Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Hætti ekki fyrr en ég fæ seðil.

Til að halda uppá það að ég mætti ekkert í vinnuna alla síðustu viku, ákvað ég að vera í fríi þessa viku líka og fylgja syni mínum yngsta og manni til Reykjavíkur þar sem sá yngri átti að fara í smá aðgerð. Gjóska mín varð eftir heima að passa börn og tík og uppsker í staðinn pössun fyrir sína dóttur seinna meir. Það er verkaskipting í lagi.

Undanfarið hef ég mikið einmitt hugsað um verkaskiptingu. Af því að ég hætti, ekkert fyrir svo löngu, á geðlyfjunum mínum sem héldu mér mjúkri og flatri, þá hefur ýmislegt breyst. Allskonar hlutir fara í taugarnar á mér. Allt mögulegt veldur mér hugarangri, allt mögulegt, sem áður flaut bara hjá án þess að ég léti það nokkuð í ljós né yrði við það vör. Mér finnst rosalega gaman að gera eitthvað fyrir aðra. Ég hef mikið til þrifist á því megnið af ævinni. Og með því hefur mér fundist sem ég væri að borga, á einhvern hátt, fyrir alla þá gæfu sem mér hefur hlotnast í lífinu.

En svo hef ég verið svo mikið hugsi undanfarið. Og ég er að hugsa um greiðasemina. Hverjum gerir maður greiða og hverjum ekki? Er maður að "redda" hlutum fyrir fólk sem kannski vil alls ekkert láta vera að "redda" sér? Er maður að kóa með þeim sem hafa á engan hátt gott af því að maður kói með þeim? Eða er maður í því hlutverki að vera boðinn og búinn öllum stundum (nánast) þegar maður er beðinn um alls konar viðvik? Og ég átta mig á því skyndilega að við hjónin erum töluvert föst í því hlutverki. Halli er t.d. rafeindavirki og er ávallt með hrúgur af einhverju, tækjum og tólum til athugunar fyrir vini og vandamenn.  Jafnvel fyrir fólk sem er ekkert svo náið. Honum er nær, hann kann ekki að segja nei. Ófá kvöldin fara í að laga fartölvur eða forrit, tengja og fixa. Sem er athyglisvert. Nú eigum við hjónin engan vin í tannlæknageiranum en slíkt gæti komið sér vel. Við gætum til dæmis beðið hann að kippa einhverju barnanna með sér heim eina kvöldstund eða svo til að flúorlakka og skorufylla......? Gæti sparað okkur tugi þúsunda á ári.

Nú fæ ég gjarna fría klippingu hjá afa fyrir börnin og Halli gerir við allskonar dót fyrir hann í staðinn. Ég fæ gjarna klippingu hjá vinkonu sem fær eitthvað frá mér í staðin sem henni þykir gott.  Það er verkaskipting og hún er góð. Við tökum dálítið að okkur að passa börn þar sem við erum alltaf með börn hvort eð er, og fáum þá oftast eitthvað mótframlag í staðinn. Og allt viðheldur sínu góða jafnvægi. En svo slæðist inn eitt og eitt verkefni sem fylgir ekki jafnvæginu. Og manni finnst svo óendanlega erfitt að segja nei. Afhverju? Frekar svíkur maður sjálfan sig, makann og börnin um dýrmætan frítíma til að brölta við hluti sem jafnvel koma manni ekkert við.

Ég ákvað fyrir skemmstu að héðan í frá ætlaði ég að svara öllum sem í mig hringdu með einhverja bón með : ég geri ekkert nema fá greitt fyrir það! Og helst svolítið hranalega svo að það færi nú ekki á milli mála að mér væri fyllsta alvara. Auðvitað koma svo undantekningarnar. Ég meina... ég þarf nú að gera ýmislegt fyrir manninn minn sem ekki er hægt að rukka fyrir án þess að þá sé það farið að flokkast sem ....tjah... glæpur... tíhíhí....

En aftur að alvöru málsins. Þessu fylgir ótrúlegt frelsi!! Það er beinlínis frelsandi að heyra sjálfan sig segja: Nei, því miður. Ég hef bara ekki tíma sem ég vil eyða í þetta!

En nú ætla ég að fara að knúsa litla drenginn minn sem er dálítið rykaður ennþá eftir svæfinguna. Enda er þetta farið að bera keim af vissri tegund auglýsinga: Kona óskar eftir að kynnast fjárhagslega sjálfstæðum manni........

Heyrumst þegar heim er komið. 

 

 


Nú veit ég!!!

Birnir sonur minn er veikur eins og mamman. Við erum hérna tvö heima að kela. Ég var að íhuga rétt áðan að fara að mæla drenginn þegar hann segir: Nú veit ég af hverju þú ert svona feit mamma!! -Nú? -segi ég. -Af því þú fæddir þrjá stráka og við tókum svo mikið pláss og stækkuðum magann á þér svo mikið! -Guð blessi barnið, hugsa ég. -Hann er svo yndislegur að kóa með mömmu sinni. Tilbúinn að trúa því að umframmörinn sé á engan hátt mín eigin sök. Fallegi elsku drenguinn minn.... Þetta var ég að hugleiða ásamt því hvort þetta  væri ekki ástæða til að verðlauna drenginn með einhverju gómsætu þegar hann bætir við: En ég skil ekki eitt? Af hverju prumparðu alltaf svona hátt??? Er það út af því að þú borðar svo mikið????

Barnið er augljóslega fárveikt með óráði og hita. En um leið og því batnar verður það flengt duglega!

Í tilefni af þessu ætla ég að setja eina inn frá mögru árunum og tek fram að mér finnst ég alltaf vera akkúrat svona!

Góða helgi.

Actors


Læknamafían

... eftir Auði Haralds er ein af mínum eftirlætisbókum. Ég gat hlegið mig máttlausa af litríkum lýsingum sögupersónunnar af baráttu sinni við þrjóska besservissera með læknamenntun sem ekki vildu samþykkja hennar eigin sjúkdómsgreiningu. Við höfum öll lent í þessu. Sérstaklega við sem eigum börn. Ég hef staðið með grátandi barn dag eftir dag á Landspítalanum, Borgarspítalanum og læknavaktinni og þrábeðið um lugnamyndatöku en fengið hverja úthreinsunina og magaröntgenmyndina á fætur annarri. Alltaf sætti ég mig við þetta. Þetta eru jú læknar. Og þá ber að virða. Þeir vita best. "Takk fyrir laxeringuna læknir, barninu mínu hefur samt ekkert batnað! Heldurðu ekki að það sé mögulegt að hann sé með lungnabólgu? Nei ekki það? Allt í lagi, jájá, ég fer bara heim og athuga hvort þetta lagist ekki bara ef ég gef honum aðeins fleiri stíla...... fyrirgefðu ónæðið."

Einn góðan veðurdag brast eitthvað og ég tók krakkann minn litla undir handlegginn, fór með hann til barnalæknis, skellti honum á bekkinn og sagðist vilja röntgenmynd. Barnið væri með lungnabólgu. Þegar eitthvað átti að fara að malda í móinn hvarf hið dalvíska uppeldi sem lítið svosem var, út um gluggann og ég öskraði á karlmanninn sem stóð fyrir framan mig: Gekkst þú með þetta barn??? Eyddir þú 32 klukkustundum í að koma því í heiminn? drakk það úr brjóstunum þínum? hefur þú hlustað á hvern einasta andardrátt þess síðan það fæddist? Þekkir þú það yfirhöfuð?? ERTU AÐ HALDA ÞVÍ FRAM AÐ ÉG ÞEKKI EKKI BARNIÐ MITT!!!!!!????

Fyrir aumingja manninn var um tvennt að velja. Hringja á lögregluna og barnaverndarnefnd eða taka helvítis röntgenmyndina og vera þá laus allra mála. Laus við þessa geðbiluðu konu. Myndin var tekin og lungnabólgan kom í ljós. En þeirrar tegundar sem ekki heyrist þegar brjóstið er hlustað. En lungnabólga engu að síður. Það vissi ég. Enda móðir drengsins. Sama drengs og viðbeinsbrotnaði tveimur árum síðar og átti ekki að fá röntgenmyndatöku. Af því að ekkert fannst við þreifingu. Minnug ábyrgðar minnar sem móður drengsins og þeirrar sem best þekki hann gekk ég rólega að yfirlækni Sjúkrahúss Ísafjarðar og sagði blíðlega: ég er mamma hans. Ég veit þetta. Sá ágæti maður hafði rænu á að hlýða umorðalaust. Og sá ekkert eftir því held ég.....

Ég gerði mér grein fyrir því að læknar vita ósköp fátt þegar kemur að því að greina sjúkdóma. Enda ekki von. Þeir eru oftast að sjá mann í fyrsta skipti. Og auðvitað eru þeir misvel gefnir eins og við öll hin. Og auðvitað margir þeirra sem kannski myndu vilja vera að gera eitthvað allt annað en að skoða uppí horug nef, bólgna, illa lyktandi hálsa og útlitsljótar gyllinæðar. Launin ættu auðvitað að vera þeim einhver sárabót en samt: þeim er náttúrulega vorkun! Þetta er ömurlegt starf! Hitti samt einn lækni í dag sem var að sjá mig í fyrsta skipti. Skoðaði mig vandlega og sá undir eins hvað að amaði. Sagði mér meira að segja að ekki tæki nema fjóra daga að lækna mig. Ég sem hef legið eins og skata í rúminu í næstum viku! Flottur kall. Fékk mig til að hugsa um allavega hluti. Meðal annars það hversu fáránlegt það er að vita ekki sjálfur hvað að manni amar. Maður veit yfirleitt nákvæmlega hvað amar að börnunum.

En í trausti þess að ég sé öll að hressast og komist jafnvel bráðum í vinnu, ákvað ég í bjartsýniskasti að blogga! Aðallega þó af því að elskan mín hún Stína á heilsugæslunni skammaði mig ógurlega fyrir að hafa tekið frí. Stína! þú skalt þá líka kvitta fyrir lesturinn!!! Ég þarf mína örvun alveg eins og þú! Ef þú ekki hlýðir þá sest ég ofan á þig!! Mannstu þegar ég leit svona út???!!!!!!

255148994_6b749ccf1f

Það hefur svosem ekkert breyst síðan.......... nema þá kannski að barnið er farið. Allt hitt sat bara sem fastast......

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband