Pest er þetta af þér, kona!

hugsaði ég í gærkvöld en sagði ekkert upphátt við vinkonu mína Höllu Signýju sem sat á sófa hjá mér í stofunni.

Hún hafði farið í hlaupahópinn, ekki ég. Ég sat í stofunni undir teppi og sárvorkenndi mér fyrir vesöldina og heilsuleysið sem hrjáði mig og í kringum mig trítluðu kanínuhjónin, BG og Ingibjörg. Ég hafði fyrr um kvöldið beðið strákana að bjarga þeim úr garðinum. það var úrhellisdemba og tvær angórukanínur safna ansi hreint miklu vatni í feldinn sinn. Þær litu út eins og tveir illa hraktir púðluhundar af sundi dregnar, og fengu að skottast í stofunni til að þorna og hitna aðeins.  Æi, hvað með það þó þær kúki smá í hornin, þetta er alveg lyktarlaust og grjótharðar kúlur sem auðveldlega má ryksuga. Halla Signý ákvað að líta á aumingjann og fá tesopa og var búnað sitja stutta stund þegar ólyktin af henni ætlaði mig lifandi að drepa! Ég spurði hana auðvitað hvort hún hefði ekki orðið rennandi í hlaupunum og þá sagði hún fötin sín hafa verið svo hundblaut að hún hafi skipt um allt saman þegar heim var komið. "Yeah-right!" hugsaði ég! Svitalyktin var ólýsanleg!

Halla Signý fer að spá í kanínurnar, sagðist alvön að halda slíkar skepnur, kvartaði yfir því að lyktin af þeim væri það versta. -"þér ferst," hugsaði ég náttúrulega illgirnislega, en sagði áfram ekki neitt. Við ræddum þetta dágóða stund og ég tek skyndilega eftir því að hún er komið með nefið á kaf oní hálsmálið á flíspeysunni. "Er pest af kanínunum?" spurði ég undrandi? -JÁ!!! Stynur hún fegin! Ég þorði ekki að orða það við þig en ég er að kafna! "Ég líka!" hrópaði ég! Ég hélt að þetta væri svitalykt af þér!

Akkúrat undir sófanum sem Halla greyið sat á var pissupollur sem lyktaði eins og sambland af íþróttaskó og íþróttaskyrtu, óþvegnu og vel notuðu. Viðbjóðslegt. Karlinn var víst ábyrgur fyrir lyktinni, enda ógeldur og merkir greinilega sín pláss vel! Eftir smá skúringar var ræflunum fleygt niðrí skúr og látnar dúsa þar í sinni kanínufýlu!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hlandlyktin af geldu kanínustelpunni okkar, henni Lísu heitinni, var svosum engin blómaangan, en langt frá því að vera í líkingu við þessa stóðkanínupest sem þú lýsir. Það er bara eitt að gera við BG: snipp, snipp og það hið fyrsta! Hann hættir þá líka sínum pedófílísku töktum og Ingibjörg getur sofið rótt

Berglind (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 20:44

2 Smámynd: Aprílrós

;)

Aprílrós, 30.6.2009 kl. 21:33

3 Smámynd: Halla Signý Kristjánsdóttir

Þetta þarf ég að þola

Halla Signý Kristjánsdóttir, 1.7.2009 kl. 15:05

4 identicon

Ylfa Mist, þú er óborganleg, ég er í hláturskasti yfir þessari smásögu.  Algjör snilld.

Eyrún (IP-tala skráð) 16.7.2009 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband