Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
28.11.2007 | 17:44
somboddí shjút mí !!!
Jæja.... ég er í það minnsta hvergi flokksbundin....
Ekki meira blátt og bleikt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
27.11.2007 | 17:04
Viðbrögð.
Fékk viðbrögð frá kynsystur sem kommentaði í pistli hér að neðan. Þar sem hún vísar í mitt blogg, leyfi ég mér að vísa hér í þessa skemmtilegu færslu af síðunni hennar, hér er hún, stuðningsfulltrúinn Herdís! (sýnið þolinmæði á meðan andlitsmynd stúlkunnar hleðst inn, hún er mjög stór. Einnig þarf að skrolla heila síðulengd niður til að sjá það sem skrifað er, en það kemur ekki að sök, stúlkan er bráðfalleg og því er heimsóknin á síðuna vel síns virði, jafnvel þó hún taki tíma.)
Já, það þarf svo sannarlega ekki að örvænta á meðan svona pennar eru til á Íslandinu góða. En hér er, lesendur góðir, algjörlega ný ástæða fyrir áðurnefndri háreyðingu: hárin festast í nærbuxunum! Þessu hef ég aldrei lent í, líklega ekki nægilega "lagðmikil." Og er það miður því að það gæti komið mér að verulegu skjóli hér í norðaustan vetrargarranum.....
En mikið er ég fegin að þetta er skýring fyrir snoðuninni því að hún er mjög fjarri mínum tilgátum um forsendur svona algerrar háreyðingar. Þetta hýtur líka að vera fjarskalega óþægilegt. Því eins og hún lýsir ástandinu " lafa hárin langt niður." Þá er að sjálfsögðu nauðsyn að grípa til aðgerða! Það skil ég. Meira að segja ég! Maður gæti bókstaflega flækst í jafn síðum hárum. Meira að segja dottið!
En mér þykir afskaplega miður að hún telji mig skoða sköp annarra kvenna í sturtum sundlauganna! Ég myndi aldrei biðja aðra konu að fara í þá stellingu að ég gæti barið þau augum. Hafi ég gerst sek um slíkt bið ég innivirðulegrar afsökunar! En auðvitað getur líka verið að sumar konur hafi sköpin utanáliggjandi og mjög sýnileg þó að ég, sveitakonan sjálf, hafi aldrei séð neitt þvíumlíkt!
En húrra fyrir stúlkunni! Hún stendur með sér!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
25.11.2007 | 22:32
Bara innihaldið
...sagði maður í gamla daga þegar maður kærði sig ekki um umbúðirnar utan af gosdrykkjunum og sóttist bara eftir því sem var nýtanlegt. Sumsé gosinu.
Ég er svo sein á mér að ég er fyrst núna að sjá þessa stóreinkennilegu frétt sem mér finnst í besta falli vandræðaleg. Hvað er málið? Nú á ég tildæmis börn. Ég er forráðamaður og ég sé bara ekkert athugavert við þá nafngift. Annað væri svo aftur ef ég stæði mig ekki sem slíkur. ÞÁ værum við að tala um vandamál.Ég hef engan sérstakan áhuga á að vera "forráðakona" eða eitthvað þvíumlíkt.
Mér finnst þett í hæsta máta einkennileg krafa. Liggur virkilega ekkert brýnna fyrir á þingi? Ég nefnilega hefði til dæmis haldið að málefni fjölskyldna langveikra barna væru eitthvað sem lægi frekar á að laga. Eða bara EITTHVAÐ annað!! Gott fólk!
KOMMON!!!!
Ég veit ekki betur en að orðið kennslukona sé orðið hreinasta móðgun og nú verði maður að kalla þær ágætu konur kennara. En mér vitanlega er orðið kennari kk orð. Nema það hafi breyst. Kannski ættum við konur hreinlega bara að fara frammá að orðin skipti algjörlega um kyn! Að kennari verði bara það kennarið. Það leikarið. Það hjúkrunarfræðingið.... eða eitthvað? Og það að vera ráðherra er bara töff. Segir ekkert um það hvort þú ert kona eða karl. Nema þá ef vera skyldi að þú hétir Þorsteinn Þengilsson og værir ráðherra en samt kona. Þá fyrst færum við að ruglast....... Þetta er bara ekkert flókið. Ef nöfnin segja ekki til um það, nú þá útlitið. Konur eru körlum frábrugðnar í útliti... ennþá að minnsta kosti. Tjah... allavega hér fyrir vestan..
Svona lagað hefur mér aldrei þótt skipta máli. Það er vera kona hefur aldrei verið mér fjötur um fót. Bara til framdráttar. Og hvort sem ég er kölluð hefðbundnum starfsheitum ( sem hafa verið til í tungumálinu svo lengi að fólk héldi áfram að nota þau hvort eð væri, sbr. Keflavík og Þingeyri,) eða einhverjum nýjum orðskrípum þá er, þegar upp er staðið bara innihaldið sem skiptir máli. Fóstra, kennari, ræstitæknir, skúringarkelling eða hvað, ég gegni nákvæmlega sama hlutverkinu eftir sem áður. Titlar breyta því ekkert.
Athyglisvert þetta með að vera Kokkur. Kannski að Kykka sé það sem koma skal...?
Svo er annað sem mér finnst asnalegt. Það er að ráðherrar skuli hafa bílstjóra!! Ég meina, eru þeir alltaf fullir? Kunna þeir ekki að keyra? Kostar þetta ekki eitthvað? Hver er tilgangurinn???
Og trúið mér, ég vissi í fyrsta skipti í DAG að þeir actually hefðu bílstjóra!! Ég hélt alltaf að það væri brandari!!!! Enda fáránlegur siður. Ráðherrar, ráðmenn, ráðfrýr, ráðningarstjórar, ráðskonur.. hvað sem þetta fólk kýs að kallast, þeim hlýtur að vera treystandi til að stjórna einum bíl! Ég meina, þetta fólk á að geta stjórnað heilu landi!!!!
Vill nýtt starfsheiti fyrir ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
20.11.2007 | 22:12
Málshættir og jólaundirbúningur.
Jæja, nóg um hárvöxt.
Þegar einar dyr lokast opnast aðrar. Eins dauði er annars brauð. Maðurinn uppsker eins og hann sáir. Árinni kennir illur ræðari.- Af máli má manninn þekkja.Í myrkri eru allir kettir gráir. Krummi veður ei hvítur þó hann baði sig. Hinn öfundsjúki er sinn eiginn böðull. Gömul ósköp gráta ei nýjum tárum.
Ég er að rifja upp skemmtilega málshætti og orðasambönd sem ég hef einhverntíma nýtt mér í daglegu tali. Þetta voru nokkur en svo man ég ekki fleiri í bili. Ég er farin að hlakka til jólanna. Ég er búin að gera lista yfir allar þær rosalegu annir sem mín bíða og allt sem ég hef einsett mér fyrir, og um jól. Hann er svona:
Ég ætla að baka eina sort hverja helgi og láta éta hana jafnóðum fram að jólum.
Ég ætla að hlusta á Klundurjólin hennar Dr.Tótu minnar á hverjum degi í desember.
Ég ætla að kaupa mér "heimaföt" fyrir jólin og vera í þeim frá því að ég fer á fætur á Aðfangadag og þar til ég neyðist til að fara úr húsi eftir jól. Einu sinni hefði ég frekar hengt mig en svo mikið sem sagt þetta!!!
Ég ætla ekki að kaupa jólaföt á börnin mín. Bara nýja joggninggalla.
Ég ætla að horfa á viðbjóðslega mikið af DVD yfir jólin og lesa fáránlega margar bækur.
Fram að jólum ætla ég að fá mér cappuchino með kanil á hverjum degi og tvær piparkökur með.
Ég ætla að sjá "Jólasveina Grýlusyni " í Tjöruhúsinu á Ísafirði með fjölskyldunni á aðventunni.
Ég ætla að reyna að umgangast bara skemmtilegt fólk fram að jólum. Leiðinlegt fólk og mislynt dregur úr jólaandanum mínum!
Ég ætla að vera dugleg að hreyfa mig fram að jólum svo ég geti étið eins og gímald.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
18.11.2007 | 14:43
Hinn "loðni" pistill
Ég fór á árshátíð bæjarstarfsmanna Bolungarvíkurkaupstaðar í gærkvöld. Og var erindi mitt það eitt að halda utan um það samkvæmi og sjá til þess að Víkarar skemmtu sér af þokka og prúðmennsku. Sem þeir og auðvitað gerðu. Ég er ekki fyrr komin í salinn en farið er að ræða við mig um svo ansi hreint...uuu... athygliverðan pistil á blogginu mínu. Í sakleysi mínu, og vissu um að allir mínir pistlar séu athylgiverðir þakkaði ég fyrir og spurði hvað pistil væri við átt? -Tjah... þennan um ...hérna... raksturinn og allt það, var svarið. Já, og hafðirðu gaman að honum? spurði ég.
Já, fólk hafði almennt haft það og þótti umræðan þörf. Óþarfi að segja að þegar leið á kvöldið fór ég að verða konfronteruð á ögn opinnskárri hátt, s.s: hey! Ylfa! Flott píkuhárasagan þín þarna á blogginu þínu! Upp með hárin! Lengi lifi bolvíski brúskurinn!!!!
En síðan umræddur pistill birtist hef ég nánast legið í rannsóknarvinnu. Og komist að mörgu. Flestu átti ég nú von á. En staðan er semsagt þessi og ég tek fram að þetta er ekki hávísindaleg úttekkt:
Fullorðnir karlmenn hafa ýmugust á háreyðingu á helgum svæðum.
Giftir karlar vilja hafa konurnar sínar eins og þær voru af Guði skapaðar.
Ungir menn, sérstaklega ólofaðir segja hárin "þvælast fyrir" þegar stundaðir eru "óhefðbundnir kynlífsleikir." (það má kannski benda þeim á það að við konur þurfum nú að hafa áhyggjur af að taka stærra upp í okkur en eitt og eitt hár!!!)
Drengir (a.m.k einn sem ég spjallaði við) á 16. aldursári halda í raun og veru að konum vaxi alls ekki hár undir höndum!!! (skelfileg staðreynd en alfarið okkur konum að kenna. Þeir hafa einfaldlega aldrei séð þau!)
Konur halda að körlum finnist snoðaður neðrihluti "fallegri" en hærður.
Karlar halda að þessi háreyðingarárátta kvenna standi í einhverju samhengi við blæðingar. Hvaðan sem sú mýta er tilkomin. Að konur skafi hár sín til þægindaauka vegna einhvers samhengis þar á milli.
Konum á aldrinum 15-30 ára finnst flestum að nauðslynlegt sé að hafa hemil á hárunum og a.m.k helmingur þeirra sem ég hef talað við hafa prófað brasilíkst vax.
Flestar þeirra þjáðust af inngrónum hárum eftir brasilíuvaxið.
A.m.k 25 karlmenn komu til mín á árshátíðinni í gær og sögðu að þeim finndist brúskur kvenna eitt það fallegasta og leyndardómsfyllsta á líkama þeirra. Allsber kynfæri væru einkennileg og hálf óhugguleg.
Sorry stelpur, þetta er bara í höfðinu á okkur plús nokkrum litlum drengjum sem þekkja ekki betur til. Hafa sína reynslu og þekkingu af nöktum kvenlíkama alfarið úr bláum myndum þar sem púðraðir bakhlutar og berir barmar gegna aðalhlutverki! (og þá er ég að tala um neðri barmana)
Niðurstaðan er þessi.: My Bush is the only Bush I can trust, so I´m sticking to it!
Í dag verða afgangs afmælistertur í afmæli frumburðarins teknar úr frysti og étnar af græðgi og í kvöld á að horfa á Óbeislaða fegurð á RÚV.
Bovíski brúskurinn með sína óbeisluðu fegurð kveður í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.11.2007 | 00:48
ðe síkret
Ég fékk bókina The Secret inn um lúguna í haust. Nafnlaust og allt. Vissi samt alveg að þetta væri bókin góða. Og ég las hana og fannst mikið til koma. Sérstaklega fyrstu síðanna. Svo fór aðeins að halla undan fæti. Mér fannst til dæmis afar erfitt að setja mig í þau spor að leiða talinu að öðru ef fólk vildi tala um það hversu illa því liði. Samkvæmt Leyndarmálinu, á maður nefnilega alls ekki að tala um erfiða og neikvæða hluti því þá laðar maður þá til sín. En ég get bara alls ekki setið hjá t.d. góðri vinkonu sem segir mér frá baráttu sinni við illvígan sjúkdóm og reynt að tala frekar um hversu gaman mér þyki að horfa á náttfiðrildi! Hvað þá að leiða tal áhyggjufullra hjá mér þegar þeir vilja tala um ....segjum bara..fjármálin sín.
Ég held nefnilega að þá sé maður ekki sérstaklega góður við þá sem vantar öxl og eyra. Og ef maður er það ekki, þá er ekkert svo miklvægt að vera til yfir höfuð. Því að það sem gefur okkur jú gildi er að vera til staðar þegar okkar nánustu þurfa á að halda, er það ekki??
En að öðru leyti er bókin snilld. Þörf áminning. Og nú er ég búin að vera lengi með fýluna, feituna og ljótuna og hef ákveðið að tileinka mér gleðina, sætuna og ....mjóuna???
Allavega, ég ætla með síkretið upp í rúm með mér, lesa það og laða svo það sem ég vil, beint til mín. Sofna svo með bókina í fanginu og sjá hvort þetta virkar ekki. Strax!
Tekið í SKálavík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.11.2007 | 20:51
hin neðri hártíska
Í síðustu viku fór ég með Baldri og Halla í sundlaugina í Árbæ. Þetta var um kvöld og mest fullorðið fólk að fara í sund. Ég flýtti mér töluvert úr leppunum og inn í sturtuna enda margt um manninn og fáar sturtur lausar. Skyndilega rekur mig í rogastans! Ég var augljóslega eina konan í sturtuklefanum sem hafði tekið út eðlilegan kynþroska. A.m.k ef marka mátti hár...tískuna "neðanverða."
Mér varð svo mikið um að ég fór að glápa eins og hver annar dóni og viti menn, þetta var rétt. Allar konurnar, nema ég, litu út eins og smástelpur!! Ég átti verulega bágt með að fara ekki að hlæja, svo "snautlegar" þóttu mér þær, en þegar ég kom síðan í pottinn varð ég alvarlega hugsi. Af hverju reyta konur af sér öll líkamshár sem gefa til kynna að þær séu fullorðnar og hafi tekið út sinn eðlilega þroska? Af hverju sækjumst við eftir að líta út eins og níu ára smátelpur? Hvaða hugsun fær okkur til að fara á "fjóra" og láta brasilíuvaxa á okkur fram,- og afturendann? Er ég ein um að þykja þetta einkennilegt?
Ég fór að spyrja konur í kringum mig og flestar játuðu nú að eyða flestum þeim hárum sem á þeim yxu, nema þá helst á höfðinu. Sögðu að þeim þætti hárvöxtur á "óæskilegum" stöðum merki um sóðaskap. Sorrý, en ég bara SKIL það ekki!! Á þessum síðustu og verstu tímum þegar hryllingsfrásagnir kvenna, sem voru beittar ofbeldi af fullorðnum mönnum þegar þær voru litlar og óþroskaðar telpur, skekja okkur af viðbjóði og vanlíðan, þá finnst okkur það sóðalegt að líta út eins og fullvaxta konur?????
Fyrirgefið mér, allar þær kynsystur mínar sem snoðið líkama ykkar, en HVAÐ er að í heildarmyndinni? HVENÆR fór okkur að finnast sóðalegt að verða fullorðnar? Hvenær fór okkur að þykja það hreinlegt að líta út eins og börn á okkar helgustu stöðum? Mér finnst þetta allt vera hið undarlegasta og skil alls ekki tvískinnunginn í okkur. Á meðan við fordæmum af heilum huga mennn sem líta á óþroskaðar telpur girndaraugum, leggjum við, sumar hverjar, á okkur ómælda vinnu, sársauka og fjármuni í að líta áfram út eins og litlar stelpur. Mér þykir það ekki hreinlegt, heldur ógeðfellt, þegar ég hugsa hvaðan þessi "tíska" er upprunin og hverjir það eru sem sjá um að viðhalda henni. Við sjálfar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
13.11.2007 | 18:02
Pirruðpúnkturis.
Ég heiti Ylfa og er geðbólgin. Ég er í fýlu. Ég er árásargjörn. Hefnigjörn og erfið á flestalla lund.
Nú segið þið: Hæ Ylfa!
Þá segi ég: Geðvonskan hófst fyrir nokkru. Mér finnst allir vera hálfvitar, vitlausir og leiðinlegir. Lífið vera tilgangslítið, enda mannskepnan ómerkileg, heimsk og lygin. Hræsin, ljót og leiðinleg. Allt er mér á móti skapi og enginn gerir neitt rétt. Það eina sem ég hugsa um þessa dagana er hveru ömurlegt allt er. Og það er BARA af því allir eru svo GLATAÐIR. Fíflunum fjölgar stöðugt í kringum mig. Skyldi þetta hafa eitthvað með það að gera að ég þurfi að taka mig á í einhverju?
NEI.
Og það litla sem gengur upp er sko pottþétt MÉR að þakka. Það er vegna gífurlegrar útsjónasemi MINNAR. Af því að ÉG er EINA manneskjan með fulla fimm. Hinir eru bara hálfvitar. Ef einhverju er á annað borð viðbjargandi, þá er það vegna mín. Skyldi ég örugglega ekki þurfa að taka mig á í einhverju???
NEI.
Það er ekkert að hjá mér. Það eru bara allir aðrir sem eru FÍBBL.......
Best að gá hvort að sundsprettur lagar eitthvað ástandið.... ekki það að þið skánið neitt við það þó að ég hreyfi mig eitthvað.......
Best að gá samt......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
9.11.2007 | 18:01
Afmælisdrengurinn
Ég á þrjá drengi og enginn þeirra hefur verið kallaður "prins." Þjóðin hefur prinsa og prinsessuvætt börnin, ef skoðaðar eru heimasíður barnalands heita allar síður nafni barnsins, yfirleitt í hljóðfallinu "duddudu" og er undirtillinn gjarna: átta ára prinsessa, tveggja ára prins, nú eða: sex ára skvísa. Drengirnir mínir hafa aldrei borið þá gæfu að vera prinsar. Þeir væru í besta falli titlaðir smaladrengir eða bara forsetar. Baldur gengur stundum undir nafninu forsetinn. Kannski er þetta þjóðræknin í mér. Á Íslandi er ekki konungborið fólk og víst er að það er enginn í minni fjölskyldu með royal-rass af neinni gráðu. Við erum öll komin af sauðaþjófum og hórprestum eins langt aftur og vitað er. Lítill ættarljómi leyfir því ekki stássheiti eins og "prins."
Enginn drengja minna hefur heldur verið skírður "heitu," nafni. Sjálf heiti ég, sem kunnugt er, Ylfa Mist, á meðan ég hefði auðvitað helst heita Þorgerður eða Hrafnkatla. Sigríður eða Guðrún. Kjarngóð nöfn eru bitastæð og góð, enda var frumburðurinn nefndur því leikandi létta og skemmtilega nafni: Björgúlfur Egill. Og hann á einmitt afmæli í dag! Fyrsta kornið mitt er að verða að manni. Og þó að ég sé lítið fyrir tiltlatog barna, þá verður frá því að segjast að drengurinn er engill. Hann er englabarnið mitt og verður alltaf, þrátt fyrir að vera orðinn hærri en ég, kominn í mútur og allt það. Hann er prúður drengur, góður við minni máttar, duglegur að gæta bræðra sinna og almennt yndislegur ungur maður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.11.2007 | 22:31
Fermingarplön og fleira
Nýkomin heim í hlað og eigum eftir að afferma bílinn. Ætlunin er að vakna eldsnemma í fyrramálið og vekja afmælisbarnið með nýbökuðum bollum og snúðum. Björgúlfur, elsti drengurinn minn verður 13 ára á morgun. Ótrúlegt. Hann fermist núna í vor og hefur ákveðið að hafa ekki veislu. Í staðinn pöntuðum við okkur ferð til Spánar með pabba hans og stjúpu, þeirra börnum og okkar börnum. Þetta verður semsagt svona stórfjölskylduferð. Við ætlum að vera í Salou sem er rétt hjá Barcelona.
Mér finnst þetta sniðug ákvörðun hjá drengnum og það er langt síðan hann ákvað þetta. Enda held ég að fæst fermingarbörn hafi ýtra ánægju af eigin veislu, án þess að vera neitt að alhæfa. Hef bara um þetta ákveðin grun..... Man sjálf ekkert eftir minni eigin veislu nema að hún var haldin á Sæluhúsinu á Dalvík og andrúmsloftið var einkennilegt. Ég man hinsvegar vel eftir athöfninni sjálfri. Þar komu við sögu glóðarauga, brennivínslykt, sólgleraugu og altarisganga ásamt sérlega slæmri kvíðatilfinningu. Ekki gleðileg stund í minningunni en allt slíkt má á áhrifaríkan hátt bæla niður :o) Allavega þá kostar svona ferð álíka mikið og ein góð veisla sem stendur í fjóra tíma max. En í staðinn má svamla í flæðarmálinu á trópískri ströndu í hálfan mánuð eins og hvert annað ofvaxið sjávarspendýr!
Sem betur fer eru "hinir" foreldrar Björgúlfs afbragðs fólk og skemmtilegt svo að ég held að þessi ferð verið bara flott. En fermt verður 15. mars í Hólskirkju í Bolungarvík. Við ætlum, stórfjölskyldan, að elda saman lambalæri eftir athöfnina, spila og halda almennilegt fjölskyldu partý. Svo verður hægt að nýta restina af páskunum í að fara á skíði ef einhver verður snjórinn. Ég hlakka agalega til. Hugguleg fjölskyldustund er einmitt það sem maður þarf á vetrum. Sem minnir mig á að það styttist í jól. Það eru Reykvíkingar sko búnir að fatta!!!! Þvílíkt rugl......
Jæja, góða nótt býður frúin í Hraunbergshúsi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)