Miðvikudagur

Þá er ég búin að hvíla mig eftir átökin. Litli bróðir dafnar vel og ég ætla að fara að sjá hann í dag. Færa mömmunni nýbökuðu eitthvað gott, enda þjáðist hún af meðgöngusykursýki þessi elska svo að nú er lag að fara að raða í sig kruðeríinu. Það er nú alveg nauðsyn að fá einhver hold á þessar mæður!! Hún á svo skilið að fá smá kaloríuverðlaun eftir erfiðið. Það er svo ótrúleg, ný tilfinning að bærast í mér. Þessi fallega kúbanska kona sem R. Vilbergsson faðir minn kynntist fyrir 6 árum í fimtugsafmælisferðinni sinni til Kúbu, hefur verið mér frekar ókunnug. Auðvitað má kenna fjarlægðinni um. Ég bý þar og hún hér. En kannski má líka segja að ég hafi ekkert lagt mig sérstaklega fram. En ég er henni svo eilíflega þakklát fyrir að leyfa mér að upplifa þetta undur með þeim hjónum og það merkilega hefur gerst að ég finn okkur tengdar eilífðarböndum eftir þessa reynslu.
Ég finn fyrir svo mikilli væntumþykju í garð þessarar fallegu manneskju sem hefur sagt skilið við allt kunnuglegt, flutt sitt hafurtask á hjara veraldar til að vera hjá manninum sem hún elskar, og hefur svona stórt hjarta.

Það að vera með konu þegar hún fer í gegn um þessa miklu en velverðlaunuðu þolraun, er það næsta sem maður kemst henni. Og það hljóta að vera bönd sem ekki bresta. Að upplifa allan tilfinningaskalann með henni, horfa upp á sársaukann og kvölina í langdregnum hríðunum, sjá vonleysið í augunum þegar hún missir trúna á að sársaukinn taki enda, horfa á eftir henni inn í heim sem fæðingin kastar henni inn í, heim frumöskursins, sem engin önnur manneskja getur fylgt henni inn í. Heim þar sem konan hættir að vera manneskja, en verður aftur að dýri. Þar sem náttúran yfirtekur hið huglæga tak hennar á líkama sínum og frumeðli hennar og fornt villidýrseðlið brýst fram.
Horfa svo á hana meðtaka verðlaun sín. Fá lítinn einstakling upp að nöktu brjósti og skynja, að hjá þessari konu verður aldrei neitt samt aftur. Líf hennar hefur nú algjörlega nýjan tilgang og ást hennar var aldrei fyrr jafn sterk.

Þetta er upplifunin sem ég gleymi aldrei. Og þakklætið fyrir að hafa fengið að lifa þetta undur hverfur aldrei.

En nú ætla ég að hitta kærar vinkonur í dag. Sumar gamlar, aðrar nýrri, en allar jafn kærar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

elsku ylfa, fábær lýsing á fæðingunni. og þeim tengslum sem hafa myndastá milli ykkar.

ég fékk illt í magan og mundi þegar ég las þetta, held bara að ég fái mér sviss súkkulaði.

knús frænka

frænka 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 9.5.2007 kl. 17:26

2 identicon

Elsku stóra systir ! innilega til hamingju með litla bróður. Hann er rosalega fallegur. Sendum kveðjur til R.Vilbergs og Tamilu. Svo viljum við senda litla pungsa stórt knús. Heyrumst seinna elsku kerlingin. Bless

Ella Rósa og Anna María (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband