Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Nallinn, hann er steindauður í 15 stiga frostinu...

...sungu Helgi og Hljóðfæraleikararnir. Það er reyndar ekki 15 stiga frost hér í dag en engu að síður hressilegur gustur að norðan og frekar í svalara lagi.

Eg hef haft fyrir venju þau rúmlega fjögur ár sem ég hef haldið úti heimasíðu að setja Internationalinn inn í heild sinni, nú eða: "Sjá roðann í austri," á þessum baráttudegi verkalýðsins en núna ætla ég að leyfa ykkur að lesa annað fallegt ljóð sem að vissu leyti má tengja við stígandi roðann í austri.

Ljóð eftir Heimi Pálsson

Dagur er risinn, rjóður í austri,
raular mér kvæði þröstur á grein.
Blessuðu tónar, blessaði dagur,
blessaða veröld tindrandi hrein.

Sólin er risin hátt upp á himinn,
hlæjandi dagur þerrar mín tár.
Blessað sé ljósið, lífgjafinn mildi,
lofaður veri himininn blár.

Ég elska lífið, ljósið og daginn,
lofgjörð um heiminn fagnandi syng.
Blessað sé lífið, blessað sé ljósið,
blessaðir morgnar árið um kring
.

Og í tilefni dagsins er hér mynd sem tekin var árið 2003 í Gatsjína í Rússlandi, af fundum okkar Leníns :)

Ylfa og Lenín

 


Miður mín.

"Nýi meirihlutinn gaf út yfirlýsingu á fundinum þar sem segir að hann styðji stóriðjuáform í fjórðunginum. Og eru Vesturbyggð og Bolungarvíkurkaupstaður þá einu sveitarfélögin á vestfjörðum sem hafa tekið afdráttarlausa ákvörðun í olíuhreinsistöðvarmálum."

Hversu margir Bolvíkingar skyldu í raun vera hlynntir olíuhreinsistöð á Vestfjörðum? Hvernig myndi dæmið líta út ef það ætti að byggja hana hér? I fallegu Víkinni. Hvernig var með slagorðið "Stóriðjulausir Vestfirðir?" Hverjir fóru þar fremstir í flokki? Hversu mikið er að marka orð þeirra sömu aðila?

Hjálpið mér að fá þetta heim og saman.

Gangan kom á fundarstað í fundarhléi. Göngumenn hrópuðu húrra fyrir Sossu, Grími og fráfarandi bæjarstjórn. Söng "í bolungarvíkinni...osfrv." Aður en laginu lauk, ákváðu nýir stjórnendur bæjarins að fundarhléi væri lokið og nýkjörinn forseti bæjarstjórnar sveiflaði hamrinum mynduglega og lamdi honum í borðið. Við hættum, fórum út og dyrunum var lokað. Vissulega hefði manni þótt að á þessum tímapunkti hefði ný bæjarstjórn átt að taka undir þennan sameiningarsöng. Nota tækifærið og halda andlitinu um leið og hún sýndi ofurlitla kímnigáfu. Smá húmor fyrir sjálfri sér. En nei. Því var ekki að heilsa.

Þetta bjargaði deginum, svona eftir á séð. Þetta var krúttlegt og um leið hjákátlegt. Og svo sannarlega var hlegið að þessu í kveðjupartýinu sem skapaðist á kaffi Edinborg áðan þar sem Grjóthrunið tók nokkur lög og allskonar fólk sat saman og skemmti sér. ( Það væri gaman að vera fluga á vegg á næsta þorrablóti þegar hægt verður að kyrja: " Sjálfstæðis hamarinn, sjálfstæðis hamarinn.... við hitt uppáhaldslag Bolvíkinga "sitjandi standandi!")

Er einhver til í að uppfræða mig í ofanálag um það hversu algengt það er að kosning bæjarstjóra fari þannig fram að fjögur atkvæði gildi á móti þremur en í þessu tilfelli komi fjórða atkvæðið frá þeim sem ætlar í stólinn? Einhvern veginn finnst mér að reglurnar hljóti að vera þannig að hann ætti að sitja hjá. Er það bara eitthvað svona siðferðisbull í mér? Eða er það tilfellið að þetta eigi að vera hægt?

Eg virðist vera treg í dag. Það er svo margt sem ég ekki skil.  Og ég er miður mín. Miður mín yfir því að þurfa að lúta annarri eins stjórnsýslu og ég hef orðið vitni að, miður mín yfir því að tilheyra bæ sem er hlynntur olíuhreinsunarstöð, og fyrst og fremst, miður mín yfir því á hvaða plani hópur fólks kýs að starfa í pólitík. Hún Kata mín Gunn sem oft skrifar sérlega beitta pistla á sitt blogg af mikilli ritfærni segir að nú falli tjaldið.Eg vona að ekki sé átt við tjald sem muni loka fyrir hina gegnsæju stjórnsýslu undanfarinna tveggja ára. En á vissan hátt má segja að þetta sé táknræn lýsing hjá Kötu. Eða eins og einn franskur vinur minn sagði á dögunum: Sem frakki þekki ég þessa aðferð svo vel. Þegar skilið er á milli bols og höfuðs! (....lauslega þýtt úr ensku :o) )

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband