Bara innihaldið

...sagði maður í gamla daga þegar maður kærði sig ekki um umbúðirnar utan af gosdrykkjunum og sóttist bara eftir því sem var nýtanlegt. Sumsé gosinu.

Ég er svo sein á mér að ég er fyrst núna að sjá þessa stóreinkennilegu frétt sem mér finnst í besta falli vandræðaleg. Hvað er málið? Nú á ég tildæmis börn. Ég er forráðamaður og ég sé bara ekkert athugavert við þá nafngift. Annað væri svo aftur ef ég stæði mig ekki sem slíkur. ÞÁ værum við að tala um vandamál.Ég hef engan sérstakan áhuga á að vera "forráðakona" eða eitthvað þvíumlíkt.

Mér finnst þett í hæsta máta einkennileg krafa. Liggur virkilega ekkert brýnna fyrir á þingi? Ég nefnilega hefði til dæmis haldið að málefni fjölskyldna langveikra barna væru eitthvað sem lægi frekar á að laga. Eða bara EITTHVAÐ annað!! Gott fólk!

KOMMON!!!!

Ég veit ekki betur en að orðið kennslukona sé orðið hreinasta móðgun og nú verði maður að kalla þær ágætu konur kennara. En mér vitanlega er orðið kennari kk orð. Nema það hafi breyst. Kannski ættum við konur hreinlega bara að fara frammá að orðin skipti algjörlega um kyn! Að kennari verði bara það kennarið. Það leikarið. Það hjúkrunarfræðingið.... eða eitthvað? Og það að vera ráðherra er bara töff. Segir ekkert um það hvort þú ert kona eða karl. Nema þá ef vera skyldi að þú hétir Þorsteinn Þengilsson og værir ráðherra en samt kona. Þá fyrst færum við að ruglast....... Þetta er bara ekkert flókið. Ef nöfnin segja ekki til um það, nú þá útlitið. Konur eru körlum frábrugðnar í útliti... ennþá að minnsta kosti. Tjah... allavega hér fyrir vestan..Police

Svona lagað hefur mér aldrei þótt skipta máli. Það er vera kona hefur aldrei verið mér fjötur um fót. Bara til framdráttar. Og hvort sem ég er kölluð hefðbundnum starfsheitum ( sem hafa verið til í tungumálinu svo lengi að fólk héldi áfram að nota þau hvort eð væri, sbr. Keflavík og Þingeyri,) eða einhverjum nýjum orðskrípum þá er, þegar upp er staðið bara innihaldið sem skiptir máli. Fóstra, kennari, ræstitæknir, skúringarkelling eða hvað, ég gegni nákvæmlega sama hlutverkinu eftir sem áður. Titlar breyta því ekkert.

Athyglisvert þetta með að vera Kokkur. Kannski að Kykka sé það sem koma skal...? 

Svo er annað sem mér finnst asnalegt. Það er að ráðherrar skuli hafa bílstjóra!! Ég meina, eru þeir alltaf fullir? Kunna þeir ekki að keyra? Kostar þetta ekki eitthvað? Hver er tilgangurinn???

Og trúið mér, ég vissi í fyrsta skipti í DAG að þeir actually hefðu bílstjóra!! Ég hélt alltaf að það væri brandari!!!! Enda fáránlegur siður. Ráðherrar, ráðmenn, ráðfrýr, ráðningarstjórar, ráðskonur.. hvað sem þetta fólk kýs að kallast, þeim hlýtur að vera treystandi til að stjórna einum bíl! Ég meina, þetta fólk á að geta stjórnað heilu landi!!!!

jólin koma þrátt fyrir þetta stagl!


mbl.is Vill nýtt starfsheiti fyrir ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Róleg vinkona, þetta með ráðherrana snýst nákvæmlega um að vera HERRA eða ekki. Getur kona kallast herra? ... eða karl frú? Það er nefnilega, dömur mínar og herrar, sitthvað að vera forráðamaður eða forráðaherra.

Það hvernig við tölum, hvaða orð við notum segir bæði til um það hvað og hvernig við hugsum - og hefur áhrif á hugsanir okkar. Enda hafa karlar sem leitað hafa í sígild kvennastörf verið duglegir við að fá starfsheitum breytt til að forðast hina kvenlegu skírskotun í þeim. Og það hefur yfirleitt þótt sjálfsagt og eðlilegt.

En ráðherrabílstjórar ættu að vera uppstoppað fyrirbæri á Þjóðminjasafninu.

:-)

Hulda Hákonardóttir (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 00:57

2 identicon

Góður þessi Ylfa. Og maður spyr sig nú um þetta aldagamla starfsheiti "ljósmóðir". Ég held að við séum að missa okkur í þessari réttindabaráttu og sjáum ekki heildarmyndina lengur. En við getum huggað okkur við það í leiðinni að flest glæpatengd "starfsheiti" eru karlkyns s.s. nauðgari, þjófur og  ræningi. Höldum því bara þannig.

Ingibjörg Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 08:44

3 Smámynd: Laufey B Waage

Lifi landsins ljósmæður, hjúkrunarkonur, skúringakonur, saumakonur, fóstrur og  flugfreyjur, - að ógleymdum öllum örunum (kennari, leikari, fúskari) og öndunum (leiðbeinandi, húsráðandi).

Verst finnst mér eiginlega með fóstrurnar. Fóstra er svo einstaklega fallegt orð, en leikskólakennari að sama skapi óþjált í munni. Ég hugsa oft um alla tveggja ára grislingana (bæði stúlkur og drengi) sem mega ekki segja fóstran mín, heldur bara leikskólakennarinn minn (manni vefst tunga um höfuð við að taka sér orðið í munn ).

Laufey B Waage, 26.11.2007 kl. 09:50

4 Smámynd: Gló Magnaða

Konur eru líka menn og einstaka menn eru konur.

Gló Magnaða, 26.11.2007 kl. 10:46

5 identicon

Já, ég sakna líka fóstranna. (Og fóstranna, væru þeir karlkyns.) 

Annars var ég alveg að fara að mynda mér einhverja skoðun þegar þessi svakalega girnilega kaka kom á skjáinn og ég gleymdi öllu nema eigin munnvatni.

Þetta er rosalegt að gera fólki sem er komið 7 mánuði á leið og sísvangt í gúmmulaði. ;-)

Sigga Lára (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 10:48

6 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

En Húlda mín. ´Má ég þá ekki segjast vera minn eigin herra?

Ylfa Mist Helgadóttir, 26.11.2007 kl. 14:03

7 identicon

Halló halló elskulegust!!!

 Long time no hear :) vá, ég rakst algerlega óvart á síðuna þína og er búin að liggja í krampa síðan ég settist hér við lestur :) þvílíkur penni hahahaha :)

Ótrúlega gaman að fá svona fréttir af gamalli barnapíu ha!!!

Farðu vel með þig elskan ;)

Kveðja af víkinni fögru,

Kata Árna

p.s leyniorðið hjá guttanum er nafnið á mömmu, skrifað með litlum stöfum :)

Kata Árna! (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 14:50

8 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Ráðherrar geta alveg verið konur. Þó orðið sé búið til úr -herra. "Frú utanríkisráðherra" finnst mér bara alveg ganga. Finnst það meira að segja passa betur en frú kennari eða frú bakari. Og frú smiður...hrikalegt!

Má ég þá frekar biðja um kvótaumræðu eða fjarsvelti spítalanna á þinginu.

ÞE 

Þórdís Einarsdóttir, 26.11.2007 kl. 17:49

9 identicon

Elsku Ylfa mín, þú mátt allt eða næstum allt fyrir mér því þú ert góð. Mér finnst líka alveg sjálfsagt að endurskoða t.d starfsheiti - eða hvað sem er þess vegna. Ekki endilega til að umturna og breyta öllu, mér finnst bara að það hljóti að vera hollt að skoða og spá í hlutina þegar tímarnir og aðstæður hafa breyst. Kannski til að breyta til - og kannski til að komast að þeirri niðurstöðu að engra breytinga sé þörf. Pælingin er holl. Starfsheiti eins og tjsa.... segjum bara ráðherra svona af handahófi, varð til á tímum þegar enginn hafði hugarflug til að láta sér detta í hug að kona mundi gegna slíku embætti.

Ætli annars nokkur karl gegni starfsheitinu ljósmóðir?

Hulda Hákonardóttir (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 18:09

10 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Þórdís: Frú SMIÐUR!!! HAHAHAHAHAHA ég dó næstum úr hlátri!

Hulda: mér finndist að kölum ætti að þykja heiður að fá að kallast ljósmæður. Þeir bara fást ekki til þeirra starfa því að þeir eru bara ekkert á þessu plani held ég. Sumt gera konur einfaldlega betur. Annað karlmenn. Og það er bara fínt. Held samt að ég hefi heyrt orðið ljósfaðir einhverntíma???

Ylfa Mist Helgadóttir, 26.11.2007 kl. 19:15

11 identicon

Það er til einföld og alveg brilljant (brilljönt) lausn á þessum þjóðfélagsvanda - hún felst í hinu vannýtta og vanmetna viðskeyti -ald - sem kemur m.a. fyrir í orðunum kerald og folald. Með því að grípa til -aldsins fáum við á einu bretti fjölda lipurra og léttsagðra hvorugkyns stafsheita: kennald, fóstrald, smiðald, hjúkrald, skúrald ... og ráðald.
- Málið dautt.

Aðalsteinn (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 22:06

12 Smámynd: Gunnar Páll Gunnarsson

Það er alltaf hollt að velta hlutum og orðum fyrir sér svo að þjóðfélagið staðni ekki og hugsunarhátturinn verði eins og einstefnugata.  En hvernig er að setja öll starfsheiti í hvorugkyn.  Fóstra- Fóstur.  Póstur - Póstað. Eða þessi snilldarhugmynd frá Aðalsteini med ...ald,  ég grét úr hlátri.

Endilega haldið áfram.

Gunni Palli kokkur. 

Gunnar Páll Gunnarsson, 26.11.2007 kl. 22:51

13 identicon

Jú, mikið rétt, ljósfeður finnast víða, þótt þeir séu því miður ekki til hér á landi í dag. A.m.k. fékk Denis Walsh, sá frábæri ensk-ástralski "midwife" sæmdarheitið ljósfaðir þegar hann kom hingað um árið til að halda fyrirlestra. Erlendis eru oft á bilinu 5-10% stéttarinnar karlkyns, og eru bara "midwife" (orðið þýðir "með konu" og er í sjálfu sér kynlaust sem slíkt).

Annars eigum við annað eldra starfsheiti, sem er yfirsetukona. Og nota bene, þegar það orð var við lýði voru líka til á Íslandi yfirsetumenn sem eru skráðir í fornar bækur sem slíkir. Gaman að því.

Ég man eftir að hafa talað við konu sem taldi að karlar ættu ekki heima í þessu starfi. Þeir gætu engan veginn hjálpað fæðandi konum. Rökin voru þau (og eru í sjálfu sér góð og gild) að til að sinna starfinu þyrfti næmi, innsæi, hlýju og nærgætni. Svona "kvenlega" eiginleika. Ég veit ekki með ykkur, en ég óska sonum mínum þess að verða næmir, hlýir og nærgætnir karlmenn. Eins og Denis Walsh. Eins og allir þessir pabbar sem skipta svo margfalt meira máli í fallegri fæðingu en nokkurn tímann ljósmóðirin.

Þetta er alla vega mín faglega, persónulega, kvenlega, móðurlega skoðun :-)

Berglind, ljósmóðir, strákamóðir og stelpumóðir (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 23:36

14 identicon

Annars er ég alveg sammála því að þingið mætti sinna öðrum og meira aðkallandi málum, eins og til dæmis manneklu í þessum klassísku kvennastéttum, ljósmæðrastétt sem og fleirum.

Berglind (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 23:39

15 identicon

Vek athygli á ennþá eldra nafni á þessu starfi, það er orðið bjargrýgur - alveg hundgamalt og hundflott - hefur það m.a. sér til ágætis að það rímar (svona að mestu) við margýgur, annað hundgott orð, sem vel að merkja er það sama og hafmey ...

Þetta var svona fróðleiksmoli úr djúpi íslenskrar málsögu 

Aðalsteinn (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 00:03

16 Smámynd: Ragnar Ólason

Hæ Ylfa, það er rétt að orðið ráðherra gengur fyrir bæði karla og konur. Orðið herra hefur tvær merkingar í íslensku máli. Það er ávarp fyrir karla, t.d. Herra Jón Jónsson og svo þýðir það sá sem ræður eða er húsbóndi. Eins og þú bentir réttilega á hér í kommentinu þá máttu segja ég er minn eigin herra þó þú sért kona. Við köllum Drottinn oft Herra en erum ekki þar með að segja að hann sé karl (þó orðið sé karkynsorð). Danir voru okkar herraþjóð, það þýðir ekki að það búi eingöngu karlar þar. Já konur eru líka herrar.

Ragnar Ólason, 27.11.2007 kl. 14:58

17 Smámynd: Katrín

Svo má alltaf taka upp dönsku málfræðina ....þar eru einungis tvö kyn: samkyn og hvorugkyn 

Reyndar fóru þeir þá leið að taka upp enska orðið minister sem er.....kynlaust

Katrín, 27.11.2007 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband