegnum og sjá um leið hvað Ósaflsmenn hafa unnið mikið þrekvirki með þessari smíð sem göngin eru.Það er dásamlegt að aka göngin, lóðbeinan veg beint í Hnífsdal. Innandyra. Svolítið skrýtið þó. En mér finnst ég gasalega fljót í gegn en tímasparnaðurinn er ekki nema fjórar mínútur hjá mér miðað við hámarkshraða alla leið. Ég var 14 mínútur frá Bolungarvík og til Ísafjarðar en nú er ég nákvæmlega 10 mín. En það skiptir ekki nokkru máli hversu lengi þetta er farið, heldur öryggið.

Eins og segir í lesendabréfi Ólafs Halldórssonar og Gunnars Jónssonar  á bb.is þá vildu nú allir Lilju kveðið hafa . Þær voru hér auðvitað ófáar silkihúfurnar sem heiðruðu okkur með nærveru sinni og ræðuhöldum á sjálfan opnunardaginn og eins og oftast er, töluðu þeir kannski mest sem minnst að málinu komu.  En þannig eru hlutirnir bara. Ekki heyrði ég þó minnst þennan dag í opinberum ræðuhöldum á nöfn þeirra sem þó lyftu líklegast hvað þyngstu Grettistaki, nefnilega því Grettistaki að fá Bolvíkinga flestalla til að skrifa undir þá kröfu að fá göng alla leið en ekki í bútum eins og fyrirhugað var á þeim tíma.

 Það krefst mikils dugnaðar að fá samfélagið sitt til að þjappast saman sem eina heild. Hún Pálína Vagnsdóttir í félagi við Berg Kárason hóf undirskriftasöfnun og útvegaði á annað þúsund slíkar. Valrún, vinkona mín og Danmerkurfari stóð fyrir hópakstri og messugjörð. Finnbogi Hermannsson, okkar gamli og góði fréttamaður Rúv á Ísafirði lét aldrei sitt eftir liggja til að minna á hættur Hlíðarinnar og var oft sakaður um neikvæða fréttamennsku að launum, flökkuprestur nokkur messaði á Hlíðinni í tví eða þrígang og svona mætti lengi halda áfram. Grímur Atlason, Soffía Vagnsdóttir og þeirra fylgismenn voru ötulir talsmenn ganga alla leið.( Ég hefði nú persónulega frekar viljað sjá skattpeningum mínum varið tjah.. td. undir rassinn á Pálínu hingað vestur heldur en í flugmiða undir silkihúfur að "sönnan..")

Allt þetta fólk vissi og skildi að án baráttunnar fengjum við ekkert nema stutta gangabúta. En það þarf kjark til að láta í sér heyra utan eigin eldhúss og þann kjark sýndi þetta fólk.  Og ég held að þegar við rifjum þetta upp, þá getum við horft bjartari augum til framtíðar en okkur þykja endilega efni standa til í augnablikinu vegna þess að fyrst við gátum þetta, Bolvíkingar, þá getum við áorkað öllu því sem við viljum!Leyfum svo silkihúfunum að halda sínar hátíðarræður, það er nú einu sinni þeirra starf. En gleymum aldrei afreki OKKAR. Því að það vorum við, heimamenn, sem áorkuðum svo óendanlega miklu. Og það munum við. Og við blásum á raddirnar sem segja: huh, hvað er verið að mylja undir svona andskotans útnárarassgat sem leggur upp laupana eftir kortér hvort eð er... og það á kostnað okkar skattborgara.. mímímí.. jaríjaríjarí...Og það í miðri kreppu....blabla...

Við lítum ekki á þessi göng sem einhvern bitling, rándýra vegaframkvæmd á röngum stað á landinu!

NEI! Við lítum á þessi göng sem sjálfsagða samgöngubót. Og löngu tímabæra. Og við þurfum ekki að beygja höfuð okkar í þakklæti fyrir einum eða neinum. Vegna þess að á meðan Vestfirðingar óku á ófærum fjallaslóðum með sprungið á þremur og púströrið einhversstaðar útí vegkanti í miðju Djúpinu þá voru þeir að greiða sína skatta og þá að fullu! Því að hér var uppgangurinn. Og hér sköpuðust verðmætin. Og héðan hurfu þau líka á örfárra annarra hendur í aðra landshluta . Og ennþá óku Vestfirðingar á varadekkinu á handónýtum og grýttum malardrulluvegum. Og það líka í hinu svokallaða góðæri.  Sem varð nú varla vart hér vestra, eða hvað?  Það er því löngu tímabært að fólkið hér fái að minnsta kosti að fá að ferðast að heiman og heim við sömu aðstæður öryggislega séð og aðrir landsmenn. Því að við borgum líka okkar skatta!

Og hana-andskotans-nú!

Dísus.. held ég ætti að fá mér bara salat næstu daga. Þessi kjarngóði sláturmatur gerir mér svo heitt í hamsi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá maður og ég sem hélt að ég væri að fara að lesa uppskriftir eða eitthvað  um mat!

Til hamingju samt með göngin elskan mín!

kv. Vibba

Vilborg Á. Valgarðsdóttir (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 23:47

2 identicon

Algerlega sammála!!  hefurðu spáð í það að af eldsneytinu er td. ákveðin prósenta sem á að renna til vegagerðar,en þeir sjóðir eru oft teknir til annara nota því að ekki tekst að eyða þeim! við erum að tala um hundruð milljóna og stundum milljarða !  Við vorum löngu búin að borga þessi Göng !

Tóti (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 23:54

3 identicon

Nei nei nei nei alls ekki hætta í slátrinu og mörnum ...I LIKE IT WHEN YOURE HOT HONEY .......Þetta var skemmtilegur lestur og þú heldur bara áfram með þjóðþrifamálin esska  það fer þér alveg einstaklega vel úr hendi

Valrun (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband