er slæmt að vera ég?

Í nótt sem leið gat ég ekki sofið og vorkenndi mér alveg ægilega og þá skyndilega laust því niður í huga mér að sennilega er ég lánsamasta manneskja í heimi!  Ég bara gleymi svo oft að skoða hina hliðina á peningnum. Sem ég faktískt á alls ekki neitt af, -en það er bara af því að ég er ónísk og hef svo lítinn áhuga á fjármunum! Sem betur fer!

 Sko, það eru þessir litlu hlutir sem maður lítur á sem ógæfu sína en eru í raun gæfa manns.Ég er rosalega mikið kvíðabúnt. Sem betur fer, annars hefði ég enga innsýn í það hvernig öðrum kvíðabúntum líður!

Heilsan undanfarin ár hefur verið frekar ...misjöfn. Sem betur fer!  Ég þykist vera heilbrigðisstarfsmaður og þá er nú líklega jafngott að hafa prófað endrum og eins að liggja inná spítala með hjartað í buxunum og gera sér grein fyrir hversu mikið maður hefur að segja um líðan þess sem uppá þjónustu manns er kominn!

Ég má alls ekki smakka áfengi, þá líður mér djöfullega. Magi og vélinda tærist í tætlur og daginn eftir að ég fæ mér í glas er ég nánast farin að spúa eldi! Og það er eins gott! Ég er komin af ölkum langt aftur í ættir og þó ég sé ættleidd þá ólst ég upp við brennivínsáþjánina engu að síður. Ég er því eðal kandídat í fyllibyttu, tala nú ekki um þar sem ég er með kvíðaraskanir! J Það væri laglegt ef ég þyldi að drekka! Það rynni sennilega aldrei af mér!

Ég tek alla hluti inná mig og get legið með sálarkvölum yfir örlögum og ástandi annarra. Jafnvel fólks sem mér kemur ekkert við. Og það er tóm heppni að hafa þann eiginleika! Af því að það er þá einhver sem hugsar um hvernig má leysa vandamálin! Ég kýs að nefna þetta hjartagæsku í stað hins leiðinlega orðs; áráttuhugsanir!

Ég er svo hroðalega hvatvís og kem mér iðulega í vandræði þess vegna! Þar er ég nú heppin! Það er fátt verra en að brenna inni með ósagða hluti sem breytast í harða hnúta og æxli sem einn góðan veðurdag springa.

Ég vil alltaf vera að „bjarga heiminum.“ Dæmigerður „galli“ á fullorðnum börnum alkóhólista að vilja alltaf vera að bjarga öllu og öllum! Draga jafnvel upp hvern óuppdregna lúðann á fætur öðrum lífið á enda til þess eins að átta sig á að honum er óviðbjargandi! En hvílíkur kostur sem það er fyrir heiminn! Hversu dásamlegt væri ekki lífið ef allir vildu alltaf bjarga hlutunum í stað þess að láta sem þeim komi þeir ekki við?? J

Þegar flestir vita að maður á að þegja, geri ég mér enga grein fyrir því! Það er dásamlegt! Er ekki lífið og tilveran full af ósögðum hlutum og gullinni speki?

Ég á mann sem mér finnst æði oft taka mér sem sjálfsögðum hlut. Er það ekki dásamlegt? Að honum finnist nærvera mín og ást, jafn sjálfsögð og súrefnið í loftinu?

Oft var lífið helvíti erfitt þegar ég var að alast upp. Stundum langar mig að taka strokleður og þurrka út einn eða tvo áratugi! Þvílík forréttindi! Ég veit að ég þoli svo margt. Ég hef oft bognað, aldrei brotnað! Ég þekki styrk minn! J

Ég á börn sem nenna ekki að taka til eftir sig og láta oftast eins og þau hafi einkaþjón. Ég er svoooo fegin! Það eru ekki til ómerkilegri hlutir í heiminum til að terrorisera börnin sín með en eilífar glósur og aðfinnslur vegna þess að þau drasla út!

Þegar manni ber að vera passívur og prófessjónal get ég það ekki. Sem er oft ófaglegt og kannski ekki einu sinni viðeigandi. En ég vona samt að þannig verði ég alltaf. Því að það sýnir að sumu venst ég aldrei og ég á stórt hjarta sem slær hratt, óreglulega og alls ekki alltaf eins og það á að gera, en það getur hýst ótalmarga hluti. Og sem betur fer er það ekki vél. Ef það gerist einhvern tíma, þá er ég hætt að vera ég. Og líklega dauð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert bara dásamleg og værir ekki þú sem þú ert ef þú ættir ekki þína forsögu. Vildi að flerir væru eins og þú.

Bjarnveig Ingvadóttir (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 18:09

2 identicon

Þú klikkar ekki Ylfa mín.

Hulda Hákonardóttir (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 18:52

3 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Mikið djöfull ertu frábær Ylfa mín.  Ég er heppin að eiga slíka vinkonu og fyrir þig skal ég drekka illa, drasla til og taka ást þinni og umhyggju sem sjálfsögðum hlut.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 26.10.2009 kl. 19:36

4 Smámynd: Halla Signý Kristjánsdóttir

ég stilli mér í hóp sem sveitunga mínum Möttu.... elska þig líka

Halla Signý Kristjánsdóttir, 26.10.2009 kl. 19:52

5 identicon

Hvað er hægt að segja við svona pælingum, annað en að þær eru frábærar og svoooo sannar og þessvegna ert þú stórkostlega stórbrotin klár kona, með stórt og bilað hjarta og heila sem keyrir á ofsahraða...........og færð okkur hin eða að minnsta kosti mig til að hugsa...í smástund um tilgang lifsins  og auðvitað elska ég þig líka, eins og hinir...... þrátt fyrir alla gallana...sem nú eru auðvitað BARA kostir. Loveju

Valrun (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 20:17

6 identicon

Svei mér þá ef þetta er ekki endanleg sönnun fyrir því að við erum skyldar. Kannast við óþægilega margt af þessu ; ))

Takk Ylfa mín.

Edda (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 22:35

7 identicon

Já, þú ert víst alveg áreiðanlega dásamleg eins og þú ert! Og værir ekki þú ef ekki væri fyrir hina og þessa þröskulda sem hefur rekist á... og ýmist dansað á eða tekið í nefið. Hugsaðu þér bara hvað lífið væri óþolandi smátt og ómerkilegt ef ekki væri fyrir það sem reynir á mann og þroskar

Berglind (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 15:49

8 identicon

Ég hef einmitt verið að hugsa mikið um passivití og prófessjónalisma. Þessi hólfskiptu líf sem við eigum að lifa þessar aldirnar.

Ég held að það sé mikilvægt að sem flestir, og helst fleiri og fleiri, þurfi að finna til samkenndar með öðrum og reyna að finna lausnir á veseninu sem mannkynið er í.

Og hlusta ekki á kjaftæði eins og að grimmd sé náttúrulögmál.

Örlítið upphaf af einhverju monjúmental kenningabákni sem er að þróast í hausnum á mér... Það er vel mögulegt að ég verði alveg kolgeðveik áður en ég klára það. ;)

Sigga Lára (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 23:24

9 identicon

Þú ert nú meira rassgatið Ylfa mín. Mesta furða að þú getir hugsað svona! Maður hefði haldið að bráðgáfaða konu þyrfti til þess! haha

Takk fyrir þetta blogg... ég hafði gott af því! Og þú veist af hverju

Hjördís með sítt að neðan (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 16:36

10 identicon

æ þú ert svo yndisleg!

Annska (IP-tala skráð) 28.11.2009 kl. 01:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband