12.10.2007 | 21:04
Fréttamolar
Dr. House. Hann er í uppáhaldi hjá heimilismeðlimum þessa dagana. Við erum nefnilega haldin þeim glöpum, fjölskyldan, að við munum aldrei eftir að horfa á framhaldsþætti. Þannig að við komum gjarna höndum okkar yfir heilar seríur og störum linnulítið á tuttugu þætti í kippu eða svo. Og nú er það Dr. House. Mér finnst hann skemmtilegur en verð þó að játa að ég þyldi hann líklega ekki í raunveruleikanum. En ég er orðin svo vel að mér í díagnósum að ég væri fljót að spotta út hvaðeina sem hrjáð gæti viðkomandi, fengi ég bara allar upplýsingar. Og þetta lærir maður af því að horfa á sjónvarpið. Læknisfræði!!! Hvað GERÐI fólk áður en sjónvarpið kom? Vissi áræðanlega ekki neitt!!
Urta Sigríður Ringsted fór í fokkferð til Önundarfjarðar. Það mun vera Gulldrengurinn Grettir sem átti að vera að negla hana þessa dagana en hún vill bara hreinlega ekki leyfa honum! Sest bara á rassinn og urrar á hann. Þetta lærir hún líklega heima hjá sér.....
Annars er lífið svo ótrúlega ljúft. Við vinnum auðvitað allt of mikið, hjónin, en notum allan frítíma í að leika okkur með börnunum. Við erum meira að segja búin að fá sómakonu til að gera hreint hjá okkur fyrir helgarnar svo að við getum eytt þeim í drengina. Það er svo margt sem þarf að gera. Fara í sund, -við eyðum líklega u.þ.b. 14-17 klukkustundum í viku í sundlauginni..., sunnudagaskólinn, bíltúr eitthvert út fyrir bæinn, annað hvort í sveitina, Skálavík, firðina í kring, eða bara á sandinn. Fara í labbitúr með Urtu, heimsækja ömmur og afa og þar fram eftir götum. Svo er einhvern veginn svo mikið um að vera. Mér finnst allar helgar undirlagðar af viðburðum. Sem er auðvitað fínt.
Núna er Finnbogi hjá okkur. Fyrir þá sem ekki vita þá er Finnbogi sonur vinahjóna okkar. Hann er fimm ára og er með Downs heilkenni. Við erum stuðningsfjölskyldan hans, höfum verið lengi, og njótum því þeirra forréttinda að fá að hafa hann eina helgi í mánuði. Hann passar vel í strákahópinn hér og var snöggur að bræða fjölskylduvini og vandamenn svo að allir taka honum sem sjálfsögðum hluta af okkur og hann tekur öllum sem sjálfsögðum hluta af sínu lífi. Og þannig á það að vera. Það er ótrúlega gefandi að fá að hafa svona ljúfan og fallegan dreng sem hefur þessa sérstöðu. Finnbogi er afskaplega vel staddur miðað við sína fötlun. Hann talar vel og skýrt og hefur góða hreyfigetu. Hann skilur allt sem við hann er sagt og hefur mjög þróaða tilfinningagreind. Finnst mér. Og ekki er ég sérfræðingur á þessu sviði. En ég held samt að ég sé alveg að sjá þetta í réttu ljósi. Hann er bara yndislegur. Og af því að Halli er að fara að vinna í löggunni í nótt þá ætla ég að hafa hann og hina litlu kroppana í stóra rúminu hjá mér. Það er dýrðlegt. Þá lesum við bækur og kelum þangað til við förum að sofa. ótrúlega gott:)
Unglingurinn var að fara út. Unglingakvöld. Félagsmiðstöðin er með svona "sundlaugarpartý" og það stendur held ég til miðnættis. Björgúlfur er í nemendaráði í Félagsmiðstöðinni. Það á vel við hann held ég. Hann er svo líbó. Líkar vel við alla og lyndir vel við flesta. Ef ekki alla. Hann er líka ferlega umburðarlyndur. Það hefur hann ekki frá mér. Og ekki heldur frá föður sínum. Bara hans eigin persónuleiki.
Ég hef markvisst reynt að hlusta ekki á fréttaflutning af borgastjórnarþvælunni. Eins og ég sagði henni G.Stellu þá hef ég ákveðið að hugsa meira inn á við og heildrænt. Hnattrænt. Það þýðir að ég hef ekki pláss fyrir daglegar pólitískar erjur og þref! (þetta er auðvitað afsökun fyrir því að hafa ekki nennu né áhuga fyrir því að fylgjast með þessum skrípaleik sem íslensk pólitík er. Að auki finnst mér alltaf svo sorglegt að því meira sem ég fylgist með stjórnmálum því minna finnst mér um mannskepnuna og því er bara betra að sleppa því með öllu) Þess vegna hef ég enga skoðun á þessu öllu saman. En mér sýnist bloggheimur allur hafa hana svo að enginn ætti að verða fyrir vonbrigðum með minn fátæklega skoðanabanka.
Þetta er að verða verðlaunahæft fyrir að vera sundulausasta blogg ever svo að ég ætla bara að hætta núna. Enda er miðbarnið að óska eftir að ég horfi á það "galdra talstöð úr nærbuxunum sínum..."
Athugasemdir
Ég veit sko alveg hvaðan Björgúlfur hefur umburðalyndið, eitthvað frá þér (ég hef alveg séð þig pollrólega þegar ég hefði gengið af göflunum), helling frá afa sínum Einari og dágóðan slump frá Halla! :)
Góða helgi.
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 12.10.2007 kl. 21:29
góða helgi elsku frænka
AlheimsLjós til þín
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 12.10.2007 kl. 21:43
Mjög skemmtileg mynd!
Marta, 12.10.2007 kl. 21:55
Ósigrandi með alvæpni og Hugleiksbrynju - og ekkert meme ;)
Hulda Hákonardóttir (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 22:07
hin vestfirska húsmóðir. það ætti nú að ramma þessa inn með skjaldarmerki einhversstaðar..:Þ
nanna (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 22:23
Ferlega flott svona dökkhærð og takk fyrir innlitið ........ vélin er á leiðinni fyrir elskuna þína.
Gréta Skúla (IP-tala skráð) 13.10.2007 kl. 00:19
Of langt blogg fyrir mig.
Gæturðu stytt mál þitt??
Gló Magnaða, 15.10.2007 kl. 09:51
Sæl og blessuð Ylfa mín datt fyrir slysni inn á bloggið þitt:) Gaman að lesa það og fá fréttir af þér og þínum! Ég get ekki betur séð en allt gangi vel hjá þér eins og þín er reyndar von og vísa dugnaðarforkur með meiru:)
Kveðja úr vesturbænum:)
Þóra Steina (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 13:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.