Kveðja.

Þegar ég vann á Skýlinu í Bolungarvík í vetur, eignaðist ég "kærasta." Hann var hávaxið glæsimenni, kominn yfir áttrætt og með kímnigáfu sem mér var að skapi. Hann orti mikið og ég hugsa að eftir hann liggi mikið af kveðskap. Og af því að ég eldaði handa honum matinn komst ég ekki hjá því að taka eftir að þar fór einn mesti sætindagrís sem ég hef kynnst. Sætsúpur og búðingar, molasykur og hunang. Þetta þótti Gunnari mínum það besta! Og borðaði óspart af sætindum. Eins og gefur að skilja þótti mér ekki leiðinlegt að baka handa honum.

Það kom fyrir að hann var slappur og koma seinna í mat en hinir. Þá sat ég með honum að spjalla og alltaf leit hann á mig þegar ég var skellihlæjandi af einhverju gullkorninu hans og sagði: ja, einhverntíma hefði ég getað látið þig hlæja!

Ég hef alltaf kíkt við hjá honum síðan ég vann á Skýlinu. Bæði af því að ég veit að félagsskapur kvenfólks var honum mjög að skapi og líka til að heyra nýja vísu eða bara til að kyssa þennan hvíthærða, fallega mann á kinnina. Un daginn þegar ég kom var hann hress, hélt að sumarið ætlaði að fara vel í sig jafnvel. Í gær hafði blaðið snúist við. Ég sat hjá honum litla stund, hélt í hönd hans og kyssti hann svo bless. Kortéri eftir að ég fór, var hann dáinn.

Ég rétt náði til að kveðja þennan nýja vin minn sem varð mér svo kær þennan stutta tíma. Hann hafði lengi verið fangi í lösnum líkama. Nú er hann frjáls. Hvar hann er veit ég ekki, og ekkert okkar. En ef himnaríki er til, þá er hann þar. Kannski fær maður nýtt vísukorn, hitti maður hann á ný.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

ég óska honum góðrar ferðar út í óvissuna, sem er vissa fyrir honum núna.

Knús og Ljós til þín kæra frænka,

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 29.5.2007 kl. 13:31

2 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

ég óska honum góðrar ferðar út í óvissuna, sem er vissa fyrir honum núna.

Knús og Ljós til þín kæra frænka,

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 29.5.2007 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband