Florence Nightingale

Uppsölu og niðurfallapestin hefur stungið sér niður á heimilið óvenju snemma þetta árið en eins og frægt er orðið, hefur fjölskyldan legið í slíkri pest sl. þrenn jól, ef ekki fern. Sem betur fer er minnið gloppótt orðið, annars færi allt í hönk og ég væri farin að bryðja Valíumið um miðjan september.

Nú spúa yngsti og elsti (þá meina ég þennan þrjátíuogeitthvað) eldi og brennisteini. Eldinum upp, við vitum öll hvert brennisteinninn fer.... og ég er Florence Nightingale í dag. Sem er ágætt. Ég á þá inni ákveðna þjónustu, herji óáranin á mig næst.

Sá yngsti hefur verið veikur í allan vetur. Meira og minna. Stundum koma 3-5 dagar án teljandi vandkvæða en svo læðist hitinn aftur um litla kroppinn og lungu, bronkur, nef og augu fyllast af óhroða. Farið var með hann til HNE á laugardaginn og kvað sá upp þann úrskurð að hlussustórir kirtlar væru að eitra litla kroppinn og þá þyrfti að uppræta hið fyrsta. Þá, segja mér lærðari menn, verða straumhvörf í heilsu litla drengsins.

Ég vildi óska að svo lítið þyrfti til að hjálpa henni Þuríði Örnu litlu sem berst við sinn erfiða sjúkdóm. Ég vildi ekkert heitar en að lítil börn sem eru undirlögð af ljótum, ólæknandi sjúkdómum, gætu fengið bata með jafn einfaldri lausn og kirtlatöku!

Ég kvarta og kveina, finnst ég alltaf vera með lasin börn, skammdegisdrunginn að drepa mig, fortíðin að kvelja mig, nútíðin að hrella mig og framtíðin að hræða mig.

 En allt hef ég þó til alls og börnin mín hrjáir ekkert sem ekki jafnar sig með tíð og tíma. Manninn minn á ég bestan og yndislegastan, heimilið mitt draslaralega er hálfkarað en samt griðarstaður, fallegt og fullt af ást, kærleika og meira að segja, loðnu hundskotti, sem okkur öllum þykir vænt um.

Ég þjáist af óþakklætissjúkdómi nútímans, ætlast til að allir hlutir gangi mér í hag, annað er óréttlæti sem beinist beinlínis gegn mér og mínum. Verst er að engin sérstakur á sök.  Kannski þyrfti ég að upplifa einhverjar hörmungar til að snúa þessari hugsanavillu við. Til að læra að lifa í núinu án þess að systurnar fortíð og framtíð, þó aðallega framtíð, dragi úr mætti augnablikshamingjunnar.

En búkhljóð gefa til kynna að mín sé þörf, 10 mínútna, lögbundinni pásu hjúkkunnar er lokið. Aftur í sloppinn, upp með höfuðkappann og Florence stormar af stað til bjargar heiminum.

Og allir eru glaðir.....

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Það er aldeilis ríkidæmið - fjórir strákar! Eru ekki allir að taka lýsið sitt?

Ásgeir Kristinn Lárusson, 11.12.2007 kl. 14:32

2 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Þið eruð æði, með eða án ælupesta.

Þ 

Þórdís Einarsdóttir, 11.12.2007 kl. 15:25

3 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

alveg eruð þið svo flott á þessari mynd, og þú ert flott kona, sem skrifar það sem flestir hugsa, en gera sér kannski ekki alveg grein fyrir því að það sé það sem þeir hugsa.

knús og ljós til ykkar og litla veika kroppsins hans baldurs

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 11.12.2007 kl. 15:33

4 identicon

Frábær færsla sem minnir mann á það sem skiptir máli í lífinu. Þakklæti og heilsa.

Kveðja, 

Ilmur 

Ilmur (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 22:42

5 Smámynd: Ragna Jóhanna Magnúsdóttir

Falleg fjölskylda á fallegum degi...hvað er hægt að hugsa sér betra?

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir , 12.12.2007 kl. 00:42

6 Smámynd: Gló Magnaða

Ég ætla að þessu sinni ekki að segja eitt einasta orð um tengsl veikindi fjölskyldu þinnar og ákveðinnar kæfu.  Þetta er full mikið af því góða!

Gló Magnaða, 12.12.2007 kl. 11:42

7 identicon

Ég á við sama vanþakklætisvandamál að stríða. Aldrei slíku vant er öll fjölskyldan fílhraust. Hins vegar finnst mér alveg hryllilega ósanngjarnt af heilsuleysinu að ætla þá bara að ráðast á MIG SJÁLFA, einmitt þegar ég ætlaði að púlla svona líka fullkominn desember með akademískum sigrum og fjölskyldulegu aðventi í bland.

Já, það er ömurlegt að maður skuli ekki alltaf fá að sleikja rjómann ofanaf.

Auðvitað er þetta Alheimsfrekjan alveg að fara með mann.

Vona að þínir menn verði allir orðnir fílhraustir löngu fyrir jól og að síðan renni upp betri tíð með hestaheilsu um alla haga.

Sigga Lára (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 13:02

8 identicon

Hæ Ylfa, ég setti aðventu-jólaglaðning í póst í dag, vona að þetta falli í kramið:-)kv. YHH

Yrsa Hörn (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 18:22

9 identicon

Hæ sæta langaði bara að benda þér á að hún heitir Þuríður Arna. Annars bara jólakveðjur með ósk um snöggan bata fjölskyldunnar!!

Bjarnveig (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 19:31

10 Smámynd: Marsibil G Kristjánsdóttir

Flott fjölskylda á flottum degi !

Með kveðju um að þið verðið öll hress þessi jólin 

Marsibil G Kristjánsdóttir, 14.12.2007 kl. 00:41

11 Smámynd: Laufey B Waage

Vonandi er þeim að batna þessum elskum.

Laufey B Waage, 16.12.2007 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband