Marsmadness....

Baldur Hrafn vill stundum fá grillaða samloku með skinku, osti, grænmeti og sósu. Einstöku sinnum eigum við hamborgarasósu, ef hamborgarar hafa verið á föstudagsmatseðlinum nýlega, annars er það tómatsósa eða sinnep. (Föstudagar eru þeir dagar sem drengirnir fá að velja máltíðina)  En núna áðan var ég að fá mér rúgbrauðssneið með osti og auðvitað vel af smjöri þegar krakkinn heimtar rúgbrauðssneið með hamborgarasósu! Þvílík viðurstyggð! Ég neitaði en hann hafði vitanlega betur. Eins og ávallt! Og nú situr hann við hlið mér og málar páskagreinar á milli þess sem hann raðar í sig þessum kræsingum sem rúgbrauð með hamborgarasósu eru! Mér er bókstaflega flöööööökurt! Nú er beðið um meira og það sem Baldur Hrafn biður um, það fær Baldur Hrafn.

Á morgun verður afmæli. Við erum þrjú sem eigum afmæli í mars, ég, Halli og Baldur Hrafn. En af því að það á að ferma erfingjann þá látum við eina vöffluveislu duga. Velunnarar og skyldmenni eru því velkomin í kaffi á morgun, laugardag um fjögurleytið. Ég nenni ekki að hringja út í alla og bjóða þannig að ef þið ekki lesið bloggið, sorrý.....ykkar tap!

Ég átti lunch date með umsjónamanni Skíðavikunnar á Ísafirði í hádeginu. Við slúðruðum í sólinni og nutum veðurblíðunnar á milli þess sem hún svaraði í símann....oft. Ég get ekki betur séð en þessi páskavika á Ísafirði sé sú glæsilegasta hingað til og veit að það er gríðarlegur fjöldi gesta væntanlegur. Hlakka til að fara á Aldrei fór ég suður og sjá veisluna sem þar verður í boði! Og ekki vantar snjóinn! Og í dag skín sólin í logninu, vona að það verði þannig áfram um páskana!

En það er vísast að fara að keyra út tupperwörurnar, fá sér svo eina stutta leggju því að í nótt verðum við R.Ása á næturvakt.... dúdúdúdúmmmmmmm...

www.skidavikan.is

Já, og hér má fá skemmtilega kynningu á IP tölu sinni.... http://www.moanmyip.com/ Góða skemmtun og góða helgi.

 


Karlar eru frá Mars, konur frá Venus.... ?

Ég hef komist að því að fyrir mér fara hugtökin feminismi og minnimáttarkennd saman. Tek enn og aftur fram að það er alfarið mín skoðun, reynsla og upplifun. Jafnrétti er eitt, feminismi er farinn að snúast um allt annað en jafnrétti. Sorrý, ég er bara alltaf að upplifa þetta hjá yfirlýstum feministum, þessa ótrúlegu minnimáttarkennd. Ég er jafnréttissinni. En ég hef aldrei upplifað það sjálf að vera í öðru sæti vegna þess eins að ég er kona. Og kannski er það heppni. Kannski er það bara vegna þess að mér þykir svo sjálfsagt að ég standi jafnfætis karlmönnum og tel þá ekki hafa neina yfirburði yfir mér, aðra en þá líkamlegu. Það er bara augljóst frá náttúrunnar hendi og hefur ekkert með styrk á öðrum sviðum að gera. Og ég er svo sannfærð að ég þarf ekkert á því að halda að ræða það fram og til baka hver kjör kvenna eru í samanburði við kjör karla. En hitt er annað að konur og karlar eru afar ólík, sbr. Venus, Mars og allt það. Og ég blæs á það að sú staðreynd skipti ekki máli.

Ég tek fram að þessar hugleiðingar eru í engu tengdar dekkjaskiptunum í færslu minni hér að framan. Að sjálfsögðu hef ég skipt um dekk á bíl, mikil ósköp, enda átt margar druslurnar og ferðast mikið ein akandi. En þegar kemur að því að skipta um dekk á smárútu viðurkenni ég mig fúslega sigraða og geri mér fulla grein fyrir því að líkamlegir burðir mínir ná hreinlega ekki svo langt.

Nei, hugleiðingar mínar eru af því sprottnar að ég hef ítrekað lent í því undanfarin ár að sjá hversu einstrengingslegar hugmyndir öfgafeminista eru þegar kemur að kvenréttindamálum. Yfirlýstir feministar hafa sagt mér að hygla eigi konum vegna þess að þær séu konur. Hæfar konur, meira að segja. Ég blæs á slíkt. Hygla á hæfum einstaklingum að mínu mati, óháð því hvers kyns þeir eru, hvert litarhaft þeirra er eða hvort þeir tilheyra einhverjum minnihlutahópum eða ekki. Ég neita að láta hygla mér fyrir það eitt að vera kona. Það er fáránlegt og beinlínis kjánalegt í mínum huga. Sjálf vil ég vera metin að verðleikum sem manneskja, ekki sem kona eða karl. Og um það hélt ég alltaf að jafnréttisbaráttan hefði gengið.

En það ískyggilegasta sem ég hef orðið vör við í fari öfgafeminista er húmorsleysi þeirra fyrir "málstaðnum." Sértu ekki á sömu skoðun ertu að svíkja kynsystur þínar! Í versta falli að ráðast persónulega á feministann sjálfan. Og ekki gera ráð fyrir því að feministinn gefi eftir um tommu! Nei! En takist henni/honum ekki að "snúa" þér á sína sveif, móðgast hann/ hún. Þess ber að sjálfsögðu að geta að ég þekki líka fullt af jafnréttissinnuðum konum og við þær er skemmtilegt að tala. En ekki þær kvenréttissinnuðu. Það nefnilega endar alltaf með því að samtalið tekur stefnuna: það þýðir ekkert að ræða þetta við þig, og: fólk eins og þú, og: það er konum eins og þér að kenna hvað kvenréttindabaráttan er skammt á veg komin! En því er ég aldeilis ósammála. Ég held að fáar jafn öflugar þjóðfélagsbreytingar hafi tekið jafn gríðarlegum stakkaskiptum, á jafn ótrúlega stuttum tíma og jafnréttisbaráttan. Og auðvitað er jafnrétti sjálfsagt! Á því er enginn vafi. En ég blæs á það að hlutföll kynjanna eigi að vera jöfn þegar kemur að tímafrekum störfum eins og þingmennsku, stjórnun fyrirtækja og þar fram eftir götum. Ekki af því að konum sé ekki treystandi fyrir ábyrgð! Síður en svo! Heldur einfaldlega vegna þess að konur eru ekki eins og karlmenn!! Mars og Venus, gott fólk. Það eru bara færri konur sem hafa áhuga á metorðum af þessu tagi. Konum er einfaldlega frekar umhugað um að hlú að fjölskyldu sinni. Ala upp börnin sín. Eyða tíma með þeim. Og það er ekkert rangt við það! Og það eru engin svik við kynskystur þær, sem vilja frekar klífa metorðastigann. Þetta er einfaldlega val. Og um það snérist jafnréttisbaráttan í upphafi, tel ég. Að hafa val! 

Við vitum vel og sjáum að heimili sem eru rekin af tveimur fullorðnum einstaklingum sem vilja "meikaða" í atvinnulífinu, bera mikla ábyrgð utan heimilisins ásamt því að sinna nefndarstörfum og tómstundum, líður fyrir það. Börnin líða fyrir það. Það er ekki tími fyrir þau. Og eins og ég hef oft sagt áður: gæðastundir eru ofmetið hugtak samviskubitinna foreldra. það kemur ekkert í staðin fyrir það öryggi sem barn finnur við það eitt að hafa ríkan aðgang að foreldrum sínum. (að því gefnu að foreldrarnir séu almennilegir!!) Jafnréttisbaráttan ætti frekar að snúast um það hversu bráð nauðsyn það er í okkar nútíma þjóðfélagi að við getum eytt meiri tíma með börnunum okkar. Og mér finnst feminismi ekki snúast um það.

Þeir öfgasinnuðu feministar sem ég hef haft kynni af í gegnum tíðina, eru ekki margir og ég ítreka: ég þekki margar jafnréttissinnaðar konur sem er allt, allt annar handleggur. En þessar sem tala hvað hæst og mest um breytingar á heiminum í þágu kvenna og tekst ávallt að koma kvenfrelsisumræðunni í gang hvar og hvenær sem er, jafnvel þó enginn viðstaddra hafi á henni áhuga, minna mig oft á garðyrkjumenn sem ráðast með klippunum á hekk nágrannans og heimta að hann hafi garðinn sinn svona en ekki hinseginn. Á meðan kafna rósabeðin í eigin garði, í arfa og illgresi og blómin sem þar vaxa vantar bæði vatn, næringu og sólarljós. Umfram allt, athygli garðyrkjumannsins.

Ég segi með stolti: ég er jafnréttissinni, ég vil sjá konur og karla hvar sem er í heiminum búa við mannsæmandi kjör og hin sjálfsögðu mannréttindi að hafa val. En feministi er ég ekki. Og ég vil ekki vera slíkur.

 

 


Þessi fallegi dagur....

Við Gunna mín af Rúv ókum vestur í gær í dýrðinni einni saman. Sól skein í heiði og landið lá undir hvítu ábreiðunni. Þvílík ævintýraveröld! Lognstilla og spegilsléttur sjór og hálkan, maður lifandi! Úff. Eins gott að dagurinn væri svona íðilfagur því að nógu vorum við lengi á leiðinni. Í Vatnsfjarðarmynni sat haförn í sólbaði á nálægum steini og glápti á okkur á móti og ég hef aldrei, aldrei blótað neinu jafn mikið og að vera ekki með myndavél þá! Hann þandi út vængi og flaug á milli steinanna svo að við fengum svo sannarlega sýningu í lagi! Bíll var á eftir okkur og við snöruðumst út og skipuðum viðkomandi að taka mynd á augabragði! Sem hann og gerði með loforði um að senda okkur hana gegnum email en ekkert bólar á henni.....

Það passaði að eftir æsispennandi keppni við olíutankinn (við unnum og náðum í Súðavík áður en honum tókst að tæma sig) sprakk á bílnum fyrir utan Bónus á Ísafirði. Halli minn var kallaður út, enda telst Starexinn, sú smárúta ekki til þess að vera konubíll. Og þar sem ég er ekki feministi þá hvarflaði ekki að mér að reyna að skipta um dekk. En það gerði Halli og vorum við Gunna sammála um að bónbetri karlmaður en hann, væri ekki til.

Svo var það bara næturvakt svo að nú er morgun hjá mér, önnur næturvakt í kvöld og svo tveggja daga frí. Vinna á helginni og svo er bara komið að FERMINGU!

Þýðir það að ég er orðin gömul??

Nú þarf ég á pósthúsið að sækja ammlisgjöf fyrir Baldur minn. Hef grun  um að hún sé frá afa Rúnari. Sem heldur brátt upp á 1 árs afmæli bróður míns :)


Söruhús!

Skyndilega hringdi síminn síðla gærdags og mér var sagt að ég gæti fengið far frá Ísafirði til Reykjavíkur ef ég yrði komin inn á Ísafjörð eftir hálftíma. Og heima sat ég, óuppdregin og úfin, bíllaus með tvö lítil stýri sem ekki var hægt að hlaupa út frá! Ég hringdi nú samt í Halla minn og spurði hann hvar hann væri. Á Óshlíðinni! Á leið heim! Viltu skutla mér á Ísafjörð? Jájá, ekkert mál

Skemmst frá því að segja að við lögðum af stað frá Útvarpinu, ég, Sigga og Gunna á Rúv, Jón Björnsson Hornstrandafari og fórum á mínum eigin bíl eftir allt saman. Sigga léði Halla sinn bíl á meðan. Færið var ekki það ákjósanlegt að við legðum upp með að fara á fólksbíl sem betur fer! Við vorum átta tíma á leiðinni með örstuttu stoppi hjá "Jóa Frænda" í Hólmavík, þar sem allt var lokað, við þyrst og þurftum á klósett. Jói frændi tók okkur opnum örmum með heitu kaffi og molasykri.

Nú er bara á áætluninni að fara í sund, svo verður lagst yfir DVD og ef einhverjar sætar vinkonur vilja hitta mig þá mega þær heimsækja mig í kvöld á milli átta og tíu þar sem Sara og Gísli eru að fara á Lions.. eitthvað og ég verð ein með kisunum í kotinu. Á morgun verður svo sama dagskrá, sund og DVD :o)
Straujað heim í bítið á mánudag.

Svona er lífið, það er séð fyrir öllu fyrir mann. Það sem á að gerast, gerist. Annars ekki...... þannig séð...

Knús í netheima.

ylfa&sara

Að heima eða að heiman...heimanað

Aldrei fór ég suður.  Jæja, það kemur dagur eftir þennan dag. Ég er búin að plana góða ferð í félagi við Sörufrænku suður í aprílbyrjun. Þá ætlum við að liggja uppí sófa heila helgi og horfa á konumyndir. Verðum eiginlega að reka manninn hennar að heiman á meðan. Annars er hætt við því að hann gefi okkur hæðnislegt tillit þegar við snýtum okkur duglega yfir einhverri deyjandi, berklasjúku, fallegu og góðu konunni.....

Voru þetta ekki annars Jane Austin myndir Sara?

Í staðinn ætla ég bara að kela við kallinn og litlu drengina alla helgina, elsti sonurinn er á burt, hann fór í borgina á Samfés og kemur aftur á sunnudag. Held að hann og föðurfjölskyldan hans öll ætli að kaupa fermingarföt á morgun!

Góða helgi öll.


Nú vantar mig.....

FAR!!!! Ég ætla ekki á mínum bíl þar sem augljóslega ENGINN vill fá með mér far..... sniff..,.

Gefst samt ekki alveg svo augljóslega upp og óska hér með eftir fari með einhverjum öðrum sem er að fara suður á morgun (föstudag) og heim á sunnudag.....

Nú ef þetta er ekki að ganga þá fer ég bara að grenja.

Vinna í dag, barnaafmæli eftir það og svo tupperwarekynning klukkan níu.... busy day...

Out.


Stjörnustálið vill nýja foreldra.

Við ætlum að selja Starexinn okkar, helst skipta á ódýrari. Þannig að hann er til sölu. En hvað hann á að kosta veit ég ekki enn. Hann er sjö manna, beinskiptur og diselknúinn. Með háu og lágu drifi og ný dekk fylgja.

Það er bylur enn og aftur. Ekki það að ég verði við einhverri truflun af þeim sökum, ég er bara að vinna og gera skattaskýrsluna þess á milli. Það er ákaflega skemmtilegt starf. Ég verð svoooo glöð nefnilega þegar það er búið. Svo er ég að fara að vinna í Víkingalottóinu í kvöld. Mikið hlakka ég til að ráðstafa þeim fjármunum......

Ég er að lesa svo frábæra bók eftir Jón Kalmann..... gat ekki sofnað fyrr en seint og um síðir, hún var svo góð. Dreymdi svo Hávarð vin minn gamla, leggja úr Ósvörinni á árabát og hverfa inn í þokuna og ég vissi að hann kæmi til baka með drekkhlaðin bát. Sjórinn var silfurlitaður í þokunni og gjálfraði ljúflega við fjörugrjótið og ég sat á grasbala og beið eftir að báturinn kæmi aftur. Svo vaknaði ég. Fallegur draumur og táknar án efa eitthvað stórgott. Líklega einmitt 1. vinning í Víkingalottóinu. Og ef ég fæ hann, þá segi ég og skrifa að einn þriðji mun renna til barnastarfs ABC í Ginea-Bissau þar sem styrktarsonurinn Assana Djalo á heima.

Veit ekki enn hvernig fer með suðurferðina. Kemur allt í ljós...

Mynd af ræðaranum í Ósvör, sem ég tók fyrir tveimur árum. Þessi heitir Arngrímur en ekki Hávarður.....

Fiskimaðurinn


Vantar einhver far?

Mig langar suður næstu helgi. Leggja af stað á föstudaginn og koma heim á sunnudag. Gallinn við að ferðast einn á bifreið í dag er að olíulítrinn kostar nú á eitthundruðustu of fimmtugustu krónu, sem mér þykir afar blóðugt. Þess vegna býð ég fram pláss í mínum öndvegisbíl gegn þátttöku í olíukostnaði.

Interested, anyone????


Hann er fjögurra ára í dag!

Litli drengurinn minn hann Baldur Hrafn á fjögurra ára afmæli í dag!!!

Til ham með am krúttið mitt!!!!

441423748_04e1619dd3


Helgi, helgihald og horror kenndur við Rock.....y

Ég hef verið að vinna um helgina í eldhúsinu á Skýlinu. Svo er því lokið í bili og næturvaktirnar taka við.  Strákarnir fóru í skóla/leikskóla á fimmtudaginn og það kom í hausinn á okkur strax, Baldri Hrafni sló rækilega niður og varð hundveikur. En er allur að hressast aftur. Hann fór með Birni bróður sínum, Björgúlfi og pabba þeirra í messu í morgun. Það var fjölskylduguðsþjónusta í Hólskirkju og ég stal þessari mynd af þeim litlu bræðrum af www.vikari.is

IMG_2278

Og til að ljúka nú deginum í helgihaldi fóru þeir Björgúlfur fermingardrengur og Halli á Rocky Horror á Ísafirði með bekknum hans Björgúlfs. Síðan átti að fara á veitingastað og fá sér eitthvað gott. Við erum bara skilin eftir með ruður og bein, ég og þeir litlu :) Þetta verður til þess að við leggjumst í súkkulaðirúsínuát og´disneymyndir fram eftir kvöldi!!!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband