Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Og ekki hættir vandræðagangurinn...

Bendi fólki á að lesa þessa grein. Segir allt sem segja þarf........

Ég hef setið í Húsi Andanna í morgun með Önnsku vinkonu minni. Og er bara endurnærð. Það var einmitt þar fyrir utan sem sveppurinn úr síðustu færslu hjá mér, óx fyrir u.þ.b. tveimur árum.

Á morgun kemur fólkið að sunnan, ég á von á þeim Tótu og Eyfa um níuleytið í fyrramálið og svo kemur Jón á fimmtudag. Ég er að gera svona föl-rósableikt greip-hlaup sem ég er nokkuð spennt að vita hvernig smakkast. Ég er búin að gera hindberjamarmelaði og eplachutney og ætla að gera jarðarberja og vanillusultuna á morgun. Rabarbarahlaup og limehlaupið koma svo í kjölfarið. Held ég nenni svo ekki að búa til meira...... Nema þeir Jón og Eyfi komi með einhverja góða hugmynd. Ég býst ekki við neinu frá Tótu minni úr þeirri áttinni.... :)


Hey! Ég á nú mynd af svona sveppi sem var hér!

Allt gerist greinilega fyrst í Bolungarvík!

Birnir og sveppurinn


mbl.is „Hélt fyrst að þetta væri ísbjörn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annar vetur í sumri

Ég er að upplifa vetur númer tvö í þessu íslenska sumri sem nú er að líða. Fyrir norðan skall á kuldakast svo gríðarlegt að það snjóaði niðrí miðja Vaðlaheiði! Núna í kvöld er rok og rigning og svei mér ef ekki mun grána í toppa í nótt!

Ég fór með Björgúlf og Baldur í fjallgöngu í dag. Urta skokkaði með okkur yfirkomin af ást á drengjunum sínum. Hún byrjaði að mjólka eftir að við komum heim. Hún lagðist hjá Baldri þegar hann var lagður í rúmið sitt þegar við vorum komin vestur á miðvikudagskvöldið og sleikti hann vandlega í framan, inní eyrun og þreif hann hátt og lágt. Svo bara stóð bunan úr spenunum!

En aftur að fjallgöngunni, það var yndislegt veður, sól og logn frammá Tungudal og við fórum bara nokkuð hátt. Ég að vísu gleymdi camerunni en það gerist ekki næst! Svo einmitt þegar við vorum á niðurleið fór að hvessa smá og draga fyrir sólu en þá var líka kominn tími til heimferðar. Ætli við förum svo ekki bara á skíði á morgun?

Einn góður að lokum: Birnir Ringsted: "Mamma afhverju er lyfta þarna?" -og benti á símaklefa bæjarins!!


Herinn er að koma!

Kom heim í gærkvöld. Mikið agalega er það gott! Ég er með skessuhrukkur í andlitinu eftir að hafa ekið í kvöldsólinni allt gærkvöldið. Ég get nefnilega ekki verið með sólgleraugu. Bara þoli þau alls ekki! Ferðin var góð en alltaf er best að koma heim.

Nú tekur ekki verra við. Óperuherinn er á leiðinni. Þau eru að koma núna eftir helgi, siglandi fullum seglum eins og hver önnur skonnorta, Dr.Tóta, Eyfi og Jón "Nonni frændi" Þorsteinsson og ætla að vera fram yfir markaðshelgi. Þá sömu helgi verða Túpílakar með tónleika hér í Víkinni og á laugardeginum er svo markaðsdagurinn. Ég ætla að halda gríðarlegt partý um kvöldið með söng miklum, gítarspili og kvöldsól. Það sama kvöld er hér ball með Nýdönsk ef ég man rétt og ég veit bara ekki hvað. Svo verður leikhópurinn Lotta með Ármann, Baldur, Bibba, Dillu og allt það lið innanborðs á ferðinni hér sömu helgi. Það stefnir í gríðarlega markaðshelgi og ég er búin að birgja mig upp af sultuefni. Læt þá matargúrúa Eyfa og Jón hjálpa mér að smakka og þróa nýjar tegundir.........

 


Skyldum við sjá ísbjörn?

Umfjöllun fjölmiðla er þannig núna að ég mun ekki tilkynna um ísbjarnarfund nema ég bólstaflega geti leitt bjarndýr fram fyrir lögreglu, í ól! Aumingja konurnar tvær sem sáu ísbjörninn og þurfa svo að sætta sig við að menn haldi hann hafa verið kind! Ég er alveg handviss um að þetta var ísbjörn! Systir mín er svo viss um að þetta sé björn að hún hefur spáð því að ekkert fé komi af fjalli hjá Skagfirðingum næsta haustið, það hafi allt endað í bjarnargini! Já, og tengdó! Tengdó dreymdi fyrir ellefu bjarndýrum! Gleymið því ekki! En hvað sem því líður þá ætla ég ekki að ómaka mig á leið minni um Skagafjörðinn á morgun/í dag (komin nótt) þó ég sjái eitthvað snjóhvítt, þunglamast upp fjallshlíðar, nei, ég mun ekki ómaka mig við að hringja í yfirvöld og tilkynna um eitt né neitt. Því ef svo ólíklega vildi til að mér yrði trúað, ég ekki sögð ímyndunarveik húsmóðir, þá er næsta víst að yfirvöld munu klúðra upplýsingunum og kála ísbirninum, viljandi eða óviljandi!

Annars vildi ég endilega láta annan hvorn Ringstedstrákinn minn heita Ísbjörn. Minnug hversu mikilfenglegt nafnið "Ísbjörn Húnröðarson" hljómaði í Stútungasögu Hugleiks um árið. En Ringstedpabbinn sagði nei. Ísbjörn Ringsted???? Hljómar það kannski ekki dásamlega?

Ég ætla að keyra heim á morgun. Með viðkomu í Skagafirði. Á bjarnarslóðum. Átta tíma akstur framundan og ég ekki sofnuð, klukkan að verða tvö. Þetta er ekki hægt. Góða nótt.


Sunnudagur

Ég er ekki viss um að ég nenni suður.

Mér finnst ég eiga óraleið fyrir höndum, bara að eiga eftir að keyra heim. Svo þarf ég að fara að hendast í sultugerðina. Markaðdagurinn nálgast. Svo hef ég ekki efni á því. Svo..... jæja, ég er búnað ákveða mig..... held ég!

Það er bara endalaus blíða hér nyrðra. Sól og fínt. Ég er að spá í að skreppa í lystigarðinn í dag og jafnvel svo í sund með einhvern slatta af börnum. Reyna að gera tilraun tvö til að heimsækja Ömmuguggu og láta svo einhvern bjóða mér í mat. Það verður opnað fyrir tilboð.... NÚNA!

Drengjunum hef ég lofað að fá að fara í keilu og við það verði ég eiginlega að standa. Unglingurinn hlaut illa meðferð í gær þegar móðirin fyrirskipaði sumarrakstur á rauða hárlubbanum. Mágur minn tók að sér að raka þá frændur, Björgúlf og Kolbein og það var bara látið vaða alveg oní skinn! Af þessum sökum vilja þeir helst ekki vera húfulausir og eru í þessum töluðu orðum að vandræðast með það hvernig þeir eiga að fara að því að fela skallann í sundi! Krútt sem þeir eru!

Jæja, dagurinn bíður mín bjartur og fagur. Heilsur til lífsins.

 


Ég vildi að ég væri Carrie Bradsaw... eða ekki..

Heldur þótti mér beðmálamyndin og borgin vera þunnur þrettándi. Æi ég veit það ekki. Mér þótti alveg næg tilvistarkreppan í þáttunum og vonaðist eftir einhverju svolítið meira djúsí. Af því að mér fannst alveg gaman að horfa á þættina sko! En þunnir í endann. Og myndin var eins og enn þynnri dreggjar af þunnildislega endinum..... Ég gat samt alveg hlegið. Mest auðvitað af því þegar systir mín, Yrsa, sú últra seinheppna kona (þið hélduð að ég væri slæm.... bíðið bara) fór að drekka gosið frá sessunaut sínum, og þá er ég að tala um bláókunnugu konuna hinumegin við hana. Ekki mig! Til að bæta úr skák var einhver vinkona fyrir ofan okkur sem þekkti greinilega vandræðalegar afsakanir systu gömlu og sagði stundarhátt: hvað varstu nú að gera Yrsa mín! Ég áttaði mig á því að líklega er systa gamla fræg að endemum utan fjölskyldunnar sem innan! LoL Að auki var þetta á frekar dramatísku andartaki í myndinni svo að hláturinn sem á okkur sauð lengi vel á eftir var ekki vel liðinn af nánasta umhverfi í bíósalnum!

Mér finnst annars Carrie Bradshaw ferlega leiðinlegur karakter, sjálflæg og barnaleg, ekki vitund þokkafull né annað. Og til marks um hversu leiðinleg mér þykir hún get ég frætt áhugasama um það að ég hef í tvo heila daga verið að velta því fyrir mér hvort að handritshöfundar hafi ætlað að láta hana vera svona eigingjarna og sjálfhverfa eða hvort það voru mistök! Ef ég væri aðeins geðveikari og aumkvunarverðari færi ég að taka út nokkur atriði úr myndinni og þáttunum og analísera hér.... en þá líklega stæði ég uppi án fjölskyldu og vina. Hver vill tengjast manneskjunni sem heldur að uppáhalds sápan hennar fjalli um raunverulega fjölskylduvini.......... (tek það fram að ég lá yfir Guiding light í öllum barnseignarfríunum og dreymdi persónurnar á næturnar... hlýtur að hafa verið fæðingarsturlun....eða eitthvað..)

Áfram með ísbirnina. Þið skulið ekki halda að þeir séu bara þrír þó að þennan bónda hafi dreymt töluna þrjá! Hún tengdamóðir mín sem er áræðinlega sérlega berdreymin sagði sig hafa dreymt töluna ellefu svo einstaklega sterkt nú á dögunum svo að nú erum við ekki í rónni fyrr en ísbirnirnir eru orðnir ellefu!! Hvorki fleiri né færri!

Jónsmessa annað kveld og ég ætla að velta mér allsber uppúr dögginni í garðinum hjá Yrsu sys. Bara svona til að poppa upp stemninguna í hverfinu. Það drýpur ekki af þessum nágrönnum. Gaman að vita hvernig þeir taka því að sjá þriflega konu velta sér í grasinu við hliðina á kanínubúrinu til dæmis. Það er pottþétt að einhver mun tilkynna ísbjörn í Síðuhverfinu á Akureyri!!! múahahahahah!

Kannski ég urri svolítið á nágrannana líka.... og svæli í mig nokkrum hráum eggjum. Gæti grætt fría ferð með cargóvél til Danmerkur, steinsofandi af deyfibyssunni! Djöfuls munur!


Refurinn er undir barði að skííííííta....

Ég keypti mér nýja diskinn með hinum húsvísku Túpílökum og var að hlusta á hann áðan. Ég þarf að heyra hann nokkrum sinnum áður en ég get sagt hvernig mér finnst hann. Ég er svo treg. Mér finnst  ferlega fyndið að hlusta á textana og tónlistin er eignlega samin fyrir leikrit. það væri auðveldlega hægt að semja leikrit í kringum hana. MA tríóið sem syngur um refinn sem er undir barði að skíta er dásamlegur. En eins og ég segi, þarf að hlusta á diskinn í nokkur skipti.

Á Dalvík var haldið uppá sautjánda júní eins og annarsstaðar, bara á ofbeldisfyllri hátt! Ég fór með börnin í skrúðgöngu sem var reyndar friðsamleg og við enduðum uppi við kirkju þar sem við tók löng bið eftir flugvél sem stráir karamellum yfir kirkjubrekkuna. Það var mikil spenna í börnunum, bæði mínum og Gunnhildar frænku, en þau voru undir verndarvæng mínum þar sem foreldrarnir voru í stúdentaveislu. Loks kom flugvélin og þá drógu eldri börnin upp stóra poka! Þegar karamellunum fór að rigna áttu yngri börnin sér ekki viðreisnar von og var hrint frá af þeim eldri, ef þau á annað borð voru komin á staðinn sem karamellurnar féllu í það og það skipti. Mín börn voru farin að skæla, annað barna Gunnhildar meiddi sig og þá þótti mér ljóst að þjóðhátíðardeginum ættu ekki að fylgja blóðug slagsmál, svo ég fór með börnin. Lofaði þeim að ég skyldi bara kaupa handa þeim karamellur í poka. Bekkjarbróðir minn einn úr barnaskóla var reyndar svo sætur að hann náði nokkrum karamellum og gaf krökkunum svo að þau þurftu ekki að fara alveg tómhent. Ég á ekki eftir að taka þátt í þessu aftur. Það er ljóst!

Nú ætla ég að færa mig um set í dag, fara úr Gunnsuhúsi og búa um mig í íbúðinni hennar mömmu inná Akureyri. Dúlla mér þar í einhverja daga, láta bjóða mér í mat, fara með börnin í Kjarna og lystigarðinn, fara með tengdó í bíó og eitthvað svoleiðis.

Ég VERÐ að minnast á Ísbjörninn...... Ég VEIT að það eru allir komnir með nóg af umræðunni en þar sem ég er besservisser af Guðs náð þá get ég ekki látið hjá líða að öskra: ÉG VISSI AÐ ÞETTA MYNDI GERAST!!!!! Ég gekk um í gærdag og sagði hverjum sem heyra vildi að mér hefði þótt mannúðlegast að fella dýrið um leið og til þess sást. Annaðhvort myndi þetta enda með því að danski bjargvætturinn myndi skjóta deyfilyfi í skepnuna og hún rjúka á haf út og drukkna eða ráðast að fólkinu. Hvað sem gerðist þá dræpist dýrið á endanum. Og auðvitað gerðist það. Og sannið til, ef svo fjarstæðulega færi að dýrinu yrði haldið á lífi, þá hefði það endað í dönskum dýragarði. En nú er ég hætt að tala um Ísbirni þangað til sá næsti kemur. 

Knúsiknús 


Fermingarpeningarnir fara sko ekki í þetta!

Ég vil vekja á því athygli að þrátt fyrir ríkulegan fermingarsjóð Björgúlfs sonar míns, eru það ekki peningarnir hans sem munu fara í að borga flutning nýja ísbjarnarins! 

Ég vildi óska þess að íslendingar myndu hafa jafn mikinn áhuga á velferð mennskra innflytjenda á annars þessu góða landi, og á velferð þessa nýja gests. Það er komin Keikós-stíll á málið og ekki laust við að ég fái nettan kinnaroða af skömm þegar ég hugsa til þess skrípaleiks sem flestir vilja gleyma. Svo held ég reyndar að ísbirnir séu ekki alfriðaðir. Ég veit að þeir eru friðaðir á sjó og á ís en ég er næsta viss um að þeir eru ekki friðaðir á landi. Væri ég eigandi æðarvarpsins að Hrauni og ætti að sofa í nokkurra metra fjarlægð frá dýrinu færi ég fram á að annaðhvort yrði bangsi tafarlaust skotinn eða deyfður og fjarlægður. Ég gæti ekki beðið til morguns og látið skepnuna gramsa í lífsafkomu minni, þ.e. æðarvarpinu og sniglast í kringum bæinn minn næturlangt, þar sem börnin mín svæfu! Ég er huglaus og myndi fríka út af hræðslu!

En til að dreifa nú huganum aðeins, því að ég er orðin þess fullviss að bráðum fái ég ísbjörn í garðinn hjá mér í Bolungarvík, þá er hérna svona "heimilismyndband," gert af Lýð Grjóthrunssöngvara. Haraldur er í bleikum bol, sem er útaf fyrir sig mjög smart og fellur einstaklega vel að Óshlíðinni..... :)

Gleðilega þjóðhátíð!

 


mbl.is Novator vill greiða fyrir björgun ísbjarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjá góðu fólki

650 kílómetrar og átta klukkutímar voru lagðir að baki í gær. Það þykir nú meðal húsmóður úr Bolungarvík ekki mikið. Drengirnir vöru stilltir og góðir nema hvað þeir vildu auðvitað stoppa nokkuð oft. Og veðrið var nú til þess. Sól og blíða alla leið nema rétt hérna norðanlands. Þegar við renndum niður Öxnadalsheiðina var komið þokuloft, en þá vorum við líka alveg að verða komin til Dalvíkur.

Og þó ég segi að mér þyki ekki mikið um að sitja á rassgatinu í átta tíma og halda um stýrið, þá var kvöl að þurfa að borða kvöldmat í Hrútafirði. Nánar tiltekið í Staðarskála. Sú sjoppa verður seint háttskrifuð hjá mér og drengjunum mínum litlu eftir kvöldverðinn í gær sem samanstóð af tveimur hel-steiktum barnahamborgurum með káli og engu öðru, ekki einu sinni sósuörðu, hvað þá ostsneið, og einhverju sem á matseðlinum hét "Hrútfirðingur." Það var ég sem fékk mér hrútfirðinginn og eftir þá reynslu vil fátt eiga saman við hrútfirðinga sælda framar, svei mér ef ekki bara Húnvetninga eins og þeir leggja sig! Það eina sem ég get sagt eftir það áfall sem ég varð fyrir, andlega sem og munnlega, er: ég vissi ekki að sveppir úr dós fengjust ennþá. Kannski fást þeir alls ekki lengur. En lagerinn af þeim er þá allavega til í Staðarskála, vanti einhvern eins og eina dós!

Gunnhildur frænka tók á móti okkur klukkan að ganga ellefu, með upphituðu lasagna og kóki. Börnin, bæði mín og hennar voru auðvitað í galsafengnum endurhittingi og sofnuðu sérlega seint. Langt liðið á nótt áður en yngsti sonur minn lagði aftur augun í gremjukasti yfir að fá ekki tattú á handlegginn og jarðarber í rúmið! Í morgun... (ókey, eftir hádegið) fór ég svo að hitta Ingu og Snjólaugu og til þess að koma nú sömu leið og ég var vön þegar ég var barn, laumaðist ég yfir lóð æskuheimilisins eins og þjófur um nótt og hljóp svo niður brekkuna í átt að Svarfaðarbraut 1, fullviss um að þegar þær sæju mig út um eldhúsagluggann, liti ég nákvæmlega út eins og Julie Andrews í Sound of Music. Nema hvað að limaburðurinn var kannski ekki alveg sá sami.

Við fengum okkur kaffi og ég fóðraði litla barnið hennar Snjólaugar á súkkulaði til að vinna mér inn vinsældir, rifjuðum upp gamla tíma og skoðuðum gömlu leikföngin. Allt er óbreytt í Inguhúsi. Og mér finnst það svo gott. Því að þó að hraðinn og offorsið ætli mann stundum lifandi að drepa er alltaf einn staður sem hægt er að heimsækja þar sem allt er eins. Leið okkar Gunnhildar lá síðan í sundlaugina í Þelamörk, börnunum og okkur sjálfum til hressingar og svo var dýrðarinnar kjötbolluréttur hjá Dísu og Birni í kvöldverð. Brauðsúpa með cirka nítjánþúsund rúsínum var svo í eftirmat. Með rjóma. Og ég blátt áfram át á mig óþrif!

Nú ætla ég að fara að sofa, morgundagurinn með sól og blíðu bíður með frænkuhittingi og fleiru. Ég ætla jafnvel að bregða mér frammí Húsabakkaskóla þar sem bandalagsmeðlimir eru að iðka leiklist.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband