Dauðinn nagar lífið, myrkrið étur ljósið og Sorgin kvelur Gleðina.

Sumt fólk virðist ekki sitja við sama borð almættisins og við hin.

Í nótt sem leið lá ég við hlið ungrar ekkju.  Hennar maður kvaddi þessa jarðvist í gær. Fyrir stuttu lá ég við hlið þessarar sömu konu um nótt. Þá var hún litla systir manns sem kvaddi þetta líf. Þessari ungu konu virðist við fyrstu sýn, hafa verið ýtt frá hinu stóra, sameiginlega borði Guðs barna og vísað út í horn? Og við, sem horfum á hana kveljast, horfum á dætur hennar engjast, hugsum; er Guð virkilega svona grimmur? Getur virkilega verið tilgangur með því að leggja slíkar sálarkvalir á herðar þeirra, sem hafa jafnvel ennþá sligaðann hrygg eftir síðasta þunga sem á hann var lagður? Er einhver æðri tilgangur sem helgar þetta beiska meðal?

Einmitt núna, sé ég engan tilgang. Bara sársauka, kvöl og óendanlega örvæntingu. Kvíða og sorg. Og skil enn minna í lífsgátunni en ég gerði áður. Ég vissi svo sem að dauðinn væri fylgifiskur lífsins. Sorgin systir Gleðinnar, myrkrið fylginautur ljóssins. Allt þetta vissi ég án þess að vita hvaða tilgang það hefði. Og ég veit þetta enn. En ég skil það ekki samt.

Og tilfinningin sem ég finn akkúrat núna fyrir er reiði. Og á einhvern furðulegan hátt er ég vonsvikin. Kannski af því að ég átti ekki von á að lífið yrði svona oft megnað af sorginni. Og dauðanum.

Og ég hugsa; fyrst ég, sem þó er oftast nær einungis áhorfandi af harmleikjunum sem lífið býður uppá, fyllist tilgangsleysi, hvernig reiðir hinum þá af? Beinu þátttakendunum?  Hvernig geta þeir sem burðast með þyngstu klafana, aftur og aftur, nokkru sinni risið aftur upp og rétt úr hryggnum? Hvernig geta þeir nokkru sinni lifað í sátt? Við Guð? Og við lífið?

Stórar spurningar. Ég veit. En þær brenna á mér í kvöld. Þeim verður ekki svarað í kvöld. Ekki á morgun heldur og jafnvel aldrei. Og kannski ætlast ég ekki einu sinni til þess.

Og þegar morgnar og sólin er komin upp þá kannski gríp ég í æðruleysið og er tilbúin til að biðja. Biðja fyrir vininum sem yfirgaf tilveruna eins og við þekkjum hana.  Biðja um hjálp og styrk fyrir vinkonu mína, fjölskyldu hennar og vini og ekki síst; biðja um hjálp mér sjálfri til handa. Til að sættast við það að finna hversu vanmáttug ég er. Hjálp til að sættast aftur við Guð.

 Og lífið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Einlægar opinskáar pælingar, sem trúlega flestir velta fyrir sér einhvern tíma í lífinu.  Sem betur fer lenda stóru áföllin ekki á öllum alltaf samtímis og því geta hinir veitt styrk og samhyggð til þeirra sem bugaðir eru.

Sendi ykkur ljós í huganum.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 9.7.2009 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband